laugardagur, júní 17, 2006

Ég veit ekki alveg hvað er að gerast hérna hjá mér. Þetta var vettvangur spontant stemningslýsinga úr lífi mínu í bland við skáldskaparpælingur en ég er orðinn voðalega andlaus í þessu bloggi. Sjáum til hvort þetta lagast eftir HM en þessu er sjálflokað ef þetta verður ennþá svona lélegt í lok sumars.

föstudagur, júní 16, 2006

Ekki England - Þýskaland í 16-liða úrslitum. Það viljum við ekki sjá. Bæði lið þurfa að klára sinn riðil og mæta liðum úr 2. sæti.

Ég held að Sigmundur Kristjánsson sé besti leikmaður KR nú um stundir og með betri mönnum í deildinni. KR er á réttri leið eftir sigur á Víkingum.

Ráð við alkóhólisma er ekki að drekka rauðvín. Farið í meðferð sem þannig er ástatt um, þið verðið skemmtilegri, þroskaðri og meira gefandi fyrir vikið. Ekki sóa ævinni í fyllerísrugl - það er bara einn Charles Bukowski, við hinir getum ekki fetað í fótspor hans og eigum ekki að láta ísskápinn, dóp eða brennivín eyðileggja okkur. Ég segi þetta í einlægni, ég er í sannleika sagt ekki að reyna að koma höggi á neinn. "Take an advise from an enemy."

Mér finnst þetta sumar alveg óvenjulega kalt og var ég þó ekki með neina draumóra um sumarhita. Er þetta rétt hjá mér eða er ég orðinn kulvísari?

fimmtudagur, júní 15, 2006

Klinsmann er um margt snjall þjálfari. Varamennirnir sem gerðu út um leikinn í gærkvöld, David Odonkor og Oliver Neuville, voru langt frá því sjálfvaldir í landsliðið, en Klinsmann veit hvað hann er að gera. Svo er bara að sjá hvað öll þessi skynsemi, samstaða og leikgleði fleytir Þjóðverjum langt. Að ógleymdri seiglunni.

miðvikudagur, júní 14, 2006


Ég er kominn með Sýn, fékk eldri gerðina af afruglara og hef því stöðvarnar en ekki Digital Ísland. Það er mikill næntís-fílingur í þessum gamla myndlykli, tvíhnepptir jakkar, greitt til hliðar og alles.

Hlakka rosalega til að horfa á Þýskaland - Pólland. Miroslav Klose er uppáhaldsleikmaðurinn minn. Hann er maður með stíl, fagnar mörkunum sínum með því að kyssa giftingarhringinn sinn, er lúsiðinn, frábær skallamaður, frábær skotmaður og toppkarakter.

mánudagur, júní 12, 2006

Dálítil markleysa þessi fótboltafærsla áðan því Ítalir drógu sig aftur í seinni hálfleik og beittu skyndisóknum.

Fótboltinn að breytast?

Ég var að horfa á fyrri hálfleik hjá Ítölum og Ghanamönnum. Það vekur athygli mína að tvær leiðandi knattspyrnuþjóðir og annáluð varnarlið, Þýskaland og Ítalía, eru bæði farin að spila dúndrandi sóknarleik þar sem sótt er á flestum mönnum liðanna og mikil áhætta tekin. Ítalirnir virðast þó ráða mun betur við þetta en Þjóðverjarnir að því leyti að þeir eru öruggari í vörninni þegar þeir spila þessa taktík.

Í hitteðfyrra tók ég of oft leigubíl í vinnuna. Ég viðurkenni það núna þó að ég hafi á sínum tíma oft reynt að malda í móinn og gera lítið úr viðskiptunum. Erla hafði spurnir af þessu í gegnum iðnaðarmenn sem unnu að viðgerðum við húsið og henni var ekki skemmt. Ég hef vanið mig af þessum ósið síðustu misserin. Í morgun var ég hins vegar orðinn seinn fyrir og tók leigubíl aldrei þessu vant, eitthvað sem ég hef ekki gert mánuðum saman. Þá ók í hlað lifandi sönnun þess að ég hefði tekið of oft leigubíl á sínum tíma því ég kannaðist afar vel við bílstjórann og hann við mig og hann hrópaði um leið og ég renndi aftur hliðarhurðinni: "Voðalega líturðu vel út! Þú hefur grennst og ert eitthvað svo ferskur!"

Ég lofa því að þessi náungi sér mig ekki á næstunni.

sunnudagur, júní 11, 2006

Ég á 12 ára brúðkaupsafmæli í dag, sunnudag. Er það ekki silki? Við giftum okkur 11. júní 1994 í Neskirkju (Sr. Frank Halldórsson) og veislan var í Skólabæ við Tjarnagötu. Erla var mjög falleg þennan dag og við vorum ung, það sést á myndunum. Ég var 32 ára. Freyja var komin í magann á Erlu en það sá ekki á henni. Ég var innan við 95 kíló. - KR vann bikarinn þetta sumar undir stjórn Guðjóns Þórðarsonar. Í hálfleik, í bikarúrslitaleiknum (KR-Grindavík 2-0) stóð ég fyrir uppákomu, vítaspyrnukeppni á vegum símaþjónustu sem ég stóð að. Keppnin var algjör katastrófa og það tókst ekki einu sinni að klára hana. - Þetta sumar reyndum við árangurslaust að taka þátt í 50 ára lýðveldisafmælinu á Þingvöllum en snerum til baka eftir langa bið í bílalest. Mér tókst hins vegar að koma smásögu inn í smásagnakeppni sem útvarpið stóð fyrir í tilefni afmælisins. - Ég vann niðri í Miðlun við Ægisgötu, Erla vann í gamla símahúsinu við Austurvöll. Við vorum ung og spræk og erum það eiginlega ennþá. Þetta líf er stanslaus leið upp á við. - Ég var ennþá nánast óþekktur, hafði varla gefið út bækur og ekki skrifað svona mikið af greinum, þannig að það hefur breyst töluvert. - Þetta sumar var líka HM, í Bandaríkjunum. Brasilía varð heimsmeistari, Þýskaland datt úr í 8-liða úrlitum. Þeir höfðu reyndar titil að verja.

12 ár. Mér finnst eins og þau séu sirka fimm.

Mestu munar að eiga börnin. Ekki slefandi handóða óvita sem halda fyrir manni vöku, heldur stóra og skemmtilega krakka.