föstudagur, júlí 07, 2006

Þá er SME orðinn ritstjóri á Blaðinu. Nú sér maður væntanlegar einhverjar breytingar. Og þegar betur er að gáð þá kemur í ljós að Blaðið breyttist eiginlega ekki neitt með tilkomu Ásgeirs Sverrissonar. Það eina sem hann afrekaði var að reka mig. En það þarf meira til að rífa upp Blaðið en að reka nokkra vonda pistlahöfunda og ráða mömmu þeirra (mamma skrifar um stjörnumerki í Blaðið). - Þetta ætti að verða eitthvað hressara hjá þeim núna.

fimmtudagur, júlí 06, 2006

Tímaritið Þjóðmál hlýtur að vera búið að festa sig í sessi með nýjasta heftinu sem er alveg einstaklega fýsilegt og fjölbreytt. Þó að umrædd væn hægri slagsíða sé á ritinu er hér alls ekki á ferðinn neitt einhliða áróðusrit enda má finna þarna penna á borð við Örn Ólafsson og Einar Karl
Haraldsson. Allir sem hafa áhuga á þjóðfélagsumræðu ættu að kynna sér Þjóðamál.

Ég var að skoða sérkennilega útihurð á Hallveigarstíg í hádeginu þegar útgefandinn minn (þ.e. annar þeirra) stöðvaði bifreið sína og galaði á mig. Hann var með nokkrar bækur í framsætinu, þar af eitt eintak af minni síðustu, og var á leið með þetta í Bóksölu stúdenta. Við tókum létt fótboltaspjall, hann var í skýjunum eftir Ítalíu-Þýskaland og greinilegt að hans menn höfðu unnið. Mikill útgáfufiðringur greip mig við þennan fund og mér sveið skyndilega að koma líklega ekki frá mér bók fyrir haustið. Langaði ekkert heitar en að drukkna í jólabókaflóðinu, seljast í 200-300 eintökum, fara í fýlu út í Moggann, verða ofsóknarbrjálaður.

Það er auðvitað tilgerðarlegt að skrifa á kaffihúsum og það gerir enginn frægur rithöfundur. Eða gætuð þið séð fyrir ykkur Hallgrím Helga og Arnald Indriða að pára í moleskinnu á Súfistanum eða hamra á fartölvu á Hressó? - En málið er að þetta snarvirkar fyrir mig. Á slíkum stöðum kemst ég virkilega burt frá öllu því sem vanalega truflar mig, það er ekkert þvottahús eða uppþvottavél, engin auglýsingastofa, bara ég og orðin og mannlífið í kring, fólk á næstu borðum, vegfarendur fyrir utan gluggann. Svo lifi tilgerðin!

Það gengur mjög vel núna en ég er of seinn fyrir haustið. Verð ljómandi klár fyrir þarnæsta haust og örugglega löngu búinn með þetta þá.

miðvikudagur, júlí 05, 2006

Þeir segja að niðursveiflan sé hafin. Í síðustu niðursveiflu missti ég vinnuna og þurfti að frílansa við svo auðmýkjandi verkefni sem skrifa íþróttafréttir á netið. Ég hef nú svo sem ekki miklar áhyggjur af því að það endurtaki sig. Síðasta lending var þrátt fyrir allt þokkaleg mjúk. Hvernig verður þessi? Annars er ég bara að éta upp frasa sem blaðamenn éta upp eftir sérfræðingum. - En mér finnst eins og að upp úr 1990 hafi verið kreppa (sem ég reyndar þreifst vel í) en bakslagið upp úr 2000 hafi bara verið léttur samdráttur.

Til hamingju, Ítalía!

Það eru tvær hliðar á öllum málum. Það góða við tapið í kvöld er að nú minnkar truflunin af fótboltanum á önnur og mikilvægari mál og verkefni. Maður verður aftur gamli, góði meistarinn sem nýtur sín best í tíðindaleysinu. Það skilar sér í meiri afköstum í sagnagerðinni og kannski betra bloggi.

Ítalirnir verðskulduðu sigurinn í þessum frábæra leik. Þjóðverjar eru með klassalið en Ítalir eru betri. Svo einfalt er það.

þriðjudagur, júlí 04, 2006Die MannschaftMit den Kindern

http://www.mbl.is/mm/folk/frett.html?nid=1210470 Þetta er bókmenntaumræða dagsins, þetta er bókmenntaheimurinn í dag. Heimskan er þar jafnráðandi og í sápuóperum gærdagsins. Við gömlu mennirnir eigum engan sjens í þetta. Við yrkjum dróttkvæði nútímans, glímum við úrelt fyrirbæri: bókmenntir, eins og þær voru ennþá fyrir tíu árum.

Það er Sebastian Kehl sem leysir Frings af hólmi. Ég hef hingað til ekki haft mikla trú á honum en það er einhvern veginn eins og hver einasti leikmaður í þessum hóp geti staðið sig vel um þessar mundir.

Torsten Frings er í banni gegn Ítölunum. Á myndum af slagsmálunum sem brutust út eftir vítaspyrnukeppnina gegn Argentínu á hann að sjást greiða Argentínumanninum Cruz hnefahögg. Argentínumenn störtuðu þessum slagsmálum og Frings segist aðeins hafa beitt ósjálfráðum varnarviðbrögðum enda hefðu hnefahöggin í þvögunni riðið á honum sjálfum. Cruz heldur því líka fram að Torsten hafi ekki slegið sig, hann hafi a.m.k. ekki orðið þess var. Mér finnst þetta mjög ósanngjarnt en ég er líka hlutdrægur. Spurning hvort Borowski fylli skarðið, hann er nokkuð öðruvísi leikmaður og eiginlega betur til þess fallinn að leysa Ballack af hólmi. Þetta er samt ekki óbætanlegt, það er hungraðir piltar á bekknum. - Ég hef alltaf haldið með Þjóðverjum en núna finnst mér þeir frábærir, ég hef aldrei haldið eins upp á þá og núna, þrautseigir karakterar, karlmennskan holdi klædd.

mánudagur, júlí 03, 2006


... og ég er að verða gamall. So be it.


Þessi mynd er lifandi vitnisburður um að Þjóðverjar gera allt til að vinna. Ofurstoltir fjandvinir sýna hvor öðrum blíðu - allt í þágu sigursins.

Torsten Frings gæti farið í bann gegn Ítalíu vegna slagsmálanna sem urðu eftir vítaspyrnukeppnina við Argentínu. Myndir sem Ítalirnir hafa dregið fram virðast sýna Frings slá frá sér með krepptum hnefum. Hann segist sjálfur saklaus og sá sem hann á að hafa slegið segir að svo hafi ekki verið.

Annars hef ég á tilfinningunni að Ítalirnir vanmeti Þjóðverjana dálítið og telji sig miklu sterkari. Ég held að Argentínumenn hafi gert það líka. - Frakkar virðast sigurstranglegri í hinum leiknum en maður veit það svo sem ekki.

sunnudagur, júlí 02, 2006

Undir umræðu dagsins kraumar alltaf einhver önnur umræða, sem fer lægra, og umræða um 12 spora kerfið vekur alltaf áhuga minn af því ég upplifi mig sem byrjanda í fræðunum. Ég minntist um daginn á greinar eftir Bjarna Harðarson í Blaðinu. Þórarinn Þórarinsson, badabing.is, tekur upp þráðinn frá mér.


"Þetta snýst alltaf um guð eða æðri mátt samkvæmt skilningi hvers og eins á honum og það virkar m.a.s. fyrir trúleysingja," segir sá sem allt veit.
Búllsjitt segi ég og þess vegna spóla alvöru trúleysingjar alltaf í öðru sporinu. Allt, hvað sem það er, sem grundvallast á einhvers konar trú og afsali heilbrigðrar skynsemi er fyrir auminga og þess vegna er allt morandi af slíkum á AA fundum.
Æðri máttur, (The Force telst ekki með, obviously), guð eða hvað sem fólk vill kalla þessa óra, hvering svo sem hver og einn skilur hann, er hvergi til nema í haunum á viðkomandi og þess vegna er meðaledrútími alvöru dópista sem ánetjast AA eða Krossinum maximum 2 ár. Síðan byrjar hann aftur og drepst fyrir rest sem er einmitt eina lausnin á vandanum (sem væri ekki vandi ef ekki væri fyrir umhverfi og aðstandendur)."

--------------------

Málið er að í augnablikinu hef ég ekki hugmynd um hvort hann hefur rétt fyrir sér eða ekki. Ég hef reynslu af því sjálfur að það getur virkað fyrir trúleysingja að einfaldlega þykjast vera trúaður, hreinlega feika prógrammið - en ég veit ekki hvort það virkar til lengdar. Það vekur líka athygli mína að hann virðist leggja AA og Krossinn að jöfnu og það leiðir aftur hugann að því sem Bjarni segir, að trúarofstækismenn séu að leggja undir sig AA-samtökin. - Kannski þarf að nútímavæða þessi fræði, kannski ganga þau ekki upp fyrir þá sem ekki eru trúaðir. Ég veit bara að það er til áfengismeðferð og dópmeðferð og hún virkar á suma en misjafnlega lengi. Prógrammið getur líka virkað á spilafíkla og átfíkla. En ég veit ekki á hvað marga og hve lengi.

Það sem mér þykir einna merkilegast er það að krónísk ofátsárátta eins og ég þekki hana er í grunninn alveg nákvæmlega eins og áfengissýkinni er lýst í AA-bókinni. Enda segja menn að þetta snúist ekki um mat eða áfengi heldur hausinn á manni.

Sjálfur er ég laus við ofát eins og ég stundaði það áður fyrr en mér hefur reynst ókleift að draga svo úr matarneyslu að hungrið sverfi og ég missi það sem eftir er af aukakílóum. Sá sem segir að hungrið þurfi ekki að sverfa að til þess hefur rangt fyrir sér þegar um er að ræða miðaldra menn sem hafa verið of þungir alla ævi.

Það var ánægjulegt að rekast tvisvar á Árna Bergmann á fjölmiðlavakt helgarinnar, annars vegar með Kaldastríðsgrein í Lesbókinni og hins vegar í vikuspjalli ásamt Þórlindi Kjartanssyni og Lóu Aldísardóttur á NFS. Ég er þrátt fyrir allt orðinn svo gamall að ég hugsa oft með mér: Hvað verður um þessa menn sem maður las alltaf? Hvers vegna rekst ég ekki vikulega á grein eftir Árna Bergmann? Pistladálkar blaðanna virðast mér yfirfullir af hugleiðingum tvítugra blaðamanna um raunveruleikaþætti eða það eru þrítugar fyllibyttur að skrifa um hryllingsmyndir.

Og þó. Býsna snjallir voru Bakþankar Bergsveins Sigurðssonar um óbeit hans á útilegum. Engu síðri birtist síðan náttúrudýrkandinn Andri Snær í sjónvarpinu (Örlagadagurinn).

Ég met nefnilega fólk ekki eftir skoðunum. Það er framsetningin sem skiptir öllu máli, fersk sýn, húmor, stílþróttur og helst einhver lífsreynsla undirliggjandi.

Myndi líklega sjálfur fá harðan dóm hjá sjálfum mér þessa sumardaga. Hef fátt að segja annað en gjamm um HM í fótbolta. Þetta bloggform á skoðunum mínum og hugleiðingum er að verða nokkuð útjaskað. Annaðhvort þarf ég að fríska upp á það eða finna mér annan vettvang.

En sumarið má alveg líða án þess að það skýrist.