Ég átti víst eftir að setja nýjustu Kristuhrifluna mína hérna inn. Hér kemur hún. Um helgina þarf ég að sjóða eitthvað saman um Hermann Stefánsson, sú hrifla hefur frestast lengi vegna misskilnings, ég hélt að Sjón hefði hrifsað af mér verkefnið en svo kom í ljós að hans dómur var grín, skopstæling á gömlum dómi um Davíð Oddsson. - Mæli með bók Hermanns Stefánssonar, þrælfín, en hriflan kemur á sunnudaginn.
Ástarflækjur og fortíð Þýskalands
Bernhard Schlink: Ástarflótti
Þýðandi: Þórarinn Kristjánsson
Ekki er óviturlegt að gera sjálfkrafa ráð fyrir tíðindaleysi og lognkyrru yfirborði þegar smásögur eiga í hlut. En möguleikar smásögunnar eru óendanlegir og í bók Bernhard Schlinks eru sögur sem gætu hæglega dugað í heilar kvikmyndir og það nokkuð æsilegar myndir. Smásögur bókarinnar eru semsagt flestar langar og viðburðaríkar. En þó að sögurnar séu ágætlega byggðar bjóða fæstar þeirra upp á meginnautnir smásagnaformsins: þéttan og myndríkan stíl, úrdrátt og ólgu undirniðri. Uppbygging þeirra er keimlík, kaflaskiptri frásögninni vindur fram í réttri tímartöð, hver atburðurinn rekur annan en tíminn stendur sjaldan í stað, ekki er staldrað lengi við í einni og sömu sviðsmyndinni. Sumar sögurnar hefði mátt stytta og einfalda og gera þær þar með markvissari og áhrifaríkari í mínum huga.
Tvö meginstef ganga í gegnum bókina og fléttast stundum saman: ástarmál og fortíð Þýskalands. Þó að sögurnar fjalli um eitt og annað sem tengist ástarmálum er hæpið að kalla þær ástarsögur. Þær lýsa kannski umfram allt þeim erfiðleikum sem fylgja því að vera manneskja með meðfædda ástarþrá.
Fyrsta saga bókarinnar, Stúlka og sandeðla, er heillandi, spennandi og leyndardómsfull. Sagan hefast á sjötta áratugnum og aðalpersónunni er fylgt eftir frá barnsaldri og þar til hann er orðinn ungur maður. Málverk af stúlku og sandeðlu verður að nokkurs konar frummynd ástarinnar fyrir unga manninum en tengist jafnframt dularfullri fortíð föður hans úr síðari heimstyrjöldinni.
Hliðarsporið er ansi mögnuð sálfræðistúdía um svik, vináttu og kynlíf. Járntjaldið og fall múrsins koma þar við sögu á eftirminnilegan hátt. Annar maður er ein fallegasta og áhrifamesta saga bókarinnar og greinir frá ekkli sem óvænt uppgötvar hliðarspor eiginkonu sinnar eftir lát hennar. Söguþráðurinn er spennandi og óvæntur og sagan sannkallaður skemmtilestur auk þess að vekja sterkar tilfinningar.
Sykurbaunir og Umskurðurinn ollu mér nokkrum vonbrigðum. Í Sykurbaunum á miðaldra maður í ástarsamböndum við þrjár konur samtímis og á börn með tveimur þeirra. Konurnar vita allar hver af annarri en samþykkja þessa tilhögun af þeirri ástæðu einni að þær ætla sér að græða eins mikið og þeim er mögulegt af kynnum sínum við manninn og raunar sameinast þær um þá viðleitni áður en yfir lýkur. Persónurnar í Sykurbaunum ná ekki til lesandans og lygilegur söguþráðurinn eykur heldur á þá fjarlægð. Manni blöskrar sjálfselskan og skeytingarleysið gagnvart börnum og fjölskyldu en ekkert í persónusköpuninni skýrir út hegðunina.
Í Umskurðinum ber áhugavert efnið skáldskapinn ofurliði. Sagan greinir frá ástarsambandi ungs Þjóðverja við stúlku af gyðingaættum sem býr í New York. Pólitískur rétttrúnaður og kynþáttafordómar eru meginviðfangsefni sögunnar en athyglisverðar hugmyndir og pælingar verða svo fyrirferðamiklar að persónurnar og sagan sjálf lenda í aukahlutverki, verða nánast eins og rammi utan um umræðuna sem ofin er í frásögnina.
Síðustu tvær sögurnar, Sonurinn og Konan á bensínstöðunni, eru aftur á móti vel heppnaðar, tregafullar og áleitnar, sérstaklega sú síðarnefnda, en hún lýsir frumlega og af næmleika viðleitni hjóna á efri árum til að blása nýju lífi í samband sitt.
Ástarflótti er þegar upp er staðið ánægjuleg og gefandi lesning. Sögurnar vandaðar og umhugsunarverðar og síðast en ekki síst safarík og krassandi lesning; nokkuð sem e.t.v. er ekki algengt um smásagnasöfn. Íslensk þýðing Þórarins Kristjánssonar á bókinni virðist lipur og vel heppnuð.