Núna er spikið skyndilega byrjað að renna af mér aftur eftir stöðnun í heilt ár en þessu fylgir nokkuð máttleysi. Eftir 3,5 km skokk í gær á tempói Erlu (hún sagðist þar að auki hafa farið hraðar en hún er vön) sprakk ég á Hringbrautinni og fór restina á hægagangi. Þegar heim kom var ég svo máttfarinn að við héldum að ég væri orðinn veikur. Ég stakk mæli undir tunguna en reyndist vera með aðeins 35 stiga hita þannig að varla var það flensa.
Ég er líka heldur máttlaus í dag. Tek fram að ég hef ekkert breytt mataræðinu og ætti að vera að nærast nóg. En brennslan virðist skyndilega vera orðin svona mikil.
Gamla góða Vídeóljóninu við Dunhaga hefur verið lokað. Viðbrigðin eru svo mikil að ég þarf eiginlega nokkuð góðan tíma til að tjá þau. Mun eflaust minnast á þessa góðu og merkilegu sjoppu oft á næstunni. Dauðastríðið hafði reyndar staðið yfir í nokkurn tíma en ég hugsa að banabitinn hafi verið 10-11 búð í stúdentahverfinu. Síðasti eigandi hafði komið fyrir netmynstraðri filmu innan á gluggunum sem maður gat horft út í gegnum en þakti efri hluta glugganna að utan og var skilti sem sýndi afgreiðslutíma. Í gær fauk filman í tætlum um göturnar og hluti af henni lenti fyrir framan húsið heima. Við komum þessu fyrir í ruslatunnunni.
Í rigningunni í gærkvöld stóð ég síðan einn undir skyggni Ljónsins þögla og reykti vindil sem ég hafði keypt í 10-11 á Hjarðarhaga. Afgreiðslumaðurinn þar kom mér á óvart með því einu að vera sá sem hann var. Ungmenni í óvæntu hlutverki.