Þórdís Lilja Gunnarsdóttir hjá Fréttablaðinu hlýtur að vera einn besti blaðamaður landsins á sínu sviði. Í sumar skrifaði hún tvær athyglisverðar útttektir á makaskiptum og hópsextilhneigingum landans eða vonandi lítils hluta landans, eina jákvæða og eina neikvæða. Sjálf var hún hlutlaus í þeim báðum en greinarnar birtu okkur báðar hliðar þessa lífsstíls, annars vegar unaðinn, leikinn og spennuna, hins vegar skipbrot hjónabandsins og kvöl afbrýðiseminnar. - Í Fréttablaðinu í dag birtir Þórdís Lilja síðan afar athyglisvert viðtal við íslenska vændiskonu, þrítuga kennslukonu sem á sér geðuga gifta viðskiptavini á fimmtudagsaldri í því skyni að bæta fjárhag sinn, vonandi tímabundið. - Hinn á ensku kallaði "human interest" hluti blaðamennsku virkar oft yfirborðskenndur og á lægra plani en svokallaðar alvöru- eða harðar -fréttir. Endalaus umfjöllun um megranir, nýaldarbull og síendurtekin sparihliðarviðtöl við frægðarmenni og hálffrægðarmenni eru enda oft einkenni þessarar blaðamennsku. Þórdís Lilja kafar hins vegar undir yfirborðið og þrátt fyrir að fjalla um minnihlutahegðun taka greinar hennar á málefnum sem snerta okkur flest. Viðtalið við vændiskonuna í dag er í senn upplýsandi og sorglegt. Hún er tímanna tákn um það að nú til dags getur allt gengið kaupum og sölu, jafnvel í huga "venjulegra" borgara. Hún sýnir hvað meðalfólk er til í að ganga langt til að geta haldið uppi háum lífsgæðastaðli. Jafnframt sýnir hún að þegar giftir karlar standa frammi fyrir kynlífssvelti í hjónabandi sínu þá eru þeir glettilega margir tilbúnir að kaupa lausnina utan heimilisins í einum pakka. Sofna síðan vært við hlið eiginkonunnar og hætta að bögga hana án þess að horfast í augu við að það sé sjálfstætt vandamál og í sjálfu sér niðurlægjandi og óviðunandi að þær vilji ekki lengur þýðast þá.
Fyrir utan að vera lipur penni og blaðamaður sem virðist gera sér far um að leita sannleikans þá er Þórdís Lilja greinilega hugrökk. Hún fjallar af hreinskilni um málefni sem skipta fólk máli en ekki er alltaf viðurkennt að þau geri það. Efni sem tengjast kynhvötinni, svo sem algengir kynlífsdraumar, klámnotkun, framhjáhald og kynsvelti í hjónabandi, eru viðkvæm efni sem koma við kvikuna í okkur, geta reynt á blygðunarkenndina en skipta okkur öll miklu máli. Arfleið gamallar menningar segir okkur hvað eftir annað að þessi efni séu lágkúruleg. Í skáldskap taka höfundar þá áhættu að virka annaðhvort banal eða klámhundar ef þeir snerta á þessum viðfangsefnum. Þó er til lengdar enn vandræðalegra að sjá skortinn á þessari umfjöllun hjá heilu skáldakynslóðunum. Smásagan Dropinn á glerinu eftir Rúnar Helga Vignisson (birtist síðast í smásagnasafninu Uppspuna sem Bjartur gaf út á þessu ári) er skemmtileg undantekning, hún fjallar á afar trúverðugan hátt um kynsvelti í hjónabandi og hvernig kynsveltur ekkill tekst á við sorgina.
Viðtalsgrein Þórdísar Lilju er alvarleg áminning til fólks um að rækta hjónabandið og hlúa þar að kynlífinu. Jafnframt gerir hún opinbera vændisumræðu afar hjákátlega. Sá málflutningur allur er meingallaður vegna þess að hann steypir allt fólk í fyrirframgefin mót. Hann gerir allar vændiskonur að fórnarlömbum og alla viðskiptavini þeirra að níðingum. Þessi málflutningur miðar að því að gera kaup á kynlífi refsigerð í afar óljósri baráttu við í sjálfu sér eðlisólíkan verknað og glæp, sem er mansal, og hefur t.d. ekkert að gera með sögu vændiskonunnar í Fréttablaðinu í dag. Þó að þau viðskipti séu ekki æskileg sem þarna er lýst, þá kalla þau hvorki á þjóðfélagslegar né réttarfarslegar umbætur. Fremur að þessi saga ætti að vera hvatning til fólks um að líta í eigin barm og rækta líf sitt.