föstudagur, september 19, 2008

TMM og Þjóðmál

Kápumyndin á nýjasta TMM er hispurslaus sjálfsmyndaröð af Gylfa heitnum Gíslasyni myndlistarmanni. Hann lítur býsna vel út á myndunum. Í heftinu er birt bréf hans til föður síns. Tvær ólíkar en fínar smásögur eru í heftinu, önnur eftir nýgræðinginn Magnús Sigurðsson, Afskriftir. Magnús verður með smásagnasafn hjá Uppheimum í haust. Hin er eftir Ragnheiði Gestsdóttur og heitir Endurfundir. Ritdómarnar í tímaritinu eru vandaðir eins og vanalega og margt fleira efni finnst mér forvitnilegt þarna en á eftir að lesa, hef þó þegar lesið skemmtilega grein sem túlkar þættina Næturvaktina út frá sálgreiningarkennindum Freuds. Mikið er af ólíkum ljóðum í heftinu eftir höfunda sem í rauninni eru orðnir þekktir innan þessa geira, t.d. Hauk Má Helgason, Ófeig Sigurðsson og Sölva Björn Sigurðsson, að ógleymdum sjálfum EÖN sem birtir býsna skemmtilegt myndljóð og spurning hvort fáfróðum manni á borð við mig gæti hætt til að flokka það undir myndlist; og svo ljóð eftir höfunda sem voru orðnir þekktir áður, Linda Vilhjálmsdóttir og Baldur Óskarsson. Svo má jafnvel halda því fram að enginn þessara höfunda sé í raun þekktur, þ.e. ef miðað er við e-n Flugstöðvar- og Smáralindarmælikvarða.

Þetta mun vera næstsíðasta hefti Silju Aðalsteinsdóttur en síðan tekur Haukur Ingvarsson við.

Þjóðmál er mjög frísklegt eins og vanalega. Óli Björn Kárason skrifar harðorða grein um Sjálfstæðisflokkinn og er ósáttur við samstarfið við Samfylkinguna og vandræðaganginn í borgarstjórn. Vilhjálmur Eyþórsson er lipur penni og mjög hægrisinnaður. Hann skrifar langa grein um það sem hann kallar flathyggju en gengur oftast undir heitinu pólitísk rétthugsun. Vilhjálmur vill meina að flathyggja sé ekki bara skoðanakúgun heldur staðreyndakúgun á borð við þá sem Galileo og fleiri máttu þola af hendi Rannsóknarréttarins á miðöldum. Flathyggjan treður sannleikann í svaðið af því hann er ekki nógu fallegur og skemmtilegur, og smíðar hálærðar kenningar sem hvíla á kolröngum forsendum.

Björn Bjarnason skrifar lofsamlega um nýja 68-bók Einars Más Jónssonar (sem þekktastur er fyrir Bréf til Maríu) en annað efni blaðsins á ég enn að mestu leyti ólesið.

Enginn verður ríkur af að gefa út blöð eins og TMM og Þjóðmál en mikið er gaman að þau skulu vera til. Og kannski er tapið á þeim ekkert meira en af glanstímaritunum (sem ekki hvarflar að mér að lasta), bara minni velta.

P.s. Ónefndur er síðan Innlit-útlitsþáttur eftir Finn Þór Vilhjálmsson í TMM, þetta er leikþáttur upp á nokkrar blaðsíður. Þessi texti er farinn að vekja töluverða athygli en ég á eftir að lesa hann. Sigurbjörg Þrastardóttir vakti athygli mína á honum rétt í þessu (á Súfistanum, Iðu).

fimmtudagur, september 18, 2008

Keflavík verður Íslandsmeistari

http://www.visir.is/article/20080917/IDROTTIR0101/840661244/-1/IDROTTIR

Keflvíkingar hafa rutt enn einni hindruninni úr vegi á leið sinni að Íslandsmeistaratitlinum. Breiðablik er mjög sterkt lið, á góðum degi alveg jafn gott og FH eða Keflavík, en hefur ekki sama stöðugleikann. Að lenda undir 0-1 á móti þessu liði og vinna 3-1 sýnir mikinn styrk Keflvíkinga.
Þeir voru næstum búnir að tapa í Vesturbænum fyrir nokkrum vikum, mættu þá taugaveiklaðir til leiks og voru lakari aðilinn gegn frískum KR-ingum en voru klókir og náðu jafntefli. Það var líka mikilvægur áfangi að tapa ekki þeim leik á krítískum tímapunkti í toppbaráttunni.

Keflavík verður Íslandsmeistari í fótbolta 2008.

KR vinnur hins vegar bikarinn og verður Íslandsmeistari 2009.

miðvikudagur, september 17, 2008

Berlín

Var að koma frá Berlín. Bíð ennþá eftir því að Erla hlaði inn myndunum þaðan svo ég geti birt einhverjar hér. Ég bjó í Vestur-Berlín veturinn 1983-1984, þá vægast sagt blautur bak við eyrun. Í þessari ferð var umhverfið oftar en ekki ókunnuglegt vegna þess að svo mikið af kjarnasvæðum borgarinnar núna voru áður partur af Austur-Berlín, t.d. Alexanderplatz. Þá er Potsdamer Platz allt byggt upp eftir að múrinn féll en var áður bara dautt svæði milli múrs og eftirlitsturna austanmegin. Við vorum hins vegar á hóteli skammt frá K-damm og þá götu þekki ég afar vel, t.d. kirkjurnar þrjár við enda göturnar, ein gömul og tvær í nútímastil. Fyrstu mánuðina í V-Berlín forðum bjó ég í Holsteinische Strasse í Wilmersdorf. Við Erla löbbuðum þangað að kvöldi til en ég þekkti mig engan veginn þarna, hefði getað verið staddur í hvaða þýsku borgargötu sem er. Ég bjó hins vegar töluvert lengur í Stephanstrasse í Moabit (eða á mörkum Moabit og Tiergarten) og óneitanlega þyrluðust minningarnar upp þegar við Erla fórum þangað í hábjörtu. Við fórum inn á útivistar- og íþróttasvæðið þar sem við Jón Óskar vorum alltaf að spila fótbolta við Tyrki í gamla daga og kíktum þá á hluta af neðri deildarleik sem var í gangi, rétt eins og svo oft forðum. Við tékkuðum á krá þarna í hverfinu sem ég stundaði mikið á þessum tíma en núna var búið að loka henni. Skilti og verðlisti stóðu enn uppi en innan dyra var búið að rýma allt.

Kreuzberg er að hluta til "hipp og kúl" eins og forðum en núna virkar sá andi miklu ungæðislegri á mig en þá, þar sem ég er orðinn svo gamall. Lokapartur Orianenstrasse er mjög skemmtilegur, frjálsleg kaffihús og gallerí en framan af er gatan steindauð.

Stemningin á K-damm er skemmtileg, ekki síst á kvöldin, þar sem venjulegt fólk fyllir krárnar, hljómsveitir spila gamaldags bandaríska rokktónlist og maður getur kíkt á fótbolta á skjánum.

Við fórum í DDR-safnið sem er mjög skemmtilegt. Sú fortíð sem þar er til sýnis var að miklu leyti hversdagslegur raunveruleiki á þeim tíma þegar ég bjó í V-Berlín.

Kannski kom mér mest á óvart hvað Berlín er vinaleg. Við vorum satt að segja að gera okkur vonir um meira kúltúrsjokk. En þetta er bara venjulegt fólk eins og í Reykjavík. Ég skil ekki alveg hvað það er sem Þjóðverjum frá öðrum svæðum þykir svo sérstakt eða hneykslanlegt við Berlín.

Okkur langar báðum að koma þarna aftur innan tíðar og halda áfram að skoða borgina. Mér er t.d. sagt að Häckischer Markt sé frábær staður en þangað komum við aldrei í þessari ferð. Það torg er eins og flest sem skiptir máli í Berlín í dag, austan megin þess múrs sem nú er horfinn.