föstudagur, janúar 23, 2009

Eða Hanna Birna

Hún er ekki óvinsæl og hefur komið vel út í borgarstjórn. Væri kannski ekki jafnfersk umbreyting og hjá Framsóknarmönnum en samt athyglisverður möguleiki.

Kristján Þór Júlíusson sem formann Sjálfstæðisflokksins

Hann er eins óspjallaður og hægt er án þess að vera reynslulaus.

Smásagnanámskeiðið

http://mimir.is/index.php?option=com_mtree&task=viewlink&link_id=469&Itemid=365

Þeir sem vilja skrá sig á smásagnanámskeið núna skrá sig hér. Þetta er 2. umferð en uppbókað er á fyrra námskeiðið. Það er ekkert verra að læra að skrifa smásögu í mars en apríl.

fimmtudagur, janúar 22, 2009

Almanna og einka

Þegar mótmælendur rufu útsendingu Kryddsíldarinnar, brutu rúðu í Fjármálaeftirlitinu og hengdu upp tilfkynningu á útidyrnar, þá voru það markvissar aðgerðir, harðar en í raun ekki ofbeldi.

Þegar götuhellum er grýtt í lögreglumenn og reynt að kveikja í Alþingishúsinu er ljóst að nú er undanrenna samfélagsins farin að njóta sín í skjóli mótmælanna. Nú er verið að eyðileggja mótmælin.

Núna ætti að taka pásu og gefa stjórnmálasviðinu svigrúm til að bregðast við.

Nokkrar mjög almennar kröfur:

  • Kosningar í vor
  • Mannabreytingar í Seðlabanka og Fjármálaeftirlitinu. Hér hefur ríkisstjórnin brugðust verst eftir hrunið. Höfum í huga að hér er í húfi álit okkar og lánstraust erlendis. Enginn tekur mark á okkur á meðan sömu menn sitja í þessum stöðum. Álit umheimsins á Seðlabankastjórn og Fjármálaeftirlitinu er annars vegar vanhæfni og hins vegar klappstýra auðmanna.
  • Sjálfstæðisflokkurinn verður að endurnýja stjórn sína á næsta landsfundi. Það þurfa að koma trúverðug framboð gegn Geir og Þorgerði.

Ég hreifst mjög af mótmælunum í fyrradag en samt leið mér þar frekar sem áhorfanda en þátttakanda. Áhorfanda að sögulegri stund. Hér leikur eðlið stærra hlutverk en pólitískar skoðanir. Þessa dagana á meðan stór hluti þjóðarinnar er að mótmæla er ég á kafi við að skipuleggja verkefni mín næstu mánuði, finna mér launuð verkefni, undirbúa námskeiðahald, stunda nám og stunda skriftir. Þetta er eðli sjálfstæðismannsins og svo sem ekkert til að stæra sig af þessa dagana. Glettilega vel gengur að tryggja sér launuð verkefni og útlitið gott hjá mér. Ég vil einmitt að þetta samfélag verði aftur þannig að sjálfstæðiseðlið fái að njóta sín: hver og einn sinnir sínum verkefnum, andlega og fjárhagslega sjálfstæður. Það er nánast búið að eyðileggja þau skilyrði.

þriðjudagur, janúar 20, 2009

Þriggja ára kenning Geirs Haarde

Enn einu sinni hefur Geir Haarde haldið því fram að lífskjör þjóðarinnar hafi aðeins færst þrjú ár aftur í tímann, nú síðast í viðtali í sunnudagsmogganum. Þetta kann að vera rétt samkvæmt einhverjum kaupmáttarmælingum á þessum tímapunkti en að öðru leyti er þessi samanburður fáránlegur og ber vitni um óhugnanlega afneitun.

Fyrir þremur árum var í janúar árið 2006. Þá var ég á leiðinni til Þýskalands og var að skipuleggja aðra ferð þangað um vorið.

Ekki það að ég sé að væla út af því að komast ekki til útlanda í bili. Það væsir ekkert um mig þrátt fyrir versnandi hag.

En staða almennings svona yfirleitt, sporin sem við öll vorum í fyrir þremur árum, eru allt önnur en í dag og það er pirrandi að heyra forsætisráðherra líkja þessu saman. Það er svo mikið bull.

Hvað varst þú að gera í janúar árið 2006? Hvernig var útlitið þá? Var það á einhvern hátt sambærilegt við ástandið í dag? Auðvitað ekki.

Ætlar Sjálfstæðisflokkurinn í viðlíka endurnýjun og Framsókn á næsta landsfundi? Eða á að halda áfram að persónugera lausnina?

sunnudagur, janúar 18, 2009

Áhugavert svo ekki sé meira sagt

http://www.visir.is/article/20090118/FRETTIR01/40743754

Flokkurinn er gamall og úldinn og þar að auki pínulítill. En formaðurinn er splunkunýr, ferskur og óspjallaður og hefur þar að auki haft uppi góðan og athyglisverðan málflutning í brennandi málefnum.

Krafist er endurnýjunar á valdastólum. Fólk vill kosningar vegna þess að það vill fá aðra valdhafa en þá sem bera ábyrgð á hruninu. En stjórnarandstaðan hefur til þessa ekki virkað mjög spennandi.

Núna er hins vegar kominn fram nýr og áhugaverður maður.