þriðjudagur, maí 06, 2008

Af tvennu illu

Ég hjólaði niður Hverfisgötu undir dagslok. Stúlka um eða undir þrítugu kom fótgangandi úr gagnstæðri átt og nokkurn veginn í sama mund og við mættumst var opnaður gluggi beint fyrir ofan okkur og skvett úr vatnsglasi. Megnið af vatninu fór á gangstéttina en eitthvað lenti á stúlkunni sem þó tók ekki eftir því strax. Hún gekk áfram nokkur skref en nam síðar staðar og ég tjáði henni hvað hefði gerst. Hún gekk undir gluggann og kallaði hæðnislega: Takk kærlega fyrir!

Í mér vaknaði spurning sem kalla mætti siðferðilega:

Hvort er verra - að einhver hafi gert sér að leik að reyna að skvetta vatni úr glugganum á vegfaranda eða að íbúarnir skvetti í hugsunar- og skeytingarleysi vatni út um gluggann?

sunnudagur, maí 04, 2008

Það sem Guðlaugur Þór er að gera

Fyrir nokkrum árum var partur af brauðstriti mínu sá að taka viðtöl fyrir fagtímarit í heilbrigðismálum sem heitir Lyfjatíðindi. Einu sinni tók ég viðtal Bolla Héðinsson hagfræðing sem lýsti fyrir mér hugmyndum sínum um endurbætur í rekstri heilbrigðiskerfisins. Í minni mínu eru þær í grófum dráttum svona: Meginkjarninn felst í aðgreiningu og skarpari skilgreiningu á hlutverki kaupanda og seljanda. Ríkið greiðir kostnaðinn af þjónustunni en kaupir hana hverju sinni af þeim aðila sem best býður til samans í gæðum og verði. Sá sem veitir þjónustuna hverju sinni getur hvort heldur sem er verið opinber stofnun eða einkaaðili. Niðurstaðan á að vera betri þjónusta fyrir minni peninga. -Í prinsippinu hljómar þetta vel en það fer síðan auðvitað eftir vinnubrögðum í ferlinu hvernig til tekst. Auðvitað er hægt að klúðra útboðum og sitja uppi með slæma og dýra þjónustu. En séu góð vinnubrögð áskilin hljómar þetta eins og eitthvað sem gæti hamið kostnaðinn við heilbrigðiskerfið án þess að mismuna þegnum landsins eða skerða heilbrigðisþjónustuna.

Þegar ég horfði á fyrsta partinn af Silfri Egils áðan endurómaði þetta viðtal í útlistun Guðlaugs Þórs heilbrigðismálaráðherra á væntanlegum aðgerðum sínum í heilbrigðismálum. Þetta er alltsvo nákvæmlega leiðin sem hann er að reyna að fara og frumvinnan er kostnaðargreining á þjónustunni. Það sýnir dapurlegt eðli stjórnmálanna sem sífellds kappleiks að Sif Friðleifsdóttir, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, þurfti í rauninni að láta eins og hún áttaði sig ekki á því út á hvað þetta gengur þó að auðvitað viti hún það. En hún er í stjórnarandstöðu og svona er leikurinn, maður þarf að vera á móti og reyna að andstæðinginn tortryggilegan.