fimmtudagur, júlí 22, 2004

Hitti Rúnar Helga í gærkvöld, hann skilaði mér sögunum með athugasemdum. Helsta vandamálið er sagan Tvö hádegishlé, henni þarf annaðhvort að breyta eða kippa út úr handritinu. Rúnar Helgi hafði orð á því að sögurnar mínar væru orðnar margsungnari og flóknari en áður. Hann virtist allhrifinn og hafði lagt sig eftir því að lesa sumar sögurnar mörgum sinnum sem við það urðu sífellt betri. Hann sagðist ekki hafa fattað eina almennilega fyrr en við fjórða lestur. Það var nú aldrei meiningin að verða ofurdjúpur höfundur og því miður sé ég nú ekki fyrir mér gagnýnendur lesa bókina svona vel í haust.

Við þvældumst aðeins um bæinn og í Eymyndsson heilsaði Rúnar Helgi upp á einn nemanda sinn, hina eldhressu ljóshærðu afgreiðslustúlku sem kennd er við Rokk. Þá rann enn og aftur upp fyrir mér hvað það getur verið vandræðalegt í litlu landi að standa í einhverju leiðindakarpi við fólk á netinu, fólk sem maður hefur í rauninni ekkert á móti. En allt saman byrjaði þetta með bókmenntalegum deilum og síðan hafði maður ekki stjórn á atburðarásinni. En höfundar taka óneitanlega bókmenntir persónulega og því stundum erfitt að greina milli persóna og bóka. - En ætli við getum svo sem ekki lifað við þetta.

Ég á nú enn nokkra vinnu eftir við að ljúka handritinu og tek t.d. kvöldið í kvöld í þetta verk.

miðvikudagur, júlí 21, 2004

Ef marka má reglulega umfjöllun vandaðra blaða og tímarita um heimilisofbeldi mætti ætla að það væri aðeins af tvennum toga: líkamlegt ofbeldi eiginmanna gagnvart eiginkonum sínum og kynferðislegt ofbeldi feðra, stjúpfeðra, bræðra og ættingja gagnvart stúlkubörnum. Undanfarin misseri hafa vakið athygli mína ýmis óskyld dæmi um líkamlegt ofbeldi mæðra gegn börnum sínum. Ég velti því fyrir mér hvort um sé að ræða tilviljanir eða toppinn á einhverjum ísjaka sem ekki fær litið dagsins ljós í umræðunni.

Fyrir tveimur árum kyrkti móðir 9 ára gamla dóttur sína í Breiðholti. Síðastliðið vor myrti móðir í Vesturbænum dóttur sína í svefni og lagði til sonar síns með sama hnífi.
Fyrir nokkrum misserum las ég sannsögulega bók, Undir köldu tungli, sem lýsir skelfilegu og skefjalausu ofbeldi móður gagnvart dóttur sinni árum saman. Frægar eru jafnframt sjálfsævisögur Dave Pelzers um sama efni. Í bandarískum sjónvarpsþáttum sem fjalla um sannsöguleg sakamál eru morð mæðra á börnum sínum reglulegt umfjöllunarefni og raunar eru slíkar fréttir almennt nokkuð tíðar.

Ég veit að þetta er hvorki fagleg né vísindaleg upptalning. Ég velti því samt fyrir mér hvort stór hluti af heimilisofbeldi liggi í þagnargildi. Þegar ég ræði þessar óljósu vangaveltur mínar við konur er það viðkvæði algengt að umrædd dæmi séu undantekningartilvik og almennt séu karlar margfalt ofbeldisfyllri en konur. En auðvitað er þetta vitleysa. Ofbeldi á sér stað í fjölskyldum sem eru laskaðar á einhvern hátt og samskipti óheilbrigð. Þar tel ég að sá líkamlega sterkari beiti hinn veikari ofbeldi og kyn gerenda sé aukaatriði. M.ö.o.: ofbeldi er þegar sá sterkari neytir aflsmunar gagnvart hinum minnimáttar. Oftast eru karlar sterkari en konur og konur sterkari en börn.

Í stórum vinahópi mínum fyrirfinnst ekki alkóhólismi, framhjáhald né skilnaðir og almennt virðist fjölskyldulíf í þessum hópi gæfuríkt. Þegar ég leiði hugann að þessum vinum mínum á ég afar erfitt með að sjá að karlarnir í hópnum sé á nokkurn hátt ofbeldisfyllri eða líklegri til að beita ofbeldi. Þetta er einfaldlega hópur karla og kvenna sem ekki eru ofbeldisfull.

Skiljiði hvað ég er að fara? Fyrir nokkrum áratugum lá umræða um kynferðisofbeldi gagnvart börnum í þagnargildi og það var eins og það væri ekki til. Nú vita allir betur.
Skyldi það sama gilda um annars konar ofbeldi, t.d. ofbeldi mæðra gegn börnum? Er ekki mikilvægt að beina athyglinni að öllum fórnarlömbum heimilisofeldis og hífa umræðuna upp úr femínískum farvegi?

Konuhvarfið í Stórholtinu og gæsluvarðhald yfir ofbeldisfullum sambýlismanni og væntanlega morðingja konunnar hefur vakið upp á ný umræðuna um heimilisofbeldi, þ.e. umræðu á hefðbundnum nótum, um ofbeldi karla gegn konum. - Ofannefnd barnsmorð mæðranna tveggja hafa hins vegar ekki kallað fram neina umræðu af slíku tagi.

Þessi málflutningur minn snýst ekki um það að vera á móti konum. Mér finnst bara að í umræðu um ofbeldi megi engin saklaus fórnarlömb gleymast, ekki heldur börnin sem eru svo ólánsöm að eiga brjálaðar mæður. Síst af öllu mega þau gleymast vegna villuhugmynda um algæsku kvenna að feminískrar hugmyndafræði.

Og þar sem sumir lesendur mínir eru ekki á nægilega háu plani í rökræðum ætla ég að forðast ad hominem komment með því að taka fram að móðir mín var mér alltaf góð og beitti mig aldrei ofbeldi.

þriðjudagur, júlí 20, 2004

Í gær tók ég að láni á Borgarbókasafninu Winesburg, Ohio, eftir Sherwood Anderson. Bók sem ég hef lengi ætlað að lesa, eitthvert frægasta smásagnasafn sögunnar, kom fyrst út árið 1919. Bókin vekur upp spurningar um muninn á smásagnasafni og skáldsögu. Allar sögur bókarinnar gerast nefnilega í sama bænum, þ.e. Winesburg, og fremst í bókinni er m.a.s. kort af bænum. Anderson var mistækur höfundur og skáldsögur hans þóttu meingallaðar. Sérgrein hans var að draga upp myndir af örlagaríkum augnablikum í lífi persóna sinna, augnablikum þegar þær sjá líf sitt í nýju ljósi, hann var hins vegar sagður eiga erfitt með að fylgja persónum lengi eftir og ná utan um tímasviðið í skáldsögu. Anderson starfaði mestalla ævi við að skrifa auglýsingastexta. Hmmm ...

Rúnar Helgi hefur lokið yfirlestri á smásagnahandritinu mínu. Eftir hans dóm er ekki ólíklegt að ég felli eina eða tvær sögur úr safninu. Ræði betur við hann á miðvikudagskvöld.

mánudagur, júlí 19, 2004

Dálítið snúið að vera með þessa bloggsíðu í augnablikinu. Ástæðan er sú að ég er að þreifa fyrir mér með skriftir en innst inni vil ég ekkert segja um þær. Yfirleitt er ég of þreyttur þegar ég sest við til að skrifa nokkuð þessa dagana en engu að síður er hugmynd á sveimi. En ég held ég standist freistinguna og tali ekkert um þetta.

Annars lætur blíðviðrið tímann standa í stað og maður gerir lítið. Freyja var að keppa á Gullmóti Breiðabliks um helgina og maður fylgdist með því öllu. Á sunnudagskvöld fórum við síðan á KR - Keflavík, 1-1, og eftir þann leik er það ljóst að þetta sumar verður magurt í Vesturbænum.

Í morgun skrifaði í útvarpsauglýsingu og las yfir markpóst. Bíð eftir hádegishlénu, veit ekki hvort ég nenni á Borgabókasafnið til að fá mér fleiri bækur eða hvort ég rölti bara niður á Laugaveg.