Sem höfundur á markaðstorgi á ég líklega eftir að sakna þessara októberdaga því bókin mín rennur út í Máli og menningu og Eymundsson. Þarna eru vinir, kunningjar og jafnvel ættingjar að skila sér í búðina og svo líklega þeir fáu lesendur mínir sem ég þekki ekki sjálfur, en tilboðsverðið laðar að. Sjálfsagt að minna á það: 2.600 kr. í Eymundsson og Máli og menningu út næsta þriðjudag. Ég verð án nokkurs vafa á sölulistum á næstunni en svo hættir það væntanlega þegar nær dregur jólum og stórkanónurnar koma úr prenti. Hvað um það, aldrei hef ég komist á sölulista áður og ég geri mér vonir um að heildarsalan aukist a.m.k. eitthvað frá því sem verið hefur. Þetta ætlar að verða mitt besta ár sem rithöfundur í skilningi kynningarmála og því get ég ánægður einbeitt mér að skriftum þegar jólavertíðinni er lokið án þess að velta fyrir mér birtingu og útgáfu í langan tíma.
Ég kíkti í hið undarlega smásagnasafn Hermanns Stefánssonr, 9 þjófalyklar, áðan. Þetta virðist vera einn stór bókmenntalegur brandari og persónan Ólafur Jóhann Ólafsson rithöfundur kemur fyrir í öllum sögunum. Þetta er fyndið og lipurlega skrifað en spurning til hvaða hóps þetta getur höfðað. Og kannski gildir það einu.
Skopstælingarbragurinn á Hermanni er síðan búinn að smitast úr bókinni sjálfri og yfir í kynninguna á henni en á www.bjartur.is var í gær tilkynnt að Hermann hefði hlotið Bókmenntaverðlaun Guðbjarts Jónssonar og væri fyrsti karlmaðurinn sem þau hlyti.