laugardagur, apríl 08, 2006

Erla á afmæli á morgun, hún verður 41 árs. Ég verð 44 í nóvember. Tíminn líður og lífið heldur áfram. Hún hefur þá verið 21 þegar ég hitti hana fyrst.

Það eru fleiri fjölskylduafmæli um helgina. Ég gef því þessari síðu líklega frí. Veit ekki hvort ég kemst í skriftir um helgina en þetta hefur verið nokkuð góð vika í þeim efnum. Bók í haust er samt frekar ólíkleg.

fimmtudagur, apríl 06, 2006

Ég hitti Stefán Mána í hádeginu. Honum líkar hversdagslýsingarnar á bloggsíðunni. Sagði eitthvað á þá leið að yfir 90 prósent af lífi okkar væru hversdagsleiki og því væri illa komið fyrir þeim sem ekki kynnu að meta hversdagsleikann.

Annars var þetta aðallega heitt slúður sem okkur fór á milli. Og einhver pólitík. Of eldfimt samtal fyrir þessa síðu.

Ég gleymdi að segja honum að mamma er aðdáandi hans, þ.e. bókanna. Hefði það glatt hann?

Ég var að búa um rúm dóttur minnar í gærkvöld og setti yfir það teygjulak. Ég fann fyrir einhverju hörðu innan í lakinu og í ljós kom að þetta var þvottapoki. Þegar ég hengdi upp þvottinn hafði mér láðst að tæma allan þvott sem lenti innan í lakinu og þarna hafði því pokinn legið blautur en var nú bæði harður og krumpaður. Ég virti hann fyrir mér og hugsaði: Hversu ómerkilegur getur hlutur verið en samt átt sér eiginlega tilveru? Hversu ómerkilegt getur atvik verið svo það sé ekki lengur í neinar frásögur færandi? Ef til er guð, vakir hann þá líka yfir þessu? Yfir þessum þvottapoka og þessu atviki?

þriðjudagur, apríl 04, 2006

http://www.murinn.is/ Ég á þann heiður að eiga eitt af tilvitnuðu slagorðunum yfir þessari ádeilugrein: "Láttu þér aldrei leiðast" - Í því samhengi hugsaði ég um að unglingum leiðist mjög gjarnan enda eru þeir sjálfir ósköp leiðinlegir, þessar hálfbökuðu verur, með barnsvit og fullorðinshvatir. Ég upplifði að ég væri að skrifa mig inn í þörf fremur en að skapa þörf með skrifum. Ég gekk inn í mótaðan veruleika með þessa setningu.

Ég var að hugsa um það í morgun hvað mér fyndist ég vera í þægilegri vinnu, hvað ég væri búinn að koma mér þægilega fyrir hérna á Laufásveginum. En það fyrsta sem ég sé á visir.is þegar ég lít í vinnutölvuna er að framundan sér harkalegt samdráttarskeið. Hvað eru menn að tala um? Verður samdráttur eins og 2001-2002 eða verður alvöru kreppa? Leiðið mig nú í allan sannleika um þetta.

Ég keypti miða í sæti á Zappa plays Zappa í Máli og menningu í dag. 5.900 kall, takk fyrir. Stundum er gott að vera ríkur og muna ekki um svona. Það merkilega er að ég skuli vera ríkur en vera samt á frekar lélegum launum. Ef Erla myndi sparka mér út (t.d. fyrir að halda við kærustu söngvara), ég þyrfti að kaupa mér íbúð, sjá mér farborða sjálfur og borga tvö barnsmeðlög, þá þyrfti ég að freelanca á fullu. En ég get reyndar fengið haug af slíkum verkefnum. Þarf bara sem betur fer ekki á þeim að halda.

Hvers vegna er ég að tala um þetta? Ég ætlaði ekki að gera það. Ég ætlaði að tala um hvað þessi hljómleikaferð sona og fyrrum hljómsveitarmeðlima hjá Zappa er gott framtak. En auk þess að nefna að hljómleikarnir verða haldnir föstudagskvöldið 9. júní. Ég vona að opnunarleiknum á HM verði þá lokið - Þýskaland:Kosta Ríka. Hann fer fram þennan dag eða þetta kvöld, ég veit bara ekki klukkan hvað.

mánudagur, apríl 03, 2006

Ég spjallaði við bráðhuggulega konu á Ölstofunni á föstudagskvöldið. Þetta var mjög siðsamlegt hjá okkur en hún sagðist eiga 33 ára gamlan kærasta (sjálf var hún 36) sem væri frekar stjórnsamur og hún vildi satt að segja vera laus við hann í kvöld og geta um frjálst höfuð strokið. Hann væri t.d. svo afbrýðisamur að eflaust yrði hann argur ef hann sæi hana tala við mig. Stuttu síðar birtist kærastinn og reyndist vera allþekktur og í seinni tíð nokkuð umdeildur söngvari. Hann benti á mig og spurði stúlkuna hvasst: "Hver er þetta?" - Þau kvöddu samt friðsamlega. Mér líkaði vel við hana. Þetta var ósköp vinalegt.

Ennþá fallegri kona gaf mér auga við barinn, eflaust til að stríða gömlum manninum. Mér þótti það óþægilegt, leit undan, en auðvitað kitlaði það líka þó að ég reyndi að leggja ekki of mikla merkingu í það. Stuttu síðar rabbaði ég við kærasta þeirrar stúlku á salerninu og hann reyndist vera mikill slagsmálahundur. Kom því í ljós þetta kvöld að gott er að láta konur annarra manna eiga sig.

Annars hitti ég haug af fólki: Einar Örn Gunnarsson, Kristjón Kormák, Guttesen og Hermann Stefánsson stöppuðu í mig stálinu út af skriftunum sem satt að segja hafa ekki gengið vel síðan ég kláraði síðustu bók. Einnig ræddi ég við Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur sem mér á óvart er gengin í Samfylkinguna. Enda er hún gift Ágústi Ólafi Ágústssyni. Ég lét hana líka ósnerta.