laugardagur, september 17, 2005

1. dagur í nýbindindi

Skokkaði með Erlu áðan. Er að hræra mér egg. Fjölskylda í dag, skriftir á morgun.

Faaaaalllinnnn

Það er aftur high-noon í mataræðinu. Það hefur verið að molna úr veggnum smám saman og núna er allt hrunið. Ég hef þyngst um kíló, er farinn upp í 107 aftur úr 106. Ég var á leiðinni niður í 105.

Þetta snýst ekki um það hvað ég vil vera þungur heldur hvort ég vilji hafa einhverja stjórn á þessum málum. Ef ég sný ekki við blaðinu verð ég aftur kominn upp í 114 kíló fyrir áramót og líklega meira. Þannig er þetta bara, ég hef svo oft reynt það á sjálfum mér áður.

Ég er búinn að greina vandann hjá mér og hef meðferðina á hreinu líka. Það er því ekki um annað að ræða en að beita henni aftur.

Hér eftir verð ég að nefna hverja einustu hrösun hér á síðunni.

Ég ætla rétt að vona að til þess komi ekki.

Ég er byrjaður í bindindi aftur.

föstudagur, september 16, 2005

Dálítið athyglisverðar og óvæntar fréttir að Eiríkur Bergmann, Evrópusérfræðingur, sé með skáldsögu hjá Skruddu í haust. Þetta mun vera saga í léttum dúr. Skrudda hefur stórfjölgað titlum og er með 17 bækur á árinu. Þeir vænta handrits frá mér næsta sumar og vonandi gengur þeim bara vel í jólavertíðinni. Meðal annarra bóka er heilablóðfallssaga Ingólfs Margeirssonar. Þá eru tvær bækur nýkomnar út og önnur komin í dómssali, væntanlega eykur það umfjöllun. www.skrudda.is

Það held ég. Ég keypti markmannshanska handa Kjartani í hádeginu og afhendi honum þá á eftir. Hann verður kátur. Þetta er það skemmtilega við að eiga krakka, ekki bleyjuskiptingar og næturvökur.

Ólafur Teitur Guðnason er vissulega hægri sinnaður og hann á það til að vera smámunasamur. Þetta breytir ekki þeirri staðreynd að fjölmiðlapistlarnir hans eru vandaðir og vel rökstuddir. Nánast aldrei svara þeir fyrir sig sem þar eru gagnrýndir, engu líkara en þeir hafi enga málsvörn fyrir slæleg vinnubrögð og fordóma í skrifum. Yfirleitt fær Ólafur Teitur bara á sig Ad hominem gagnrýni, stuttar hæðnislegar athugasemdir, en ekki málefnanleg svör við sinni gagnrýni.

Í Viðskiptablaðinu í dag ræðst Ólafur Teitur harkalega á Reykjavík Grapevine og erfitt að sjá annað en hann hafi töluvert til síns máls.

Það fer víst ekki á milli mála við lestur sumra bloggsíðna og samræður í bænum að Paul Auster gengur í augun á kvenfólkinu. Gildir einu þó að hann sé að verða sextugur. Mér skilst að augun, framkoman og rithæfileikar geri útslagið til samans. Nú fara fæstir í fötin hans Austers en engu að síður er þetta uppörvandi fyrir menn komna yfir fertugt.

Ég hef ekkert að segja í dag. Ef ég myndi skrifa eitthvað myndi ég segja frá því að ég væri að fara á Súfistann í hádeginu, að ég yrði grasekkill í kvöld og myndi hita upp pizzur handa börnunum og leyfa þeim að leigja sér myndband. En ykkur langar ekki að vita um þetta svo ég sleppi því að segja frá því, líka því að eflaust reyni ég að skrifa heima þegar líður á kvöldið.

fimmtudagur, september 15, 2005

Klink

Byrja á Hermanns Stefánssonarlegum titli. Þegar ég mætti til vinnu áðan voru smápeningar út um allt á borðinu mínu og kringum það. Smápeningahólfið í veskinu mínu er rifið og í gær losaði ég klinkið úr því. Það hefur síðan farið á flakk á vinnusvæðinu mínu. Þarna innan um eru 50 kallar og 100 kallar. Í síðasta mánuði hefði þetta verið hinn mesti fjársjóður en er núna bara eitthvað sem ég legg til hliðar með óljósa minningu í kollinum um að þetta séu verðmæti.

Einhverjir gætu hafa lesið söguna mína, Eiginkona þýskukennarans, en hún fjallar um þessa tilfinningu.

Sumarið 1986 var ég í München. Eitt kvöldið fór ég á djammið með íslenskri vinkonu minni sem ég af einhverjum ástæðum man að hét Kristín Theódórsdóttir (eins og ég er búinn að gleyma mörgum nöfnum). Það var ekkert á milli okkar nema kunningsskapur eða vinátta, ég man eiginlega ekki hvort. En eina nóttina lentum við í slagtogi við kall sem sló nokkuð um sig. Hann var vel klæddur og vel drukkinn og reyndi mikið við Kristínu. Við fórum heim með honum í einhverja smekklega blokkaríbúð í hverfi sem ég hafði ekki séð áður. Þar sveiflaði gaurinn haglabyssu og varð mér þá ekki um sel. Hann hélt áfram að reyna við Kristínu sem hvíslaði því að mér að henni klígjaði við svona gömlum körlum. Ég hef ekki hugmynd um hvað hann var gamall. Kannski 39 ára, kannski 45. Ekki eldri en 45. Takk fyrir að klígja við mér, Kristín! Þú ert örugglega ekkert kræsilegri núna sjálf!

Allt um það. Einhvern tíma lagði karlinn sig til svefns í öllum fötunum á stofugólfinu. Þá rak ég augun í klinkhrúgu þarna. Innan um voru 5 marka peningar, sem voru kannski eins og 300 kall eða 500 kall í dag eða meira. Bjórinn kostaði í það minnsta töluvert minna. Og ég sópaði klinkinu í vasann, alsæll og skítblankur.

Bragi Ólafsson hefur gefið út ljóðabók sem heitir Klink. Þegar maður les hana er erfitt að sjá hvers vegna hún ber þennan titil. Hermann hefur örugglega lesið hana.

Kannski ætti ég að skreppa til München í janúar frekar en Darmstadt. Það er að vísu ansi löng lestarferð frá Frankfurt.

Who-brennslan mín

1. The Kids Are Alright
2. I´m Free
3. I Can See For Miles
4. Baba O´Reily
5. Going Mobile
6. Won´t Be Fooled Again
7. Time Is Passing
8. Dr. Jimmy
9. Love Reign O' er Me
10. Pure And Easy
11. Sister Disco
12. Who Are You
13. You Better You Bet
14. Eminence Front
15. A Man Is A Man

Kl. 23:09 miðvikudagskvöldið 14. september 2005 er ég að skrifa 6. kaflann í skáldsöguhandritinu og segi frá rithöfundi á markaðslegri niðurleið sem fer út í sjoppu og borðar samloku í kvöldmat. Ég er í þann veginn að fara að rífast við Eyvind um tónlist í kommentakerfinu. Ég var að tala við Erlu í símanum um að líklega yrði tæpt með að við næðum Paul Auster í Iðnó annað kvöld og því ætlum við að gera eitthvað annað saman, t.d. skreppa á kaffihús; ég er enginn stjörnudýrkandi, ég hef lesið margar bækur eftir Auster og verð engu bættari við að sjá hann lesa upp.

Quadrophenia með Who er í tölvunni og heyrnartæki á eyrunum.

Meðan ég man: Það eru nokkuð góð ljóð eftir Magnús Sigurðsson í nýja TMM. Hann er fæddur 1984 og hefur lesið bækurnar mínar. Árið 1984 var ég í Berlín og fór á tónleika með Bob Dylan. Þá keypti ég jafnframt Born in the USA með Springsteen, hún var nýkomin út. Ég var hlægileg 85 kíló og með fallegri bjánum.

miðvikudagur, september 14, 2005

Hverjir eru helstu lagasmiðir rokksins? Ég er að tala um tónlistarmenn sem hafa samið haug af góðum lögum bæði fyrir eigin flutning og annarra. Hér eru nokkrar tillögur. Skammið mig fyrir þá sem vantar á listann og bætið þeim við. Og hvar eru konurnar?

Paul McCartney
Bruce Springsteen
Billy Joel
Frank Zappa
Pete Townshend

Eitthvað er þetta nú stuttur listi. Hverjir fleiri koma í hugann þegar rætt er um mjög mikið magn af góðri frumsaminni músík?

Ekki ljómar þessi síða af andagift þessa dagana en vissulega hefur hún oft átt sína spretti. Í augnablikinu dettur mér ekki neitt í hug að skrifa um og þá skrifa ég um það, að mér detti ekki neitt í hug.

Mér leiðist norðanátt eins og áður hefur komið fram. Þessi andstyggilega kalda þurra gola. Þá vil ég frekar sunnanátt með rigningu.

Ég hugsa að ég skreppi til Darmstadt í janúar, verði þar í viku og skrifi 10000 orð. Í Darmstadt er einkar falleg aðallestarstöð. Ég hugsa að ég gisti rétt hjá henni. Þetta verður í blábyrjun nýs árs þegar maður er að byrja að jafna sig eftir jólastressið. Við Jón Óskar vorum sannfærðir um það í gamla daga að Dramstadt væri glataður staður, vegna nafnsins, enda kölluðum við hana Þarmastaði. En svo skilst mér að hún sé falleg og heillandi líkt og Heidelberg.

þriðjudagur, september 13, 2005

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1158107 Hvaða glæpasögu er Benni að gefa út?

Ellimerki eða afstæði aldursins

Við vorum á öðrum kynningarfundi í Melaskóla í gærkvöld. Mér finnst kennari stráksins míns vera hálfgerð smápía og a.m.k. einn samkennari hennar líka. En þetta eru fullorðnar konur, hugsanlega þrítugar. Rosalega er maður orðinn gamall.

mánudagur, september 12, 2005

Ég er að lesa smásögur eftir John Fante núna. Hann var uppáhaldshöfundur Charles Bukowski. Ég byrjaði einhvern tíma á skáldsögunni Ask the Dust eftir hann en náði aldrei sambandi við hana. Hann skrifaði líka handritið að kvikmyndinni A Walk on the Wild Side sem er mjög skemmtileg. Smásögurnar hans eru góðar.

Ánægjuleg helgi senn á enda. Skrifaði töluvert á laugardaginn og vann Erlu í 5,3 km kapphlaupi. Það er ekkert að marka, hún malaði mig í Reykjavíkurmaraþoni en ég hef verið mun duglegri en hún að æfa síðan. - Í dag hjólaði ég með Kjartan á leikinn, þ.e. KR-Val. Við virtum nýja þjálfarann fyrir okkur, grásprengdan með sinn skandinavíska framburð. Leikurinn var afar ánægjulegur, endaði 2-0. Síðan var afmælisveisla á Víðimel. Þar spiluðum við feðgar fótbolta í garðinum við frænda Kjartans og væntanlegan mág frændans. Pabbi dáðist að þoli mínu. Ég er ekki einn af þeim sem hafa þörf fyrir aðdáun föður síns en allt hrós er vel þegið. Hann kom á hjóli í partíið og Alli bróðir segir að ég líkist honum mjög á reiðhjóli.

Í kvöld (það er enn sunnudagskvöld, sama hvað síðan segir) er ég kominn niður í vinnu og reyni að bæta eins og einni síðu við rómaninn.