laugardagur, ágúst 05, 2006

Í Lesbókinni er fróðleg og skemmtileg grein um Lolitu eftir Nakobov, þar sem fram kemur að söguþráður hennar sé nánast sá sami og í samnefndri, óþekktri smásögu þýsks höfundar sem kom út árið 1916.

Ég er þeirrar skoðunar að söguhugmyndir einar og sér séu lítils virði og í mínum huga er ritstuldur óhugsandi án þess að notast sé beinlínis við texta fyrirmyndarinnar. Skáldskapur verður til í byggingu, stíl, andrúmslofti. Hugmynd verður ekki góð fyrr en hún er látin virka í texta og textinn er vinnan, sköpunin, afrekið. Söguhugmyndin í Lolitu hefði í höndum einhvers annars getað orðið gjörsamlega banal, misheppnuð og öllum gleymd. Ég efast jafnframt um að það sé auðveldara að endursemja verk með þessum hætti en semja alveg nýja sögu.

Árið 2003 kom út hér á landi skáldsagan Ferðbúin eftir Baldur Gunnarsson en sú saga er augljóslega meðvituð endurskrift á Seize the Day eftir Saul Bellow. Ferðbúin er mjög harmræn saga og vel skrifuð, er í raun bæði sjálfstætt verk og endurgerð sögu Bellows. Aðalpersónur sögunnar eru mæðgur í stað feðga hjá Bellow. Svikahrappur sem afvegaleiðir aðalpersónuna og nýtir sér veikleika hennar er jafnframt kvenkyns hjá Baldri en karlmaður hjá Bellow. Aðalpersóna Seize the Day er hálffimmtugur fráskilinn karlmaður sem fær ekki að hitta börnin sín og er að verða gjaldþrota, m.a. vegna fjárkrafna eiginkonunnar fyrrverandi en þó umfram allt vegna eigin óráðsíu. Fráskilda konan í sögu Baldurs er hins vegar með börnin hjá sér en á erfitt með að sjá þeim farborða og eiginmaðurinn hótar leynt og ljóst að ná börnunum af henni. - Samband aðalpersóna beggja bókanna við móður/föður er keimlíkt. New York sjötta áratugarins er lifandi og áþreifanlegt sögusvið í sögu Bellows og það sama má segja um Reykjavík nútímans hjá Baldri Gunnarssyni. Fróðlegt væri að bera sögurnar betur saman og greina meira frá efni þeirra en ég nenni því ekki og hef annað að gera.

föstudagur, ágúst 04, 2006

Þessari bloggsíðu mætti lýsa sem rúmlega tveggja ára tilraun í að skrifa án þess að vanda sig, framkvæmd af atvinnupenna sem í öðrum ritverkefnum þarf að vaka yfir hverju orði.
Ég hef verið að renna yfir gamlar færslur og með nokkuð mikilli einföldum finnst mér árið 2004 svo skelfilegt að ég vildi helst þurrka það út úr kerfinu. Árið 2005 finnst mér hins vegar gott en 2006 er stöðnun og endurtekningar. Af því mætti ráða að sami maðurinn hafi verið vanþroskaður árið 2004, þroskaður árið 2005 en sé núna orðinn staðnaður.

Þannig er þetta auðvitað ekki, þ.e. þetta stemmir ekki með manninn sjálfan en bloggið virkar svona á mig.

En ég þarf að breyta þessu. Veit samt ekki hvenær og hvernig ég geri það.

Hedonismi hinna sex ára

Við reynum auðvitað að ala börnin þolanlega upp og kenna þeim góða siði. Pabbinn gæti auðvitað verið betri fyrirmynd en ekki meira um það. Varðandi strákinn hefur aðalverkefnið verið að koma í veg fyrir að hann spili tölvuleiki allan sólarhringinn. Það hefur svo sem tekist ágætlega og í sumar er hann úti í fótbolta meira og minna allan daginn, sem er gott.

En hann þarf sitt fyllerí eins og aðrir. Sínar svallveislur. Svo í dag fór ég með hann í Skífuna og leyfði honum að velja sér tölvuleik. Þvínæst gaf ég honum pizzu og stóran ís. Síðan má hann hanga í tölvuleiknum í allt kvöld og hefur ekki látið segja sér það tvisvar. Hann gæti örugglega setið yfir honum matarlaus og svefnlaus í viku. - Morgundagurinn verður eitthvað spartanskari en leyfum honum að njóta kvöldsins.

Það er alveg merkilegt hvað hann Gyrðir virkar misjafnlega á mann. Stundum virðist textinn of kunnuglegur og nær ekki að hreyfa við manni, stundum hittir hann beint í mark. Ég held að þetta snúist ekki svo mikið um verkin sjálf heldur mismunandi ástand manns eigin móttökuskilyrða. Altént kíkti ég í Steintré í dag á Súfistanum og kolféll fyrir nokkrum sögum, t.d. þessari sem hann tileinkar Jens Siggaard, ég man ekki titilinn í svipinn. Rosalega mögnuð og flott hrollvekja sú saga. Það þarf að kiljuvæða hann meira, Steintré kostar t.d. ennþá tæpar 4.500 krónur og ég tími því ekki en ég myndi glaður kaupa hana í kilju. Matartíminn var búinn þegar ég var kominn að sögunni um tónlistarkennarann sem fer til Düsseldorf að kaupa píanó. Ég les hana á morgun.

Takk, Gyrðir, enn og aftur, fyrir innblásturinn.

fimmtudagur, ágúst 03, 2006

Ég keypti jakkaföt í dag sem eiga að vera hin eiginlegu spariföt. Gömlu sparifötin bætast því við hversdagsflotann. Nýju fötin eru sparileg og skera sig frá hinum hvað áferð snertir þó að þau hafi reyndar verið ansi ódýr, lækkuðu úr 30 í 20 á útsölu. Freistingin að klæðast þeim er hins vegar nánast óbærileg. En ég get það ekki, ég yrði algjörlega að sýnisjúku flóni í vinnunni ef ég dúkkaði upp í þessu og settist í þeim innan um kaffimálin og draslið við borðið mitt. Helst þyrfti einhver að bjóða mér í skírn eða brúðkaup eða afmæli á næstunni.

Þannig að ég glími við mín vandamál eins og aðrir.

miðvikudagur, ágúst 02, 2006

Smá bitleysi og leiðindi

Ehemm, er ÞÞ alveg rétti maðurinn til að segja okkur að það sé óhætt að djamma í miðbænum fyrir slagsmálahundum? Ekki það, hann hefur örugglega rétt fyrir sér, og þetta er ágætur pistill hjá honum í Fréttablaðinu, en þeir sem lesa bloggið hans vita að hann er búinn að vera á samfelldu fylleríi í 8 mánuði og um síðustu helgi forðaði fyrrverandi eiginkona hans honum þráfaldlega frá slagsmálum. Svo finnst mér það óþarfa raunsæi hjá teiknaranum að fanga það svona vel hvað pilturinn hefur látið á sjá síðustu árin.

þriðjudagur, ágúst 01, 2006

Karlagrobb

Var að gefa blóð. Og hvað haldiði að gamli góði meistarinn sé með mörg púlsslög á mínútu?

54.

Dýrlegt var að sjá KR vinna Fylki á útivelli í blíðunni í kvöld, enn eitt blíðviðriskvöldið. Ég er þegar farinn að sakna verulega toppbaráttu og titla en í haust verða þrjú ár síðan mínir menn fögnuðu stórum titli. En sigrarnir eru alltaf sætir, ekki síst á sterkum útivöllum. Þó er reyndar alltaf skemmtilegast að fylgjast með liðinu á KR-vellinum.

Heimavellir í íbúðahverfum eru annars mjög sjarmerandi, sérstaklega í góðu veðri, og gaman að fylgjast með fólki streyma að fótgangandi, eins og margir hverjir gera. Þetta gildir bæði um KR-völlinn og Fylkisvöllinn. Óneitanlega finnst mér KR-völlurinn flottari en hinu er ekki að neita að útsýnið kringum Fylkisvöllinn er mjög skemmtilegt. Það varð heitt þarna niðri í dalnum, mælirinn á vallarklukkunni sýndi 17 stig en manni leið eins og þau væru vel yfir 20. - Stuðningsmenn KR eru margir hverjir frábærir, sérstaklega hópur pilta sem syngur lög um leikmenn og hrífur aðra áhorfendur með sér í hvatningu.

mánudagur, júlí 31, 2006

Það var gaman að upplifa tónleikana í gærkvöld. Allt hjálpaðist til að gera þetta að sérstakri upplifun: tónlistin, mannhafið, staðsetningin og umfram allt veðrið. Það var mjög sérstakt að labba með Erlu og krökkunum eftir Rauðarárstígnum og Hlemmtorgi, seint að kvöldi, í þessu hlýja veðri, á stöðum þar sem ég hef oft þvælst um einn með sjálfum mér.

sunnudagur, júlí 30, 2006

Ástin fiskanna er með því flottasta sem ég hef lesið á íslenskri tungu seinni árin. Lúmsk, margslungin, stutt, hnitmiðuð, djúp, stílhrein - allt eins og ég vil hafa það. Ég á enn eftir að lesa Sólskinshestinn. Það gerist einhvern tíma. Það tók mig 10 ár að opna Ástin fiskanna.

http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=/20060730/LIFID01/107300012/1120 Þessi náungi er frábær sögumaður í mæltu máli, ekki síst þegar hann segir frá ævintýrum návinar síns, Benedikts Lafleur. Hann er líka óþægilega góður fjölskyldufaðir og því óæskilegt að fá hann í of langar heimsóknir, því segi hann of mikið af högum sínum fær Erla óæskilegan samanburð.

Talandi um tónlist, þá ætla ég að vera mainstream í dag og mæta með fjölskyldunni á Miklatún í kvöld. Okkur Erlu líst reyndar ágætlega á þetta en við þurfum að pína börnin með okkur. Freyja, í sinni forgelgju, brást afar illa við tíðindunum í gær, þ.e. um að við færum að hlýða á Sigurrós. Þá sagði ég: "En þú hefur alltaf sagst vilja komast á tónleika". Hún svaraði: "Já, en ekki svona ógeð."

Ég kláraði 1. hlutann af bókinni á föstudagskvöldið, sem jafnframt er í sjálfu sér býsna löng smásaga og hef haldið upp á það með því að stunda eðlilegt fjölskyldulíf um helgina. Við vorum t.d. stóran hluta gærdagsins í Elliðaárdalnum. Ég er gríðarlega spenntur fyrir framhaldinu, þeirri botnlausu vinnu sem er framundan við hina tvo hlutana og eflaust við frekari endurskriftir og endurbætur á þessum fyrsta hluta. Ég er alveg ákveðinn í að gefa frá mér næstu jólavertíð en gera úr þessu fantagóða bók á þeim góða tíma sem ég hef til ráðstöfunar.

Á meðan gutlar í mér söguhugmynd sem ég af einhverjum ástæðum er sannfærður um að útfærist í nákvæmlega 90 blaðsíður í bók.

Ég er auðvitað enginn Miðausturlandasérfræðingur, ég er nú sérfræðingur í svo fáu, og svo þykist ég ekki vita allt eins og sumir sem þó ekkert vita - en spáið samt í hvað þetta er absúrd: Hitler réðst ekki inn í gyðingaríki og leysti það upp, hann útrýmdi gyðingum sem bjuggu í Þýskalandi og Póllandi. Að bregðast við þeim fjöldamorðum með því að búa til nýtt ríki á landssvæði sem aðrir bjuggu á fyrir, útfrá einhverju sem stendur í Gamla testamentinu, er auðvitað skv. nútímalegum hugsunarhætti sjúklega fáránlegt. Þú býrð ekki til heilt þjóðfélag sisona upp úr þurru, skammtar því landsvæði og rekur þá burtu sem þar bjuggu fyrir.