föstudagur, janúar 28, 2005

Slúður, slúður, bókmenntaslúður. Það tók sig óvænt upp ljósgrár fiðringur í hádeginu eitt augnablik. Ég fylgdi ungri stúlku eftir með augunum svo lítið bar á, að ég hélt. Ég kannaðist við andlitið úr sjónvarpsauglýsingu. Mitt í þessu heilsar fylgdarmaður hennar mér stundarhátt, en ég hafði ekki veitt honum athygli. Reyndist þetta vera meðalþekktur og allvirtur rithöfundur. Upp úr kafinu kom að frá honum er að vænta nýrrar skáldsögu í vor. Hann kynnti mig fyrir stúlkunni, sem heitir Laufey, hún heilsaði kurteislega með handabandi. En hver skyldi höfundurinn vera?

Ég kom við á Borgarbókasafninu í og með til að tékka á Auði Jónsdóttur. Þeir mættu skella þeirri bók í kilju á næstunni, mig langar að lesa hana sem fyrst. En hvað haldiði? Rek ég ekki augun í splunkunýja Hugsjónadruslu á skammtímaláni. Ég var ekki seinn á mér að leigja eintak. Hún fær ekki amalega samkeppni því ég er að lesa smásagnasöfn eftir Judith Herman og Saul Bellow og skáldsögu eftir Russell Banks.

Fréttamaður af lífi og sál segir starfi sínu lausu vegna mistaka. Ansi harkalegt.

Ég hlífi lesendum þessarar síðu við væmni en þar með vantar nokkuð af persónuleika mínum og ástandi í skrifin. Raymond Carver sagði, að ég held á dánarbeði sínu, að hann hefði verið hamingjusamur vegna þess að hann var elskaður. "To be loved on this earth ..." Ég á konu og tvö börn. Þegar ég dvelst einn erlendis í nokkra daga eða vinn bara frameftir eitt kvöld skynja ég að ég væri glataður maður án þeirra. Ég get ekki skrifað um slíka hamingju í smásögum því þar með yrðu sögurnar bitlausar. Í skáldskap er togstreita, umfram allt togstreita, conflict, eins og góður maður (rithöfundur) sagði við mig um daginn. Það telst til nýjasta slúðursins í bókmenntaheiminum enda verður nafn mannsins ekki gefið upp.

fimmtudagur, janúar 27, 2005

Eitthvað fékk ég að heyra af því beint og óbeint að það væri úrelt að skrifa smásögur í anda bandarískra raunsæishöfunda frá 9. áratugnum en Þjófalyklarnir hans Hermanns Stefánssonar væri mál málanna. Enn fremur þykja beat-skáldin vera in. En voru þau ekki uppi um 1950? Og hvenær fóru menn fyrst að velta fyrir sér mörkum skáldskapar og veruleika í skáldskapnum sjálfum, skrifa sögur sem vissu að þær væru sögur, osfrv.? Ég held að það sé ansi langt síðan.

Málið er það að ekkert er úrelt í skáldskap, var aldrei og verður aldrei. Það eina sem skiptir máli er að skrifa góðan texta og hafa eitthvað að segja.

Ég er að fara í partý með vonlaustustu en örugglega einni af skemmtilegustu listamannaklíkum landsins. Að því tilefni er við hæfi að gera dálitla skoðanakönnun. Hvor er frægari, ég eða Benedikt Lafleur?

Ég hef verið að bræða með mér megrunaraðferð sem ég þarf að bera undir konuna. Hún er sú að ég flytji einn til Ísafjarðar um tíma. Þar á ég enga vini og þekki fáa. Ég mun ekki fá vinnu við hæfi þar og verð svo skítblankur að ég á hvorki fyrir mat né Café Creme vindlum. Þegar ég er kominn undir 100 kíló flyt ég aftur suður í Vesturbæinn og í fang fjölskyldunnar. Og heiti því að reyna aldrei aftur að búa á Ísafirði.

Vá, til hamingju, Auður.

Hvenær ætla Bakþankahöfundar Fréttablaðsins að hætta að væla út af Kárahnjúkavirkjun? Geta þeir ekki fundið eitthvað annað til að væla út af? Athyglisvert er að sá bakþankahöfundur sem skilar langflestum pistlum er sá eini sem mér finnst halda dampi í frumleika og fyndni.

Annað en skylt: Er eitthvað að því að erlent fyrirtæki borgi erlendum verkamönnum lægri laun en tíðkast á Íslandi þó að verkið sé unnið hér? Verkamennirnir eru ánægðir með launin og senda þau heim í hagkerfi þar sem hlutirnir kosta miklu minna en hér. Þannig væri kaupmáttur fjölskyldna þeirra miklu hærri en hér ef þeir fengju íslensk meðallaun til að brúka á suðrænu verðlagi.

Ég er á höttunum eftir mjög löngum smásögum og stuttum skáldsögum. Las Skuggabaldur eftir Sjón rétt áður en ég fór til Þýskalands og var mjög ánægður með hana. Mjög frumleg bygging á sögu, stórsnjöll. Í dag tók ég smásagnasafnið Him with his Foot in His Mouth eftir Saul Bellow. Þar er lengsta sagan yfir 100 síður. Einnig tók ég lengri skáldsögu eftir Russell Banks, Affliction. Kvikmynd eftir henni var gerð árið 1998 og þar fékk James Coburn Óskarinn fyrir aukahlutverk en aðalhlutverk var í höndum Nick Nolte. Mjög góð mynd sem aðeins kom á nokkrar myndbandaleigur hér en var ekki sýnd í bíó. Líklega ekki nógu mikið af tæknibrellum í henni. Mig minnir að leikstjórinn hafi verið Paul Schrader.

miðvikudagur, janúar 26, 2005

Slúður úr bókmenntaheiminum. Rúnar Helgi er mun betur tengdur inn í elítuna en ég. Ég hef m.a. fengið að vita að þekkt kona í menningarlífinu sé mjög hrifin af bókinni minni. Hann vill ekki segja mér hver það er. Ennfremur er ónafngreindur lesandi, einnig þekktur, sem segir að ég sé fastur í fortíðinni.

Enn heitara slúður: Einn þekktasti höfundur þjóðarinnar er mjög hrifinn af bók Eiríks Arnar Norðdahl. Má ekki segja hver það er.

Ég borðaði með Rúnari Helga í Iðu í hádeginu. Ég var með einhver ónot út í staðinn fyrir áramót en get tekið það aftur núna. Maturinn er afar góður og tónlistin núna mátulega hátt stillt og við hæfi. Auk þess svíkur útsýnið engan. Við ræddum bókmenntalífið eins og gengur.
Hann lét þess getið að honum þætti nóvellan vera e.t.v. það form sem gæti hentað mér best. Þéttleiki smásögunnar í stíl en persónusköpun í anda skáldsögunnar.

þriðjudagur, janúar 25, 2005

Síðgelgjueignarfallið "dauðans" fer í taugarnar á mér eins og allt sem er margtuggið en á að hljóma frumlega. Ég velti því samt fyrir mér hvað maður myndi t.d. kalla óvenjulega afkastamikinn útfararstjóra. Útfararstjóri dauðans. Eða þann sem skrifar margar minningargreinar. Minningargreinaritari dauðans. Eða mjög stórt líkhús. Líkhús dauðans. Eða þannig.

Ég mæli með greininni Fliss í stað Tvíhöfða á bls. 11 í DV í dag. Allt sem stendur í greininni er sorglega satt. Er ekki hægt að gera eitthvað í málinu?

mánudagur, janúar 24, 2005

Þegar ég var krakki tilheyrði verkalýðshreyfingin Alþýðubandalaginu en vinnuveitendur representeruðu Sjálfstæðisflokkinn. Þegar hægri stjórnir voru við völd fór verkalýðshreyfingin í stjórnarandstöðu og æsti til verkfalla. Þessi tími er auðvitað löngu liðinn. En þegar ég kom heim frá Mannheim um daginn var ekki eins og ég hefði verið burtu í viku heldur væri Icelandair-vélin tímavél sem hefði flutt mig aftur til áttunda áratugarins: stjórnarmaður hjá ASÍ tekur sér stöðu í leiðtogaeinvígi Samfylkingarinnar. Hvern fjárann varðar óbreyttan launamann sem fyrir tilviljun þarf að greiða félagsgjöld sín til ASÍ, en er e.t.v. óflokksbundinn eða í Sjálfstæðisflokknum, um það hver verður formaður Samfylkingarinnar. Það hefur nákvæmlega ekkert með ASÍ að gera.

Ég vann með Þórarni Leifssyni í nokkra daga á Visir.is árið 2000 (Hann fór til Mekkanó rétt eftir að ég byrjaði). Mér líkaði ekki illa við hann og þótti hann frekar fyndinn. Nokkrir vinnufélagar hvísluðu því hins vegar mér að maðurinn væri snargeggjaður. Eftir að hafa kíkt á totil.com nýlega er mig farið að gruna að þeir hafi haft rétt fyrir sér. Þó finnst mér líklegra að hér sé á ferðinni þokkalega heilbrigður maður sem ætti auðvelt með að leika geðsjúkling fyrir rétti og þar með sleppa undan refsingu.

sunnudagur, janúar 23, 2005

DAGBBÓK FRÁ MANNHEIM OG NÁGRENNI

16.01.04

Akrar og lífvana vetrarskógar voru hrímuð á leiðinni frá Frankfurt til Mannheim. Í Mannheim var kyrrviðri og rétt undir frostmarki. Á lestarstöðinni ók gamall maður innkaupakerru með einhverjum pakka á grindinni og spurði mig hvort ég væri á leiðinni til Frankfurt. Ég neitaði. Ég staldraði bara nógu lengi við til að koma farangrinum fyrir á hótelinu og síðan tók ég lestina til Kaiserslautern til heimsækja móðursystur Erlu og manninn hennar sem starfar hjá bandaríska hernum við skrifstofustörf. Þau búa í litlu þorpi skammt frá Kaiserslautern og sóttu mig á lestarstöðina þangað. Hann fræddi mig um það að um það bil 50 bandarískar herstöðvar væru á svæðinu, engu að síður hefði dregið töluvert út hernaðarumsvifum Bandríkjamanna í Þýskalandi síðustu árin. Það segði hins vegar sína sögu um áhrif herliðsins að á þessum slóðum væri atvinnuleysi ekki nema um 2%. Við borðuðum saman á ítölskum veitingastað í þorpinu. Þau sögðust gjarnan vilja hitta mig aftur ef ég hefði lausa stund. Annars vegar þvera algjörlega einn, líkt og maðurinn og rithöfundurinn væru ekki eitt.

Þegar ég steig aftur út úr lestinni í Mannheim var gamli maðurinn með innkaupakerruna enn á sveimi að spyrja fólk hvort það væri á leiðinni til Frankfurt. Hvað ætli pakkinn á kerrunni hans sé gamall? 10 ára? 20 ára?

Ég hafði verið mjög hress alla ferðina þrátt fyrir lítinn svefn nóttina fyrir flugið. Ég sofnaði hins vegar á hótelinu úrvinda af þreytu út frá smásagnasafni eftir Judith Hermann, Nichts als Gespenster. Ég hafði þar áður verið að lesa Spiegel og 30 ára gamalt úrvalssafn þýskra smásagna og var sá lestur seinvirkur og erfiður. Judith Hermann (sem er ungur höfundur og hefur dvalist eitthvað á Íslandi) skrifar hins vegar svo einfaldan stíl að það er svipað og að lesa ensku.


17.01.04

Fólkið er flest þungbúið og dapurlegt tilsýndar en alltaf vingjarnlegt og elskulegt þegar ég þarf að eiga við það einhver samskipti. Eflaust á mín framkoma þar einhvern hlut að máli. Ég er raunar almennt miklu kurteisari í viðmóti en á prenti en á Þjóðverja hlýt ég að virka sem meinlaus en taugastrekktur einfeldningur. Ég er ekki það sleipur í þýsku að ég þarf að einbeita mér til að skilja allt sem er sagt við mig og tala þokkalega rétt. Þetta veldur taugaóstyrk sem brýst fram í ofurkurteisi og sauðssvip.

Hótelið er í um 2ja km fjarlægð frá miðbænum. Ég sneiði hjá sporvögnum af ótta við að enda í einhverri bílaverksmiðju. Ég ákvað hins vegar að freista þess að fara fótgangandi í miðbæinn en tók vitlausa beygju. Eftir um hálftíma göngu gat ég ekki varist þeirri hugsun að það hefði verið skárra fyrir mig að eyða þessari viku í Grafarvoginum. Drottinn minn dýri, hvílík leiðindaborg. Fann um síðir litla blaðasjoppu og lét hringja fyrir mig á leigubíl. Bílstjórinn gat ekki varist hlátri yfir aulaskapnum í mér en ók mér greiðlega í miðbæinn, sem er vinalegur og þokkalega líflegur.

Ég borðaði hádegismat á þriggja hæða bakarískaffi með blómabetrekki og skrautlegum vegglömpum. Ég var örugglega yngsti gesturinn á staðnum og líkaði vel. En þegar ég byrjaði að skrifa greip mig nístandi kvíði og blygðunartilfinning hins smáborgaralega frístundarithöfundar. Núna átti ég að vera mættur í vinnuna og engu breytti um þá tilfinningu að ég hefði fengið frí. “Hvað þykistu eiginlega vera?” söng í höfðinu á mér. Ég komst smám saman yfir þetta, las og skrifaði, skipti um stað og hélt áfram. Aðalvandinn núna er spursmálið hvort ég á að láta mig hafa það að skrifa söguna út í eitt í rauðhráu eða byrja strax að endurskrifa og freista þess að finna rétta tóninn og halda honum síðan.

Ætlaði að fara til Heidelberg á morgun til að upplifa flottara umhverfi en svo getur vel verið að ég haldi bara til hérna yfir tölvunni á hótelherberginu. Það er ekki nema örfárra mínútna lestarferð héðan til Heidelberg.

Svarið við spurningunni í dag um skrifaðferð: Ég verð einfaldlega með tvö skjöl í gangi í einu, eitt hrátt og eitt í endurskrift.

Klukkan er hálftíu að kvöldi og það hefur gengið virkilega vel að skrifa. Mér finnst ég vera að ná tökum á bæði frásagnaruppbyggingu og stíl, a.m.k. að vissu marki. Einhvers konar bóhem hefur nú yfirhöndina í sálarlífinu en blygðunarfulli smáborgarinn bíður átekta og sætir færis.


18.01.04

Tók rétta beygju í morgun niður í bæ. Maður fer yfir Neckar-fljótið og örlítið sunnar er miðsvæðið, afmarkað af risastórri hringgötu sem heitir ýmist Lusienring, Kaiserring eða eitthvað annað. Reyndar er ótölulegur fjöldi gatna innan hringsins sem liggja þvert hver á aðra en í hámiðbænum er þægilegt kennileiti, Wasserturm (gamalt brunnhýsi?) sem sést úr öllum áttum. Ég fann afskaplega huggulegt markaðsstorg á leiðinni þar sem krökkt er af ávaxtasölum, pylsusölum og alls kyns öðrum varningi, og torgið er umkringt kaffihúsum og veitingastöðum. Á einu horninu stóð karl með lírukassa og tuskuapa á kassanum.

Skammt undan eru margar verslunargötur. Keypti bol handa Erlu. Hann er í Erlulegum litum og stærðin á að passa.

Tók lestina til Heidelberg um hádegi. Heidelberg er fallegri en Mannheim en miklu fámennari og líflausari svo það skortir stórborgartilfinningu. Borgin er umkringd skógivöxnum hlíðum. Ég sleppti því að skoða gamla bæjarhlutann, arkaði þar um í fámenni fyrir þremur árum og mig minnir að byggðin nái vel upp í hlíðarnar. Nýi miðbærinn er drjúgan spöl frá lestarstöðinni. Þar kom ég mér fyrir á kaffihúsi sem minnir á Kaffibrennsluna heima, fékk mér salat með beikoni og kjúkling og drakk dökkan bjór með. – Þarna skrifaði ég 400 orð, prýðilega byrjun, virðist mér, á 3. kafla sögunnar, ef ég kaflaskipti henni svo stíft. Ég hef að vísu ekki lokið við 2. kafla og þarf að stórbæta 1. kafla en engu að síður finnst mér miða í rétta átt. – Stefni að því að skrifa mikið í kvöld og jafnvel fram á nótt enda er ég vel sofinn.

Fólkið í Heidelberg er fallegra og gáfulegra en í Mannheim. Léttur Nyhilbragur á unga fólkinu en hinir eldri lesa Spiegel eða innbundnar skáldsögur.

Ég stefni að því að vera hér í hótelhverfinu á morgun. Spjalla við sjoppukaupmenn og drekka kaffið standandi. Og skrifa á hótelinu. Skrifa, skrifa skrifa.

Þýskan batnar með hverri klukkustundinni. Les Spiegel og Judith Hermann. Líkar alveg prýðilega við Judith, líst miklu betur á þessa en fyrri bókina (Sumarhús, seinna) sem ég kláraði ekki af því fyrsta sagan fór í taugarnar á mér. Spiegel er orðinn miklu auðlesnari.

Smáborgarakvíðinn í lágmarki.

Er að horfa á CNN núna. Þar er verið að taka Condolezzu Rice á beinið af einhverri þingnefnd en hún er víst að sverja sem utanríkis- eða varnarmálaráðherra. Skemmtilegra en þýsku fréttirnar.


19.01.04

Ennþá betra verður í dag. Sólskin með köflum og 5-10 stiga hiti. Kyrrviðri. Hef haldið mig á hótelinu við skriftir og tekið stutta göngutúra um hverfið enda með blöðrur á iljunum eftir allt arkið í gær. Ætli þetta teljist ekki lágstéttarhverfi en þó varla slömm. Tvær akfeitar konur töluðu um atvinnuleysi í lágvörubúinni áðan þar sem ég keypti mér tannkrem og jógúrt. Fékk mér kaffi í blaðasjoppunni. Hjónin þar eru frá Rúmeníu og flýðu þaðan nokkrum árum áður en Sjáseskú (man ekki stafsetninguna) var drepinn. Fólki í þessu hverfi þykir með eindæmum stórkostlegt að ég sé bæði rithöfundur og vinni við að skrifa auglýsingatexta. Slíkt þykir nú ekkert merkilegt í miðbæ Reykjavíkur og það sýnir kannski muninn á þessum stöðum. Á hótelinu vinnur vel menntuð kona frá Afghanistan sem segist óánægð í starfi og að hana langi til að skrifa ástarsögu með pólitísku ívafi úr hennar menningarheimi. Hana langar mikið til að skrifa og vill líka skrifa eitthvað sem gefur af sér pening. Ég er ekki rétti maðurinn til að ráðleggja fólki um arðvænleg skrif og sagði henni að sögurnar mínar væru “kuenstlerisch” og óvinsælar. Hins vegar væri ég miklu þekktari fyrir bloggskrif, af einhverjum ástæðum. Ég ráðlagði henni að fara á námskeið í skapandi skrifum og byrja síðan að skrifa ákveðinn tíma á sólarhring, alltaf á sama tímanum. Hvorugu þessara ráða hef ég farið eftir sjálfur en samt datt mér ekkert betra í hug. Hvað á maður að segja við fólk sem ætlar að byrja að skrifa um fertugt? Ég byrjaði sjálfur 17 ára og er þó ekki kominn lengra en þetta. Í lokin gaf ég henni líklega besta ráðið: Sagði að sumir segðu að eina leiðin til að læra að skrifa væri einfaldlega að skrifa. Maður yrði bara að byrja og halda áfram og gefast ekki upp.

Gangi henni vel. Og mér.


20.01.04

Skrifaði með löngum hléum fram á nótt og vaknaði eins og undanfarið um hálfníuleytið. Þar sem ég er farinn að þekkja miðbæinn betur en áður ákvað ég að fara í búðir. Mér tókst að ljúka öllum innkaupum fyrir utan það sem ég ætla að kaupa í Fríhöfninni heima. Hékk á kaffihúsum og skrifaði og kom síðan heim um fimmleytið. – Á mikið handskrifað og hrátt efni sem ég endurskrifa á tölvunni í kvöld.


21.01.04

Föstudagur. Nú styttist í heimferð og þörfin fyrir að færa dagbók minnkar sífellt. Söguskriftir ganga hins vegar vel. Líklega mun ég fara heim með um 5000 ný orð í farteskinu, flest af því tvískrifað, fyrst í vasabók og síðan á tölvuna. Ég gæti hæglega gert úr þessu góða smásögu á nokkrum vikum en mér hrýs hugur við því að þurfa að skrifa 7 eða 8 aðrar smásögur til að fylla næstu bók svo ég ætla að halda mig við langa útgáfu af þessu verki. Líklega þarf ég að stækka söguhugmyndina eitthvað en það kemur hvort eða er af sjálfu sér.22.01.04

Lokadagurinn runninn upp. Ég tek lestina til Frankfurt í fyrramálið og flýg þaðan til Íslands. Veðrið er ennþá jafngott hér en það snjóaði í Muenchen í gær og spáð var snjókomu víðs vegar um Þýskaland í dag. Hótelstýran segir mér hins vegar að þetta sé hlýjasta hérað Þýskalands og hér snjói aldrei. Lítur út fyrir að hún hafi rétt fyrir sér.

Mér finnst skriftir hafa gengið vel en þó eru aðeins komin rúmlega 3000 orð á tölvuna. Flest af því er tvískrifað og því ekki mjög hrátt en samt á þetta örugglega eftir að breytast. Dagurinn í dag ætti að gefa yfir 500 orð, ég mun líklega að mestu leyti halda mig á hótelinu. Einn galli er sá að ég veit ekki nákvæmlega hvað ég ætla að gera við persónurnar næst, það er eitthvað óvænt að fara að gerast og ég er smeykur um að ég sé að búa til ráðgátu í sögunni sem ég get ekki leyst.

Ég fór aðeins lengra inn í hverfið en ég er vanur í gær. Miklu meira af veitingastöðum og kaffihúsum en ég hafði gert mér grein fyrir því. Þegar evrópskar borgir hafa náð ákveðinni stærð og þá virðist alls staðar vera allt til alls, ekki bara í miðbænum. Mannheim er keimlík öðrum þýskum borgum sem ég hef heimsótt þó að fæstir vilji koma hingað. En vissulega er Berlín í sérflokki og þvínæst Muenchen, enda eru þetta stærstu borgirnar. Það væri óskaplega sóun ef ég færi til Berlínar að skrifa í viku, ég myndi vanrækja allt sem ég ætti að gera sem túristi eða þá að ég myndi ekkert skrifa heldur láta borgina seiða mig til sín. Hið dæmigerða og fábreytta á best við mig í þessum stuttu skriftarferðalögum þó að ég þurfi samt þokkalega líflegan miðbæ og haug af kaffihúsum. Sem ég fæ alls staðar. – Hér er gríðarlega mikið af útlendingum, Júgóslövum, Rúmenum, Rússum og Írönum. Mér finnst tæpast annar hver maður sem ég sé vera Þjóðverji.

Horfði á Bayen Muenchen vinna Hamborg í beinni í gærkvöld, 3-0. Í staðarblaðinu er heilsíðugrein um HM í handbolta. Þar er lítið minnst á Ísland en spáð í möguleika þýska liðsins sem er mjög mikið breytt frá síðustu mótum. Ég missi af Tékkaleiknum á morgun, lendi líklega um það leyti sem leikurinn hefst.