fimmtudagur, júlí 10, 2008

Sæll!

Hljóp 10 km á 56:30 í gærkvöld. Það er persónulegt met.

þriðjudagur, júlí 08, 2008

Litir og hliðar

Þegar ég brölti á hjólinu mínu um miðbæinn og velti fyrir mér öllum tímanum sem ég eyði í ritstörf sem skila mér nánast engum tekjum, í stað þess að skutla mér í markaðsfræði (því ég ber skynbragð á markaðsmál) og vippa mér í betur launað djobb eftir kreppuna (og vinna mig upp og svo framvegis), þá finnst mér ég vera voðalega vinstri grænn. "Þykist þú virkilega vera til hægri?" spyr ég sjálfan mig. Eini munurinn á Dali og geðsjúklingi var sá að Dali var ekki geðsjúklingur. Eini munurinn á mér og vinstri grænum er sá að ég er ekki vinstri grænn.

Stundum hrekk ég upp úr þessum hugleiðingum við að einhver þjóðþekktur umhverfisverndarsinni á risajeppa kemur á siglingu eftir þröngum götum Þingholtanna og hrekur mig upp á gangstétt. Svona til að minna mig á að lífsstíll er eitt og skoðanir annað.

mánudagur, júlí 07, 2008

Ramses heim

http://atlih.blogg.is/2008-07-05/ramses-odour-paul/ Ég tek heilshugar undir gagnrýnisraddir á brottflutning Kenya-mannsins Paul Ramses og ómannúðlega meðferð íslenska kerfisins á honum og fjölskyldu hans. Meðal þess sem hefur verið skrifað um málið er þessi ágæta færsla Atla Harðarsonar. Hún inniheldur jafnframt tengil á undirskriftalista til stuðnings Ramses.

Framganga Björns Bjarnasonar í þessu máli er dapurleg. Eflaust er þetta sjálfstæð ákvörðun útlendingastofnunar, eða hvað sem apparatið heitir, og ekki runnin beint undan rifjum ráðherra, en þegar málið er borið undir hann svarar hann með skraufþurri og tilfinningalausri vísan í bókstaf svokallaðs Dyflinnar-sáttmála þess efnis að heimilt sé að vísa manninum til Ítalíu. Hvað með það þó að löglegt sé að vísa manninum úr landi? Það er ábyggilega líka löglegt að veita honum hæli ásamt konunni hans og barninu litla sem fæddist hér. Þarna fór forgörðum gott tækifæri dómsmálaráðherra til að slá tvær flugur í einu höggi, láta gott af sér leiða í þágu mannúðar og mannréttinda annars vegar, og hins vegar að afla sjálfum sér vinsælda; það hefði hann gert með því að grípa inn í málið og fá embættismennina til að draga þessa ákvörðun til baka. - Þarna hefði nýr aðstoðarmaður ráðherra, Þórir Hrafnsson, sem sjóaður er í auglýsingaheiminum, átt að láta að sér kveða.