laugardagur, maí 16, 2009

Furðutímar

Hver hefði getað séð fyrir þann möguleika að ríkið færi í samkeppni við fjarskiptafyrirtæki sem héti Síminn aka Landssíminn aka Póstur&sími. Og ríkisfyrirtækið væri Vodafone.

En hvað eiga menn að gera?

Engar ákvarðanir eru góðar í dag.

föstudagur, maí 15, 2009

Skrýtinn dagur en rökréttur

Ég skilgreini mig hvorki í atvinnuleit né sem atvinnulausan þó að ég sé ekki í föstu starfi. Ég er rithöfundur. Lausamaður. Námsmaður. Hitt og þetta. Engu að síður var ég í viðtali í morgun, þ.e. ég falaðist eftir mjög áhugaverðu, föstu og ekki of tímafreku verkefni. Ég var langt því frá einn um hituna en engu að síður var viðkomandi nánast búinn að ákveða að ráða mig áður en ég mætti á staðinn. Kannski óvenjulegt en í raun fullkomlega rökrétt miðað við tilefnið og allt samhengið. Mér líkar svona "no-bullshit"-afstaða. Sérstaklega þegar hún hentar mér.

Mamma keyrði mig á staðinn. Þegar ég kom út aftur af hinum velheppnaða fundi kom í ljós að það var sprungið á öðru framdekkinu hjá mömmu. Það þótti mér afskaplega sanngjörn niðurstaða af samanlögðu örlagaspili morgunsins. Guð gefur og guð tekur. Ég splæsti því með glöðu geði í leigubíl til baka og tók nótu fyrir enda bílferðin augljóslega kostnaður vegna starfsemi minnar. Alli bróðir sá svo um að græja bílinn hennar mömmu stuttu síðar.

Íslenska var búin að hafa samband fyrr um morguninn og ég leysti þar af í eftirmiðdaginn. Las yfir tvær auglýsingar, einn bækling og einn flyer. Skrifaði eina útvarpsauglýsingu. Ég sat í gamla sætinu mínu og notaðist við gömlu fartölvuna mína sem Íslenska gaf mér við brottförina í lok janúar. Þegar ég prófaði að ýta á print kom í ljós að tölvan var enn tengd við prentarann hennar Guðrúnar verkefnastjóra alveg eins og síðast.

Fólki þótti skrýtið og gaman að fá mig aftur. Mér líkaði þetta vel en myndi ekki kæra mig um að fara í gamla starfið aftur. Ekki nema einn og einn dag kannski.

En nú er komið kvöld og tími til að reyna að skrifa. Eins og maður. Eins og rithöfundur. (Þeir skrifa einmitt oft svona stuttar málgreinar með endurtekningum).

fimmtudagur, maí 14, 2009

Fært til bókar

Það upplýstist í kvöld að útgerðarmenn - a.m.k. sumir þeirra - telja sig eiga kvótann en hann sé ekki í þjóðareign.

Rætt var við einn þeirra í Kastljósinu og hann færði þau rök fyrir þessari skoðun að útgerðarfyrirtækin færðu kvóta sinn til eignar í bókum sínum.

Þetta eru mjög áhugaverð rök.

Þórólfur Matthíasson svaraði þessu svo að hann vonaði að viðkomandi væri ekki búinn að eignfæra húsið hans í bækur fyrirtækisins.

miðvikudagur, maí 13, 2009

Facebook efni frá manni sem er ekki kominn með Facebooksíðu

Það gengur ekki fyrir mann eins og mig að láta aðdáendur sína ekkert vita af sér í viku. En ég var í prófum. Nú eru þau búin. Alls hef ég lokið 35 einingum á þessu misseri. Næstu mánuði verða ritstörfin í aðalhlutverki.

Hin meintu smávægilegu fótboltameiðsli sem ég reifaði um daginn reyndust ekki jafnlítilfjörleg og ég hélt. Ég hef brákað rifbein og hef ekki hugmynd um hvenær ég næ mér af því. Það þýðir ekkert fyrir mig að hlaupa þessa dagana, hvað þá fara í fótbolta, ég verð að hlífa þessu svæði.Tilhugsunin er óneitanlega nokkuð skelfileg með tillliti til brennslu. Ef hún hrapar, eins og hún gerir óhjákvæmileg núna, hleyp ég þá ekki í spik (meira spik)? Niðurstaðan í augnablikinu er sú að ég þori ekki að borða mikið þannig að það er sjálfleyst.

Ríkisstjórninni óska ég alls hins besta. Jón G. Bjarnason hefur aldrei verið draumaráðherrann minn. Hins vegar gat ég ekki annað en hrifist af blikinu í augum hans þegar stjórnin var mynduð á Bessastöðum. Hvað þetta var mikil stund fyrir hann. Hvað hann var augljóslega hrærður.Fyrir nokkrum misserum hefði þetta verið mín martraðarstjórn. En það hefur allt hrunið og allt snúist á hvolf. Gangi þeim vel.

Ég skrifa stutta grein fljótlega sem ég mun vísa í héðan.