Lífið áður en múslímarnir komu
23.-24. sept. 2006
kl. 02.00 Reis andvaka úr rekkju, settist við tölvuna, skrifaði örfáar setningar í skáldsögunni. Sótti mér Poppland á Rás 2 frá deginum áður og hlýddi á stutta tónleika með lítt þekktri sveit, Shadow Parade. Mjög góð og ég velti fyrir mér, eins og oft áður, hvort ekki væri kominn tími til að hlusta á íslenska tónlist.
kl. 14.00 - 16.00 Á Laugardalsvelli í nýju stúkunni. Valur - KR, úrslitaleikur um 2. sætið og þátttökurétt í UEFA-keppninni. Blankalogn, góður félagsskapur, frábær stemning. KR nægir jafntefli og skorar jöfnunarmarkið í uppbótatíma uppbótartímans, í raun örfáum sekúndum áður en leikurinn er flautaður af.
kl. 18 - 20 Afmæli hjá Jonnu systur sem endar í labbitúr með Erlu og krökkunum ásamt Toddu og Pétri upp í Skífuna Laugavegi þar sem Freyja nær sér í dýrlingamyndir til að iðka og þróa sín trúarbrögð. Þar rek ég augun í disk með Pétri Ben. Hafði heyrt tvö eða þrjú lög af honum á Rás 2 og líkað vægast sagt vel. Minnugur hugsananna sem Shadow Parade vöktu mér keypti ég diskinn.
kl. 20.15 - Meðferðis hafði ég skjalatösku með fartölvunni og ýmsum gögnum. Ég kvaddi liðið í síðsumars- (en ekki haust-) stemningu á Laugaveginum og gekk niður í Þingholtin til að eiga mér góða kvöld- og næturstund við skriftir, vefráp og Pétur Ben.
Hugsaði á leiðinni: Hvað hef ég gert til að verðskulda þetta allsnægtalíf? Svar: Ekki neitt.
Hlýtur þetta ekki að enda skjótt og enda illa?