föstudagur, nóvember 25, 2005

Ég vil ekki dæma bækur áður en ég hef lesið þær og þess vegna las ég tvær síður í Túristanum í hádeginu. Og hló upphátt allan tímann. Hann kallar Kistján B. Kristján b) - Arnald Indriða kallar hann heilagan Arnald af Assisi. - Þannig að til að vega upp á móti hauskúpudómnum gef ég henni fimm dósahlátra.

http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=/20051125/FRETTIR02/51125008/1091 Geta þeir ekki dæmt karlviðbjóðinn áður en hann drepst.

Ný tilvitnun

Færist nú hiti í leikinn ... Og kominn tími til. Þetta er nokkuð hæggeng saga.

http://www.tveir.is/ Þessir náungar tengjast félagsskap sem með réttu eða röngu hefur verið bendlaður við eitthvað vafasamt - í það minnsta karlrembu. Það er hins vegar alveg á hreinu að nú negla þeir niður jákvæða ímynd sína og framtakið er til fyrirmyndar.

Jæja, metafýsisku höfundar

Stefán Máni fær hauskúpu hjá Jakobi Bjarnari í DV í dag.

fimmtudagur, nóvember 24, 2005

Um hvað á ég að skrifa í Blaðið næst?

"Hitt er svo auðvitað skandall, að Geirlaugur hafi endað sína skáldævi í sjóblautum faðminum á Benedikt LaFleur." - EÖN

Hann getur verið orðheppinn, þessi.

miðvikudagur, nóvember 23, 2005

Talandi um fyndni: Djöfull getur hann Hallgrímur verið fyndinn og í nýjustu bókinni er húmorinn beittari og naprari en nokkurn tíma fyrr.

Ég er bara svona létt, lúmskt og skringilega fyndinn.

Spaugstofan er einstaka sinnum fyndin.

Anonymus verður aldrei fyndinn en ber höfðinu við steininn alla ævi, getur ekki hætt að rembast.

Kitlið

7 Hlutir sem ég ætla að gera áður en ég dey

1. Skrifa skáldsögur og fleiri smásögur
2. Verða minna en 100 kíló
3. Fara aftur til Bandaríkjanna
4. Vera með útvarps- eða sjónvarpsþátt
5. Fá æði fyrir nýrri hljómsveit eða tónlistarmanni
6. Vera ekki í föstu starfi
7. Lesa non-fiksjón að staðaldri

7 Hlutir sem ég get gert

1. Verið fyndinn
2. Skrifað
3. Haldið lagi
4. Kýlt menn
5. Sjarmerað fólk
6. Haldið ræður
7. Hlaupið lengi án þess að verða örmagna

7 Hlutir sem ég get ekki gert

1. Teiknað
2. Spilað á hljóðfæri
3. Spilað góða knattspyrnu
4. Ráðið niðurlögum manna sem ég er búinn að kýla
5. Dansað
6. Sagt kjánahrollur
7. Gert við hluti

7 Hlutir sem heilla mig við hitt kynið

1. Stór rass - stæltur, hár en dálítið feitlaginn líkami ásamt fríðu búlduleitu unglegu andliti og strípur í hári
2. Ungur aldur, þó ekki undir tvítugu
3. Unglegar konur um fimmtugt
4. Erla
5. Falleg augu og ákveðið augnaráð
6. Skrýtin rödd - stundum
7. Spontanítet og kæruleysi í tali

7 Frægir kvenmenn sem heilla mig

1. Hanna Birna
2. Stóra svarthærða vinstri-grænan í borgarstjórn; man ekki hvað hún heitir
3. Merkel - nýi kanslarinn
4. Ragnheiður Gröndal (Vá!)
5. Kastljósstelpan, man ekki hvað hún heitir - þessi gáfulega sem Kristján Jóh. blammeraði í hita leiksins
6. Kate Winslet
7. Heiða í Idol

7 orð sem eg segi oftast

1. Rassgat
2. Hóra (lókal grín í vinnunni - táknar ekki konur eða kynlíf)
3. Nám! (með afar sérstökum framburði - lókalhúmor með krökkunum)
4. Herra
5. Þér og yður
6. Gríðarlega (eða skrifa)
7. Skyndilega (þ.e. skrifa)

7 manneskjur sem ég ætla þokkalega að kitla
1. Tinna
2. Ljúfa
3. Kristjón Kormákur
4. EÖN
5. Hildur Lilliendahl
6. Skarpi
7. Pez

Svona færslur kallaði ég einu sinni háskóla - man einhver hvers vegna?

Who-vinir mínir hér, hvernig finnst ykkur Sell Out? Ég skal taka undir að Who´s Next sé besta Who-platan en getur verið að Sell Out sé í 2.-3. ásamt Who Are You?

En ég á ennþá eftir að kaupa Tommy. Ég á hana eftir og Who by Numbers.

þriðjudagur, nóvember 22, 2005

Kristján B. Jónasson birtir nokkuð sérkennileg eftirmæli um Geirlaug Magnússon í Lesbókinni um helgina, grein sem hefur farið fyrir brjóstið á mörgum. Kristján heldur því blákalt fram í greininni að verk Geirlaugs síðustu árin, þ.e. fram yfir ákveðið tímabil (útgáfutímabil hans hjá Máli og menningu) hafi verið lítils virði og maðurinn sjálfur orðinn útbrunnið skar á þeim tíma.
Sjálfur man ég að ein besta bók Geirlaugs, Nýund, kom út í vonlausri útgáfu hjá Valdimar Tómassyni árið 2000 og er hvergi fáanleg.

Engu er líkara en Kristján sé að réttlæta hafnanir sínar á höfundinum með þessari grein. Það er óþarfi. Það er ekki freistandi fyrir bókaútgefendur að gefa út ljóðabækur vegna þess að þær seljast ekki neitt, jafnvel ekki ljóð eftir góða höfunda eins og Geirlaug, og bókaútgáfur á borð við Eddu eru fyrirtæki sem þurfa að borga fólki laun. Þess vegna er ekkert að því að smærri útgáfur sem ekki eru reknar á atvinnumannabasis, sjái um slíkt. Óþarfi er að skrifa vafasöm minningarorð um höfund til að réttlæta þetta.

Ég efast líka um að mönnum þyki þær ljóðabækur sem Benni hefur gefið út eftir karlinn vera eitthvert rugl úr útbrunnum drykkjumanni þó að ég ítreki að mér finnst týnda bókin, Nýund, vera best.

Í Amsterdam árið 1998 skrifaði ég uppkastið að sögu sem heitir Hringstiginn.
Í Frankfurt árið 2001 skrifaði ég uppkast að sögu sem síðan varð aldrei neitt úr.
Í Hildesheim 2003 náði ég að klára söguna Mjólk til spillis og skrifaði upphafið að Fyrsti dagur fjórðu viku. Þetta eru vel lukkaðar sögur úr síðustu bókinni minni.

Í Mannheim í janúar á þessu ári skrifaði ég 10 síður sem áttu að vera upphafið að þessari skáldsögu. Þegar síðurnar voru orðnar rúmlega 20 fleygði ég öllu saman og byrjaði upp á nýtt. Skrifaði 10 síður um páskana og fleygði þeim síðan líka. Í byrjun maí byrjaði ég síðan að skrifa það sem ennþá er í gangi. Fyrir áramótin ætla ég að reyna að klára það uppkast (sirka 100 síður, væru um 150 bókarsíður). Í næstu Þýskalandsferð, þ.e. í janúar ætla ég að byrja á annarri umferð og skrifa eins mikið og ég lífsins mögulega get í þeirri ferð. Staðurinn má helst ekki vera of langt frá Frankfurt því það eyðileggur síðasta sólarhringinn (maður þarf að vakna of snemma í lestina). Darmstadt er líklegasti staðurinn. Ef mér leiðist sú borg of mikið er stutt að fara á aðra staði, nú eða loka sig inni á hótelherberginu.

Ég ætla að taka með mér tvær fartölvur ef önnur skyldi klikka.

Ég ætla að reyna að vera 10 daga en ekki 7 eins og vanalega.

Ég hlakka mikið til. Þetta er mín jólahátíð: hin árlega skáldaferð til Þýskalands - ekkert uppvask, enginn þvottur og engir auglýsingatextar.

mánudagur, nóvember 21, 2005

Ég var að fá pening frá Blaðinu. Ég dröslaðist ekki til að senda þeim reikning fyrr en á fimmtudaginn. Þannig að þeir borga manni nánast um leið og maður sendir þeim reikninginn. Egil Helga dreymdi að Blaðið væri farið á hausinn en sá draumur er ekki að rætast, skv. þessu.

Um jólabækur

Ég er að lesa bæði Rokland og Höfuðlausn þessa dagana og líst vel á báðar. Er búinn með smásagnasafnið eftir Hallberg Hallmundsson - sumt í því er mjög gott og annað heldur klént - og líka smásagnasafn Gyrðis Elíassonar - sumt í því mjög gott en annað heldur of kunnuglegt. Nóvellu Jóns Atla, Í frostinu, var ég hrifinn af. Blóðberg bíður á náttborðinu en nenni ég að lesa 400 blaðsíðna vandaðan og vel fléttaðan reyfara? Jú, ég á hana til góða. Erla er að lesa Feigðarflan eftir Rúnar Helga og er mjög hrifin, hrifnari en ég sem var þó frekar ánægður með hana. - Ég er frekar spenntur fyrir skáldsögum Kristjáns Þórðar Hrafnssonar og Ara Trausta. - Glapræðið fæ ég hjá Skruddu ef ég vakna e-n tíma nógu snemma til að geta komið við hjá þeim á leiðinni í vinnuna.

sunnudagur, nóvember 20, 2005

Samneyti mínu við hina frægu virðast engin takmörk sett

Þráinn Bertelsson, Kristjón Kormákur, Benni Lafleur, Ævar Örn. Þetta eru frægðarmennin sem ég hef átt bein og óbein samskipti við síðustu daga. En ekki nóg með það. Á föstudagskvöldið sá ég sjálfan Jón Gústafsson á Ölstofunni. Ég talaði að vísu ekki við hann en ég sá hann - oft og mörgum sinnum. Svarti hárliturinn er farinn og líka taglið. En þetta var samt Jón Gústafsson, hinn eini og sanni.

Á meðan Kjartan æfði á gervigrasinu áðan skrapp ég inn í KR-heimilið til að kíkja á fótbolta í sjónvarpinu. En þar var bara NFS í gangi. Fréttamaður fletti dagblöðunum og las upp úr leiðurum. Í bakgrunni svolgraði rytjulegur kollegi hans úr gos- eða vatnsflösku. Það er líklega ekki hægt að ætlast til þess að allt efni stöðvarinnar verði bitastætt.

Stuttu eftir að ég komi út fékk Kjartan stungusendingu, renndi sér niður og skoraði sitjandi. Ansi gott.

Skriftir á eftir.