laugardagur, september 23, 2006

Lífið áður en múslímarnir komu

23.-24. sept. 2006

kl. 02.00 Reis andvaka úr rekkju, settist við tölvuna, skrifaði örfáar setningar í skáldsögunni. Sótti mér Poppland á Rás 2 frá deginum áður og hlýddi á stutta tónleika með lítt þekktri sveit, Shadow Parade. Mjög góð og ég velti fyrir mér, eins og oft áður, hvort ekki væri kominn tími til að hlusta á íslenska tónlist.

kl. 14.00 - 16.00 Á Laugardalsvelli í nýju stúkunni. Valur - KR, úrslitaleikur um 2. sætið og þátttökurétt í UEFA-keppninni. Blankalogn, góður félagsskapur, frábær stemning. KR nægir jafntefli og skorar jöfnunarmarkið í uppbótatíma uppbótartímans, í raun örfáum sekúndum áður en leikurinn er flautaður af.

kl. 18 - 20 Afmæli hjá Jonnu systur sem endar í labbitúr með Erlu og krökkunum ásamt Toddu og Pétri upp í Skífuna Laugavegi þar sem Freyja nær sér í dýrlingamyndir til að iðka og þróa sín trúarbrögð. Þar rek ég augun í disk með Pétri Ben. Hafði heyrt tvö eða þrjú lög af honum á Rás 2 og líkað vægast sagt vel. Minnugur hugsananna sem Shadow Parade vöktu mér keypti ég diskinn.

kl. 20.15 - Meðferðis hafði ég skjalatösku með fartölvunni og ýmsum gögnum. Ég kvaddi liðið í síðsumars- (en ekki haust-) stemningu á Laugaveginum og gekk niður í Þingholtin til að eiga mér góða kvöld- og næturstund við skriftir, vefráp og Pétur Ben.

Hugsaði á leiðinni: Hvað hef ég gert til að verðskulda þetta allsnægtalíf? Svar: Ekki neitt.

Hlýtur þetta ekki að enda skjótt og enda illa?

föstudagur, september 22, 2006

http://deetheejay.blogspot.com/ Ég er kannski að segja eldgamlar fréttir en þetta er svakalega frískleg og skemmtileg bloggsíða. Ekki síst eru umræðurnar líflegar og óvenjumikið lagt í kommentin. Reyndar er mesta fjörið orðið nokkurra vikna gamalt en það versnar ekki við það.

fimmtudagur, september 21, 2006

Ég er gallaðasta lífveran á mínu heimili. Konan, börnin og kötturinn standa öll á sinn hátt einhvern veginn glettilega nálægt fullkomnun þó að vitanlega sé óðs manns æði að tala um fullkomnar mannverur eða heimilisdýr í almennum skilningi. En mig langar að nefna lítið dæmi um það sem ég á við í þessu samhengi. Í morgun átti drengurinn (hann er tæplega 7 ára) að mæta seinna en vanalega í skólann af ástæðum sem ég nenni ekki að útlista og af þeim sömu ástæðum vorum við tveir einir heima klukkan að ganga tíu. Ég staulaðist á lappir upp úr níu og sá þá að minn maður var enn á nærbol og í einum af sínum ótal landsliðsstuttbuxum (Spánn, að mig minnir). "Klæddu þig drengur", tautaði ég hálfgeðillskulega og tók síðan að huga að mínum morgunverkum. Örfáum mínútum síðar stendur hann fyrir framan mig í buxum, bol, flíspeysu, vatteruðu vesti og íþróttaskóm, með húfu á höfðinu, skólatöskuna á bakinu, hengda yfir axlirnar. (Hreinn og strokinn, búinn að borða morgunverð; það hafði gerst áður en ég vaknaði). Eins og þrjár taugaveiklaðar kellingar hefðu verið að snúast í kringum hann, eða jafnvel að her manns hefði verið að undirbúa hann fyrir myndatöku einhverrar leiðinlegrar auglýsingar um sykurmettaða mjólkurvöru.

Ég hitti Ínu hans Kára í hádeginu og í spjalli okkar kom á daginn að hún er nýlega orðin fertug. Þar með eru allir sem ég þekki eitthvað að ráði orðnir fertugir nema Todda litla systir sem er 39 ára. Við Ína vorum sannfærð um að þetta væri besti aldur ævinnar en nú riði á að láta verkin tala og draumana rætast því fyrr eða síðar tæki að halla undan fæti. Við þetta tal varð ég svo stressaður að ég rauk í burtu án þess að kveðja en rak samstundis augun í andlit metsölugúrúsins af Mogganum sem hallaði sér fram á reiðhjólsstýrið sitt með alla heimsins mögulegu rósemi og yfirvegun í svipnum. Ég gat ekki varist þeirri tilhugsun að hann gæti orðað umræðuefni okkar Ínu svo margfalt betur og grætt stórfé í leiðinni.

Mín er getið stuttlega í fimmta og nýútkomnu bindi íslensku bókmenntasögunnar, nánar tiltekið á blaðsíðu 691. Verkinu á að ljúka við lok 20. aldarinnar og þar sem mín merkustu og "þekktustu" verk komu út 2001 og 2004 átti ég alveg eins von á því að verða ekki nefndur á nafn. Ég mun, eins og ég legg mig allur, verða 21. aldar höfundur en e.t.v. með mikið af 20. aldar viðhorfum, hversu gæfulegt sem það nú er. Ég fæ raunar sömu línu í bókinni og Davíð Oddsson, okkar er nánast getið í einu og spurning hvor okkar ætti að móðgast, nú eða hvorugur.

Ég rakst hvorki á nafnið Nýhil eða Eiríkur Örn Norðdahl í nafnaskránni en ég tékkaði ekki á öðrum Nýhilingum. Mér þótti það nokkuð skrýtið en þó mætti segja að þetta sé umfram allt 21. aldar fólk.

Hermann Stefánsson fær nokkuð væna umfjöllun þó að hann sé eftir aldamótin. En hvaða bókmenntafræðingur gæti nú staðist hann?

Reyndar er villa í línunni um mig, ég er sagður hafa gefið út 6 smásagnasöfn en þau eru bara 5.

En annars bíðum við bara í smástund eftir 6. bindinu sem hlýtur fjalla um fyrri hluta 21. aldarinnar. Það eru varla nema 50 ár í það.

þriðjudagur, september 19, 2006

Mylsna handa yður

Minningarnar hafa alltaf verið eldsneyti, sjálfkrafa, án þess að hann þyrfti að leiða að þeim hugann. Myndbrot úr fortíðinni hafa alltaf verið hluti af þessari eldfimu blöndu sem kveikt hefur skáldskap hans. Öll þessi ár í vinnuherberginu, á öllu þessu áralanga rölti um Hlemm og nærliggjandi svæði; við alla þessa laumulegu skoðun á ókunnugu fólki, bakgörðum, veggsprungum og ljósakrónum, flækingsköttum og reiðhjólum; við alla þessa hlustun á vélarhljóðið í strætisvögnum, skvaldrið á næsta borði, ógreinileg hróp handan við húshorn – við alla þessa skynjun á augnablikum í núinu hverju sinni höfðu blandast myndleiftur úr æsku, frá háskólaárunum, frá rölti með Steinunni um bæinn haustið 1989, frá fæðingardeildinni, frá ökuferð til fyrsta fundarins með útgefanda, frá jarðarförum – urmull minningarbrota urðu tannhjól í vélinni sem knúði innblásturinn.
En núna hafði vistin á þessu svæði dregið hring um sjálfa sig. Minningarnar sem vöknuðu núna við að sitja í vinnuherberginu, standa í kaffiskotinu, rölta niður á Hlemm, ganga inn í sjoppu, setjast inn á kaffihús – það voru eingöngu minningar um að hafa áður setið í herberginu, staðið í kaffiskotinu, rölt niður á Hlemm, gengið inn í sjoppu, sest inn á kaffihús ...

Kæri Ágúst Borgþór

"Okkur var sagt að þú þyrftir 20-30 ár til að virkilega sanna þig sem rithöfundur. Gefðu okkur 20. Fyrsta bókin þín kom út árið 1988. Þraukaðu a.m.k. til 2008. Ekki loka sjoppunni fyrr en búið er að opna hana til fulls: þú ert nú ekki einu sinni ennþá búinn að gefa út skáldsögu. Í fullri opinni útgáfu er þetta viðskiptahugmynd sem virkar en það tekur meira en 18 ár að sanna það.

Kæri Ágúst Borgþór, þú ræður þessu á endanum. Það vita allir. Taktu slaginn með okkur."

Þá er lýðurinn verður trylltur í Manchester

Hér er dagskrárliðurinn á heimasíðu bókmenntahátíðarinnar í Manchester. Upplesturinn fer fram í einhverjum tónlistarskóla.

sunnudagur, september 17, 2006

Ég tók smásagnasafnið Horse´s Neck eftir engan annan en Pete Townshend á Borgarbókasafninu í dag. Þetta er lítil bók, virðist blanda af æskuminningum og sögum úr bransanum. Ein þeirra, Fish Shop, birtist í gamla Vísi fyrir um aldarfjórðungi. Mér líst þokkalega á þetta hjá honum en les þetta aðallega út af áhuga á efninu. Er þetta eina bókin eftir hann?

Ég tók líka Hina sterku eftir Kristján Þórð Hrafnsson. Ætla að leyfa Erlu að lesa hana fyrst, hún kláraði Einhvers konar ég (mig? hehe; snúið að fallbeygja bókatitla) fyrir stuttu og vantar eitthvað að lesa. Ég þarf líka að halda dampi í Anne Tyler og Carol Shields á meðan ég glugga í Townshend.

;

Mig langar að biðja fólk um að hætta að nota semíkommu eins og tvípunkt, það er rangt og frekar hallærislegt í augum þess sem kann að nota hana. Því miður er þessi ósiður að verða mjög útbreiddur enda er þetta greinarmerki dáldið inni þessi misserin. Semíkommu þarf reyndar að nota frekar sjaldan í íslensku máli en þeir sem skilja hana ekki ættu að sleppa henni.

Semíkomma er notuð í upptalningu ósamkynja liða. Dæmi: sykur, brauð, hveiti; boltar, skrúfur, naglar ...

Líka er hún notið í e-k skýringarsetningum innan málsgreinar, eða aukasetningu sem klýfur sig frá aðalsetningunni en samt ekki þannig að maður vilji setja punkt. Dæmi: "Þessi krá; inn komu þessir menn."