fimmtudagur, desember 30, 2004

Dálítið horn er byrjað að vaxa út úr enninu á mér. Þar sem mitt áður dásamlega útlit er hvort sem er farið í hundana hef ég litlar áhyggjur af þessu haft. Áhyggjur af öðrum toga vegna þessa hafa hins vegar sótt á Erlu og eftir að mamma hafði útlistað fyrir henni mögulegar skýringar á þessu lýti var þess krafist að ég færi til læknis strax í dag. Ég sagðist aldrei hafa heyrt talað um krabbamein í enni en ekki var hlustað á slík rök ef rök er hægt að kalla. Læknirinn úrskurðaði hins vegar á augabragði að hér væri um stíflaðan fitukirtil að ræða og þar sem hann væri framan í mér en ekki annars staðar treysti hann sér ekki til að framkvæma hina einföldu aðgerð og vísaði mér á lýtalækni. Hann opnar fyrir, fjarlægir hnúðinn og sendir sýni til ræktunar og endanlegrar staðfestingar á orsökinni.

Jafnlöng sambands- og hjónabandssögu okkar Erlu er saga af misheppnuðum lygahrekkjum okkar. Allt frá því ég fékk bróður minn til að hringja í hana árið 1989, breyta í sér röddinni og þykjast vera ofsareiður raftækjasölumaður að nafni Viggó Jósafatsson sem sakaði hana um útgáfu innistæðulausra ávísana, höfum við Erla aldrei getað platað hvort annað í síma. Ég átti því ekki von á að Erla tryði neinu þegar ég sagði henni að lækninum hefði ekkert litist á blikuna og vísað mér í krabbameinsrannsókn, bjóst ég við að hún tæki því sem dæmigerðum og ekkert allt of góðum gálgahúmor. Sem hún virtist gera í fyrstu en sagði þó reiðilega: "Þú ert að fíflast." - Ég sagði "nei", að mér fannst fremur ósannfærandi en samt með þeim árangri að skelfingin gagntók hana eitt andartak. Síðan brast á með hlátri en sá hlátur var ekki í víðóma heldur uppskar ég áskell og þurfti að hringja aftur og biðjast afsökunar. Fljótlega fór þó allt í ljúfa löð.

miðvikudagur, desember 29, 2004

Var í upptöku fyrir nýársþátt Silfurs Egils áðan; strolla af fólki sem svarar nokkrum áramótaspurningum í stuttu máli: Best á árinu, verst á árinu, stjarna ársins, skussi ársins, hvað gerist á næsta ári ...

Egill hefur grennst. Ef hann heldur svona áfram verða megrunarblaðamennirnir komnir á eftir honum fljótlega.

Ég sá að Kolla Bergþórs var að hnýta í Nóa Albínóa í Fréttablaðinu í gær en myndin var sýnd í sjónvarpinu um jólin. Ummæli Kollu þykja mér alveg fráleit og hún á bara að vera betur sofin þegar hún sest fyrir framan sjónvarpið. Ég var að sjá myndina í annað sinn og hún varð enn betri en í það fyrra. Hins vegar er gaman að lesa beinskeytta pistla Kollu þegar maður er sammála henni.

En þetta leiðir hugann að öðrum kvikmyndagerðarmanni, Berki Gunnarssyni, sem gerði mjög góða tékkneska mynd, Svart kaffi. Í gær var frétt í DV um að Börkur hefði hlotið 50 þús. króna styrk frá Garðabæ. Absúrd tilhugsun: 50 þús. kr. styrkur til kvikmyndagerðarmanns. Eflaust fúlsar hann ekki við því en hvað skyldi hann gera við peninginn? Einn flugmiði plús einn bolli af svörtu kaffi?

þriðjudagur, desember 28, 2004

Ferðin til Mannheima er bókuð. Nú þarf að fara að rifja upp eitthvað af þýskukunnáttunni sem er ansi ryðguð. Hvernig er best að heilsa heimamönnum? Guten Tag lieber Mannheimer, es begrüsst Ihnen der Blogmeister und Kurzerzähler Sverrisson aus Island. Verst að eiga ekki hatt til að taka ofan við slík tækifæri. Hattur myndi skemma hárgreiðsluna.

Stefán Pálsson er flínkur penni og í dag birtist eftir hann skemmtilegur pistill á íþróttasíðum DV um Þjóðverjann Bernd Schuster. Stefán virðist vera einn fárra sem kunna að meta þýska knattspyrnu, a.m.k. þegar hún hefur risið í hæstu hæðir, og í greininni heldur hann því fram að Þjóðverjar hefðu orðið heimsmeistarar á Spáni 1982 ef Schuster hefði leikið með þeim þá. Þetta er athyglisverð skoðun. Í þessari keppni komu ýmis klassísk karaktereinkenni þýska liðsins í ljós og eins og svo oft komust Þjóðverjar í úrslitaleikinn án þess að virðast nokkurn tíma ná sér almennilega á strik. Járnvilji þeirri birtist kristaltær í ógleymanlegri viðureign gegn Frökkum í undanúrslitum. Eftir venjulegan leiktíma var staðan 1-1. Frakkar komust í 3-1 í fyrri hálfleik framlengingarinnar en Þjóðverjar jöfnuðu í síðari hlutanum og unnu síðan vítaspyrnukeppnina. Í úrslitaleiknum steinlágu þeir síðan fyrir Ítölum. Það minnir mig á það, man ennþá nokkur eftir stjörnu keppninnar, Ítalanum Paulo Rossi? - Á þessum tíma voru skarpari skil en núna á milli evrópskrar og Suður-amerískrar knattspyrnu. Brasilíumenn og Argentínumenn virtust vera með bestu liðin og voru eftirlæti allra. En evrópskur varnarleikur, skipulag og þrautseigja urðu ofan á í keppninni. Bæði Þjóðverjar og Ítalir höfðu druslast áfram með naumindum upp úr forriðli á meðan Brassar og Argentínumenn héldu stórsýningar.

Var ekki búinn að sjá Moggann. Dómurinn þar er engu betri. Svo það sé á hreinu, þá er ég ekki að hlakka yfir þessu, hef ekkert vit á leikhúsi. En þetta eru fréttnæmar aftökur á stórri sýningu.

Er fólk búið að lesa leikdóminn um Öxina og jörðina í DV í dag? Það er nú aldeilis bomban og hlýtur að vekja umræður. Þá er að finna í dómnum ansi eitraða pillu á Þröst Helgason sem fylgir verkinu úr hlaði í leikskrá, en eitthvað skortir víst á gagnkvæma aðdáun þessara tveggja manna.

Hlustaði á skemmtilegt spjall við Ármann Reynisson á Rás 1 í morgun á leiðinni í vinnuna. Þar kom m.a. fram að hann á tvo stóla úr búi barónsins á Hvítárvöllum og hefur þá, að mig minnir, í stofunni sinni.

mánudagur, desember 27, 2004

Ég kláraði síðast stutta skáldsögu snemma árs 1998. Ég samdi þá sögu eiginlega tvisvar á tveggja ára tímabili. Mér þótti hún ekki nógu góð og lagði henni og þá tóku smásögurnar að spretta fram. Úr þessu misheppnaða skáldsöguhandriti urðu til sögurnar Viðvaningar og Afraksturinn sem birtust báðar í bókinni Hringstiginn sem kom út árið 1999 og meginsöguhugmynd skáldsögunnar er síðan í sögunni Sektarskipti úr síðustu bók. Allar hafa þessar þrjár sögur þótti ansi vel heppnaðar, tvær þeirra birst nokkuð víða, þar af ein í þýsku safnriti. Líkt og þarna um árið þá nenni ég ekki núna að juða enn og aftur í smásögu eftir smásögu á næstu misserum heldur brýt upp vinnuferlið með því að skrifa stutta skáldsögu eins og ég greini frá hér að neðan. Annaðhvort heppnast skáldsagan og verður gefin út eða hún getur af sér nokkrar góðar smásögur þegar upp er staðið. Ég ætla hins vegar að taka styttri tíma í verkið en síðast og vinna betur og markvissar.

1. kafli xxxxxxx 2. kafli xxxxxx Og svo framvegis. Mig langar til að skrifa frekar einfalda sögu sem gerist á stuttum tíma og verður nákvæmlega jafnlöng og síðasta bókin mín í heildina. Það væri gaman ef blaðsíðutal handritsins yrði nákvæmlega það sama. Þegar þessu er lokið held ég áfram að skrifa smásögur. Mig langar til að halda dampi frá a-ö og endurskrifa ekkert fyrr en ég er kominn að endanum, bara þurrka út vonda paragraffa jafnóðum á leiðinni, skrifa mig þannig í gegnum þetta með útþurrkunum og endurbættum setningum jafnóðum.

Hins vegar hef ég ekki hugmynd um hvað ég birti eða gef út næst þó að alltaf stefni maður að því að sérhvert verk heppnist.

Er staddur í fyrsta kafla núna. Ég mun ekkert gefa upp um efni sögunnar, það myndi eyðileggja allt. En ég get talað um þetta svona, þ.e. um ytra byrðið ef svo mætti segja.

Allt stefnir í að ég verði í Mannheim dagana 16. til 23. janúar. Markmiðið er að ná annaðhvort einni smásögu eða kafla í skáldsögu á þessum tíma. Ég útskýrði það að einhverju leyti í útgáfuteitinu mínu hvers vegna það hentar mér að dveljast í vikutíma í frekar lítið spennandi þýskum borgum í því skyni að losa um ritstíflur. Ég er of dasaður eftir jólamáltíðirnar til að geta útskýrt það hér og nú. Hins vegar hlakka ég mikið til ferðarinnar og ætla að freista þess að vera kominn dálítið áleiðis með texta áður en ég legg í hann.

Gleðileg jól aftur, kæru lesendur. Við hæfi væri að fá einhverja umræðu um tónlist og bækur sem fólk var að lesa um jólin. Mig sundlar nánast af öllum þeim bókum sem ég er að lesa í einu þessa dagana.

1. Ekki enn búinn með Baróninn eftir Þórarinn Eldjárn.
2. Fékk allt ritsafnið Seið lands og sagna frá Skruddu rétt fyrir jólin. Aðeins byrjaður að glugga í þetta en annars verður þetta að bíða betri tíma.
3. Fékk líka Guantánamo. Er hálfnaður með þá bók. Hvernig væri nú annars að Þjóðahreyfingin einbeitti sér að því að berjast gegn þessum fangabúðum í stað þess að safna fé til að auglýsa að viðkomandi einstaklingar hafi ekki stutt Íraksstríðið. Það er ekki hægt að taka Íraksstríðið aftur. Ég studdi það með hálfum huga á sínum tíma en ég hafði rangt fyrir mér. Og veit það þó ekki. Saddam. Rangar forsendur stríðs. Allt þetta sem svo gagnslaust er að þrátta um núna. Það er ekki hægt að breyta þessu. En Guanánamobúðirnar eru óhæfa sem hægt er að leggja niður eða a.m.k. láta lausa þorra fanganna sem eru nánast saklausir. En Þjóðarhreyfingin virðist vera fyrirbæri sem umfram allt stundar ópródúktíva baráttu.
4. Er að lesa gamla skáldsögu eftir vin minn Guðmund Björgvinsson, Næturflug í sjöunda himni. Ég hef ekki verið ýkja hrifinn af ritverkum Guðmundar og því fannst mér sjálfsagt að þræða mig í gegnum þessa bók þegar mér óvænt leist svona vel á hana.
5. Lesarinn eftir Bernard Schlink. Mjög grípandi og spennandi. Betri en smásögurnar í Ástarflótti sem ég var þó líka ánægður með.
6. Bók um Parkinsonsveiki. Tengist einhverju sem ég er hugsanlega að fara að skrifa.
7. Smásögur prentaðar af netinu úr nýjustu bók Alice Munro, Runaway.

Ég hef aldrei áður lent í svona ógöngum með lestrarefni. Ég verð að klára eitthvað af þessu fljótlega svo þetta verði einfaldara. Að auki er Kristín Ómarsdóttir enn í plastinu en það er eina bókin sem ég fékk í jólagjöf, sú eina sem ég var ekki byrjaður á fyrir jólin.

Ég fékk nýjustu Nick Cave plötuna í jólagjöf, einnig viðhafnar akústic-útgáfu Ný-danskrar. En er enn að hlusta á Who-plötuna sem ég keypti rétt fyrir jólin, Odds and Sods.

Besta gjöfin var flugmiði frá Erlu. Hann gildir báðar leiðir og því er hún ekki að reyna að losna við mig, nema í stutta stund. Stefni á viku til tíu daga í Þýskalandi innan nokkurna vikna.