föstudagur, júní 06, 2008

Skoðanir vikunnar

Niðurstaða Baugsmálsins er ekki í nokkru samræmi við umfang þess. Það verður alltaf einhver skítalykt af þessu, að svo miklu hafi verið tjaldað til fyrir svo lítið. Hins vegar eru samsæriskenningar yfirleitt vitlausar, þær draga upp einfalda mynd af loðnum og flóknum veruleika.

Ef Árni Mathiesen græðir ekki á því að gefa upp rangt lögheimili þá græðir hann ekki á því! DV gerir illt verra með því að viðurkenna ekki mistökin og biðjast afsökunar. Ættu þar að taka fyrrverandi ritstjóra blaðsins til fyrirmyndar (sjá http://www.jonas.is/).

Mansal er hvít þrælasala, mjög oft tengd kynlífsþrælkun en þó alls ekki alltaf. Annað er hún ekki. Ef enginn fótur er fyrir slíkum ásökunum á hendur Geira í Gullfingri þá eru þær einfaldlega ólöglegar. Gildir einu þó að Geiri sé með vafasamt orð á sér, meðal annars vegna tilhæfulauss áburðar af þessu tagi. Dómstólar eru í þessu tilviki að dæma eftir lögum en ekki veita æru íslenskra karla meira vægi en virðingu erlendra kvenna, svo ég hálfvitni í eitthvert pc-bull sem birt var í fjölmiðlum í vikunni.

mánudagur, júní 02, 2008

Æ, ég tók út þessa færslu.

sunnudagur, júní 01, 2008

Kvöldstund vorið 1983 remasteruð

Ég fagnaði 25 ára stúdentsafmæli frá MR í gærkvöld. Ég hitti yndislegt fólk sem ég hef lítið haft af að segja í 25 ár, varla munað eftir að það er til, en allt varð eins og áður. Mjög sérkennilegt. Ég sat m.a.s. að miklum hluta til borðs með sama fólkinu og vorið 1983. Kvöldstundin endurtekin.
Í fyrra skiptið var Ragnar Arnalds í þann veginn að láta af embætti fjármálaráðherra í vinstri stjórn Gunnars Thoroddsson (sem hafði klofið sig úr Sjálfstæðisflokknum) og var í fagnaðinum (sem 25 ára stúdent? Getur það verið að þá hafi hann verið jafngamall og ég nú?). Bekkjarbróðir minn, Jóhannes Gísli, var og er mikill frjálshyggjumaður, og móðgaði fjármálaráðherrann fráfarandi þetta kvöld með einhverjum stórkarlalegum ummælum. Reyndar hafði ég það á sínum tíma eftir einhverjum mjög vammlausum og prúðum bekkjarsystur mínum, Öddu Steinu eða Soffíu Karlsdóttur; Jóhannes Gísli hafði vakið hneykslun einhverra þeirra með ummælunum og Ragnar Arnalds átti að hafa móðgast og sett þöglan.

Alveg þótti mér það makalaust að vera staddur þarna aftur á salerninu í Sunnusal, á sama tíma og Ragnar Arnalds, alveg eins og vorið 1983, ég orðinn stutthærðari og grennri en þá, hann orðinn hvíthærður; annars óbreyttir, og þekkjumst ekki og tölumst ekki við; en frammi situr Jóhannes Gísli, glaður og reifur, alveg eins og forðum. Staðsetning manna næstum því eins og þá. Ég rifjaði þetta upp fyrir Jóhannesi, hann skellihló, en sagði að það gæti bara ekki verið að hann hefði móðgað ráðherrann, stjórnmálamenn væru ekki móðgunargjarnir.

Benedikt Jóhannesson var veislustjóri og var ákaflega fyndinn. En maður endursegir ekki veislustjórn og stand-up, maður þarf að hafa verið á staðnum. Partur af dagskránni voru svokallaðar löngufrímínútur, hlé eftir atriðin og á undan hljómsveitarballinu, sem gestir áttu að nota til að blanda geði hver við aðra. Var fólk hvatt til að tala við þá sem það þekkti ekki, og voru gamlir stúdentar hvattir sérstaklega til að gefa sig að nýstúdentum. Ég sagði tvo brandara þetta kvöld sem þessu tengdust:

1) Jæja, strákar, eigum við þá ekki að fara og tala við nýstúdínurnar og bjóða þeim í glas?
Þetta þótti sumum körlunum fyndið en engri af konunum sem heyrðu.

2) Ég nenni ekki að tala við neina nýstúdenta. Ég á börn heima, ég get bara farið heim og talað við þau.

Þetta var óskaplega skemmtilegt samkvæmi en samt langaði mig heim. Í rauninni voru þarna öll skilyrði til velheppnaðs svokallaðs "fyllerís", en ég vildi vera sprækur í dag. Stundum þegar ég er heima á kvöldin verður mér hugsað til Hótels Sögu og hve gaman væri að vera staddur þar í einhverjum fínum gleðskap. Núna var ég einmitt staddur á Hótel Sögu í fínum gleðskap en þá langaði mig heim. Svo ég lét mig hverfa burtu rétt fyrir miðnætti, hæstánægður með kvöldið og daginn en gleðskapurinn hafði hafist kl. 15 í sólskini niður í miðbæ.