föstudagur, september 08, 2006

Núna er spikið skyndilega byrjað að renna af mér aftur eftir stöðnun í heilt ár en þessu fylgir nokkuð máttleysi. Eftir 3,5 km skokk í gær á tempói Erlu (hún sagðist þar að auki hafa farið hraðar en hún er vön) sprakk ég á Hringbrautinni og fór restina á hægagangi. Þegar heim kom var ég svo máttfarinn að við héldum að ég væri orðinn veikur. Ég stakk mæli undir tunguna en reyndist vera með aðeins 35 stiga hita þannig að varla var það flensa.

Ég er líka heldur máttlaus í dag. Tek fram að ég hef ekkert breytt mataræðinu og ætti að vera að nærast nóg. En brennslan virðist skyndilega vera orðin svona mikil.

Gamla góða Vídeóljóninu við Dunhaga hefur verið lokað. Viðbrigðin eru svo mikil að ég þarf eiginlega nokkuð góðan tíma til að tjá þau. Mun eflaust minnast á þessa góðu og merkilegu sjoppu oft á næstunni. Dauðastríðið hafði reyndar staðið yfir í nokkurn tíma en ég hugsa að banabitinn hafi verið 10-11 búð í stúdentahverfinu. Síðasti eigandi hafði komið fyrir netmynstraðri filmu innan á gluggunum sem maður gat horft út í gegnum en þakti efri hluta glugganna að utan og var skilti sem sýndi afgreiðslutíma. Í gær fauk filman í tætlum um göturnar og hluti af henni lenti fyrir framan húsið heima. Við komum þessu fyrir í ruslatunnunni.

Í rigningunni í gærkvöld stóð ég síðan einn undir skyggni Ljónsins þögla og reykti vindil sem ég hafði keypt í 10-11 á Hjarðarhaga. Afgreiðslumaðurinn þar kom mér á óvart með því einu að vera sá sem hann var. Ungmenni í óvæntu hlutverki.

fimmtudagur, september 07, 2006

Meðfram Anne Tyler les ég síðan skáldsögu eftir Muriel Spark, Reality and Dreams. Það er alveg kominn tími til að lesa hana. Las að vísu einhvern tíma nóvellunna The Drivers Seat en annað er það ekki hingað til.

SAT 21 OCT
DECAPOLIS: Tales From Ten Cities – GALA READING
David Constantine (Manchester), Ágúst Borgþór Sverrisson (Reykjavik), Amanda Michalopoulou (Athens).
Part 2 of the Comma’s meeting of the cities event pits Manchester against Europe’s most Northerly capital.
Baronial Hall, Chetham’s School of Music.
7pm-9pm, £5/£3
In cooperation with the Hellenic Foundation for Culture as part of Greece in Britain 2005.
Part of the Manchester Literature Festival.

þriðjudagur, september 05, 2006

Ég keypti nýlega skáldsögu eftir Anne Tyler í gær, The Amateur Marriage. Hugsa mér gott til glóðarinnar þar. Segi ykkur frá henni eftir sirka mánuð. Þekktasti titill Anne Tyler er líklega The Accidental Tourist vegna samnefndrar kvikmyndar með William Hurt og Kathleen Turner í aðalhlutverkum en besta skáldsaga hennar er talin vera Dinner at Homesick Restaurant.

Ég flýg til Manchester föstudaginn 20. október og les upp laugardagskvöldið 21. Upplesturinn og kynningin á þessari bók sem ég á efni í, Tales of Ten Cities, er liður í fyrstu árlegu bókmenntahátíðinni sem haldin er í Manchester. Í fljótu bragði séð virðist hún mun minni viðburður en t.d. bókmenntahátíðin í Reykjavík. Þarna er enginn Grass, Auster, Murakami eða Isabella Alliende, þekktasti höfundurinn virðist vera William Boyd. Hins vegar er áhugavert fyrir mig það sem fólk er að gera þarna í útbreiðslu smásögunnar og gaman að taka þátt í því. Þið vitið líka öll hvað ég er hógvær svo þetta fullnægir veraldlegum metnaði mínum fullkomlega þetta árið. Auk þess geri ég mér vonir um að eignast a.m.k. nokkur þúsund breska lesendur, raunar að aðeins einni sögu, til að byrja með. Önnur smásagnasöfn forlagsins hafa selst vel, en raunar átta ég mig engan veginn á því hvaða upplagstölur liggja að baki því mati, en veit þó það að nýbúið er að endurprenta þessa bók: http://www.commapress.co.uk/?section=books&page=UnderTheDam

Þetta er síðan nýjasta afurð forlagsins: http://www.commapress.co.uk/?section=books&page=ID

Það er gaman að þessu. Ein setning úr munni gamla foringjans, með ítarlegum fyrirvörum um að þetta kæmi honum nú samt ekki við lengur, og allt verður vitlaust. Það hlýtur að ískra í honum hláturinn. Ég man ekki betur en Steingrímur Hermannson hafi sýknt og heilagt gagnrýnt forystu Framsóknarflokksins og ríkisstjórnina eftir að hann var kominn í Seðlabankann. En öllum var sama um það.

Ekki það að mér finnst að DO hefði átt að stilla sig um þetta viðtal. Óneitanlega koma þó fram í því áreiðanlegar upplýsingar um sambandið við Bush. Það hefði kannski mátt koma þeim fram á annan hátt.

mánudagur, september 04, 2006

Ég hef aldrei verið aðdáandi Stuðmanna, líklega af því lögin þeirra eru gjörsamlega ofspiluð og af því ég er það þurrkuntulegur að mér leiðist alvörulaus skemmtitónlist. En hið augljósa rann upp fyrir mér þegar ég hlustaði á Valgeir Guðjónsson spjalla við rútufarþega í hljóðnema á leiðinni frá fimmtugsafmælinu á föstudagsnótt: Stuðmenn eru líklega síðustu vinsælu íslensku skemmtikraftarnir sem eru virkilega góðir í íslensku. Jafngóður eða betri er Megas, samtíðarmaður þeirra, en allir þekkja íslenskukunnáttu Bubba, sem mér finnst á hinn bóginn miklu hnýsilegri tónlistarmaður en Stuðmenn. Valgeir, Jakob og Egill Ólafsson hafa allir alltaf talað gullaldaríslensku og hafa frábær og skapandi tök á tungunni. Erfitt er að meta áhrifin af þessu, hvort og hversu mikið þessir vinsælu skemmtikraftar hafa hægt á hnignun tungunnar á síðustu áratugum, en vel má vera að það sé umtalsvert.

Það væri ómetanlegt ef fram kæmu jafnvinsælir tónlistarmenn núna meðal yngri kynslóðarinnar sem væru jafngóðir í íslensku, en það er borin von.

sunnudagur, september 03, 2006

Ósköp venjulegt blogg

Ég fór í fimmtugsafmæli Ólafs Inga á föstudagskvöld, en hann er einn eigenda stofunnar. Boðið var í Landnámssetrinu í Borgarnesi og var farið með tveimur rútum frá Hótel Sögu. Þetta var veglegt samkvæmi en að mínum dómi bar hæst atriði með Benedikt Erlingssyni þar sem hann hæddist að íslenskri þjóðrembu og sprenghlægileg öfugmælaræða Gísla Einarssonar sjónvarpsmanns.

Laugardagur átti að vera skriftadagur og því gætti ég þess vel að drekka lítið áfengi þarna. Á laugardagsmorgninum vaknaði ég hins vegar með heiftarlega magakveisu og lá fyrir mestallan daginn. Efnismikil Lesbók stytti mér stundir og þegar ég hafði heilsu til að setjast við heimilistölvuna kom í ljós að Íslendingar höfðu unnið stórsigur á Norður-Írum í fótbolta.

Í dag fer ég í skírnarveislu hjá Jóni Óskari Sólnes.