föstudagur, febrúar 03, 2006

http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1183071 Sniðugur strákur. Talandi um málfrelsi til að hæðast að Islam, hvernig getur skólabarn fengið lögregluna yfir sig fyrir að skrifa ritgerð?

Niðurstaðan er sú að Ísland er með 7. sterkasta handknattleikslandslið Evrópu sem þýðir væntanlega 7. sterkasta lið heims, þó má vera að S-Kórea og Túnis blandi sér í hópinn. Það sem skortir á að liðið geri betur er meiri breidd. Heimsklassaleikmenn okkar eru það fáir að keyra verður mikið á sama liðinu. Vonandi getum við gert betur á HM á næsta ári.

Ég held að Rússar séu sterkari en Íslendingar þó að við höfum unnið þá og ég held að við séum betri en Norðmenn þrátt fyrir tapið gegn þeim. Líklega eru Danir betri en við þrátt fyrir jafntefli liðanna, þeir endast altént betur enda með breiðari hóp.

fimmtudagur, febrúar 02, 2006

æ æ æ

Nú hef ég ekki lengur áhuga á EM í handbolta.

Við þurfum að vinna Norðmenn, ná þriðja sætinu í riðlinum og svo vinnum við Þjóðverja í leik um 5. sætið.

þriðjudagur, janúar 31, 2006

Ísland - Rússland

Orðlaus af gleði. Til hamingju, Íslendingar!

Ánægja ríkir á Blaðinu með pistlana mína og þeim fer fjölgandi fremur en hitt. Það birtist einn á morgun. Í svona umhverfi eru menn dæmdir af verkum sínum en þurfa ekki að hirða um klíkuskap, fordóma og snobb eins og vesalingarnir sem þurfa að treysta á launasjóði.

Ég birti nýja tilvitnun hér að ofan fyrir nokkrum dögum. Ég mun halda þessu eitthvað áfram á næstunni.

Ég er búinn að flytja mig um set í vinnunni og kominn við borð í teiknisalnum. Ég sit þar við gluggann og hef útsýni allt vestur á háskólasvæðið. Dásamlegt veður núna og ég naut þess að vera úti í hádeginu.

Ég get ekki séð neitt athugavert við það að rithöfundur leiki í auglýsingu. Er það með e-m hætti innbyggt í ritstörf að vera á móti auglýsingum?

mánudagur, janúar 30, 2006

Starfslaun eða brennivínspeningar?

Ég sótti ekki um starfslaun úr Launasjóði rithöfunda. Satt að segja uni ég mér ágætlega sem rithöfundur í hjáverkum þó að það geti verið erfitt. Erfiðara væri að brúa bilið frá 3ja mánaða launum og 6 mánaða launum upp í heilt ár, nú eða engjast um í froðufellandi bræði yfir því að fá ekki neitt og horfa upp á barnunga amatöra eins og einhvern Val Brynjar vera tekinn fram yfir mig.

Ég stend semsagt utan við þetta allt saman.

Í stillingu hagsmunaleysisins hef ég skilning á því að úthlutanir geta ekki orðið annað en umdeilanlegar og margir verðugir umsækjendur fá höfnun. Ég þekki suma þeirra og finnst að þeir hafi frekar átt að fá starfslaun en sumir sem þau fengu.

En það er enginn skandall. Starf nefndarinnar er erfitt og verður að e-u leyti að litast af fordómum hennar og smekk.

Í úthlutun þessa árs er hins vegar að finna eitt hneyksli og það eru þrír mánuðir Diddu. Hún hefur ekki gefið út bók síðan árið 1998. Á meðan eru fjölmargir höfundar sem hafa verið að senda frá sér efni ár eftir ár undanfarið að fá höfnun. Þetta er móðgun við þá.

sunnudagur, janúar 29, 2006

Um smekksatriði

Strákurinn leigði sér einhverja af Lord of the Rings myndunum í gær. Ég entist þrjár mínútur með honum yfir myndinni og varð mér jafnframt hugsað til þess að ævintýraefni eins og Lord of the Rings, Star Wars, Spiderman og Harry Potter getur aldrei orðið annað en óskiljanlegt og þrautleiðinlegt rugl í mínum huga og gildir þá einu hvaða vinsælda og viðurkenninga það nýtur meðal annarra.