föstudagur, október 28, 2005

Ég sleppi Idolinu í kvöld og skrifa í staðinn. Á morgun fer ég með Erlu á árshátíð Póstsins. Á sunnudag er það sporavinna, skúringar heima og svo skriftir um kvöldið.
Kjartan á afmæli í næstu viku.Ég hugsa að ég gefi þessari síðu frí fram á mánudag. Góða helgi.

fimmtudagur, október 27, 2005

Um nýju tilvitnunina

Glugginn í hausnum tekur ekki við meiri texta en framhaldið af tilvitnuninni nýju er svona:


Réð maður kannski engu um líf sitt þegar allt kom til alls? Virtist maður bara gera það, en það væri blekking? Hvað með rónana sem æddu hálfsturlaðir um göturnar í miðbænum? Varla var þeim sjálfrátt. En gat það verið að þeir sem lék allt í haginn væru líka strengjabrúður örlaganna, rétt eins og rónarnir?

Hressó í hádeginu

Ein afgreiðslustúlkan var í bol merktum Pink Floyd - The Wall. Hún hefur áreiðanlega ekki verið fædd þegar platan kom út en það var síðla árs 1979. Mig langaði að færa þetta í tal við hana, segja henni að þegar þessi plata kom út hafi ég verið í MR, keypt hana í Karnabæ sáluga, þ.e. næsta húsi við Hressó, tekið strætó heim í Eiðismýrina þar sem nú er Eiðistorg, og sett plötuna á fóninn. En auðvitað hefði stúlkunni dauðleiðst að hlusta á þetta þó að hún hefði gert það fyrir kurteisissakir. Æ, hver nennir svo sem að hlusta á okkur gamla fólkið? Ég hitti Sigurð Pálsson og við töluðum bara um veðrið fram og aftur, norðanátt og sunnanátt, og kvörtuðum undan kuldanum. Framsóknarspunalæknir og vinstri-grænn ungliði áttu í hrókasamræðum. Sá vinstri græni virtist ekki ánægður með stefnuna og það hvarflaði að mér að spuni væri að veiða hann yfir í Framsókn. Stelpa sem líka hefur verið fædd eftir að The Wall kom út vísaði einhverjum á sig í gemsa. Hún vissi ekki að Hressó væri við Austurstræti en taldi sig stadda á Laugaveginum. Í sjálfu sér ekki ólógískt en dæmi um fáfræði æskunnar.

Ég gæti hafa hlaupið á mig hér að neðan, í fyrsta skipti í marga mánuði. Ef skjaldkirtilvandamál konunnar er raunverulegt þá er auðvitað allt sem ég skrifaði um kolvetni og matarfíkn markleysa í hennar tilviki. Maður hefur bara svo oft heyrt feitt fólk skýla sér á bak við þennan sjúkdóm sem virðist reyndar var alveg afskaplega sjaldgæfur.

Í Hér og nú er viðtal við fremur þekkta konu sem hefur bætt á sig 25 kílóum og nær þeim ekki af sér aftur (konan er lágvaxin). Hún segist borða Special K. - Það er eitt dæmi um ruglið sem megrunariðnaðurinn hefur komið inn hjá fólki. Það er fitandi en ekki megrandi að borða kolvetnasprengjur eins og Special K. Konan ætti frekar að fá sér egg eða ósætt skyr í morgunmat. Hún ætti ekki að snerta nein morgunkorn og ekki borða brauð nema speltbrauð. Sykur á hún ekki að bragða. Hún á að borða skyr, fisk, kjúkling, grænmeti og ávexti.

Ólíklegt er að nokkur lendi í svona vandræðum án þess að glíma við ofát. Það þarf að takast á við ofátsvandamálið, ekki bara þessi aukakíló. Eitt af fyrstu skrefunum er að sleppa fíklafæði á borð við kornflögur. Þær eru ekkert grennandi þó að þær henti kannski grönnum konum sem borða í hófi og hreyfa sig mikið.

miðvikudagur, október 26, 2005

Bakþankar um Bakþanka

Sko. Það þarf inngang að þessu. Lesendur þessarar síðu vita að ég er fremur hallur undir Sjálfstæðisflokkinn. Þeir vita líka að ég hef stundum minnst á það að mér þyki Fréttablaðið draga taum stjórnarandstöðunnar og Morgunblaðið taum Sjálfstæðisflokkins. Ég hef hins vegar aldrei kallað blaðamenn Fréttablaðsins leigupenna Baugs né nokkrum öðrum slíkum ónefnum enda þekki ég sumt af þessu fólki persónulega. Ég hef ekki talið mig geta tekið ákveðna afstöðu í svokölluðum Baugsmálum enda veit ég í raun ekki frekar en aðrir hver gerði hvað og svo framvegis.

Ég get hins vegar ekki gert að því en ég varð nánast miður mín af lestri Bakþanka hennar Sigríðar Daggar Auðunsdóttur í dag. Málflutningur hennar er í stuttu máli þessi: Sjálfstæðisflokkurinn ærðist vegna gagnrýni á ræðu DO á Landsfundi. Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins gera lítið úr efnahagstillögum Vinstri grænna eftir landsfund þerira. Ergo: Sjálfstæðismenn eru ekki samkvæmir sjálfum sér.

Það sem Sjálfstæðismenn æstu sig hins vegar yfir, með réttu eða röngu, var fjölmiðlaumfjöllun um Landsfund þeirra: Annars vegar það að Fréttablaðið skuli birta sem forsíðufyrirsögn mjög gildishlaðna einkunn ISG á ræðu DO og hins vegar að Kastljósið hafi látið ISG ræðu DO í té áður en hún var flutt, svo hún gæti gagnrýnt hana nánast í sama mund og hún var flutt.

Með öðrum orðum: Með réttu eða röngu gagnrýndu Sjálfstæðismenn matreiðslu blaðamanna á ummælum andstæðinga þeirra um það sem fram kom á Landsfundinum. Auðvitað efast þeir hins vegar ekki um rétt þessara stjórnmálamanna til að gagnrýna það sem þar kom fram.

Að þessi gagnrýni feli í sér að stjórnmálamenn afsali sér réttinum til að gagnrýna tillögur og málflutning hvers annars eins og hann birtist á Landsfundi, er algjörlega absúrd. Þorgerður Katrín er ekki fjölmiðill, hún er stjórnmálamaður, og auðvitað er hún ekki ósamkvæm sjálfri sér þó að hún setji út á tillögur Steingríms Joð. Það er síðan fjölmiðlanna að setja fram og matreiða þau ummæli en ég minnist þess ekki að þau hafi birst gæsalappalaus sem forsíðufyrirsögn, líkt og ummæli ISG um ræðu DO.

Þetta er algjörlega ga-ga málflutningur. Það slæma við hann er að hann kemur úr penna blaðamanns sem skrifaði t.d. fréttir um Baugsmálið byggðar á tölvupóstum. Ennfremur aðrar afhjúpandi og fyrir ríkisstjórnina slæmar fréttir um sölu ríkiseigna. Auðvitað vilja allir trúa því að hlutlaus rannsóknarblaðamennska hafi þar ráðið för og vel má vera að svo hafi verið. En þess vegna er alveg skelfilegt að sjá hinn sama blaðamenn finna sér jafn aumt og rökþrota tækifæri til að kasta hnútum við Sjálfstæðisflokkinn - með grein sem er ekki betri en hvert annað píp og gagg.

Ég vildi óska þess að blessuð konan, sem vel má vera að sé stórgóður blaðamaður, hefði ekki birt þessa grein.

þriðjudagur, október 25, 2005

Stundum þegar ég leita að einhverju mjög afmörkuðu í bókarkafla eða blaðagrein, t.d. nafni, ætla ég stundum að fara að smella á edit-find en átta mig á því að það er ekki hægt af því ég er ekki í tölvunni.

mánudagur, október 24, 2005

Ég er að endurlesa Góða nótt, Silja, eftir Sigurjón Magnússon. Hún er ansi góð og byggingin á henni hentar mér mjög vel til að rýna í meðfram skriftunum. Mig minnir að önnur skáldsaga Sigurjóns, Hér hlustar enginn, hafi ekki verið eins góð. Ég var a.m.k. með einhverja stæla út í hana í ritdómi á Visir.is en kannski var það ósanngjarnt. Sigurjón er a.m.k. góður penni og Góða nótt, Silja betri en mig minnti.

Annars er ÁBS einn af þeim höfundum sem gott er að glugga í þegar skrifa á stutta og hnitmiðaða skáldsögu. Þá má nefnilega sækja margt gott í smásöguna.

Steingrímur J. fær ISG aldrei til að gefa út yfirlýsingu um stjórnarsamstarf fyrir kosningar. Afdráttarlaus yfirlýsing um "græna velferðarstjórn" (þið getið ekki trúað hvað ég fæ mikinn hroll af því að skrifa þessi orð!)útilokar án efa allt of marga kjósendur Samfylkingarinnar sem eru til hægri og myndu vilja stjórn með Sjálfstæðisflokknum. Steingrímur getur ekki fengið Samfylkinguna til að samþykkja eitthvað sem sker fylgi flokksins kannski niður í 20 prósent. Hann veit þetta eflaust, en yfirlýsing hans kemur Samfylkingunni kannski í dálítinn vanda vinstra megin.

sunnudagur, október 23, 2005

Ég varð illa svikinn af plati Kristjóns Kormáks með Tómas Jónsson. Þessi náungi kommentaði stundum á síðuna mína, ég fór að lesa síðuna hans og fékk mikinn áhuga á manninum. Ógæfa hans vakti mér mikla græðgi og mig langaði til að hitta hann. Mig langaði til að vita hvaða sjónvarpsþátt hann væri að vinna við. En svo reyndist þetta allt saman vera plat.

Á hlýjum og regnvotum degi í svartasta skammdeginu árið 1973 gekk ég einu sinni með bróður mínum eftir Öldugötu. Þar námum við staðar og biðum eftir strætó, þ.e. þristinum. Ég efast um að nokkur strætó hafi stoppað við Öldugötu í mörg ár. Gömul kona sem átti leið framhjá okkur tók nokkurra daga gamlan Mogga upp af götunni, las eitthvað á forsíðunni, fleygði blaðinu frá sér aftur og gekk leiðar sinnar. Ég fór að skellihlæja og bróðir minn reyndi að þagga niður í mér. Hvað ætli það sé lang síðan þessi gamla kona dó? Hverjir fæddust þennan dag? Það fólk er komið yfir þrítugt, sumt af því kannski orðið þekkt í samfélaginu.