föstudagur, nóvember 03, 2006

Hitti Bárð R. Jónsson í hádeginu. Hann hafði tekið það upp hjá sér að fara á upplestur hjá Nýhil í gærkvöld og lét fremur vel af samkomunni. Hann hefur engin tengsl við fólk þarna, kom bara sem áhugamaður af götunni og mér finnst það býsna gott af honum. Stefni að því sjálfur að sækja einhverja upplestra fyrir jólin.

Í kvöld hitti ég síðan EÖN stuttlega á Hressó. Held það sé bara nokkuð mikil tilviljun að hitta á sama degi þátttakanda í bókmenntaupplestri og einn sem mætt hefur á upplesturinn. EÖN leit vel út og var viðkunnanlegur.

Helgin er nokkuð mettuð samkvæmum og skyldum og raunar voru tvær afmælisveislur í gær er Kjartan varð 7 ára.

Allt er þetta ósköp ánægjulegt. Annars eru merkilegustu tíðindi vikunnar þau að búið er að taka niður skiltið af Vídeóljóninu heitnu.

miðvikudagur, nóvember 01, 2006

Eftir því sem lengra líður á haustið og við förum inn í veturinn þá eykst áreitið. Umheimurinn gerir sífellt áhlaup á diskaplássið í huga rithöfundarins. Ruslpósturinn flæðir inn í anddyrið. Nú er verið að rembast við að fá mig til að byrja að nota greiðslukort. Tölvupóstarnir streyma frá barnaskólanum: félagsfræðileg könnun um mötuneytið er það nýjasta. Börnin eru í íþróttum og því þarf að smala foreldrum reglulega saman til að selja klósettpappír.

Nýlega fékk ég erindi frá ÍE um að taka þátt í einhverri tóbakskönnun. Arfgengi tóbaksfíknar. Eitthvað heldur loðið. Óskaplega á ég erfitt með að trúa því að hægt sé að finna líffræðilegar skýringar á fíkn yfirleitt. Síðan koma óljósar fréttir um óljósan áfanga í einhverjum rannsóknum sem kannski eiga eftir að skila sér í lyfjaframleiðslu eftir 50 ár. Kannski. - Ég nenni ekki að hjálpa Kára að skaffa áhættufé í hítina og uppfyllingarefni í fréttatímum; fleygði því bréfinu í ruslakörfuna. Sögurnar mínar eru mikilvægari í mínu lífi en stuðningur við vísindin. Þær eru a.m.k. gefnar út, það koma ekki bara óljósar fréttir um fyrstu drög að þeim.

Feminísk hugsanalögga í gervi þungbúinnar fríðleikskonu hefur verið býsna áberandi á opinberum vettvangi undanfarið. Ég get verið sammála mörgu sem hún segir og borið virðingu fyrir öðrum viðhorfum sem hún viðrar en ég skrifa síður undir, en undanfarið hefur málflutningurinn vakið mér furðu.

Um daginn var hún mætt í Kastljós ásamt Heiðari Jónssyni snyrti til að lýsa andúð sinni á snyrtiáráttu og tískuhneigð kvenna og virtist líta á slíkt atferli sem hluta af kúgun kvenna, hlutgervingu þeirra. Ég gat ekki annað en hugsað: Hvað í ósköpunum hefur það með okkur karlmenn að gera að konur máli sig? Eru ekki einhver takmörk fyrir því hvað af meintu böli kvenna hægt er að skrifa á reikning kúgunar af hálfu karla? Er þetta ekki dáldið langsótt?

Í blöðum dagsins er hún svo mætt á vaktina út af einhverju klámlistaflippi myndlistarnema. Eitt er að agnúast yfirleitt út í listaflipp, ég hélt að það væri liðin tíð, en hvarflar virkilega að konunni að kvenkyns listaspírur séu að láta nota sig á sama hátt og klámstjörnur þó að þær fækki fötum í gjörningaflippinu?

mánudagur, október 30, 2006


Spjallað við unga fólkið.


Gauti Sigþórsson tók nokkrar myndir með gemsanum sínum á kvöldinu okkur í Manchester. Dökkhærða konan við hlið mér er þýðandinn minn og konan hans, Vera Júlíusdóttir.

Ljóð eftir Óskar Árna

SEGL

Fugl köttur
kulnaðir strompar
og stjarna sem var ekki þarna í gær

fúin rimlagirðing
mjór njólaslóði

og skyndilega
lykt af söltu þangi

hvít ský speglast í augum þínum
þau eru gjöf til þín

eins og stjarnan kötturinn
og stígurinn sem þú gengur

- - - --

Það er allt svo frá og með "hvít ský ..." sem guð birtist.