laugardagur, júlí 30, 2005

Ég hef verið að drepast úr harðsperrum eftir Esjugönguna, sérstaklega á framanverðum lærunum. Ég veina við að ganga upp stiga eða þrífa eldhúsgólfið með tusku (já ég geri það, ekki alslæmur eiginmaður). Við skokkuðum í kvöld og strengirnir minnkuðu lítið við það þó að eymslin hjöðnuðu rétt á meðan.

Ég hitti Egil Helga á Segafredo í hádeginu í dag. Hann hefur grennst, samt er hann sem betur fer dálítið feitari en ég. Hann var í ljósum suðurlandalegum jakkafötum. Hann er eins og ég orðinn bandbrjálaður út af dónaskap í kommentakerfinu sínu. Mér er sjálfum algjörlega nóg boðið. Það vita allir að ég hef ekki tekið gagnrýni eða jafnvel árásir nærri mér en að sjá sömu fyrirsjáanlegu og margendurteknu hæðnisglósurnar frá sömu nafnlausu fíflunum er algjörlega óþolandi. Nokkrir menn þurfa að fara að skilja það að þeir eru ekki velkomnir hingað. Ég vil ekki sjá þá og fæstir lesenda minna vilja það. Hver vill vera þar sem hann er ekki velkominn? Og plís, ekki svara þessu.

Ég fór út í 10-11 í kvöld að kaupa batterí. Þá sá ég á forsíðu Hér og nú frétt um Heiðu Idol og fletti blaðinu. Sá að hún hafði komist í fyrsta sæti á vinsældalista með nýtt lag. Varð harla glaður en síðan hneykslaður á sjálfum mér. Hvers konar plebbi er maður orðinn? Rænir grái fiðringurinn mig vitinu?

Mig langar til Heidelberg. Stundum langar mig einn þangað til að skrifa líkt og verður tilfellið en stundum langar mig að vera þar með Erlu, ganga upp í hlíðarnar og skoða gamla bæinn. Ég fer varla til Heidelberg fyrr en eftir áramótin. Það eru komnar þrjár utanlandsferðir á þessu ári plús bíll og m.a.s. reikningurinn hennar Erlu er tómur, eða var það a.m.k. þar til hún fékk útborgað í dag.

Eitthvað segir mér að tíðarandinn sé mótfallinn kynórum karla en jákvæður í garð kynóra kvenna. Kannski verðum við karlarnir að taka því eftir aldalanga kúgun kvenna. En mikið væri gaman ef þetta væri í jafnvægi og allir mættu eiga sínar eðlilegu hvatir án þess að óttast fordæmingu. Í ágætri glæpasögu Ævars Arnar, Svörtum Englum, má ráða að það viðhorf sé orðið ríkjandi að það sé rangt að karlmenn eigi sér kynóra um konur sem þeir þekkja. A.m.k. miðað við hugsanir einnar persónunnar, Árna: Ekki hugsa svona um hana, segir hann margoft við sjálfan sig og stoppar sig af í erótískum hugsunum um konur sem verða á vegi hans. Erfitt er að ráða af þessu hvort rödd höfundar er samþykk þessu viðhorfi eða ekki. - En auðvitað er þetta rugl: Hugsanafrelsi er takmarkalaust og allir mega upphugsa þann dónaskap sem þeim sýnist. Um gjörðir gildir hins vegar auðvitað allt annað.

Dálítið sérkennilegt að fara á sama staðinn í Skagafirði tvisvar á einu sumri. En það gerist núna á morgun. Keldudalur, heitir hann og er skammt frá Sauðárkróki.

Og Vodafone copy-ið gekk bara ansi vel þrátt fyrir höktandi byrjun. Minn texti var að mestu leyti samþykktur lítið breyttur. Ég er því varla að fara að missa vinnuna og tilveran er merkilega stabíl.

Góða helgi aftur.

föstudagur, júlí 29, 2005

Ég fer í Skagafjörðinn í fyrramálið, í annað sinn í sumar, og verð þar út verslunarmannahelgina. Ég segi því góða helgi.

http://www.islenska.is/default.asp?sid_id=16442&tid=2&fre_id=23513&meira=1 Smá auglýsingaumræða í þessari grein.

Einhver furðuleg en afar sterk nostalgíutilfinning grípur mig við að horfa á Staupastein á Skjá einum á nóttunni. Einhver sorgarblandin sæla yfir því að hafa einu sinni verið ungur og fallegur og vitlaus og grannur með vonir og væntingar í heimi þar sem var ekkert internet en manni fannst samt vera nútími og fólksvagenbjöllur óku enn um göturnar og Erla var handan við hornið eða í fangi mér með óraunsæja aðdáun í augunum, nánast lömuð af ást. Og engir peningar í vasanum.

fimmtudagur, júlí 28, 2005

Verk meistarans blasa hvarvetna við

Ég skrapp frá áðan til að gefa blóð. Sólin fór að skína um leið og ég steig út. Er ekki frá því að ég hafi mætt Hildi Lilliandahl á leiðinni, jú þetta var hún. Sjálfsörugg með örlítið kímniblik í augum. Hún bar annaðhvort ekki kennsl á meistarann (sólbrúnn, dökkhærður, svört Calvin Klein föt, Sketschers-skór, Dressmann-sumarskyrta, falsað Diesel-belti (nú varðar við lög á Ítalíu að kaupa slíkt)) eða hún lét sér fátt um finnast. Skulda ég henni ekki annars bjór?

Þegar ég lagðist á bekkinn í Blóðbankanum blasti við mér áróðursauglýsing sem ég hafði skrifað sjálfur í vor: hún var innrömmuð í glerrramma á veggnum.

Esjan var nokkuð erfið en þó engin þrekraun. Er samt ansi þreyttur í löppunum í dag.

miðvikudagur, júlí 27, 2005

Er að fara upp á Esjuna á eftir með Erlu. Hefði kannski frekar vilja skokka og hanga síðan inni en tók samt strax vel í hugmyndina hjá henni. Gæti verið klókur leikur í hjónabandsskákinni. Svo má vel vera að þetta verði gaman.

Menn eru ánægðir með Lucky Charms textann en óánægðir með Og Vodafone skrifin mín. Ég er alveg andlaus. Ég er líka alveg andlaus hvað skáldsöguna snertir í augnablikinu en var það ekki úti. Spurning hvað gerist næstu daga.

Ég fer líklega aldrei í strætó aftur. Ég hef tekið strætisvagn af og til síðustu árin enda geta treyst á að strætóinn sem stoppar heima sé fjarkinn, að ég geti stigið upp í þristinn og fleiri vagna á Hlemmi o.s.frv. Núna er svo gjörsamlega búið að snúa öllu á haus að ég hætti mér ekki nálægt strætisvagni lengur. Það á enginn eftir að taka strætó hér eftir fyrir utan þá sem neyðast til þess. Ekki mun þessi breyting stuðla að minni bílisma eins og R-listinn vill heldur öðru nær.

Egill Helga hrekur þær bábiljur vinstri manna að hryðjuverk í heiminum núna eigi sér orsakir í stríðinu í Írak og mannréttindabrotum Ísraela í Palestínu. Eins og þið vitið var ekki búið að ráðast inn í Írak þegar árásin á World Trade Center og Pentagon átti sér stað. Þetta er ákveðinn kúltúr og hugsunarháttur sem á sér mun dýpri orsakir.

þriðjudagur, júlí 26, 2005

Er á kafi í auglýsingaskrifum (Lucky Charms, Og Vodafone o.fl.) og ýmsum útréttingum. Stressið hefur heltekið tilveruna um leið og fríinu lauk. Ég blogga eitthvað á næstunni en minna en ég hélt.

Kominn heim

Og nú byrja ég að taka til. Ég nenni ekki að eyða fleiri kommentum af þeim sem eru komin en hér eftir fylgist ég vel með og eyði öllu sem mér finnst afvegaleiða umræður. Þetta er ekki vettvangur fyrir þráhyggjukennd skrif ónefndra manna og öll vitleysa verður þurkkuð út. Gagnrýni á það sem ég skrifa er í sjálfu sér vel þegin en þráhyggjukennt stagl um mína persónu er leiðinlegt lesefni sem ekki verður liðið. Ég bið skemmtilegu lesendurna mína um smá þolinmæði, núna bretti ég upp ermarnar og sé til þess að fólk geti spjallað hér í friði og af sæmilegu viti.