Ég hef verið að drepast úr harðsperrum eftir Esjugönguna, sérstaklega á framanverðum lærunum. Ég veina við að ganga upp stiga eða þrífa eldhúsgólfið með tusku (já ég geri það, ekki alslæmur eiginmaður). Við skokkuðum í kvöld og strengirnir minnkuðu lítið við það þó að eymslin hjöðnuðu rétt á meðan.
Ég hitti Egil Helga á Segafredo í hádeginu í dag. Hann hefur grennst, samt er hann sem betur fer dálítið feitari en ég. Hann var í ljósum suðurlandalegum jakkafötum. Hann er eins og ég orðinn bandbrjálaður út af dónaskap í kommentakerfinu sínu. Mér er sjálfum algjörlega nóg boðið. Það vita allir að ég hef ekki tekið gagnrýni eða jafnvel árásir nærri mér en að sjá sömu fyrirsjáanlegu og margendurteknu hæðnisglósurnar frá sömu nafnlausu fíflunum er algjörlega óþolandi. Nokkrir menn þurfa að fara að skilja það að þeir eru ekki velkomnir hingað. Ég vil ekki sjá þá og fæstir lesenda minna vilja það. Hver vill vera þar sem hann er ekki velkominn? Og plís, ekki svara þessu.
Ég fór út í 10-11 í kvöld að kaupa batterí. Þá sá ég á forsíðu Hér og nú frétt um Heiðu Idol og fletti blaðinu. Sá að hún hafði komist í fyrsta sæti á vinsældalista með nýtt lag. Varð harla glaður en síðan hneykslaður á sjálfum mér. Hvers konar plebbi er maður orðinn? Rænir grái fiðringurinn mig vitinu?
Mig langar til Heidelberg. Stundum langar mig einn þangað til að skrifa líkt og verður tilfellið en stundum langar mig að vera þar með Erlu, ganga upp í hlíðarnar og skoða gamla bæinn. Ég fer varla til Heidelberg fyrr en eftir áramótin. Það eru komnar þrjár utanlandsferðir á þessu ári plús bíll og m.a.s. reikningurinn hennar Erlu er tómur, eða var það a.m.k. þar til hún fékk útborgað í dag.
Eitthvað segir mér að tíðarandinn sé mótfallinn kynórum karla en jákvæður í garð kynóra kvenna. Kannski verðum við karlarnir að taka því eftir aldalanga kúgun kvenna. En mikið væri gaman ef þetta væri í jafnvægi og allir mættu eiga sínar eðlilegu hvatir án þess að óttast fordæmingu. Í ágætri glæpasögu Ævars Arnar, Svörtum Englum, má ráða að það viðhorf sé orðið ríkjandi að það sé rangt að karlmenn eigi sér kynóra um konur sem þeir þekkja. A.m.k. miðað við hugsanir einnar persónunnar, Árna: Ekki hugsa svona um hana, segir hann margoft við sjálfan sig og stoppar sig af í erótískum hugsunum um konur sem verða á vegi hans. Erfitt er að ráða af þessu hvort rödd höfundar er samþykk þessu viðhorfi eða ekki. - En auðvitað er þetta rugl: Hugsanafrelsi er takmarkalaust og allir mega upphugsa þann dónaskap sem þeim sýnist. Um gjörðir gildir hins vegar auðvitað allt annað.
Dálítið sérkennilegt að fara á sama staðinn í Skagafirði tvisvar á einu sumri. En það gerist núna á morgun. Keldudalur, heitir hann og er skammt frá Sauðárkróki.
Og Vodafone copy-ið gekk bara ansi vel þrátt fyrir höktandi byrjun. Minn texti var að mestu leyti samþykktur lítið breyttur. Ég er því varla að fara að missa vinnuna og tilveran er merkilega stabíl.
Góða helgi aftur.