föstudagur, desember 17, 2004

Ég átti víst eftir að setja nýjustu Kristuhrifluna mína hérna inn. Hér kemur hún. Um helgina þarf ég að sjóða eitthvað saman um Hermann Stefánsson, sú hrifla hefur frestast lengi vegna misskilnings, ég hélt að Sjón hefði hrifsað af mér verkefnið en svo kom í ljós að hans dómur var grín, skopstæling á gömlum dómi um Davíð Oddsson. - Mæli með bók Hermanns Stefánssonar, þrælfín, en hriflan kemur á sunnudaginn.


Ástarflækjur og fortíð Þýskalands

Bernhard Schlink: Ástarflótti
Þýðandi: Þórarinn Kristjánsson

Ekki er óviturlegt að gera sjálfkrafa ráð fyrir tíðindaleysi og lognkyrru yfirborði þegar smásögur eiga í hlut. En möguleikar smásögunnar eru óendanlegir og í bók Bernhard Schlinks eru sögur sem gætu hæglega dugað í heilar kvikmyndir og það nokkuð æsilegar myndir. Smásögur bókarinnar eru semsagt flestar langar og viðburðaríkar. En þó að sögurnar séu ágætlega byggðar bjóða fæstar þeirra upp á meginnautnir smásagnaformsins: þéttan og myndríkan stíl, úrdrátt og ólgu undirniðri. Uppbygging þeirra er keimlík, kaflaskiptri frásögninni vindur fram í réttri tímartöð, hver atburðurinn rekur annan en tíminn stendur sjaldan í stað, ekki er staldrað lengi við í einni og sömu sviðsmyndinni. Sumar sögurnar hefði mátt stytta og einfalda og gera þær þar með markvissari og áhrifaríkari í mínum huga.

Tvö meginstef ganga í gegnum bókina og fléttast stundum saman: ástarmál og fortíð Þýskalands. Þó að sögurnar fjalli um eitt og annað sem tengist ástarmálum er hæpið að kalla þær ástarsögur. Þær lýsa kannski umfram allt þeim erfiðleikum sem fylgja því að vera manneskja með meðfædda ástarþrá.
Fyrsta saga bókarinnar, Stúlka og sandeðla, er heillandi, spennandi og leyndardómsfull. Sagan hefast á sjötta áratugnum og aðalpersónunni er fylgt eftir frá barnsaldri og þar til hann er orðinn ungur maður. Málverk af stúlku og sandeðlu verður að nokkurs konar frummynd ástarinnar fyrir unga manninum en tengist jafnframt dularfullri fortíð föður hans úr síðari heimstyrjöldinni.
Hliðarsporið er ansi mögnuð sálfræðistúdía um svik, vináttu og kynlíf. Járntjaldið og fall múrsins koma þar við sögu á eftirminnilegan hátt. Annar maður er ein fallegasta og áhrifamesta saga bókarinnar og greinir frá ekkli sem óvænt uppgötvar hliðarspor eiginkonu sinnar eftir lát hennar. Söguþráðurinn er spennandi og óvæntur og sagan sannkallaður skemmtilestur auk þess að vekja sterkar tilfinningar.
Sykurbaunir og Umskurðurinn ollu mér nokkrum vonbrigðum. Í Sykurbaunum á miðaldra maður í ástarsamböndum við þrjár konur samtímis og á börn með tveimur þeirra. Konurnar vita allar hver af annarri en samþykkja þessa tilhögun af þeirri ástæðu einni að þær ætla sér að græða eins mikið og þeim er mögulegt af kynnum sínum við manninn og raunar sameinast þær um þá viðleitni áður en yfir lýkur. Persónurnar í Sykurbaunum ná ekki til lesandans og lygilegur söguþráðurinn eykur heldur á þá fjarlægð. Manni blöskrar sjálfselskan og skeytingarleysið gagnvart börnum og fjölskyldu en ekkert í persónusköpuninni skýrir út hegðunina.
Í Umskurðinum ber áhugavert efnið skáldskapinn ofurliði. Sagan greinir frá ástarsambandi ungs Þjóðverja við stúlku af gyðingaættum sem býr í New York. Pólitískur rétttrúnaður og kynþáttafordómar eru meginviðfangsefni sögunnar en athyglisverðar hugmyndir og pælingar verða svo fyrirferðamiklar að persónurnar og sagan sjálf lenda í aukahlutverki, verða nánast eins og rammi utan um umræðuna sem ofin er í frásögnina.
Síðustu tvær sögurnar, Sonurinn og Konan á bensínstöðunni, eru aftur á móti vel heppnaðar, tregafullar og áleitnar, sérstaklega sú síðarnefnda, en hún lýsir frumlega og af næmleika viðleitni hjóna á efri árum til að blása nýju lífi í samband sitt.

Ástarflótti er þegar upp er staðið ánægjuleg og gefandi lesning. Sögurnar vandaðar og umhugsunarverðar og síðast en ekki síst safarík og krassandi lesning; nokkuð sem e.t.v. er ekki algengt um smásagnasöfn. Íslensk þýðing Þórarins Kristjánssonar á bókinni virðist lipur og vel heppnuð.

Trúir því nokkur maður, fyrir utan nokkra þingmenn í Samfylkingunni og kollega þeirra í Svíþjóð, að verði sjónvarpsauglýsingar á sælgæti og fituríkum mat bannaðar fyrir klukkan 9 á kvöldin, muni draga úr offitu barna og unglinga á næstu árum? Auðvitað er mikið auglýst af hinu og þessu en síðan hvenær fóru auglýsingar að vega þungt í fitu- og sykurneyslu barna?

Nýjustu fréttir úr vísindaheiminum: Nú er orðið óhollt fyrir börn að fara í sund. Þau geta fengið asma og alls konar sýkingar. Ný sænsk rannsókn. Ekki getur ignoramus eins og ég mótmælt þessu, en hvað næst? Fiskinn út, síðan sundið. Bráðum verður grænmetið bráðdrepandi.

Ég fékk laglega ráðningu rétt fyrir Víðsjárþáttinn áðan. Þar var mætt Birna Anna Björnsdóttir og lét hún eins og ég væri ekki viðstaddur. Það var gott hjá henni og viðeigandi. En ég er búinn að biðjast afsökunar og málið úr sögunni. Gott að hendingin skammtaði mér dálitla refsingu. Hún las síðan glimrandi vel lipran kafla úr bókinni sinni en ég hökti á mínum texta. Mér fannst stutt spjallið hins vegar takast ágætlega.

Þátturinn var skemmtilegur og kynningin ánægjuleg. Netvæðing sjónvarps- og útvarpsþátta er annars afbragð og gott að geta notið efnis eins og Víðsjá og Silfur Egils án þess að vera bundinn við útsendingartímann. Í næsta mánudagsþætti verður tónlistarárið gert upp, það líst mér vel á.

Ég verð í Víðsjá í dag, líklega í beinni, því ég á að mæta korter yfir fimm. Þetta er svona jólaþáttur, það verða nokkrir höfundar, sem lesa upp og svara nokkrum spurningum. Fríða hlustar. Og Haukur. Og ekki Fríða. Og ekki Haukur og Hermann Stefánsson og Ólafur Jóhann.

Það er náttúrulega einn augljós vinkill á þessa deilu um Þýðingarsjóð sem mér tókst einhvern veginn í ósköpunum að yfirsjást (og lögfræðingnum í Danmörku líka): Sömu forlögin og gefa út þýddu metsölubækurnar gefa líka út þýddu líttsölubækurnar. Bjartur gefur t.d. út Dan Brown bækurnar og síðan haug af erlendum meistaraverkum. Þannig að í praxis skiptir þetta engu máli, styrkurinn út af Brown kemur öðrum þýðingum og útgáfum þá líka til góða. Ég get því alveg eins sagt: Herra Dan Brown, kærar þakkir yfir Carver, og Harry litli Potter, kærar þakkir fyrir Jumpu Lahiri (sem seldist reyndar vel, en það var ekki hægt að sjá það fyrirfram).

fimmtudagur, desember 16, 2004

Er Fríða sem kommentaði um mig hjá Norðdahl og sendir mér komment í morgun raunveruleg, eða er þetta karlkyns Nyhil-grínari undir dulnefni? T.d. Haukur Ingvarsson?

Ritdeila er í gangi á Kistunni af því tilefni að Þýðingarsjóður með sitt takmarkaða fjármagn hefur styrkt þýðingar á mestöluverkum á borð við Da Vinci lykilinn. Í deilunni virðist tekist á um hvaða verk séu nógu merkileg til að þýðingar á þeim séu styrktar með þessum hætti. Í raun er óþarfi að draga bókmenntasmekk inni í deiluna, þyngra vegur að engin þörf er á að styrkja þýðingar á bókum sem seljast í þúsundum og tugþúsundum eintaka; útgefendur geta í þeim tilvikum vel staðið undir kostnaðinum. Þess vegna er þetta sóun og bruðl, því mörg öndvegisverk erlend sem gefin eru út hér á landi seljast í litlu upplagi og því er sárlega þörf á að þýðingar á þeim séu styrktar.

Málið um dvalarleyfi Fischers er líklega rétt að hefjast. Ég spái því að þetta verði langdregið fréttaefni þegar fram í sækir. En svo geta svona mál líka leystst í einum hvelli.

Ég hef aldrei fengið jafnslæma dóma og fyrir þessi jól og aldrei jafngóða. Yfirleitt hefur þetta verið frekar jafngott, engin niðursöllun og engin húrrahróp. Núna hefur þetta verið allt frá efsta stigi og niður í frekar slakt. Ég held að þessi breyting stafi ekki af því að þessi bók sé svo ýkja ólík hinum heldur er þetta umfram allt sú hending á hvaða gagnrýnendum maður lendir. A.m.k. hef ég enn ekki lent í því í gegnum árin að sami gagnrýnandi gefi mér góða og slæma einkunn. Á hinn bóginn hafa munnlegar umkvartanir sumra lesenda minna speglast í sumum ritdómunum núna, það hefur ekki gerst áður einfaldlega vegna þess að ég hef ekki áður hitt á gagnrýnendur með sömu skoðanirnar og þessir lesendur. Sterkustu andstæðurnar í þessu öllu hef ég upplifað í sambandi við söguna Mjólk til spillis. Þegar ég las hana upp í vor á Jóni forseta gekk einn bókmenntagagnýnandi að mér, tók í höndina á mér og sagði: "Takk fyrir, þetta var tær snilld". Hann var ekki drukkinn. Sama saga var sögð ruglingsleg og slök í ritdómi í Mogganum. Þetta eru svo sem engin stórtíðindi, ég veit það, misjafn smekkur og allt það. Sumum finnst eftirsóknarvert að vera "umdeildur" með þessum hætti en mér þætti auðvitað bara betra að allir tækju undir með slagorðum á borð við "hrein snilld", "meistari smásagnanna" og "ljómandi gott smásagnasafn". Mér finnst það hljóma miklu betur en einhverjar aðfinnslur og svo er hægt að nota svona í auglýsingum. - Eina ályktun gæti ég þó hugsanlega dregið af ritdómum núna og í gegnum árin: Það virðist falla í kramið yfir línuna þegar ég skrifa hvað mest um börn. Núna þegar ég er aðallega að fjalla um miðaldra karlmenn þá virðast sögurnar höfða sterkast til miðaldra karlkynsgagnrýnenda, miklu síður til miðaldra kvenkynsgagnrýnenda og svona mitt á milli til kornungra kvenkynsgagnrýnenda og Smiths-aðdáenda og bloggletingja (af sama kyni og aldri). Mjög vísindalegt hjá mér, þetta mat.

miðvikudagur, desember 15, 2004

Friðrik Erlingsson skammaði mig réttilega í gær fyrir að vera draga athyglina að slæmum ritdómi sem annar rithöfundur hafði fengið. Þetta var ekki illa meint en kom asnalega og illkvittnislega út. Gallinn við þennan miðil er sá að maður er svo fljótur að koma efninu frá sér og enn er ég ekki búinn að venjast þeirri staðreynd að fullt af fólki er að lesa þetta og svo er þetta síterað í blöðunum. Því miður var þetta ómerkileg og ósmekkleg færsla. Það er ekki skemmtilegt að biðjast afsökunar en skárra heldur en að burðast með mistökin á bakinu. Svo ég biðst afsökunar á þessu hér með.

Frétt af mbl.is

"Bobby Fischer veitt dvalarleyfi á Íslandi
Stjórnvöld hafa ákveðið að verða við beiðni Bobby Fischer fv. heimsmeistara í skák um að veita honum dvalarleyfi hér á landi, að því er fram kemur í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu. Þar segir að Útlendingastofnun muni gefa út staðfestingu um það í dag. Verður sendiráði Íslands í Japan falið að koma henni á framfæri við Fischer auk þess að aðstoða hann við að komast hingað, óski hann þess, að því er segir í tilkynningunni."

Handbragð utanríkisráðherrans er á þessu. Maður sem lætur verkin tala, heggur á hnúta og er ekki kerfiskall þrátt fyrir áratugi í stjórnmálastörfum.

Rakst á einhverja bestu prentvilluna á starfsferli mínum sem prófarkalesari í gær. Þá kom fyrir í uppskriftarbæklingi: Ofbakaðar kartöflur. - Síðan kom uppskrift sem augljóslega var að ofnbökuðum kartöflum.

Í gær sá ég ekki út úr verkefnum og var í aukavinnu fram að miðnætti. Nú þegar hægst hefur um er ég skyndilega tómur í kollinum og dettur ekkert í hug til að setja á síðuna. Ég ætti kannski bara að skrifa upp einhvern popptexta og láta standa hér næstu tvær vikurnar, líkt og sumt af því andans fólki sem gagnrýnir bækur fyrir jólin er farið að gera á sínum bloggsíðum. En ég man ekki einu sinni eftir neinum texta.

þriðjudagur, desember 14, 2004

Heimsótti mína sífellt minna sveittu útgefendur í morgun til að sníkja eintak af Ian Rankin handa mömmu. Fékk kaffi og þær upplýsingar að bóksala almennt í ár væri miklu meiri en í fyrra, rétt eins og öll önnur jólaverslun. Sjálfir eru þeir ansi ánægðir með gang mála og þó að voljúm meistarans verði vafalaust sölulægsta bók Skruddu í ár er ljóst að molar eru að hrynja niður til mín af þessu allsnægtaborði og salan það sem af er þegar orðin meiri en af síðustu bók. Spurning hvað gerist þessar tæpar tvær síðustu vikur.

mánudagur, desember 13, 2004

Vísindabullið í fjölmiðlum hefur pirrað mig í nokkur ár. Og af því maður er ekki vísindamaður þá er svo erfitt að mótmæla því. Nokkurra daga frétt sem hangir enn á mbl.is vekur upp mikla samúð með veslings sérfræðingunum sem eru að berjast við að halda jafnvægi í veröldinni svo hún farist ekki. Þar kemur fram að breskur ráðgjafahópur leggst gegn stöðugum heilbrigðisáróðri fyrir fiskneyslu vegna þess að slíkur áróður geti skaðað fiskistofna og jafnvel eytt þeim. Við vitum öll hvað fiskur er hollur og þurfum ekki að vera vísindamenn til þess, maður finnur það bara á sjálfum sér hvað það gerir manni gott að láta ofan í sig óbrasaðan fisk. En núna á maður semsagt að fórna þessu heilbrigði í þágu fiskistofnana. Hvað gerist þegar allt heilbrigða fólkið, plús smásagnafeitabollurnar sem eru að reyna að hætta að vera feitabollur, fer í fiskbindindi? Verður jafnvæginu ekki þá bara raskað annars staðar? Verður þá ekkert kjöt afgangs handa hungruðum heimi? Eða verður allt grænmeti þá fljótlega uppurið og ræktunin annar ekki eftirspurn?

Það er smám saman að rifjast meira upp fyrir mér af Idol-rithöfundadraumnum sem mig dreymdi um helgina. Núna man ég að Guðbergur fór hvorki upp á sviðið né í rútuna sem flutti okkur burtu. Hann var hvergi á staðnum. Hann tók ekki þátt í keppninni.

sunnudagur, desember 12, 2004

Börn geta bæði verið hluti af mestu grámyglu hversdagsleikans með hávaða sínum og sóðaskap, eða lífgað upp á hann, breytt grámyglunni í lítið ævintýri eða skemmtilegan brandara. Ég og Erla skruppum í Sorpu áðan með gamalt skran og þvoðum síðan bílinn. Þegar heim kom spurði Freyja taugaspennt hvort þær mættu dekra við Kjartan, litla bróður hennar. Vinkona Freyju gisti hjá henni og þær höfðu verið í eltingarleik við Kjartan, 5 ára bróður Freyju. Kjartan vildi ekki halda leiknum áfram og úr urðu sviptingar sem enduðu með því að Freyja læsti hann inni á salerni. Þessu fylgdi mikill grátur og hvort sem samviskubit eða ótti við skammir réð ferðinni þá vildi Freyja núna bæta fyrir brotið. Við tók mikill dekurfarsi. Drengurinn var hárgreiddur og skipt til hliðar; honum var komið fyrir uppi sófa, þar sem hann lagðist á magann, púðar settir undir handleggina, dýnur undir búkinn og sæng ofan á; myndbandspóla fór í tækið, svali á stofuborðið og diskur með súkkulaðikexi. Síðan horfði hann á spóluna og naut veitinganna í þögn eins og ekkert væri sjálfsagðara en konungleg meðferð.

Mig dreymdi að ungur, freknóttur maður, ögn mjúkholda, segði við mig: "Ágúst Borgþór, þú fluttir lagið Tvisvar á ævinni. Páll Baldvin sagði: "Ljómandi gott smásagnasafn"; Melkorka sagði: "Vandaðar sögur en það er eitthvað sem truflar"; Steinunn Inga sagði: "Ekki nógu frumlegt til að vekja áhuga." Þjóðin hefur kosið og því miður ert þú ekki á meðal þeirra sem komast áfram í kvöld." - Ég yfirgaf húsið ásamt obba jólabókahöfundanna. Örfáir urðu eftir. Það stakk dáítið í hjartað að sjá þá félaga Norðdahl og Mugison kveðjast. Nordhahl fór síðan með strollunni út í bíl en Mugison steig upp á svið til að stilla gítarinn sinn, en þar stóð Arnaldur Indriðason og hljóðprófaði í míkrafóninn: "Halló, halló - einntveir, einntveir."

Okkur var öllum komið fyrir í ógnarstórri bensrútu, árgerð 1967. Bíllinn var gríðarlega hastur þrátt fyrir rennisléttar göturnar. Við Óskar Árni létum setja okkur úr hjá Kaffisetrinu við Hlemm.