föstudagur, júlí 16, 2004

Ekkert að gera í vinnunni í dag svo ég lauk við að lesa skáldsögu Frakkans Emmanuel Carrére, Class Trip. Sagan er aðeins 165 síður. Hún er ansi mögnuð og Carrére er penni sem heldur athyglinni.

Kattarsaga með óvæntum endi. Haustið 2002 fengum við okkur algráan kött. Freyja skýrði hann Grástein. Við létum gelda hann, hann var gæfur og heimaríkur, malaði óskaplega hátt og allt gekk að óskum. Vorið 2003 var hann þó farinn að verja miklum tíma að heiman en þó í nágrenninu. Um miðjan júní fórum við í Húsafell og gistum þar eina nótt. Við fundum ekki köttinn um það leyti sem við fórum af stað en það átti ekki að koma að sök enda var hann vanur að skríða inn um kjallaragluggann þegar hann vildi komast inn og leggja sig í gömlum barnavagni. Þegar við komum til baka fundum við hins vegar ekki köttinn og sólarhring síðar vorum við farin að óttast um hann. Um þetta leyti hóf ég störf á Íslensku auglýsingastofunni, eftir þrjá vinnudaga kom helgi og ég fór að leita að kettinum í mígandi rigningu, en án árangurs.

Stuttu síðar var hringt í okkur. Maður í nágrenninu hafði fundið hræið af Grásteini á Ægisíðunni, þar sem greinilega hafðið verið ekið yfir köttinn, jarðað hann við grásleppuskúrana og sett upp kross með nafni hans. Þessar upplýsingar, þar á meðal símanúmerið okkar, var að finna á hálsól kattarins. Freyja hefur ávallt síðan hlúð að leiðinu, lagt þar blóm og fyrir stuttu setti hún ljósmynd af kettinum á leiðið.

Haustið 2003 fengum við okkur annan kött, sem er nánast eins í útliti og hinn, algrár að lit líka. Freyja skýrði hann Gorm. Hann er nánast eins í háttum og Grásteinn, geldur, gæfur, malar hátt og er mikið úti þó að hann fari ekkert úr nágrenninu. Hann er sem betur fer lifandi og sprækur ennþá.

Rétt áðan átti ég kattarsamtal við tvo vinnufélaga úti í sólinni í portinu hérna. Þá kemur upp úr dúrnum að annar vinnufélaginn, Ævar, sölustjóri Auglýsinga- í símaskrá, er maðurinn sem fann kattarhræið og jarðsetti það svona smekklega. Ég tók í hönd honum, þakkaði honum kærlega og síðbúið, settist síðan við tölvuna og skrifaði þetta.

Aftur: Kærar þakkir, Ævar.

Fór á Borgarbókasafnið í hádeginu í gær, skilaði smásagnasafni eftir Richard Russo, The Whore´s Child, bók sem mér líst ekkert á, virkar máttlaus og ómarkviss, og tók tvær bækur: Tók Bliss and Other Stories eftir Katherine Mansfield aftur að láni eftir að hafa skilað henni fyrir stuttu, þar sem ég ætla að skrifa dálitla grein á Kistuna út frá titilsögunni einhvern tíma síðar í mánuðinum; auk þess tók ég skáldsöguna Class Trip eða La Classe de nege, eftir Emmanuel Carrére, þann sem skrifaði Óvininn er sló í gegn hjá JPV í hitteðfyrra. Þetta er stutt spennusaga um skíðaferðalag; aðalpersónan er ungur og bældur drengur. Mér líst nokkuð vel á söguna og vona að hún haldi dampi, ætla þá að lesa hana ítarlega og velta fyrir mér samsetningunni á stuttri skáldsögu.

miðvikudagur, júlí 14, 2004

Fjölmiðlarnir segjast vera hlutlausir. Eflaust telja þeir sig vera það. Enginn fjölmiðill auglýsir sig þó lengur undir slagorðinu "frjálst og óháð". Þeir leggja aðeins áherslu á hlutleysi sitt aðspurðir. Hlutlausir eða ekki, þá er staðreyndin sú að mjög áhrifamiklir fjölmiðlar hafa gagnrýnt ríkisstjórnina linnulaust síðustu misseri. Þeir hafa auðvitað fullan rétt á því. Ríkisstjórnin er óvinsæl og mælist í töluverðum minnihluti í hverri skoðanakönnunni á eftir annarri. Engu að síður er ástandið í þjóðfélaginu þannig að efnahagsvandi er að verða fyrirbæri sem heyrir sögunni til. Ástandið hérna er svo gott að allir stjórnmálamenn og allir málsmetandi aðilar geta eytt heilu sumri í að karpa um fjölmiðlafrumvörp. Ástæðan er sú að það eru svo fá og lítil raunveruleg vandamál sem steðja að.

Fjölmiðlar eru skoðanamyndandi. Stöðugur málflutningur þeirra hefur haft þau áhrif að ríkisstjórnin er óvinsæl þó að ástand þjóðmála sé betra en það hefur nokkru sinni verið. Fjölmiðlar mega svo sem alveg hafa skoðanir og vera í stjórnarandstöðu. Ef ég væri blaðamaður vildi ég samt heldur vinna á óháðum fjölmiðli sem hlífði engum en segði umfram allt hlutlausar fréttir. - Hvernær koma slíkir fjölmiðlar aftur til sögunnar?

Hitti Jón Atla Jónasson í Vesturbæjarlauginni í kvöld. Aðspurður sagði hann að skáldsagan sín kæmi út í haust. Hann virtist ekki mjög bjartsýnn á söluna og mér fannst hann heldur lítillátur miðað við að vera búinn að peðra út hverju leikritinu af öðru undanfarið og fá leikskáldaverðlaun Grímunnar. Við vorum samt sammála um að ansi fáir höfundar væru að seljast eitthvað. Hann nefndi stóra tölu um síðustu bók Guðmundar Andra. Mér finnst þó ágætt að fólk sé að kaupa bækur eftir Guðmund Andra frekar ýmislegt annað. Annars jók þetta samtal heldur á kvíða minn fyrir haustvertíðinni. Þetta verður hrikalegt flóð núna og erfitt að láta á sér bera. Sögurnar standa auðvitað fyrir sínu, fyrir þá fáu sem gá að þeim. Aðrir tolla í tískunni, hvort sem hún er fáránlegur hringur í vörina og nefið eða réttu bækurnar.

Erla kom heim í gær og það urðu fagnaðarfundir. Erfitt er þó að láta ástina blómstra með mjög áþreifanlegum hætti því nú vill svo til að ég er dottinn í heilmikla aukavinnu hér á stofunni. Var t.d. í allt kvöld að lesa yfir bækling.

Evrópuleikur í boltanum annað kvöld: KR - Shellborne (Írland). Þá getur maður hvílt sig á því að reikna út stöðuna í deildinni sem gerist sífellt ískyggilegri. Vonandi vinnum við þennan leik.


mánudagur, júlí 12, 2004

Wannabe var að fá hálfsveittan, blendinn glaðning: Smásagnablað Nýs lífs er komið út. Í því eru 7 nýjar íslenskar smásögur, þar af Sektarskipti eftir umræddan. Gallinn er sá að ég lengdi þessa sögu um meira en 1000 orð eftir að ég skilaði henni í Nýtt líf og sú útgáfa sem birtist í bókinni minni í haust (sem væntanlega hefur færri lesendur en þetta smásagnahefti Nýs lífs) er því svo miklu betri. Það ánægjulega er hins vegar að þetta er 6. sagan sem birtist eftir mig á einu ári (ef ég tel Uppspuna Bjartsmanna með sem ekki kemur formlega út fyrr en í ágúst). Segja má að sögurnar mínar séu að rata víðar og örar en nokkru sinni fyrr.

sunnudagur, júlí 11, 2004

Best að stikla á helginni aftur á bak og enda síðan í núinu. Fór með Kjartani á Spiderman 2 í Regnboganum áðan. Þar birtist okkur til að byrja með hugarfóstur hins gáfulega fyrirbæris, Kvikmyndaeftirlits ríkisins: Myndin er bönnuð innan 12 ára. Ímyndið ykkur þann starfa að góna á fullum launum á bíómyndir og setja aldurstakmarkanir á barnamyndir! Þetta kom þó ekki að sök, mér var hleypt inn með drenginn. Eins og við var að búast reyndist myndin vera leiðinleg þvæla enda hef ég aldrei haft gaman af vísindskáldskaparbulli og tæknibrellum. Í kynningunni rak ég augun í nafn Michals Chabons sem eins þriggja handritshöfunda. Chabon skrifaði skáldsöguna The Wonder Boys en eftir henni var gerð frábær mannleg kvikmynd með Michael Douglas, Tobey Maquire köngulóarmanni og Robert Downey Jr. Chabon skrifaði líka gott smásagnasafn sem heitir Werewolves in their Youth. Nú virðist mér hann vera genginn í björg. Ekki hefði Raymond Carver nennt þessu. Og hlæið nú og hneykslist á þröngsýni minni, netplebbar!

Við borðuðum á Gráa kettinum áður en við fórum í bíó. Kaffihús sem ég fer ekki oft á. Þarna gat ég heilsað Friðriki Erlingssyni með virktum en einnig gat að líta býsna ólánlegan hóp af fyllibyttum um fertugt. Ein þeirra fræg skáldkona sem ekki hefur gefið út bók í sex ár og mátti augljóslega sjá hvers vegna. Hún hefur hins vegar viðhaldið frægðinni með ýmsum uppákomum af sömu ástæðum: frægð er best viðhaldið með sukki og djammi því það tryggir sambönd. Ég segi því: Látum fyllibytturnar um frægðina en við listamennirnir skulum sjá um listina. (Já, hneykslist þið nú aftur, netplebbar). Það mátti hins vegar segja þessu fólki til hróss að þó að það væri afskaplega illa til reika þá var ekkert ónæði af því, ekkert rugl og engin háreysti, það drakk bara sinn bjór, fletti DV og hneykslaðist á Árna Johnsen og fleirum í fréttum, með lítt sannfærandi drafi. Ein stúlka í hópnum, sú sem leit best út, líklega af því hún var yngst, varla mikið yfir þrítugt, tók upp á því að mæna á mig langa stund. Ekki veit ég hvers vegna. Þetta var smágerð og frekar hugguleg stúlka þrátt fyrir grófa andlitshúð. Varla held ég að hún hafi laðast að mér því ég er líklega 70 kílóum þyngri en hún og 30-40 sentimetrum hærri. Það var engu líkara en hún væri að fara að mana mig í eitthvert karp. Ég lét hins vegar eins og ég tæki ekki eftir þessu og smám saman losnaði ég við augnaráðið.

Fór á KR-Fylki á laugardaginn. Þau eru að verða mörg árin sem liðin eru síðan ég byrjaði að sækja stórleiki í Frostaskjólinu. Og enn og aftur mikilvægur leikur hjá KR og Fylki sem því miður endaði með jafntefli. Leikurinn var samt góður.

Grasekkilslífið þykir mér heldur dapurlegt og frelsistilfinningin lætur ekki á sér kræla. Þessi fjölskylda mín er bundin sterkum böndum og ekkert nema gott um það að segja. Ég fór að út að skemmta mér á föstudagskvöldið (Kjartan í gistingu hjá ömmu sinni) og þó að sú skemmtun hafi verið til sóma þá var heimskoman ansi hreint dapurleg og einmanaleg. Nú hillir undir lokin á þessu. En á hinn bóginn eru framundan nokkrar tjaldferðir sem ég kvíði mikið fyrir. Kannski á ég eftir að sakna einlífisins þegar ég ligg andvaka á einhverri þúfunni á næstu vikum.

Í kvöld er Kjartan aftur kominn í gistingu því hann er í pössun á morgun hjá venslafólki og þau buðu honum að gista í kvöld. Ég ákvað að nota tækifæri og færa leiðréttingar inn í handritið, hef ekki komist í það verk vegna anna í vinnunni í liðinni viku. Rétt áðan hringdi Erla, hún er komin til byggða úr sinni gönguför og kemur heim á morgun. Hún saknar mín líka.