föstudagur, október 06, 2006

"In Reykjavik, we accompany the protagonist on a bus journey in which the bus route itself comes to trace the chasm between past and present ..." http://www.commapress.co.uk/?section=books&page=Decapolis

Kristjón Kormákur heilsar upp á kollega sína

Kristjón Kormákur, höfundur Frægasta manns í heimi, sem var sannkallaður eiginútgáfusmellur í fyrra, er búsettur á Spáni. Þessa dagana er hann hins vegar í heimsókn á Íslandi - og notar hana til að blanda geði við kollega sína með mjög skipulögðum hætti.

Aðferðin sem hann beitir er sú að hann hittir ásamt Kristiani Guttesen einn rithöfund á dag á kaffihúsi í hádeginu, en Guttesen hringir í höfundana og boðar þá á fund sinn og Kormáks.
Yfirleitt er borðuð súpa dagsins, drukkið kaffi, reykt, rætt um útgáfubransann og skipst á meira og minna sönnum sögum um kollega. Félagarnir tveir hófu leikinn í gær og buðu þá til sín Steinari Braga. Í dag var mér veittur sá heiður að vera annar í röðinni.

Meðal höfunda sem þeir félagar hyggjast boða til sín með þessum hætti næstu daga eru þær stöllur og nöfnur Birgitta Jónsdóttir og Birgitta Halldórsdóttir, Tryggvi Líndal, Thor Vilhjálmsson, Bjarni Bernharður, Þorgrímur Þráinsson, Ólafur Jóhann Ólafsson, Steinunn Sigurðardóttir og Gerður Kristný.

fimmtudagur, október 05, 2006

Ég sá frábæra austurríska mynd á kvikmyndahátíðinni í kvöld: Böse Zellen / Free Radicals /Sindurefni . Uppbygging og frásagnarmáti myndarinnar minna á Magnolia eftir Paul Thomas Anderson og Short Cuts eftir Robert Altmann. Hér er söguvefurinn hins vegar enn flóknari, klippingarnar mjög hraðar, kvikmyndatakan frumleg, frábær leikur, snilldarlegar tengingar, yfirþyrmandi sorg, frábær húmor.

Sjáið þessa.

miðvikudagur, október 04, 2006

http://www.mbl.is/mm/frettir/ Í ræðu og riti hélt ég því fram að september yrði og hafi verið sumarmánuður að þessu sinni. Þetta staðfestir það. Sumarið hófst í júlí eftir fremur svalt vor í maí og júní (sérstaklega var júní svalur). Hásumar var í ágúst og september var eins og ágúst áður. Núna er haustið loksins að byrja. Fyrst kom fallegt gluggaveður sem allir fagna en fá síðan kvef af því að andstyggilega köld og þurr norðangjólan fyllir vitin (og hún er alltaf köld, hvort sem það er frost eða 12 stiga hiti). Núna er sem betur fer orðið þungskýjað, rakt og mild gola úr suðri, hlýindaáttinni. Þess vegna er kvefið sem ég fékk upp úr helginni að hverfa nánast um leið og ég fékk það. Á veturna er best að það sé alveg sólarlaust ef við ætlum að hafa það sæmilega hlýtt. Þið sem þráið gluggaveður, kaupið ykkur bara póstkort eða ljósmynd í smelluramma.

þriðjudagur, október 03, 2006

Sérstæð hugtakanotkun

http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=/20061003/FRETTIR01/61003065/1091
Samkvæmt þessu eru frjálshyggja og frjálslyndi andstæður. Á nú að fara að bauna því á frjálshyggjumenn að þeir séu ekki frjálslyndir? Væri ekki nær að tala um miðjuarm flokksins eða eitthvað þvíumlíkt? Jafnvel "hófsamari" væri meira í áttina en frjálslyndari.

Ég hef áður minnst á ruglingslegan málflutning annars stjórnmálafræðings í fjölmiðlum. Nú veit ég ekki hvort hér er um að kenna fréttaritaranum á Vísi eða hvort stjórnmálafræðingurinn var að bulla.

http://www.graenahusid.is/pages/pistlar1.htm Nautnastuldur eftir RHV er komin út í kilju, í endurbættri útgáfu. Þetta var allþekkt bók á sínum tíma og vakti mér t.d. töluverðan hlátur heima hjá systur Erlu á aðfangadagskvöld 1990 en líka fremur vanmáttuga en þó ekki illkvittna öfund, því ég var ekki farinn að skrifa neitt af viti sjálfur á þessum tíma. Skv. ritdómi ÞÞ í Fréttablaðinu um Feigðarflan eftir sama höfund fyrir síðustu jól var Nautnastuldur honum töluverð upplifun á sínum tíma. Sjá hér:
http://www.badabing.is/books/2006/01/saga_af_margbouu_sjalfsmori.html

Matthías Viðar heitinn var líka hrifinn eins og fram kemur í pistlinum sem ég linkaði á efst. Þetta er nokkuð langur og krassandi pistill eftir höfundinn í tilefni kiljuútgáfunnar.

Í lok árs 1990 fannst mér Nautnastuldur fanga samtímann rosalega vel. Spennandi væri að sjá hvort hún virki þannig ennþá, 16 árum síðar. Höfundurinn gefur til kynna að svo sé.

Þrátt fyrir linkinn get ég síðan ekki stillt mig um að birta hér smátilvitnun í pistilinn, sem gæti orðið karlmönnum nokkur hughreysting:

"... konur sem fjallað hafa um Nautnastuld hafa sumar haldið því fram að Egill Grímsson sé kynlífsfíkill. Ég segi nú bara fyrir mig prítvat og persónulega: Ég vildi að svo væri. En viðbrögð karlmanna við bókinni benda því miður ekki til þess að hann sé afbrigðilegur að þessu leyti. Hitt er svo annað að flestir karlar reyna að bæla kynhvöt sína til að ofbjóða ekki konum því þeir vita að ef þeir koma ærlega fram verða þeir stimplaðir kynlífsfíklar af mörgum þeirra. Rétt eins og Egill Grímsson. "

----
Ég keypti nýja smásagnasafnið hans Murakami í Máli og menningu í dag. - Er auk þess enn að lesa The Amateur Marriage eftir Anne Tyler. Það er óþægileg en líka spennandi og skemmtileg krufning á löngu hjónabandi sem alltaf er með sama byrjendabragnum.

mánudagur, október 02, 2006

"Munib Yunan biskup lútersku kirkjunnar í Jerúsalem, sagði viðtali við fréttastofu Útvarps um helgina að ástandið sé mjög alvarlegt og hann skoraði á ríkisstjórn Íslands og annarra Evrópuríkja að koma Palestínumönnum til hjálpar. Ísraelar haldi 4 miljónum Palestínumanna í þremur risastórum fangelsum; 2 á Vesturbakkanum og því 3. á Gaza. Þar sé nú 60% atvinnuleysi og flestir lifi undir fátæktarmörkum. Fólk eigi ekki fyrir mat, kennarar fái ekki laun og foreldrar geti ekki greitt skólagjöld fyrir börn sín. "

Þetta er hluti af frétt sem birtist á ruv.is - enn ein áminningin um að öflugt andóf gegn Ísrael og núverandi stjórnarstefnu Bandaríkjamann - langt út fyrir raðir vinstri manna - er knýjandi nauðsyn.

sunnudagur, október 01, 2006

Húmorsleysingi á hlaupaskóm og fleira

Mætti Sveini Andra og hundinum hans á Ægissíðustígnum. Hann sleppti því að kommenta á það að Erla er alltaf á undan mér - nokkuð sem mér þykir vænt um að láta bauna á mig fyrir - því nú hafði hann fýsilegra tilefni: Hörmulegan úrslitaleik KR gegn Keflavík í gær. Ég greip frammi í fyrir honum og gjammaði tvisvar: Já, þetta var bara eins og Fram væri að spila. - Einhvern veginn kom það frekar plebbalega út og ég virkaði tapsár. En ég er það ekki. Það er aldrei undan því að kvarta að betra liðið vinni. - Reyndar mætti ég Teiti Þórðarsyni líka sem ég þekki ekki neitt - en sendi honum þó e-k KR-kveðju og hann heilsaði mjög kurteislega.

Fór með Erlu og Kjartan upp á Hlemm í dag, sem er nokkuð óvenjulegt. Erla var eitthvað smeyk við áningastöðina, spurði hvort það væri æskilegur staður fyrir drenginn, en ég var fljótur að kveða niður slíka vitleysu og hræðslu. Ég tók upp þráðinn við sjoppueigandann frá síðasta samtali sem átti sér stað fyrir um einu og hálfu ári og fjallaði um ástarmál hans. Þau virtust á góðu róli. Kjartan fékk grillaða samloku og Svala en vertinn færði mér kaffi á kostnað hússins.
Af einhverjum ástæðum streymdi frá mér kærleikur og kímni þarna inni svo birti yfir öllu og öllum og Erla neyddist til að hlæja.

Kjallarabúi á Rauðarárstíg auglýsti eftirfarandi í glugganum sínum:

Enski boltinn 400 kr.
Enski boltinn og snakk 600 kr.
Enski boltinn - brauð og egg 600 kr.

Athyglisvert tilboð fyrir boltaáhugamenn án áskriftar.

Uppi í Þverholti og Brautarholti er allt með sömu ummerkjum og síðast: Brotnar rúður og endalaust veggjakrot. Margt stórklinkað (og klinky) og bankað listamannapartíið hefur líklega verið haldið þarna fyrir nokkrum misserum. Hvorki mér né Rúnari Helga var boðið og ólíklegt að við hefðum mætt. - Sérhverjir tveir listamenn geta eflaust verið jafnólíkir og dagur og nótt. A.m.k. á yfirborðinu. - En þetta svæði er verulega ógeðslegt allt saman - kalt mat án hneykslunar.