fimmtudagur, nóvember 23, 2006

Eru engin Laxnessverðlaun núna? Er búið að leggja þau niður? Og hvernig er það - vann einhver Laxnessverðlaunin í fyrra? Gerður Kristný vann þau 2004 en ég man ekki hvað gerðist í fyrra.

Það þarf að fjölga bókmenntaverðlaunum, ekki fækka þeim, sérstaklega verðlaunum fyrir óbirt verk.

Bankarnir gætu komið inn í það.

þriðjudagur, nóvember 21, 2006

Guttesen hringdi í mig í gærkvöld og var staddur á Ölstofunni. Hann var þar að fagna lokum þýðingar sinnar á norskri skáldsögu sem er að koma út hjá Sölku. Ég var nýbúinn að skúra og þrífa baðherbergið. Vissi að ég yrði ekki til stórræðanna við skrifborðið og ákvað eftir töluverðar vangaveltur að koma mér upp á Ölstofu. Þar voru fyrir auk Guttesens, Valdimar Tómasson sem reyndar var á sífelldu rápi, og Ófeigur Sigurðsson skáld. Það er fjarska viðkunnanlegur piltur. Rætt var um Nýhil og útgáfumál og fleira og hvað eftir annað fékk ég á tilfinninguna að áhyggjuefni okkar skáldanna séu lítilfjörleg og gætu ekki vakið áhuga annarra.

Sjálfur lýsti ég yfir áhyggjum af því að Bragi Ólafsson skrifaði alltof vel. Dytti aldrei í formúlu og reddingar, væri alltaf annarlegur og ófyrirsjáanlegur. Ófeigur reyndi að hughreysta mig með því að ég væri miklu unglegri en Bragi, en við erum jafnaldrar. Ég hugsaði með mér að hvað sem því liði ætti ég að stefna að því að skrifa betur.

mánudagur, nóvember 20, 2006

Stórforstjórar og smásögurTil allrar hamingju er bókaútgáfa hér á landi ennþá fjölbreytt þrátt fyrir einhæfari lestrarsmekk og sífellt meiri áherslu á fáa titla í kynningu, auglýsingum og sölu. Alltaf er sama nautnin fólgin í því að fara höndum um nýjar bækur í haustútgáfunni og kynna sér misþekkta höfunda. Þegar hugað er að smásagnagerð í þessu jólabókaflóði er fundurinn rýr að magni til en þó athyglisverður.

Við skulum bara viðurkenna það að smásögur eru og verða óvinsælar. Flestum lesendum finnst þeir skildir eftir í lausu lofti eftir lestur smásögu, vilja vita meira um afdrif persóna og fæstum líkar að þurfa að einbeita sér að hverju orði eins og smásagnalestur krefst. Þeir sem hafa smekk fyrir smásögum eru rithöfundar, bókmenntafræðingar og mjög áhugasamt bókmenntafólk. Áhuginn á þessu bókmenntaformi hefur farið sífellt minnkandi síðustu árin.

Ég hef ekki fullkomna vissu um smásagnaútgáfu þessarar vertíðar en í fljótu bragði séð virðist það koma í hlut tveggja þekktra stórforstjóra að halda uppi merki smásögunnar að þessu sinni, þeirra Ólafs Jóhanns Ólafssonar og Óskars Magnússonar. Mér finnst það vel við hæfi núna á tímum stuðnings auðmanna við góð málefni að stórforstjórar komi þessu vanrækta bókmenntaformi til hjálpar, en besta leiðin til að efla smásagnagerð er einmitt að skrifa og birta góðar smásögur. Báðum höfundum tekst nefnilega vel upp í býsna ólíkum verkum sínum.

Óskar Magnússon gegnir núna stöðu forstjóra Tryggingamiðstöðvarinnar en hefur áður komið víða við í íslensku viðskipta- og atvinnulífi, m.a. verið forstjóri Og Vodafone. Þeir sem komnir eru yfir fertugt gætu munað eftir Óskari í hlutverki blaðamanns og pistlahöfundar. Mig rekur a.m.k. minni til lágstemmdrar og meitlaðrar kímni í textum hans á þeim vettvangi, líklega á 8. áratugnum.

Smásagnasafn Óskars Magnússonar ber heitið Borðaði ég kvöldmat í gær? og er fyrsta skáldverk hans. Hnyttinn titill bókarinnar gefur tóninn fyrir innihaldið. Sögurnar eru flestar stuttar og bera vitni um fjölbreyttan bakgrunn höfundar og þekkingu hans á hinum ýmsu starfstéttum. Oftast fer Óskar þá leið að draga upp nokkuð hlutlausar svipmyndir af ýmsum aðstæðum í stað þess að bjóða upp á snúna sögufléttu (á þessu eru þó undantekningar). Hann segir frá hestaferð í Þórsmörk, bankaboðsferð nokkurra útgerðarmanna af landsbyggðinni til útlanda, veiðiferð verkfræðinga, spjalli álversstarfsmanns við kunningja í líkamsræktarstöð, stórkostlega fyndnum en tíðindalitlum viðskiptum sumarbústaðseiganda og stífluhreinsis; og líka er hér að finna sjómannasögu sem aðallega greinir frá hlutskipti kokksins. Megináhersla höfundar er á nákvæmt málsnið og þar liggur jafnframt helsti styrkur sagnanna: málfar og taktar sögupersóna fá afar faglega meðhöndlun hjá Óskari sem lætur vel að draga upp í senn trúverðugar og fyndnar persónur. Hnyttni, tilfinning fyrir smáatriðum og frábær tök á blæbrigðaríku talmáli eru meðal þeirrar tæknikunnáttu sem Óskar beitir oft af mikilli list í þessum sögum.
Sögur Óskars Magnússonar eru fyndnar en þær eru samt engir brandarar. Stundum er ekki hægt að benda á í hverju fyndnin liggur. Hvers vegna ískrar t.d. í manni hláturinn allan tímann sem sagan Oh ho ho, allt fullt af pappír er lesin? Er þetta ekki ósköp hversdagsleg lýsing á vandamáli sem getur komið upp í sumarbústöðum og snaggaralegri lausn þess? Kannski hlær maður að þeirri staðreynd að öll vandamál eiga sér sína sérfræðinga og sérfræðingarnir eiga sitt tungutak um þau, eða því að höfundi skuli detta í hug að búa til sögu um þetta efni eins og ekkert sé sjálfsagðara, án þess að örli á brosi á nokkuð fjarlægu andliti hans bak við textann. Fjarlægð höfundar – stundum írónísk, en ekki alltaf – er mikil í allri bókinni, sem á vel við þegar svo stuttar og kannski fremur efnislitlar sögur eiga í hlut.
Fyndnin í sögnum er stundum augljós, en hugvitsamleg og hlaðin raunveruleikabragði. Eftirfarandi klausa úr sjómannasögunni Kokkur upp á einn og kvart er lýsandi dæmi um þetta:

“Hann hristi Domma kokk duglega og hljóp svo upp aftur. Eftir skamma stund heyrðu þeir brölt í stiganum. Það hringlaði í lyklum og lásinn á kælinum var opnaður. Dommi kokkur birtist öskugrár í dyrum matsalarins og byrjaði að dúndra mandarínum í skipverjana sem þar sátu. “Fáið ykkur endilega eitthvað að éta, ekki megið þið vera svangir ræflarnir,” hvæsti hann og skaut linum og druslulegum mandarínum út um allan matsal. Þær hlutu að hafa verið síðan um jólin. Einstaka mandarína lenti í skipverja en flestar í veggjum og kýraugum.”

Svona skrifar alvöru stílisti, tilgerðarlaust, nákvæmt, meitlað og mátulega absúrd.

Kannski eru eftirminnilegustu sögur bókarinnar þær þar sem skop og alvara fara saman. Fyrsta saga bókarinnar, Viltu að ég tali hærra?, er í raun einræða málgefins náunga sem á í stöðugum samræðum við kunningja í líkamsræktarstöð. Sá sem sögumaður ræðir við tekur aldrei til máls í sögunni en ljóst má vera að okkar maður er nokkuð uppáþrengjandi. Átakanlegur undirtónn er heldur kuldalegur atvinnumissir sögumannsins sem hann þó vill ekki gera mikið úr enda ekki vanur að barma sér. – Sagan Mér dugar eitt skot segir frá náunga á elliheimili sem er farinn að missa minnið. Hún er bæði sorgleg og fyndin.

Lengsta saga bókarinnar, Þú hefur rétt á að þegja, er nokkur stílbrjótur í heildarmynd verksins: um er að ræða gamansama spennusögu í anda efnis sem oft birtist í tímaritum fram yfir miðja síðustu öld en þá dafnaði smásagan ágætlega sem afþreyingarform á slíkum vettvangi. Þessi saga höfðaði ekki jafnmikið til mín og annað efni bókarinnar. Það sama má segja um lokaverkið, Hámenntaður íslenskur sveitamaður, sem er í raun stuttur eftirmáli og hálfaumur brandari. Þar með telur hið fýsilega efni bókarinnar þrátt fyrir allt innan við 100 blaðsíður og vekur löngun eftir því að Óskar Magnússon haldi áfram að glíma við smásagnaformið eða annan skáldskap; hann sannar hér eftirminnilega að bakgrunnur rithöfunda þarf engan veginn að vera staðlaður eða einsleitur, hvort sem ritfærir menn eru forstjórar eða bókmenntafræðingar þá verða þeir rithöfundar af því að leggja sál sína í verkin og svitna í glímunni við formið; í þessum leik standa og falla menn með verkum sínum og öðru ekki. Óskar Magnússon má vera stoltur af þessari frumraun sinni í skáldskap.

Aldingarðurinn eftir Ólaf Jóhann Ólafsson er allt öðruvísi smásagnasafn. Sögur hans eru miklu lengri og efnismeiri. Ólaf Jóhann þarf auðvitað ekki að kynna fyrir íslensku bókmenntaáhugafólki. Hann hóf feril sinn með smásagnasafni árið 1986, hefur síðan gefið út fjölda vinsælla, misgóðra en sífellt batnandi skáldsagna; núna leitar hann aftur í smásagnaformið eftir 20 ára hlé.

Mér virðast smásögur Ólafs Jóhanns að þessu sinni sverja sig í ætt við bandaríska raunsæishefð en ef til vill með meiri áherslu á plott og óvæntan endi en tíðkast hefur hjá helstu smásagnahöfundum Bandaríkjamanna. Stundum eru endalokin í anda Maupassant og O. Henry, meistaranna tveggja í hinum furðuóvæntu sögulokum, en oftar minnir fléttan á klassíska breska höfunda eins og Somerset Maugham; stíll og andi sagnanna vekja hins vegar fremur upp í huga mér verk bandarískra öndvegishöfunda á borð við t.d. Bernard Malamud og eftir til vill Saul Bellow.
Meginþema Aldingarðsins er ástin og tíminn. Sögurnar bera mánaðanöfn, bókin hefst á janúar og endar á desember. Persónurnar eru flestar miðaldra fólk í efri millistétt. Yfirleitt vel gefið fólk sem nýtur velgengni, lifir án öfga en er e.t.v. dálítið sviplaust. Þrátt fyrir oftast nær hófsamt líferni og með skynsemina að leiðarljósi verða miklir brestir í ástarlífi þessa fólks. Örlögin bregða á leik, ófyrirsjáanleg atvik birta elskhuga í nýju og neikvæðu ljósi en stundum gerir breyskleiki vart við sig og verður mikið eyðingarafl í lífi þessa fólks. Tíminn er áleitinn: fólk leitar til upphafsins eða horfir yfir farinn veg eftir langt hjónaband, en stundum vakna upp draugar úr fortíðinni.
Sögurnar eru geysilega vel byggðar og nostrið við sögufléttuna eitt og sér nánast tryggir ánægjulegan lestur. Í nokkrum sagnanna nær Ólafur verulegri dýpt í persónuafhjúpun og dregur upp á virkilega eftirminnilegan hátt þau atvik þegar straumhvörf verða í lífi og samskiptum persónanna, elskendur sjá hvort annað í nýju ljósi, ástin verður fyrir óbætanlegu tjóni vegna þess að einhver hefur ekki staðist karakterprófraun, leyndarmál hefur verið afhjúpað eða neistinn slokknar.
Í smásögum lýsa persónur sér í athöfnun sínum og Ólafur Jóhann er bæði hugvitsamur og næmur á atvik sem afhjúpa og breyta sögupersónum hans. Mér þætti ekki ólíklegt að þetta smásagnasafn hans verðskuldaði sess á meðal þeirra skáldsagna sem helst verður hampað núna fyrir jólin og fróðlegt verður að sjá hvort Aldingarðurinn fái verðuga viðurkenningu, í ljósi þess að um smásagnasafn er að ræða.

- - -

Ég get ekki annað sagt en stórforstjórarnir hafi bjargað smásagnajólunum mínum. Þeir hafa tryggt að það koma þrátt fyrir allt út vel frambærilegar íslenskar smásögur fyrir þessi jól.


Þessi grein birtist áður www.vettvangur.net

sunnudagur, nóvember 19, 2006

44. afmælisdegi mínum hef ég eytt að hluta eins og bandarískur úthverfalúði: klippt trjágreinar og mokað snjó. Við fengum hótunarbréf frá borginni um að trjágreinar fyrir framan húsið slútti of langt niður yfir gangstéttinni. Ég fékk því lánaðar klippur hjá nágranna og réðst til atlögu við greinarnar.

Freyja er að flytja inn í hjónaherbergið eftir ákafar beiðnir og við Erla búin að koma okkur fyrir í litla herberginu hennar. Þar rúmast ekkert nema hjónarúmið okkar og forvitnilegt verður að sjá hve lengi þetta endist.

Núna er ekki hægt að skokka lengur og því fór ég í sund bæði í gær og í dag. Það er mun erfiðara að skokka en synda fyrir meðalmann og finn ég muninn greinilega.

Fyrir utan þetta skrifaði ég ritdóm fyrir www.vettvangur.net en núna ætla ég að spreyta mig á skáldskapnum.

Ég er farinn að hlakka til München. Ég þrauka jólavertíðina til að komast þangað.