laugardagur, nóvember 08, 2008

Óþolandi óvissa

Telur sig einhver vita hvort við fáum þetta IMF eftir helgi eða ekki?
Verður umsóknin ekki afgreidd vegna andstöðu Breta og Hollendinga?
Getum við fengið Norðurlandalánið ef þetta tekst ekki?
Nægi andstaða Breta og Hollendinga? Gildir einróma álit eða meirihluti við slíkar afgreiðslu?
Er einhver hér sem hefur raunverulega innsýn í þessu mál?

þriðjudagur, nóvember 04, 2008

Almenningsálitið

Nú lítur út fyrir að stórum fjárhæðum hafi verið stolið úr sjóðum Kaupþings rétt fyrir þrotið.

Jón Ásgeir, sem ég hélt að ætti enga peninga lengur, bara skuldir, eignast bestu bitana úr 365 þó að á meðan standi yfir viðræður við mun stöndugri aðila.

Icesave-reikningarnir voru reginhneyksli sem valdið hefur þjóðinni meiri skaða í seinni tíð en nokkuð annað. Ábyrgðina á þeim bera fyrri stjórnendur Landsbankans.

Reiði almennings beinist fyrst og fremst stjórnmálamönnum og stjórn Seðlabankans. Það þykir mér undarlegt. Stjórnmálamenn og Seðlabankinn hafa vafalaust gert mörg mistök en það eru ekki þeir sem hafa rænt þjóðina og sett hana á hausinn.

Hefð í fjölmiðlaumræðu undanfarin ár veldur því að reiði almennings beinist síst þangað þar sem hún þó á heima. Egill Helga fékk meira að segja ákúrur frá fjölmörgum fyrir að vera ekki nógu kurteis við Jón Ásgeir. Og ennþá eru bloggarar að bera lof á Bjöggana.

Jólabækur


Vinur minn, Bjarni Bjarnason, var að gefa út barnabókina Draugahöndin. Vinnufélagi minn, Kjartan Hallur, myndskreytir. Mér líst nokkuð vel á bókina, þetta virðist vera frumlegt ævintýri.
Ætla að láta son minn, Kjartan, lesa hana, og spyrja hvað honum finnst.

Byrjaði að lesa Dimmar rósir eftir Ólaf Gunnarsson. Líst rosalega vel á hana. Þetta er bók sem mig langar til að lesa um jólin en ekki er víst að ég geti beðið þangað til.

Ég er hálfnaður með Ódáðahraun eftir Stefán Mána og hún er bæði skemmtileg og forvitnileg.

Það er skjól í bókunum sem eru að koma út - frá fjármálabrálæðinu sem ríður yfir, óvissunni og dökkri framtíð. En þó ekki nógu mikið skjól. Gallinn við peninga er sá að þeir fara fyrst að skipta máli þegar þá vantar. Þess vegna getur umræðan í samfélaginu ekki snúist um annað en þennan efnahagsvanda allt þar til hann fer eitthvað að lagast.

sunnudagur, nóvember 02, 2008

Sannmæli

Ég veit ekki betur en það hafi verið sex af sjö borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins sem stöðvuðu REI-gjörninginn á sínum tíma. Þeir hlutu ekkert lof fyrir heldur skömm og voru sakaðir um pólitískan klaufaskap. Einn þeirra situr sem borgarstjóri núna.

Flokkurinn þeirra þarf að svara fyrir margt, ekki síst á landsvísu. Og það eru ýmisleg uppgör framundan, til dæmis um afstöðuna til ESB og myntarinnar.

En mér finnst engin ástæða til að byrja strax að falsa söguna. Meirihlutinn í borginni sprakk út af þessu máli fyrir einu og hálfu ári. Höldum þessu til haga.