laugardagur, júní 12, 2004

Við fórum á Tapasbarinn í gækvöld til að halda upp á brúðkaupsafmælið og borðuðum haug af gómsætum smáréttum. Ég var eins og forsetaframbjóðandi í tauinu enda um að gera að slíta eitthvað þessu dóti sem ég keypti í USA, var í dökkbláum teinóttum jakkafötum og með rautt bindi. Á eftir skruppum við á sumarhátíðina uppi í Íslensku á Laufásvegi. Þar voru allir úti í garði, ýmist að búsa eða spila blak. Erla sagði að stemningin minnti sig á Atlavík um Verslunarmannahelgina í gamla daga. Við löbbuðum heim í yndislegu veðri. Á leiðinni spurðu þrír unglingsstrákar okkur til vegar og urðu síðan samferða okkur. Þeir voru á leiðinni í partí á Kvisthaga og virtust aldrei áður hafa komið í Vesturbæinn.

Í dag fór ég með ungum frændum mínum, Sæma og Simma, á bikarleik KR gegn Víði í Garðinum. Þar var brjálað slagveður allan tímann en KR marði þetta, 3-1. Í hálfleik fengum við þær fréttir að HK hefði slegið Skagann út úr bikarnum og vöktu þau tíðindi kátínu. Menn veltu því fyrir sér hvað Óli Þórðar hefði sagt eftir leikinn.

Ég er búinn að horfa á tvo fyrstu leikina á EM í dag, þannig að fótboltinn er að fá sitt núna. Á eftir þykist ég ætla að vinna við handritið enda vel útsofinn.


föstudagur, júní 11, 2004

Voðalegur drumbur er ég að vera ekki búinn að minnast á þetta: Ég á 10 ára brúðkaupsafmæli í dag. Við förum á Tapasbarinn í kvöld og höldum upp á þetta.

Hvar eru bækurnar í Máli og menningu? Ég meina alvöru bækurnar. Smám saman hefur hin eiginlega erlenda bókmenntadeild verið að skreppa saman í kjallaranum og nú er nánast ekkert þarna lengur nema vísindaskáldsögur og reyfarar. Þar með á maður varla erindi aftur á Súfistann en helsti kostur þess kaffihúss var að geta gluggað í erlendar bækur á meðan drukkið var kaffi. Síðan keypti maður bók og bók. Það verður varla í bráð.

Það eru ekki allir sem kunna að meta tæpitungulausan tjáningarmáta. Sérstaklega ekki þeir sem eru vanir að tala í kringum hlutina og pískra á bak náungans. Og ýmsum svíður það illilega að til skuli vera fólk sem er sátt við sjálft sig og ánægt með hæfileika sína. Ekki síst þeir sem langar en lítið kunna. Hvað á það að þýða að eitthvert fólk úti í bæ þykist kunna að skrifa þegar maður er að bryðja sín þunglyndislyf í fýlu heima? Eins og allir vita er gríðarlega mikið af nafnlausum ritsóðum á netinu, botnlausri mannvonsku og lágkúru. Almennt er fólk fremur kurteist í samskiptum sínum á förnum vegi. Maður sér yfirleitt ekki slagsmál, öskur eða hrækingar í andlit á Laugaveginum, í Kringlunni eða Smáralind. Netheimurinn er því í algjörri mótsögn við friðsælt yfirborð mannlífsins. En sumt af fýlulega fólkinu sem vill ekki bjóða góðan dag og erfitt er að halda uppi samræðum við, hvað þá ná augnasambandi við, það fær útrás í skjóli nafnleyndarinnar í tölvunni sinni.

Það er þó í lagi á meðan það gerir ekkert verra af sér.

fimmtudagur, júní 10, 2004

Dýrleg stund á KR-vellinum í gærkvöld. Stemningin góð og kunnugleg. Ég var í miðjum Zebra-hópnum og tók þátt í því að draga risastóran KR-dúk yfir hjörðina í stúkunni rétt fyrir leikinn. Þrír bjórar á Rauða ljóninu. Frekar rólegt þar en þó einn af lesendum mínum, tónlistarmaðurinn og KR-ingurinn Geiri Sæm. Hann sagðist hafa lesið Sumarið 1970, fundist hún góð en sorgleg. - Verð frameftir í vinnunni í kvöld að endurskrifa Sektarskipti. Þarf að skila af mér handriti fyrir 1. ágúst. Samt er ekki endanlega ljóst hvar bókin kemur út en einn kostur er öruggur.

miðvikudagur, júní 09, 2004

Undir kvöld, þegar ég gekk eftir Hjarðarhaganum, sá ég konu hylja augu sín með hendinni. Þannig sat hún hreyfingarlaus í bílstjórasætinu, bíldyrnar opnar, enginn annar í bílnum. Var móðir hennar látin? Hafði eiginmaðurinn haldið framhjá henni? Eða var hún bara dauðþreytt? Mígreni? Undir kyrru yfirborðinu leynast sögur úti um allt. En sá sem hefði fyrir stuttu birt sögu um móður í Vesturbænum sem myrðir barnið sitt í svefni, hann hefði ekki virkað trúverðugur höfundur. Þegar ég fór í haustlitaferðina með Íslensku auglýsingastofunni í fyrra með rútu, þá sáu einhverjir stelpu totta kærastann sinn á götuljósum við Miklubraut. Slík sena vekur upp þá spurningu hvort klámmyndir séu þrátt fyrir allt trúverðugar. Eða er það kannski ungt fólk sem endurspeglar klámmyndir en ekki öfugt?

Tengsl veruleika og skáldskapar eru endalaust umhugsunarefni.

þriðjudagur, júní 08, 2004

Vel má vera að ég sé engu betri en óskaplega finnst mér fólk vera ómálefnanlegt þegar það hefur einu sinni skipað sér í lið á móti einhverjum. Meirihlutinn af þeim sem ég þekki eru sammála ákvörðun Ólafs Ragnars að skrifa ekki undir fjölmiðlalögin. Menn hljóta þá að vera samþykkir því að forseti Íslands hverju sinni neiti að skrifa undir öll lagafrumvörp sem hann er ósammála og vísi þeim til þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er allt morandi af fólki sem setur sig ekki inn í mál og hefur ekki áhuga á þeim. Samt á það að greiða atkvæði um þau og taka þingræðið af alþingi. Flestir eru t.d. í senn á móti sköttum en með ríkisútgjöldum. Mér virðist hér kominn vísir að skrílræði.

Er virkilega enginn sem er annars vegar á móti fjölmiðlafrumvarpinu en hins vegar líka á móti synjun forsetans? Er enginn málefnanlegur lengur? Eru allir bara í liði, þar af helmingur í liðinu á móti Davíð? Uppreisnin gegn Davíð.

Og síðan eru menn á móti því að 75% kjörsókn þurfi til að fella lagafrumvörp í þjóðaratkvæði. Hvers vegna í ósköpunum. Eiga kannski nokkur þúsund vinstri sinnaðir kjaftaskar að fá að stjórna því hvaða lagafrumvörp hægri stjórnar verða að veruleika?

Nóg um pólitík í bili. KR-ÍA á morgun. Mun KR rétta úr kútnum á ögurstundu eins og flest undanfarin ár eða verður þetta sumar endurtekning á 2001? Ætla á Rauða ljónið fyrir leik og svo fer það eftir úrslitunum hvort ég mæti þangað eftir leikinn.

Ekki mjög bókmenntalegur í dag? Jæja, ég svaf fyrir skriftum í morgun. Drattaðist í vinnuna rétt fyrir 11 og ætla að skrifa fram á nótt: endurgerð sögunnar Sektarskipti.

mánudagur, júní 07, 2004

Bókakaup í USA. Ég keypti bækur á tveimur stöðum í Bandaríkjunum, í fornbókaversluninni Book Tales í strandbænum Encinitas, rétt hjá San Diego, og í Borders bókakeðjunni víðsvegar á ferðum mínum. Skilti Book Tales prýðir mynd af ketti eigandans, kötturinn heitir Tuxedo vegna þess að hann er alsvartur fyrir utan hvítan "flibba" um hálsinn. Þarna keypti ég safnrit með verkum Trumans Capote og las aftur mér til ánægju spennusöguna Handcarved Coffins um fjöldamorðingja í smábæ í Bandaríkjunum. Mér leikur forvitni á því að vita hversu mikill sannleikur er í þessari frásögn og hvar hann er að finna, en bókin er skrifuð í sama stíl og In Cold Blood, þ.e. samtöl eru með nöfnum persóna og tvípunkti á undan kommentum. - Í Book Tales keypti ég líka gamla skáldsögu eftir Eudoru Welty, The Optimist´s Daughter.

Mestu ánægjuna hef ég haft af The Stories of Richard Bausch sem ég keypti í Borders. Hnausþykk bók, ég hafði lesið eitthvað af sögunum áður, en þó bara brot. - Ég keypti líka fyrstu skáldsögu Tobiasar Wolffs, en hann er þekktur smásagna- og æviminningahöfundur. Ansi finnst mér byrjunin döpur á skáldsögu hans og stíllinn skyndilega orðinn máttlaus og hlaðinn fullyrðingum og overstatements. - Ég keypti smásagnasafn Alice Munro, Friend of My Youth, frábær eins og allar hennar bækur. Þá keypti ég stutta ritgerð um smásögur Raymonds Carver, mjög læsilegt efni. Ég keypti O. Henry verðlaunasögurnar fyrir árið 2003 en svo gaf ég Rúnari Helga í afmælisgjöf The Best American Short Stories 2003.

Allt ber þetta að sama brunni, smekkur minn er ansi mótaður og það eru ákveðin nöfn sem vekja mér hungur. Ég er farinn að taka Íra inn í bland við Ameríkanana, enda Írar mikil smásagnaþjóð. Langar að lesa meira eftir Mary Lavin og svo er ég spenntur fyrir höfundi sem Kolla Bergþórs var að fjalla um í Fréttablaðinu á laugardaginn, Maeve Brennan. Hef lesið eina sögu eftir hana. Helvíti var þetta annars gott hjá Kollu, maður sér vanalega ekkert nema reyfarahöfunda og Harry Potter þetta og Harry Potter hitt í bókaumfjöllun nú til dags.

sunnudagur, júní 06, 2004

Hvað er með þessa nýju klósettfrekju ungra kvenna? Í tvö síðustu skiptin sem ég hef farið á Kormák og Skjöld (þ.e. rétt áður en ég fór út og rétt eftir að ég kom heim) eru ungar stelpur að frekjast á karlaklósettinu. Sú fyrri talaði hástöfum við vinkonu sína inni á lokuðu salerni um það að hún hikaði ekki við að fara inn á karlasalerni ef mikil traffík væri kvennamegin, hún fílaði auk þess ekki kjaftasnakk og snyrtingu á kvennaklósettum og vildi fá að pissa í friði. Sú síðari blaðraði í gemsa inni á karlasnyrtingunni, klædd mjög stuttum hvítum kjól. Ágætis exibisjónismi það. Nú er það svo að öllum körlum er nákvæmlega sama þó að konur fylli karlaklósett og kannski finnst okkur það bara gaman. En samt er þetta yfirgangur. Því auðvitað myndu þessar litlu píkur tryllast ef karlar birtust inni á kvennaklósettinu. Ég fatta því ekki alveg meininguna í þessu. Er þetta eitthvað sem þeim er kennt í nýja bleika feministafélaginu? Og hver er þá merkingin? Eiga karlar ekki að fá að hafa það í friði sem konur hafa í friði?

Ferðaþreytan er rétt að byrja að síga úr mér. Við komum heim á miðvikudagsmorguninn og ég og Erla höfum varla náð okkur síðan, þreytuverkir í löppunum, andvökur ofl. Mætti í 45 ára afmæli Rúnars Helga á miðvikudagskvöldið, það var „Surprise party“, tiltæki konunnar hans. Samkvæmið var í húsi Rithöfundasambandsins við Dyngjuveg. Bókmenntalegar ræður, samræður og góður matur. Mér hefur verið tíðrætt um stórmál síðustu daga, synjun Ólafs Ragnars og barnsmorðið í Vesturbænum. En ég er orðinn leiður á forsetamálinu, þó að það sé rétt að byrja, og hið síðarnefnda er of viðkvæmt.

Og útgáfumálin, get ég talað um þau? Tja, bókin kemur út, það er á hreinu, meira get ég ekki sagt. Mín bíður það notalega verkefni að nostra við handritið og fullbúa það til útgáfu. Mesta vinnan verður að lengja söguna Sektarskipti, þar finnst mér að vanti kjöt á beinin og sagan fullviðburðarík fyrir 11 blaðsíður, eða of stutt miðað við efnið. Hún birtist hins vegar í núverandi útgáfu í Smásagnablaði Nýs lífs í næsta mánuði, en sú sumarútgáfa er nú orðin árviss. Í fyrra birti ég þar söguna Eiginkonu þýskukennarans.

Ég fann í vetur að ég er kominn á mikið skriftarskrið og farin að malla jafnt og þétt eins og ódrepandi vél. Bandaríkjadvölin hefur heldur en hitt æst í mér hungrið í að semja sögur. Ég þarf að finna réttan tímapunkt í sumar til að slá striki yfir þetta handrit og byrja á öðru.