föstudagur, júlí 03, 2009

Miklu skárri mylsna úr vel sofnum kolli

Ég minni svo á að hér er hægt að kommenta við Pressupistlana mína og einnig á Facebook. Pistlasafnið er hér til vinstri.



Hann gekk að henni við götuljósin og spurði hana hvort hún héti Drífa Sjöfn Baldursdóttir þó að hann vissi það auðvitað vel og hún kæmist augljóslega fljótt að því að hann hefði vitað það allan tímann, en þetta virtist eina færa leiðin til að hefja samtalið við þessar aðstæður. Hún kinkaði kolli og þá sagði hann: “Það virðist hafa orðið dálítill misskilningur varðandi símtal, værirðu til nokkuð til í að ganga afsíðis með mér og spjalla aðeins.”

Það var undarlegt að taka sér þetta orð í munn, afsíðis, þó að honum væri það þokkalega tamt sem textamanni. Það var í rauninni óheppilegt, hljómaði vafasamt, jafnvel ógnandi. Það hafði þó ekki slæm áhrif á þennan viðmælanda: hún varð möglunarlaust við beiðni hans. Kinkaði bara kolli aftur, þögul, eða kannski sagði hún eitthvað lágt sem hann heyrði ekki fyrir umferðargnýnum.

Eflaust var hún mjög undrandi en það sást ekki á henni. Ósvikin undrun er líka miklu óræðari en við gerum okkur sjálfkrafa í hugarlund, sjáum í sjónvarpinu eða iðkum í leikrænum samskiptum, eins og til dæmis þegar ung stúlka glennir upp augun, grípur um munninn og hrópar framan í vinkonu sína: Í ALVÖRU? ÉG TRÚI ÞÉR EKKI!

Þarna við götuljósin í dag – og við sambærilegar aðstæður ef þær eru til, sem þær líklega eru, honum kemur bara ekkert dæmi í hug, - þá er varla um annað að ræða en kinka kolli eða hrista höfðið og um leið byrjar undrunin að renna með blóðinu um æðarnar án nokkurra ytri merkja fyrst í stað.

“Kannski setjast þarna dálitla stund”, sagði Þórir og benti í áttina að gamla biðstöðvarhúsinu á Lækjartorgi. Þau gengu þangað þegjandi og settust inn á kaffihúsið Segafredo. Honum leið eins og hann væri staddur í sögu, gallinn var sá að hann var sjálfur höfundurinn og sagan algjörlega ómótuð, líklega var engin saga, bara eitthvert endasleppt plat, og skyndilega, í örstutta stund, var hann lamaður af skelfingu.

miðvikudagur, júlí 01, 2009

It´s mylsna time again, folks!

Þetta passar ekki inn á Pressuna, finnst mér, þó að ég hafi verið hvattur til að birta hvaðeina þar. Þetta kemst ekki fyrir á Facebook, veggurinn virðist bara samþykkja ákveðinn stafafjölda.

En forsagan.

Ég var andvaka í nótt, sem var skítt því ég hafði verið með miklar heitstrengingar um afköst dagsins í dag. Ég gat heldur ekki sofið í morgun og fór því á fætur með 2-3 tíma í hausnum. Ég hafði m.a. reynt að sofna út frá skáldsögunni Undir himninum en það hafði ekki tekist. Ég hitti síðan höfundinn á Þjóðarbókhlöðunni í dag og spurði hann hvort hann gæti skrifað illa sofinn. Hann sagði nei. Þá fann ég Bjarna Bjarnason á Facebook og spurði hann sömu spurningar. Hann sagði já. Og spurði "hver ert þú?".

Síðan skrifaði ég þetta. Smám saman. Klukkan orðin þrjú og þetta er síðan hálfellefu, ellefu. Ekki mikið. Meira á morgun. Eitthvað smá á eftir.



Þegar þjálfarinn hefur tæmt sína dagskrá fer upp ein af þessum eldri mæðrum, kona sem gæti verið rösklega hálffimmtug. Hún er nokkuð mjúkholda, lagleg kona með millisítt slétt hár og rauðar kinnar sem gera hana barnslega.
Móðirin er með nokkuð snúið erindi frá Landsbankanum. Drengjunum standi öllum til boða frí íþróttataska merkt bankanum en með tveimur skilyrðum. Annað er að allur hópurinn sameinist um að þiggja tösku og að hver drengur mæti ávallt með sína tösku til leiks og æfinga. Hitt er að stofna þarf reikning fyrir hvern og einn dreng í útibúinu í Höfðabakka milli klukkan eitt og þrjú á fimmtudaginn og leggja inn á hann 500.000 kr.
Raddhljómur konunnar er flatur og þreytulegur, eins og henni leiðist að tala um þetta, ill nauðsyn sem það sé. En þó er engan veginn hægt að slá því föstu því hún kímir af og til í ræðunni, af engri sjáanlegri ástæðu. Fallegar viprur í munnvikunum eru þannig í andstæðu við leiðan raddtóninn svo heildarmyndin er óræð; auk þess lygnir hún af og til aftur hágrænum augunum og gefur þar með ræðunni léttan og kæruleysislegn blæ.
“Það er ekkert endilega víst að allir vilji auglýsa Landsbankann svona þannig að við þurfum kannski að ræða þetta vel. Svo er líka spurning hvort fólk komist á þessum tíma í bankann.”
Þegar Þórir var í fótboltanum horfðu foreldrar hans ekki á einn einasta leik. Það tíðkaðist ekki og hann saknaði þess ekki. Kom möguleikinn ekki í hug og þeim örugglega ekki heldur því þau voru góðir foreldrar. En eftir á að hyggja finnst honum samt skrýtið að engum hafi dottið það í hug og honum skuli ekki einu sinni hafa hugkvæmst að langa til þess að pabbi horfði á hann keppa. Því auðvitað hefði það verið rosalega gaman. Pabbi hans hefði ekki þurft að klæða hann í fótboltaskóna eða færa honum vatn í mjúkum plastbrúsa sem þá hafði ekki verið fundinn upp, að minnsta kosti ekki fluttur inn til Íslands, og það hefði ekki þurft að blanda neinum banka í málið, en óneitanlega væru góðar minningar úr strákaboltanum ennþá betri en faðir hans hefði orðið vitni að helstu afrekunum á vellinum. En á þeim tíma hefði það líklega flokkast undir að horfa á börn leika sér og fullorðið fólk eyddi ekki tíma í slíkt þá.
Flestir taka vel í tilboðið. Sumar konurnar þurfa þó að spyrja margs. Ein spyr hvort hægt sé að fá jafnvel hagstæðara tilboð hjá Glitni. Systursonur hennar spili með Fjölni og þar bjóði bankinn bæði tösku og vatnsbrúsa. Að vísu þurfi 1.000 kr. innlegg þar á reikninginn sem er opnaður en hún sjái ekki að það sé ókostur.
Mamman með framsöguna lygnir aftur grænu augunum og segir að hún sé opin fyrir öllu. En væri þá einhver til í að kanna málið hjá Glitni, bætir hún við og setur viprur í munnvikin. Henni finnist nóg að sinna sambandinu við Landsbankann.

þriðjudagur, júní 30, 2009

Kominn á Facebook

Þessi síða er ekki dálítið mikið 2007.
Hún er dálítið mikið 2004.

Minni á pistlasafnið á Pressunni hér til hliðar.

sunnudagur, júní 28, 2009

Hversu máttu gjalda, ...

... gamla góða blogspot-síða? Hér gerist fátt en pistlasafnið á Pressunni er hér til hliðar. Ennþá kann ég ekki á Face-book. Kannski breytist það í nótt.

Komment við Pressupistlum eru vel þegin hér.


Gute Stunden

(Nei, Þjóðverjar segja held ég ekki svona).