föstudagur, október 15, 2004

Þetta hefur verið hörmuleg tíð hjá þeim boltaliðum sem ég held með. Handboltalandsliðið koxað á tveimur stórmótum í röð. Þjóðverjar komust ekki upp úr riðlinum á EM í sumar, KR varð í 6. sæti í Landsbankadeildinni og knattspyrnulandsliðið hefur tæpast staðið sig jafnhörmulega undanfarin 30 ár. Búið er að ráða nýjan landsliðsþjálfara í handbolta, KR skipti um þjálfara og Völler sagði upp hjá Þjóðverjum og Klinsmann tók við. Þar er Kahn ekki einu sinni öruggur með sæti sitt. Ekkert er öruggt í heimi þar sem menn fá ekki að lifa á fornri frægð.

En knattspyrnulandsliðið? Hvað ætlar KSÍ að gera? Bara stækka bindishnútinn?

miðvikudagur, október 13, 2004

Það er freistandi að áreita maka sinn með SMS-skilaboðum. Enginn kærir mann fyrir það og kemur manni á forsíðu DV. En þar sem handhægara og ókeypis er að senda slík boð í gegnum tölvu geta þau orðið ankannaleg: það spillir stemningunni í erótísku örljóði og öðru smáklámi þegar auglýsing frá Icelandair birtist á eftir skilaboðunum.

Tíðindalítill en huggulegur upplestur í gærkvöld. Aðsókn var lítil. Þorsteinn Guðmundsson brilleraði eins og von var á. Salurinn var allt annað en hláturmildur en réð ekki við sig þegar Þorsteinn las. Það sagði sitt um stemninguna að fólk var að reyna að kæfa niður hláturinn. Stemning á samkomu er ófyrirsjáanleg og algjörlega ómeðvituð. Framundan er kynning á bókinni minni en hún kemur úr prentun í næstu viku. Útgáfuteiti verður í byrjun nóvember. Skruddumenn virðast vera á tánum, það líst mér vel á. Ég stefni á metsölu, þ.e. yfir 300 eintök. Met eru afstæð eins og margt annað.

þriðjudagur, október 12, 2004

Ég er að fara að lesa upp í kvöld á Kaffi Reykjavík. Ég les ekki úr væntanlegri bók heldur söguna mína úr Uppspuna, Hverfa út í heiminn. Svo sérkennilega vill til að ég hef aldrei áður lesið þá sögu upp opinberlega, hvernig sem á því stendur, og því kominn tími til.