DV er ótrúlegt að gera rausið í mér að fréttaefni. Þeir um það. Þetta er bloggsíða og hér verður áfram misvandað látið flakka. Ef fjölmiðlar vilja líta á þetta sem fréttauppsprettu þá er það þeirra mál, ég laga mig ekki að því - Jæja. Skrifa ekki meira fyrr en milli jóla og nýárs. Gleðileg jól.
Bloggsíða Ágústs Borgþórs
Smápistlar um bókmenntir, daglegt líf og fleira.
fimmtudagur, desember 23, 2004
miðvikudagur, desember 22, 2004
Róni sníkti af mér 100 kall í gærkvöld og ég gaf honum 300 kall. Hann faðmaði mig að sér og ég skammaðist mín. En hvað gat ég gert? Gefið honum allan peninginn í veskinu? Þá hefði Erla orðið brjáluð. Komið honum í meðferð? Sjá ekki aðrir um það?
Feginn var ég að vera ekki á meðal upplesara á Kaffi Reykjavík í gærkvöld. Upplestrarsamkomur gerast sífellt erfiðari og vandræðalegri þar sem offramboð er orðið af þeim, aðsókn léleg og áheyrendur leiðinlegir, oft hálfgerðir dónar. Margir yfirgefa salinn í miðjum lestri, oft er það söfnuður í kringum einn höfund, sem lætur sig hverfa burtu með höfundinum um leið og hann er búinn að lesa. Auk þess er mikið ráp á fólki á þessum samkomum og þeir sem þó sitja kyrrir oft með glott eða þóttasvip á smettinu. En jæja, sem betur fer eru alltaf einhverjir sem hlusta af áhuga.
Ekki vantaði samt að dagskráin var glæsileg, svona fyrirfram. Reyndar var upplifun mín af samkomunni mjög draumkennd framan af. Ég fékk sæti við hliðina á ungum náunga sem heitir Bjarni og reykti sígarettur sem hann hafði komið fyrir í rauðum Opalpakka. Ofan í þessa undarlegu sýn byrjaði Benni kallinn Lafleur að lesa sinn kolgeggjaða texta sem hefði kannski virkað í menntaskóla á sjöunda áratugnum og þó varla. Bara titillinn á bókinni nóg til að fæla mann frá henni: Eldglæringar í sápukúlum. Textinn virðist síðan vera í samræmi við það. - Jóhanna Kristjónsdóttir las hálfgerðan nöldurkafla úr sínum Arabíukonum og hefði án efa geta fundið eitthvað fróðlegra úr bókinni. Ég verð því miður að segja að saga Einars Más virkar illa á mig, það sem ég hef heyrt af henni, og lesturinn í gærkvöld var engin undantekning. Hins vegar veit ég að mörgum öðrum gestum líkaði betur. Einar Már las full lengi og síðan tók við hálfgerður amatör-trúbador sem kunni sér ekki hóf og stóð illa undir korterslangri dagskrá sinni. Svo kom loksins hlé og margir farnir að þreytast. Hálfur gestahópurinn hafði yfirgefið salinn þegar upplesturinn hélt áfram eftir hlé, og hefur svo sem kannski farið fé betra. En nú birti til: Jón Birgir Pétursson las áhrifamikinn og stórfróðlegan kafla úr Eyjólfi sundkappa, þar sem nöturleg fortíð úr Nauthólsvík og Skerjafirði birtist ljóslifandi. - Huldar Breiðfjörð las vel skrifaðan og sláandi kafla úr Múrnum í Kína. Síðan tók Auður Jónsdóttir við með brot úr Fólkinu í kjallaranum. Það hljómaði mjög vel enda er Auður bæði mjög góður rithöfundur og viðkunnanleg manneskja að sjá. - Rut Gunnarsdóttir endaði kvöldið með því að lesa úr nýrri skáldsögu eftir Gunnar Dal. Heyrðist mér það vera eitthvert rugl um kraftaverk Maríu meyjar í nútímanum, og vakti mér ekki áhuga.
Á eftir fór ég með Guttesen, Guðmundi Björgvinssyni og Benna Lafleur á Hressó þar sem við skemmtum okkur við að gera grín hver að öðrum.
þriðjudagur, desember 21, 2004
Ég lét Torfa, pabba Mikka, klippa í mig í hádeginu uppi á Hlemmi. Spurði eftir fleiri skáldsögum sonarins en skildist á Torfa að DV ætti hug hans allan enn sem komið væri og lítilla breytinga að vænta á næstunni. Ég skrapp í bókabúðina á Hlemmi. Þar horfði ungur afgreiðslumaður stíft á mig en það var áhugi og virðing í augnaráðinu, ekkert svona "ég-er-vinkona-Beturokk-stóra-steikin-þín"-glott. Við tókum spjall saman og kom þá í ljós að hann er í hljómsveit með Hermanni Stefánssyni. Ég hafði enga hugmynd um þessa hljómsveit og hafði ekki vit á að spyrja hann um nafnið. Hefði eflaust ekki þekkt það. Hann sagðist efast um að smásagnasöfnin hreyfðust nokkuð úr búðinni en þótti sögur vinar síns afar skemmtilegar. Ég sá sex eintök af minni og velti því fyrir mér hvort það væri skammturinn sem Skrudda hefði látið þarna á sínum tíma eða hvort þau hefðu verið 10. Líklega það fyrrnefnda. Hins vegar hefur verið endurpantað líklega þrisvar í Máli og menningu Laugavegi og Eymundsson Austurstræti. Reyndar er allt upplagið komið í umferð núna en það er ekki nema 500 eintök. Bókin er semsagt uppseld hjá útgefanda eins og það heitir.
mánudagur, desember 20, 2004
Auðvitað verður Fischer aldrei framseldur frá Íslandi. En sú athyglisverða staða gæti hæglega komið upp að Bandaríkjamenn krefjist framsals en Íslendingar neiti þrátt fyrir framsalssamninginn á milli þjóðanna. Davíð segir að brot Fischers, ef um brot er að ræða, sé fyrnt samkvæmt íslenskum lögum og mun standa á þeirri skilgreiningu.
Ég rak augun í það fyrir tilviljun í Fréttablaðinu um helgina að ein af 10 bestu bókum ársins í Bandaríkjunum að mati New York Times er nýtt smásagnasafn eftir Alice Munro, Runaways. Munro er komin á áttræðisaldur en hefur aldrei verið betri. Svo skemmtilega vill til að hún gefur út bækur á sama tíma og litli meistarinn heima á Íslandi, síðasta safnið hennar kom út 2001, en ári síðar fjallaði ég um það og Munro í Lesbókinni. Ég vissi hreinlega ekki að það hefði komið út bók eftir hana á árinu. Hafði samband við Erlu áðan (ég á ekki kreditkort) og fékk hana til að panta eintak af Amazon.
Hlæið – þetta er alvarleg bók
Hermann Stefánsson: Níu þjófalyklar
9 þjófalyklar er skáldskapur og skopstæling á skáldskap. Hún er ein samfelld saga um ritunarferli smásagnasafns, með ráðgátu sem leysist í lokin, og hún er líka þetta smásagnasafn. Hún er safn af hugleiðingum og athugunum, en í henni er líka nokkuð af raunsæislegum skáldskap. Hún er sannarlega margræð og margslungin þessi stutta bók, en umfram allt virðist hún vera þrauthugsuð. Höfundurinn getur leyft sér að bregða á glannalegan leik af því hann hefur hugsað fyrir öllu, gætt að hverjum þræði, og af því hann „hefur þetta allt á valdi sínu“, eins og Egill Helgason hefur komist að orði um höfundinn. En þrátt fyrir allan leikinn, fyndnina og uppátækin er það alvaran í bókinni sem er eftirminnilegust, alvöruþunginn sem maður skynjar að baki leiksins og ísköld alvaran sem brýst reglulega fram í sögunum, stundum í formi raunsæislegra lýsinga.
Sögurnar 9 mynda semsagt eina sögu. Sú fjallar um rithöfundinn Guðjón Ólafsson sem er að setja saman smásagnasafn. Án þess að hann virðist geta við það ráðið heitir ein persóna í hverri einustu sögu bókarinnar Ólafur Jóhann Ólafsson og auk þess rata setningar úr sögu eftir Davíð Oddsson á óskiljanlegan hátt inn í sögur Guðjóns. Í lokasögu bókarinnar leysist þessi ráðgáta og sú lausn er ekki bara bráðfyndin heldur býður upp á endalausar vangaveltur um eðli skáldskaparins og tengsl hans við veruleikann.
Það er ekki heiglum hent að blanda saman hugleiðingum og raunsæi í smásögum svo vel fari. Hermanni tekst það hins vegar einkar vel vegna þess að annars vegar eru hugleiðingar hans djúphugsaðar og margræðar og hins vegar er raunsæistexti hans, þar sem hann er að finna, afbragðsvel skrifaður. Sjá t.d. ofurraunsæið í sögunni Vegamót, eða persónulýsingarnar í Orfeus og Evridís. Sumar sögurnar virðast umfram allt þjóna heildarhugmyndinni, meginsögunni og ráðgátunni, og standa e.t.v. ekki ýkja vel einar og sér. Aðrar eru sjálfstæðari og eftirminnilegri, t.d. þær tvær ofannefndu og einnig var ég hrifinn af sögunum Falin myndavél og Dularfulla bókin. Í þeirri fyrrnefndu er því lýst hversu berskjölduð hvunndagshetjan er gagnvart miskunnarlausun hressileika afþreyingarfjölmiðla: hún getur valið um að vera fúl og hallærisleg eða láta hressileikann vaða yfir sig. Dularfulla bókin er eins konar óður til barnabókahöfundarins Enid Blyton, en ljósmynd af höfundinum er birt fremst í sögunni sem samanstendur af nokkrum næmum og vel gerðum minningarbrotum úr æsku sem öll hafa orðið „dularfulla” í heiti sínu.
Maður verður dálítið feiminn við að setja orð á blað eftir lestur þessarar bókar. Í leik sínum og skopstælingum minnir hún nefnilega óþyrmilega á það hve oft þarf að grípa til vanahugsunar og kunnuglegs orðalags til að koma saman texta sem ekki getur beðið að eilífu eftir að verða skrifaður, t.d. þessi hrifla. Ég ætla hins vegar að skora þessa tilfinningu á hólm og segja einfaldlega:
Þetta er vel heppnuð bók. Hún er vönduð, frumleg og skemmtileg, fyndin og grafalvarleg. – Vísvitandi ekki frumlega orðuð niðurstaða en sannleikanum samkvæm.
sunnudagur, desember 19, 2004
Ég á ýmislegt að baki í einkalífinu undanfarna daga sem gaman er að upplifa en leiðinlegt að skrifa um. Sumt er einfaldlega ekki áhugavert fyrir aðra að lesa. Hæst ber 10 ára afmæli dóttur minnar sem haldið var upp á í gær. Þar var mikið um dýrðir, 18 þús. kr. GSM-sími, veisluhöld o.fl. Ég flutti tvær ræður um barnið, henni til skapraunar, enda lít ég svo á að 10 ára sé fyrsta merkisafmæli. Raunar er þessi aldur líklega hátindur lífsins og restin hálfgerð afturför, ætli gelgjuskeiðið sé ekki fyrsta hnignunarskeiðið á mannsævinni.
Allt um það, þá kosta svona skemmtilegar stundir vinnu sem almennt er ekki skemmtileg. Ég þurfti t.d. að þrífa íbúðina og sjá um uppvaskið eftir veisluna. Með þetta í huga keypti ég mér geisladisk áður en ég hófst handa, smellti honum í ferðaspilara, spilarann í vasann, og skrúfaði í botn. Ég keypti Odds and Sodds með The Who sem fyrst var gefin út árið 1974 en inniheldur upptökur allt frá 1964. Yndislegur gamaldags hávaði. Eitt af betri lögum plötunnar heitir Little Billy. Textinn í því ágæta lagi er frámunalega heimskulegur. Hann fjallar um afar þægan strák sem vill ekki reykja, en hin börnin stríða honum og stunda reykingar af kappi til að vera kúl. Þegar börnin verða fullorðin deyja þau öll úr krabbameini en Billy lifir áfram sæll og glaður. - Kannsi ég birti textann hér þegar ég er hættur að nenna að blogga.
Klíkur eða ekki klíkur. Meintur klíkubróðir tekur heilsíðuviðtal við Hermann Stefánsson í Mogganum í gær og helsti aðdáandi eða uppdiktari klíkunnar annað heilsíðuviðtal við hann í Helgar DV, en Hermann hefur í markaðslegum skilningi talist til minniháttar höfunda á þessari vertíð þar sem fjölmiðlar eru almennt sparir á viðtöl við höfunda.
Í ofanálag er ég, eilífur óvinur og eilíft athlægi allra klíkna, í þann veginn að birta lofsamlegan ritdóm um bók hans. Hvað er annað hægt? Bókin er góð.