laugardagur, apríl 24, 2004

"I have MORE to say than Hemingway, and God knows, I say it better than Faulkner." Carson Mcullers. -
Þessa tilvitnun er að finna á Rithringnum. Svona tala rithöfundar ekki lengur, a.m.k. ekki á Íslandi. Ef einhver er að lesa þetta, þ.e. einhver sem þekkir verk mín: Hvaða höfunda myndi ég setja inn í staðinn fyrir Hemingway og Faulkner í þessu dæmi?

Ég er ekki sammála þeim sem hafa verið að agnúast út í karlahóp Feministafélagsins vegna umræðuátaks þeirra gegn nauðgunum. Ef ekki má beina slíkum áróðri að körlum án þess að verið sé að stimpla alla karla nauðgara, þá er þar með verið að segja að karlar geti ekki tekið þátt í þessari umræðu. En hvers vegna í ósköpunum eiga konur að sinna allri umræðu um þessi mál? Það er svo sannarlega kominn tími til að karlar berjist gegn nauðgunum.

Oft hef ég verið skeptískur á ýmislegt í málflutningi feminista síðustu misserin en ég kann vel að meta þegar tekin eru upp raunveruleg þjóðþrifamál sem brenna á skinninu.

föstudagur, apríl 23, 2004

Sjónvarpsauglýsingarvinnan kom upp í morgun. Ég var togaður inn á fund og þarf að skila nokkrum hugmyndum á mánudaginn. Mér leist ekki á blikuna fyrst en eftir hálfkæringslegt samtal við reyndan vinnufélaga var ég kominn með grunnhugmynd frá honum og er búinn að útfæra hana í fimm atriðum. Nefndi grunnhugmyndina við Börk "krefjanda" (Creative Director), honum leist strax vel á hana og sagði mér að sýna sér eitthvað á mánudag. Það sem af er hefur þessi vinna verið algjörlega fyrirhafnarlaus. Er hugsanlegt að hún verði svo til enda? - Auglýsingastofuvinna getur nefnilega ýmist verið algjört þrælapuð eða laufléttur leikur.

Fékk leyfi til að skreppa á Bókaþing í Iðnó og hlustaði þar á eitursnjallt erindi Rúnars Helga um þýðingar.

fimmtudagur, apríl 22, 2004

Eiríkur Guðmundsson er ansi hreint góður stíllisti. Sem betur fer er hann orðinn 35 ára, ég hélt hann væri yngri og mér finnst alltaf óþægilegt ef mjög ungir höfundar eiga í fullu tré við mig á ritvellinum.

Hef tíma til 5-6 í dag, sumardaginn fyrsta, til að glíma við viðbótasöguna/síðustu söguna í handritinu mínu. Þann 30. apríl þarf þetta að vera klárt í bili, því ég sendi þetta í Laxness - og Tómasarsamkeppni, neyðist til þess þar sem ég á ekki útgefanda vísan. Fæ svar frá Bjarti um þegar ég verð úti í Bandaríkjunum. Þeir eru víst ansi hrifnir af Hverfa út í heiminn, sem er úr síðustu bók og kemur út í safnriti hjá þeim. En það er engin ávísun á útgáfu á þessu handriti. Vona samt að þeir geti gert eitthvað meira fyrir mig í framtíðinni.

Ég verð að nota þessa síðustu daga virkilega vel því eftir mánaðamótin er ritstörfum lokið í bili.

Hef verið hálfþunnur í dag eftir upplesturinn í gærkvöld, þó varð ég aldrei fullur, rétt fann á mér. Og þar að auki skrifaði ég í tvo klukkutíma eftir að heim kom og náði að leggja síðustu hönd á lagfæringar á sögu í handritinu, þá slökustu, sem nú er orðin boðleg. Upplesturinn var skemmtilegur.

Hef verið að glugga í bókina hans Eiríks Guðmundssonar og líkar vel. Hann er skáld. Einu gildir hvort menn skrifa skáldsögur, smásögur, ljóð, ádeilupistla, ævisögur - það er tónninn og sýnin sem skapar listina. Eiríkur er stíllisti, hefur hið hárnæma auga skáldsins fyrir smáatriðum og athuganir hans eru djúpar.

Hitti hann í Vesturbæjarlauginni þar sem ég var að lesa bókina hans (þ.e. við hittumst í afgreiðslunni). Við höfum ekki talast við áður en það var óhjákvæmilegt fyrst hann kom að mér með bókina hans í höndunum.

Fékk að vita í dag að Bjartur myndi lesa og gefa út álit á handritinu mínu á næstu vikum.

miðvikudagur, apríl 21, 2004

Sigurjón blaðamaður, bróðir Gunnars Smára blaðakóngs, skrifar baksíðupistilinn í Fréttablaðinu dag. Þetta er saga þar sem höfundur hneykslast á manni nokkrum fyrir að vera að skoða naktar konur í tölvunni sinni. Annaðhvort er Sigurjón afar siðvandur eða mikill hræsnari. Ég hélt að það væri búið að kveða niður fordóma gagnvart eðlilegum hvötum og athöfnun, t.d. sjálfsfróun, lostafullum hugsunum og léttu klámi. Hinu er ekki að neita að umræða um kynferðisofbeldi, barnaklám, mansal og viðlíka ófögnuð hleypir alltaf lífi í siðapostula sem láta afturhald sitt berast með þeirri bylgjunni. En hvað veit ég. Kannski hefur Sigurjón aldrei runkað sér?

þriðjudagur, apríl 20, 2004

Keypti 39 þrep eftir Eirík Guðmundsson í hádeginu í dag og las upphafskaflana. Dægurmál eða hitamál samtímans hafa aldrei farið saman með því skáldlega í huga mér. Hér virðist þetta fara saman. Og þó veit ég ekki ennþá. Kannski frekar blanda af heimspekilegri og ansi skarpri hugsun og yfirliti yfir helstu tíðindi síðustu missera.

Var tjáð í morgun að ég eigi að skrifa sjónvarpsauglýsingu á næstunni. Ég hef heldur reynt að sneiða hjá upphefð á stofunni, starfið er þægilegt eins og er og mér tekst að skrifa með því. Vona að þetta verkefni vindi ekki upp á sig. Auglýsingabransinn virðist fullur af möguleikum fyrir mig en ég vil bara vera í þægilegu starfi, prófarkalesa, skrifa brauðtexta og svo skrifa smásögur. Bókmenntaheimurinn vill hins vegar lítið af mér vita. Samt held ég að ég sé miklu flinkari rithöfundur en auglýsingamaður.

Upplestur á Jóni forseta í kvöld kl. 20

mánudagur, apríl 19, 2004

Gula húsið er ein besta bók Gyrðis. Hún er frábær. - Hvers vegna segi ég þetta núna? Ég las hana fyrir fjórum árum og núna rétt áðan voru sögur úr henni að leita á mig. Sérstaklega þessi um berklaveika strákinn. Smásagnasöfn Gyrðis hafa mörg hver verið hvert öðru líkt og dálítið farið eftir hugarástandi lesandans og hvað hann hefur lesið margar bækur eftir Gyrði, hvernig honum líkar þær. Gula húsið er á yfirborðinu keimlík öðrum bókum hans en líklega er hún betri en þær flestar. Ef einhver les þetta blogg, lesið líka Gula húsið, ef þið eruð ekki búin að því.

Vika bókarinnar hefst á morgun og þá tek ég þátt í upplestri á Jóni forseta. Ég treysti mér ekki til að lesa söguna mína úr bókinni 23. apríl því hún er allt of löng og virkar illa ef ég les hluta úr henni. Ég ætla að lesa styttri sögu sem heitir Mjólk til spillis.