fimmtudagur, júlí 13, 2006

Ég fékk þetta meil í morgun:


Dear Ágúst Borgþór,

After having consulted with our Icelandic reader, we would very much like to include the story you sent to us in our anthology - do you have a direct contact at Skrudda so we can sort out a rights contract for the story?

Many thanks,

Yours,
Maria Crossan

Assistant Editor
Comma Press
www.commapress.co.uk

Ég elska það að fara í taugarnar á trylltum fyllibyttum. Mér finnst hins vegar ekkert gaman að svona sé komið fyrir þeim, þó að ástandið sé í aðra röndina fyndið og alltaf svo dæmigert: ofsóknaræðið, allir á móti þeim og fíflunum fjölgar með hverju andartaki í kringum þá.

Það mátti kannski skilja af færslu frá því í gær að ég væri ekki hrifinn af því að Murakami væri hrifinn af köttunum í Þingholtunum. En mér finnst þetta einmitt frábært hjá honum.

miðvikudagur, júlí 12, 2006

Þegar gamli góði meistarinn verður spurður að því í jólavertíðinni 2007 hver sé nú munurinn á því að skrifa skáldsögu og smásagnasafn mun hann líklega svara því til að skv. hans reynslu sé munurinn nánast enginn.

Ég fer til Vestmannaeyja annað kvöld og verð fram á sunnudaginn. Þetta er stór fjölskylduferð með haug af öðrum millistéttarfjölskyldum. Þarnæstu helgi er líklega kominn tími fyrir partý með strákunum og langþráðan skrepp á Ölstofuna. Sú kvöldstund verður ekki fyrir neina stórtemplara sem ættu frekar að halda sig heima og reita arfa í garðinum sínum.

Charles Bukowski er einn af þeim höfundum sem ég hef lesið hvað mest þó að ég af einhverjum ástæðum minnist sjaldan á hann. Reyndar hef ég lítið lesið ljóðin hans en líklega allar útgefnar smásögur og flestar skáldsögunar. Ég er einna hrifnastur af æskusögunni Ham on Rye. - Í gær fann ég í Mál og menningu ævisögu Bukowskis, eftir Barry Miles, og las nokkra kafla úr henni. Þetta er einstaklega læsilegur og fallegur texti og erfitt að leggja bókina frá sér og mæta aftur í vinnuna eftir mat.

Ég nenni ekki að lesa Flugdrekahlauparann. Búinn með einn kafla. Ég veit ekki. Þetta er eitthvað svo ólíkt því sem ég er vanur að lesa og hún virðist vera ein af þessum bókum sem heimurinn elskar og allir sem ekki hafa áhuga á bókmenntum lesa. Hún fer eitthvað í mig.

Birthday Stories er smásagnasafn sem Hari Murakami hefur sett saman. Hann velur sögur eftir ýmsa höfunda sem allar hafa eitthvað með afmæli að gera. Murakami hefur góðan smekk og þarna er töluvert af höfundum sem ég held upp á, t.d. Ethan Canin og Russell Banks. Murakami á sjálfur eina sögu í bókinni og hún er mjög góð. Þetta er ágætisnáungi og góður höfundur en fer stundum dálítið í taugarnar á mér. Mér finnst hann of trendí, hlustar á Radiohead og Blur í bílnum sínum, þó að hann sé kominn vel á sextugsaldur. Það er dæmigert fyrir það hvernig Murakami skoðar heiminn að það sem honum fannst merkilegast við Reykjavík þegar hann kom hingað á bókmenntahátíð voru kettirnir í Þingholtunum.

þriðjudagur, júlí 11, 2006

Óvæntur áhugi vakinn

Magni tekur My Generation með The Who í Rockstar í nótt kl. 1 á Skjá einum.

mánudagur, júlí 10, 2006

Aðeins um bronsliðið

Merkilegt er hvað leikur og öll framganga þýska landsliðsins í knattspyrnu hefur gjörbreyst. Nokkrir punktar:

- Þjóðverjar skoruðu flest mörkin á HM

- Þýska liðið spilar stífan sóknarleik og tekur mikla áhættu - beitir t.d. mjög sókndjörfum bakvörðum. Áður fyrr var þetta þveröfugt.

- Þjóðverjar spila núna mjög hraðan bolta - en liðið var óvenjuhægfara hér áður fyrr miðað við standardinn á því.

- Þýsku leikmennirnir eru heiðarlegir. Þeir eru ekki grófir og fá sjaldan spjöld, þeir hoppa upp úr tæklingum og eru aldrei með leikaraskap og þeir missa ekki stjórn á skapi sínu. Þeir tala hvorki um mömmur né systur andstæðinga sinna og því síður klípa þeir þá í geirvörturnar.

Tíska eldist misjafnlega, þ.e. það sem dettur úr tísku lítur ekki endilega illa út eftir það og kemst síðan aftur í tísku. Annað virkar hins vegar skelfilegt þegar frá líður. Ég er viss um að það mun aldrei komast í tísku aftur að vera annars vegar í krumpuðum, ljósum khakíbuxum með stórum hliðarvösum og hins vegar sléttum og fínum jakkafatajakka. Þessi samsetning er hins vegar mjög inni núna þó að í rauninni líti þetta út eins og fatalaus maður hafi komist yfir fullkomlega ósamstæð föt.

http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=/20060710/SKODANIR04/107100001/1132 Einhvern tíma hefði orðaleikjameistari Samfylkingarinnar gefið nýrri forystu Sjálfstæðisflokksins kredit sem og nýjum borgarstjóra. En núna er hann orðinn flokksbundinn. Eiginlega er Egill Helgason orðinn eini hlutlausi pólitíski pistlahöfundurinn í þessum gæðaflokki. - Það kemur ekkert nýtt frá stjórnarandstöðunni og hún er ekki trúverðug. Þess vegna er endurnýjun meðal stjórnarflokkanna betra en ekki neitt því líklegast er að þeir haldi völdum.

sunnudagur, júlí 09, 2006

Ég var staddur einu sinni sem oftar í Máli og menningu upp úr klukkan hálfsex í dag. Segir þá mamma ein við barnið sitt: "Nú skulum við flýta okkur heim að horfa á leikinn." - Ég held að það sé ekki oft sem ca. 35 ára gömul kona segir slíkt við ca. 6 ára barn. Líklega bara á fjögurra ára fresti, fyrir úrslitaleik HM. Ég efast um að úrslitaleikur EM nái slíkri útbreiðslu.

Það er sérkennileg tilhugsun að fyrsti leikur Ítala undir stjórn Lippi hafi verið 0-2 tap fyrir Íslendingum á Laugardalsvelli. Síðan þá hefur íslenska landsliðið verið á stanslausri niðurleið.

Ísraelar eru sem fyrr duglegir að myrða Palestínumenn. Umræður um hvors aðilans sé sökin vekur upp í hugann heimilisofbeldi þó að líkingin sé að öðru leyti út í hött: Þetta er alltaf ójafn leikur og Palestínumenn eru hinir undirokuðu. Rétt eins og karlmaðurinn er alltaf hinn sterki í líkamlegum átökum við konur og konur/karlar gagnvart börnum. - Daglega sér maður fréttir um sjálfsmorðsárásir, nauðganir og barnsmorð. Engu að síður grunar mig að í heildina hafi dregið úr átökum í heiminum síðustu áratugina. Heimurinn lagast en hann gerir það bara svo hægt. Hér vantar sérfræðing til að kortleggja átök og ofbeldi á heimsvísu frá seinna stríði. Grunar að hann myndi staðfesta þessar getgátur mínar. - Það er líka sláandi og jákvætt hvað harðstjórnum hefur fækkað mikið í heiminum síðustu áratugi.

Við tjölduðum við Seljalandsfoss á föstudagskvöldið og komum heim rétt fyrir leik Þjóðverja og Portúgala í gær. Ferðin átti sín augnablik þó að mér þyki að mörgu leyti hryllilegt að sofa í tjaldi. Ein nótt hverju sinni er hins vegar allt í lagi.