föstudagur, desember 12, 2008

Tenging við frétt

http://eyjan.is/blog/2008/12/11/goran-persson-sedlabanki-tharf-mann-med-thekkingu-a-althjodlegum-stjornmalum-david-mjog-haefur-a-thvi-svidi/

Vel má vera að það sé ekki vandamál að Davíð er ekki hagfræðingur. Vandmálið er allar þessar vafasömu yfirlýsingar, öll mistök Seðlabankans og núningurinn við ríkisstjórnina. Ef uppákomunum linnir og Seðlabanki og ríkisstjórn ganga í takt þá er málið leyst. Undanfarið hef ég reyndar fengið á tilfinninguna að karlinn muni standa þetta allt af sér.

fimmtudagur, desember 11, 2008

Hlægilega illa dulbúnar einkaskoðanir

http://www.dv.is/sandkorn/2008/12/11/fellur-silfrid/

Óskaplega er kjánalegt að setja prívatskoðun sína fram í dulbúningi fréttaskýringar bara af því maður vinnur á fjölmiðli.

Hvað finnst ykkur um svona "fréttamennsku"?

miðvikudagur, desember 10, 2008

Dimmar rósir


Ég las nýjustu bók Ólafs Gunnarssonar, Dimmar rósir, í síðasta mánuði. Það hefur borið frekar lítið á henni, nokkuð sem Ólafur lætur eflaust ekkert á sig fá enda hefur hann fengið margskonar viðurkenningu síðustu ár og eignast mjög stóran lesendahóp sem eflaust lætur þessa bók ekki framhjá sér fara þó að hún sé ekki mikið í umræðunni.


Dimmar rósir lýsir tveimur fjölskyldum og rúmlega það, hverra örlög fléttast saman vegna tveggja voðaverka. Sagan gerist í kringum 1970 og lýsir andrúmslofti og tíðaranda þess tíma einstaklega vel. Tónlistarbransinn kemur mikið við sögu og vænt þótti mér um að sjá The Who bregða fyrir og m.a.s. hringir Pete Townshend eitt símtal í sögunni.


Ólafur er frábær í hlutlausum og myndrænum lýsingum og persónur hans afhjúpa sig einatt með orðum sínum og athöfnum. Sögunni vindur myndrænt áfram eins og kvikmynd fyrir hugskotsjónum lesandans. Það er frekar sjaldgæft að jafnrútíneraður lesandi og ég, á mínum aldri, og þar að auki rithöfundur, verði andvaka yfir bók. Slík árátta og slíkt hrifnæmi tilheyra árunum í kringum tvítugt. Dimmar rósir varð ég hins vegar að klára því hún heldur manni stíft og því las ég hana fljótt, á lítið meira en tveimur nóttum. Bókin er þó vel yfir 400 síður.

Sagan er líkust Tröllakirkju af fyrri bókum Ólafs, ekki síst þar sem kynferðisbrot og spurningin umn blóðhefnd eru aftur orðin fyrirferðarmikið viðfangsefni rétt eins og þá. Dimmar rósir jafnast fyllilega á við Tröllakirkju en þetta eru tvær frábærar skáldsögur sem standast samanburð við það besta, jafnt erlent sem innlent.


sunnudagur, desember 07, 2008

Bókin í smíðum

Nei, þetta er víst skáldsaga. Ekki smásagnasafn. Þannig lítur þetta út í dag. Frjór dagur.

Kominn tími til að hætta að tala um þetta hér. Skipti um skoðun daglega á meðan verkið er á þessu mótunarstigi.

En það snarvirkar að vinna við BA-ritgerð í heimspeki og skáldskap á sama tíma. Að minnsta kosti fyrir mig, hér og nú.

BA-ritgerðin verður búin langt, langt á undan bókinni.

Maðkétið þjóðfélag

Björn Ingi Hrafnsson og Vilhljálmur Þ. Vilhjálmsson voru næstum því búnir að afhenda FL-Group og Glitnis-liðinu Orkuveitu Reykjavíkur. Vilhjálmur situr ennþá í borgarstjórn en Björn Ingi er einn af þeim sem upplýsir okkur um hrunið í sjónvarpsþætti á Stöð 2.

Höldum þessu til haga.

Borgarstjórinn okkar núna er ein af þeim sem komu í veg fyrir þennan gjörning.

Nokkrir órökstuddir spádómar

Davíð Oddsson hættir fljótlega í Seðlabankanum. Mjög fljótlega. Hann gæti endað sem stjórnarformaður Árvakurs. Ætla samt ekki að spá því.

Íslands sækir um aðild að ESB á næsta ári (ég veit ekki hvort og hvenær við förum inn. Get ekki spáð um það).

Kosningar verða vorið 2011.

Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn verða nokkurn veginn jafnstórir flokkar eftir þær kosningar, Vinstri grænir í þriðja sæti (gleymum því ekki að líklega verður kreppunni lokið vorið 2011 og jafnvel fólk sem hefur orðið illa út úr henni mun frekar einblína á þau tækifæri sem þá verða framundan en að því að refsa stjórnarflokkunum).

- - - -

Ísland verður heims- eða Evrópumeistari í handbolta á næstu árum (handboltinn er útrás sem við höfum raunverulega innistæðu fyrir, sbr. allir íslensku handboltamennirnir og handboltaþjálfararnir í Þýskalandi). Silfrið á OL færði endanlega síefnilegum íslenskum handbolta sjálfstraust og stöðugleika.

KR og FH verða í tveimur efstu sætum úrvalsdeildarinnar í fótbolta næsta sumar. Ég veit ekki hvort verður í hvoru sæti.

- - - - -

Þetta er leikur. Ég hef aldrei verið góður spámaður. Höldum þessu samt til haga.