laugardagur, apríl 17, 2004

Þröstur Helgason segir í pistli í Lesbókinni í dag að ritað mál verði úrelt í framtíðinni og að skáldsögur muni eingöngu verða saklaust listform og þjóna svipuðum tilgangi og vefstóllinn í dag sem eingöngu er notaður í listrænum tilgangi eftir að rafknúnar vélar leystu hann af hólmi. - Ekki nokkur spurning að töluvert er til í þessu hjá Þresti. Aldrei hefur hvarflað að mér að reyna að sigra heiminn með sögum mínum. Ég einfaldlega þrái þetta listform sem ég er að glíma við og vona að einhverjir lesendur verði eftir áður en yfir lýkur. En þó svo enginn verði eftir breytir það engu um skriftirnar. Skáldsagnaformið sjálft (og þar með talin smásagan) ólga af lífi og eru langt því frá að vera deyjandi í sjálfu sér sem frjótt form. En lesendur týna tölunni, það er ljóst.

föstudagur, apríl 16, 2004

Fyrir nokkrum vikum var ég staðráðinn í því að byrja á skáldsögu, dálítilli spennusögu öðrum þræði, um leið og ég hefði gengið frá smásagnasafninu. Hugmyndin er til staðar, tengist ákveðnum sögum og leitar á mig. En engu að síður: smásögur, smásögur, smásögur - ég virðist ólæknandi af markaðslegum sjúkdómi. Núna er ég með stóru erlendu safnbókina, nýju íslensku sögurnar (23. apríl) og svo var ég að fá hjá Bjarti þýðingu Óskars Árna Óskarssonar á síðustu bók Raymonds Carver, Sendiferðin eða Elehpant and other Stories. Þar að auki er hausinn á mér að fyllast aftur af smásagnahugmyndum. - Engu að síður er verkefnið á dagskrá bara það núna að klára þessa síðustu sögu í bókinni minni nýju, reyna að ganga frá útgáfu á næstu vikum og fara svo til Bandaríkjanna þann 5. maí. Framhaldið skýrist þegar ég kem heim aftur. - Ég er búinn að semja við Erlu og mömmu (hún þarf að passa krakkana á morgun, Erla á námskeið) og verð því hér fram á nótt og allan daginn á morgun við að glíma við nýjustu söguna sem ég ætla að lesa fyrir Benna og félaga í partíinu annað kvöld.

fimmtudagur, apríl 15, 2004

Fékk bréf frá góðum útgefanda í morgun með beiðni um að setja söguna mína "Hverfa út í heiminn" í þýðingu á frönsku og í birtingu í frönsku tímariti. Næsta tölublað tímaritsins, sem ég veit ekki hvað heitir, verður helgað Íslandi og í því nokkrar íslenskar smásögur. Ég verð víst að gangast við því að "Hverfa út í heiminn" er besta saga sem ég hef skrifað og ég get líklega aldrei skrifað betri sögu, bara öðruvísi og lengri sögur og kannski einhverjar jafngóðar. Líklega hefur sjaldan eða aldrei verið varið jafn miklum tíma í ritun svo stuttrar sögu þegar allt er tekið og mér myndi varla endast ævin í að skrifa heilt smásagnasafn sem hlutfallslega væri jafn mikil vinna að baki. Mér þykir hins vegar ljóst að þessi saga mun lifa, m.a. í skólakerfinu í á næstu árum. Vonandi mun hún hafa áhrif á íslenska smásagnagerð. Það gerist þó ekki að sjálfu sér og líklega á ég þetta allt Rúnari Helga að þakka, ef ekki væri fyrir tilverknað hans hefði þessi útgefandi aldrei lesið söguna.

Gengur vel með söguna. Búinn að þræla frá mér tveimur síðum í kvöld og ætla að komast eitthvað lengra á eftir. Jón Sigurðsson tónlistarkennari, vinur Benna Lafleur, býður okkur félögunum í mat á laugardagskvöldið og hvetur til upplestrar. Við lesum yfirleitt eitthvað upp þegar við hittumst. Af því tilefni ætla ég að freista þess að klára gott uppkast að nýju sögunni fyrir laugardagskvöldið. Guðmundur Björgvinsson les væntanlega úr skáldsögu í smíðum og Benni á alltaf nóg af efni. Í þetta sinn ætla ég að vera kurteis og tæta ekki í mig textann hans. Á þriðjudagskvöld gangast síðan Benni og Gunni Randvers fyrir smásagnaupplestri á Jóni forseta og bjóða höfundum að 23. apríl. Líklega lesa 9 af 11 höfundum upp og því verður þetta langt kvöld.

miðvikudagur, apríl 14, 2004

Gjafabók Viku bókarinnar er komin, þ.e. úr prentun, henni verður varla dreift strax. Bókin heitir 23. apríl. Ellefu sögur eftir jafnmarga höfunda, allar með vísan til þessarar dagsetningar, og hver höfundur með sitt ártal. Ég fékk árið 1954 og sagan heitir Afmælisgjöfin, hún er á blaðsíðu 84. Falleg grá kápu frá Hvíta húsinu.

Fór upp á Hlemmtorg í hádeginu til að láta taka af mér passamyndir fyrir nýja vegabréfið vegna Bandaríkjaferðarinnar. Ég hef ekki komið upp á Hlemm í nokkurn tíma en var þarna daglega áður fyrr, t.d. þegar ég vann hjá FF-samsteypunni sálugu uppi í holtum. Þó að ekki sé ýkja margmennt á þessu svæði finnst samt hvergi skemmtilegra og fjölbreyttara mannlíf. Á Kaffisetrinu er haugur af Tailendingum og Íslendingum sem eru drykkfelldir án þess að vera rónar. Á Kaffi Róma á Rauðarárstíg voru tvær sætar stelpur um þrítugt, sem ég held að vinni hjá Hvíta húsinu og tvær gamlar konur sem mæltu á ensku og snæddu tertur. Sólin braust fram úr skýjunum og skein á gömlu virðulegu konurnar og í stutta stund var ég staddur í gamalli enskri sjónvarpsmynd eða smásögu (byrjar hann að tala um smásögur!). Kona með göngugrind gekk framhjá glugganum og slatti af einhvers konar aumingjum, rónum, betlandi þroskaheftum ... Þegar ég steig út mætti ég manni með kött í fanginu. Ekki stórfengleg sjón, maður með kött í fanginum á Rauðarárstíg, en myndi maður sjá slíkt í Smáralind?

Næsta vika ætti að gera orðið ánægjuleg. Þá kemur út gjafabók í Viku bókarinnar með smásögum eftir 11 höfunda, þar á meðal mig. Benni Lafleur er að skipuleggja upplestur vegna þessa á Jóni forseta, það verður væntanlega næsta þriðjudagskvöld.

Heyri hringlið í hálsól kattarins hér fyrir utan, eins og vanalega undir miðnættið. Eina afrekið í kvöld er að þurrka út eitt paragraf úr sögunni. Næ dálitlum spretti á eftir. Kalla svo köttinn inn áður en ég fer að sofa og heyri hringlið í honum þegar hann hleypur upp að húsinu og upp tröppurnar. Svo nuddar hann sér utan í mig blautur. Hann malar svo hátt að það verður að loka hann inni á baðherbergi á nóttunni, annars gæti enginn sofið fyrir malinu.

þriðjudagur, apríl 13, 2004

Ég tók milljónasta smásagnasafnið að láni í dag á Borgarbókasafninu í hálfgerðu tímahraki í hádeginu. Alþjóðlegt safnrit sagna eftir höfunda fædda milli 1930 og 1970. Hugsaði með mér: Smásögur, smásögur, þú grefur þér gröf, geturðu virkilega ekki fengið áhuga á að skrifa neitt annað? - Allt um það rakst ég á sögu eftir Raymond Carver sem ég hef lesið aðeins einu sinni áður og á ekki til á bók. Are These Actual Miles heitir sagan. Hún var akkúrat það sem mig vantaði þegar ég sjálfur er að skrifa sögu og er með þráðinn og hugmyndina á hreinu en er að berjast við að eyðileggja ekki söguna með blaðri og því að gleyma litlu atriðunum sem eru lýsandi.

Góður sundsprettur í Neslauginni í kvöld með allri fjölskyldunni. 850 metrar í kapp við unga, dálítið þétta en fitt stelpu á næstu braut. Hún synti aðeins hraðar en var af og til að stoppa og hrista úr gleraugunum sínum, þannig hélt ég í við hana og reyndi meira á mig en ég ætlaði.

Núna sit ég við tölvuna með Carver-söguna í höndunum og þessar tvær síður sem ég er búinn með af eigin sögu. Erla inni í svefnherbergi með krökkunum. Þarf að taka úr einni vél í kvöld, það er allt og sumt. Svaf til hálftíu í morgun. Ég ætti að geta náð einhverjum árangri fyrir morgundaginn.

Þó að ég sé ekki í ýkja góðu formi og alltaf langt yfir kjörþyngd þá hef ég samt þörf fyrir hreyfingu. Og af því ég fór ekki í sund í morgun (syndi yfirleitt 700-1000 metra) og hef því ekki synt í fjóra daga, þá er ég viðþolslaus af áreynsluþörf og get ekki einbeitt mér að neinu. Það er ekkert að gera í vinnunni og því ætti ég að geta einbeitt mér að smásögunni sem ég byrjaði á um páskana, en líkaminn æpir bara á sund. Tek Freyju líklega með mér, öðru hvoru megin við kvöldmat. Verst að það verður allt of mikið af liði í sundi núna, gott veður og svo eru alltaf hel... sundæfingar á kvöldin.

Gott verður að komast til Bandaríkjanna í næsta mánuði og brjóta upp vanann. Finn hvað ég er rótgróinn í rútínunni núna, vinna, sund, saga í smíðum, sund, vinna, saga, e.t.c. - Hljómar ekki eins og rétta lífið fyrir listamann. Ég kem annars til með að skrifa nokkuð mikið hérna á næstunni því í Bandaríkjaferðinni fellur þetta niður og hún tekur næstum því fjórar vikur.

Dröslaðist upp úr tíu í vinnuna í morgun. Er með nokkuð frjálsa mætingu, þ.e. á bilinu 9-11, en þarf alltaf að vera lengur en til 5. Þetta gerir mér kleift að skrifa því ég skrifa best á nóttunni og er alltaf útsofinn svo ég er ekki orðinn syfjaður fyrr en um tvöleytið. Skrifaði smá fyrir ÁTVR og DAS í morgun. Hef áhyggjur af prentvillum sem ég er búinn að finna í nýjum bæklingi og er að láta þær naga mig. Maður verður alltaf að hafa áhyggjur af einhverju. Einhver verður þjáningin að vera í lífinu. - Þegar ég stóð fyrir þessu rifrildi um Betu Rokk í hitteðfyrra, um hvort virðulegt forlag hefði átt að gefa út bókina hennar og kynna sem merkilegan literatúr, þá var feit og þunglynd stelpa í Eymundsson sem bloggaði um mig eitthvað á þessa leið: Og loksins þegar hann er búinn að finna einhvern sveittan útgefanda til að gefa út handritin sín þá seljast þau ekki neitt. - Eins og margir vita er nýjasta bókmenntafræðin byggð á sölulistum, þeir hafa komið í stað fyrir greiningarhugtökin í nýrýninni á 9. áratugnum. Sveittur útgefand lesist: Útgefandi sem er ekki Edda, Bjartur eða JPV. - Nú vill svo til að ég er kominn í samband við einn svona sveittan útgefanda, í gegnum mömmu. Hún er að fara að vinna verkefni með þeim sem snertir sögu gamalla húsa, hún er svona álíka mikill sérfræðingur í þeim og ég er sérfræðingum í smásögum, og hún fór með handrit frá mér ásamt bréfi til þeirra; var þessu vel tekið. Auðvitað veit ég ekki hvað kemur út úr þessu en það er alltaf betra þegar tengslin eru orðin persónuleg og víst er að þeim er mikið í mun að mamma spili með þeim í hinu málinu.

Fyrst ég er byrjaður á þessu verð ég að minnast á fermingarveisluna. Edda Rún, bróðurdóttur Erlu, konunnar minnar, var fermd á annan í páskum. Boðið var upp á létt skemmtiatriði í veislunni, hugmynd Ásu, móður Eddu; nokkuð sem ég veit ekki til að tíðkist í fermingarveislum, en er auðvitað alveg sjálfsagt. Við Freyja stigum saman á stokk, hún spilaði nokkur lög á klarínettið, ég hélt stutta ræðu og flutti þrjár gamanvísur sem ég hafði hnoðað saman um fermingarbarnið. Þetta virkaði ágætlega.

Ég kann ekki einu sinni að breyta letrinu. Og nú er ég í vandræðum með íslensku stafina. Lokka Eyjólf til að kíkja á þetta með mér.

mánudagur, apríl 12, 2004

Páskarnir hafa venju fremur vakið upp minningar. Allir hátíðisdagar vekja raunar andblæ fortíðarinnar, því valda árvissir fjölskyldufundir. En fleira en fermingarveislur og matarboð hafa vakið upp fortíðina um þessa páskahelgi: í vasabókarkroti tók sig skyndilega upp gömul söguhugmynd. Ég er með öðrum orðum farinn, algjörlega óvart, að glíma aftur við sögu sem ég gafst upp á fyrir mörgum árum, byrjaði fyrst að skrifa sem langa smásögu sumarið 1994, sem skáldsögu eða nóvellu árið 1995, fleygði henni í ruslið eftir nokkrar adrennur árið 1998, sneið úr henni tvær sögur, nánast óskyldar meginhugmyndinni, og birti í Hringstiganum (Ágúst Borgþór Sverrisson: Hringstiginn; Ormstunga 1999). - Núna er hugmyndin komin til mín aftur og ég stefni á að klára söguna fyrir mánaðamótin, bæta henni við handritið sem ég er ljúka við, hanrit sem getur hvort sem er verið án hennar eða með hana innanborðs ef því er að skipta. - Minningarnar þyrlast upp við þetta, af og til finnst mér ég aftur vera orðinn þrítugur eða rúmlega það, nokkurn veginn grannvaxinn, dálítið fríðari en í dag, Freyja mín orðin pínulítil og Kjartan ófæddur. Vinn í Miðlun eða uppi á Stöð 2 á kynningardeildinni, nýbúinn að gefa út smásagnasafn hjá Skjaldborg sem fékk fína dóma en seldist aðeins í 150 eintökum; engu að síður ungur og efnilegur rithöfundur, sem síðar reyndist enn sem komið er, vera markaðslega misheppnaður og þar með flopp, rétt eins og fer fyrir flestum ungum höfundum sem lofa góðu með fyrstu bókinni; en ég lukkaðist hins vegar listrænt séð; það vita ég og mínir örfáu lesendur. Og svo heldur maður áfram ...