Einhvern tíma hefði ég fyllst hryllingi yfir vinstri stjórn með VG í stórum hlutverkum. En nú segir maður eins og margir: Getur það versnað?
Vinstri græn hafa margt ágætt fram að færa og trúverðugt fólk innan um. En þetta eru ekki tímar til að horfast ekki í augu við niðurskurð og þetta eru ekki tímar til að vera á móti álvinnslu. Auk þess er skattpíning yfirleitt til bölvunar.
En ég sé ekki lýðskrumið í þeim áhuga VG að vilja frysta tímabundið eignir útrásarvíkinga. Hér er einfaldlega verið að endurróma óskir og kröfur þorra almennings. Kannski er þetta hægt, kannski ekki. Álfheiði Ingadóttur mæltist vel þegar hún minnti á á frysting eigna er ekki það sama og yfirtaka.
Ég hef alltaf trúað á frjálst framtak og lítil ríkisafskipti. Ég hef þrifist vel í slíku umhverfi undanfarna tvo áratugi. En síðustu misseri, hugsanlega síðustu ár, fór stefnan á villigötur. Þegar við þetta bætist fádæma deyfð og óákveðni síðustu stjórnar, t.d. frámunaleg tregða til að höggva á hnútinn og gera nauðsynlegar mannabreytingar í ráðherraliði, Fjármálaeftirliti og Seðlabanka, þá er manni nóg boðið og ég er orðinn munaðarlaus í pólitík.
Annars er það sérkennilegt að allir hafa gengið út frá því að það stæði upp á Sjálfstæðisflokkinn að reka forstjóra Fjármálaeftirlitsins. Síðan kom á daginn að auðvitað var þetta á forræði viðskiptaráðherra Samfylkingarinnar sem kippti þessu loks í liðinn án þess að spyrja Sjálfstæðisflokkinn leyfis.
En nú er bara að vona að við förum ekki úr öskunni í eldinn. Getur svona vont versnað?
Vonandi kemur eitthvað trúverðugt úr þeirri gerjun sem á sér stað núna í grasrótinni. Ég væri sannarlega til í að kjósa nýjan framboðslista. Það verður bara að vera vit í honum og fólk á honum sem maður treystir virkilega til að stökkva í ráðherraembætti.
Annars hef ég verið á kafi í tímabundnum verkefnum undanfarið og því ekki geta bloggað um stórviðburði síðustu daga. Ég er að hætta á Íslensku auglýsingastofunni og hef stundað háskólanám frá 12. janúar. Ætlunin var að læra mikið (40 einingar), skrifa mikið og vinna pínulítið með náminu (t.d. Mímir). En undanfarið hafa verið að bætast við launuð verkefni og auk þess er framtíðarstaðan í þeim efnum áhugaverð en óljós sem stendur. Ef ég fæ meiri vinnu en ég átt von á þá verð ég að hægja á náminu því ekki hætti ég að skrifa.