föstudagur, október 29, 2004

Sem höfundur á markaðstorgi á ég líklega eftir að sakna þessara októberdaga því bókin mín rennur út í Máli og menningu og Eymundsson. Þarna eru vinir, kunningjar og jafnvel ættingjar að skila sér í búðina og svo líklega þeir fáu lesendur mínir sem ég þekki ekki sjálfur, en tilboðsverðið laðar að. Sjálfsagt að minna á það: 2.600 kr. í Eymundsson og Máli og menningu út næsta þriðjudag. Ég verð án nokkurs vafa á sölulistum á næstunni en svo hættir það væntanlega þegar nær dregur jólum og stórkanónurnar koma úr prenti. Hvað um það, aldrei hef ég komist á sölulista áður og ég geri mér vonir um að heildarsalan aukist a.m.k. eitthvað frá því sem verið hefur. Þetta ætlar að verða mitt besta ár sem rithöfundur í skilningi kynningarmála og því get ég ánægður einbeitt mér að skriftum þegar jólavertíðinni er lokið án þess að velta fyrir mér birtingu og útgáfu í langan tíma.

Ég kíkti í hið undarlega smásagnasafn Hermanns Stefánssonr, 9 þjófalyklar, áðan. Þetta virðist vera einn stór bókmenntalegur brandari og persónan Ólafur Jóhann Ólafsson rithöfundur kemur fyrir í öllum sögunum. Þetta er fyndið og lipurlega skrifað en spurning til hvaða hóps þetta getur höfðað. Og kannski gildir það einu.

Skopstælingarbragurinn á Hermanni er síðan búinn að smitast úr bókinni sjálfri og yfir í kynninguna á henni en á www.bjartur.is var í gær tilkynnt að Hermann hefði hlotið Bókmenntaverðlaun Guðbjarts Jónssonar og væri fyrsti karlmaðurinn sem þau hlyti.

fimmtudagur, október 28, 2004

Það var bara ekkert hægt að blogga í gær, ekki hægt að komast inn á síðuna. En meðan ég man: Til hamingju með Laxness-verðlaunin, Gerður Kristný.

Bókin mín er í 6. sæti skáldsagnalistans sem birtur verður í fjölmiðlum um helgina. Það hlýtur að vera lítil sala á bak við þetta sæti á þessum árstíma en engu að síður kemur þetta mér mjög á óvart. Ég veit að töluverður hópur fjöldi vina og kunningja kaupir bókina en efast stórlega um að það sé í þessum tölum, því þeir eru rétt að fara af stað núna. Bókað er að hún verður ofarlega á lista í næstu viku og nær þá líklega á aðallista. Framhaldið er síðan undir hælinn lagt.

Óskar Árni sendi mér nýjustu bókina sína í pósti. Þar er að finna þennan texta:

Skóstærð 46

Ég man ekki til þess að hafa séð foreldra mína en
þau sáu mig. Ég var gefinn suður fjórtán vikna
gamall. Það var búið um mig í skókassa nr. 46 og
honum komið á frænku mína sem ætlaði með
áætlunarbílnum til Reykjavíkur. Engum sögum fer
af þessu ferðalagi en hún afhenti kassann ungum
hjónum á Bjargarstígnum og þar ólst ég upp. Kass-
inn var lengi notaður undir jólaskraut. Stundum
þegar ég kem inn í skóbúð og finn leðurlyktina og
heyri skrjáfið í pappírnum finnst mér ég skynja
þetta löngu liðna kvöld; ég heyri skröltið í rútunni,
það er myrkur og fyrir augunum dansa litlir fingur.


_____________________________________________

Þetta er ekki amalegur texti. En hvað um það. Kæru blogglesendur, smásagnasafnið Tvisvar á ævinni er á sértilboði í Pennanum Eymundsson og Máli og menningu fram á þriðjudag: 2.600 kr.

þriðjudagur, október 26, 2004

Bókin virðist vera hinn vandaðasti prentgripur, fleiri hafa haft orð á því en ég. Dreifingin er hins vegar ekki almennilega hafin því enn er verið að svíða upplagið út úr prentsmiðjunni. Þetta er samt allt á besta tíma enda október ekki enn liðinn.

Ég keypti mér rándýra hlaupaskó um helgina enda byrjaður að fá dálítinn verk í hægra hnéð. Við skokkum núna á ákveðnum dögum, alltaf fjórum sinnum í viku.

Annars er allt við það sama og hætta á að bloggið verði endurtekningasamt nema ég haldi mig við málefni mér óviðkomandi: Skrifar smásögur, skokkar, er of feitur, er giftur með tvö börn, vinnur á auglýsingastofu osfrv.

Ég skal fyrstur viðurkenna að það er til athyglisverðara fólk en ég sjálfur.