laugardagur, febrúar 26, 2005

Vogskorinn hnefi í andlitið? Og maður rétt farinn að jafna sig eftir aðgerðina á enninu.

ÁBS 21
HS 18
EÖN 25

Eitthvað segir mér að þessi þjónusta mín sé nauðsynlegur hluti af vefraunveruleikaskáldverkinu um þessa þrjá aðila.

Frásagnir af kynsvalli verða líklega seint flokkaðar sem fallegar sögur þó að eflaust hafi margir gaman að heyra um slíkt. Fallegt er þó orðið sem mér kemur í hug um eina slíka örstutta frásögn, og er hún þó langt því frá lostavekjandi.

Sagan gerist á elliheimili á Englandi fyrir nokkrum árum. Tvö pör á níræðisaldri fengu eitt kvöldið leiða á sjónvarpsdagskránni og fóru í svokallað 4some í setustofunni. Upp komst um athæfið og fólkinu var vísað frá heimilinu. Ekki fylgir sögunni hvað varð um það. Nú vaknar spurning: Hvort er heilbrigðara, að horfa á sjónvarpið eða stunda kynsvall á síðustu ævidögunum. Líklega er það fyrst í ellinni sem það er í rauninn heilbrigt, a.m.k. í einhverjum skilningi, að stunda það sem kallað er óábyrg kynlífshegðun.

Var réttmæt að reka fólkið af heimilinu? Sem forstöðumaður hefði ég áminnt það fyrir að gera þetta í setustofunni en leyft framferðið inni á læstu herbergi. Og nei, auðvitað var brottreksturinn ekki réttmætur.

Eigðu þitt "úbbs", Hermann Stefánsson. Ég laumast ekki í Gegni, ég segi frá því. Ég er opin bók þar sem ég vil það viðhafa.

Ég komst að því um daginn að það er til íhaldssamara fólk en ég. Með mér vinnur textagerðarmaður sem er að nálgast sextugt, áður fréttamaður á útvarpi, tónlistarstjóri, höfundur gamanpistla, o.fl. Um daginn stóð hann fyrir aftan mig og horfði á skjáinn. Ég var að lesa bloggsíður. Svo byrjaði hann að fussa: "Með bakfjall í framrassinum!" - hvaða speki er nú þetta. Hann hafði aldrei lesið aðra eins dellu. Ég reyndi að útskýra orðaleikinn en var svo ekki alveg búinn að fatta hann sjálfur eða hugsa mikið út í hann. Tafsaði samt afsakanir fyrir hönd höfundarins: Þetta er svona eitthvað unga fólkið, þú veist. Mjög líflegt og ferskt og allt það. - En maðurinn fussaði bara meira og gekk fussandi í burtu.

Kynslóðabilið lætur ekki að sér hæða.

föstudagur, febrúar 25, 2005

Neðst á Laufásveginum má alltaf finna nokkra ketti í gluggakistunni, stundum allt upp í fimm, og það eru aldrei sömu kettirnir. Ég fletti Kattholti upp í símaskránni og það er í Stangarhyl. Hugsanlega eru meira en 20 kettir í þessu húsi. Getur verið að þetta sé einkaheimili? Veit einhver um þetta?

Hér kemur meinlaus færsla fyrir bitrustu lesendurna svo þeim líði ekki illa um helgina:

Erla hringdi í mig í gær og sagði að símareikningurinn frá Mannheim-tímabilinu væri kominn. Við höfðum dálitlar áhyggjur vegna þess að ég var að hringja dálítið mikið úr gemsanum úti og við áttuðum okkur ekki á því hvað það kostaði. 103 þús. krónur var niðurstaðan. Ég varð miður mín í dálitla stund eða þar til Erla sagðist vera að ljúga og að reikningurinn hefði verið 3.500 krónur. - Henni finnst það reyndar vera allt of hátt, en Erla er nú einu sinni Erla.

fimmtudagur, febrúar 24, 2005

Á Rithringur.is eru birtar tilvitningar í rithöfunda, fleyg orð sem skipt er um daglega. Tilvitnun dagsins finnst mér ansi lúnkin:

A writer is somebody for whom writing is more difficult than it is for other people.
- Thomas Mann


Það er mikið til í þessu.

miðvikudagur, febrúar 23, 2005

Til hamingju, Sjón!

Hef verið að lesa yfir gamlar færslur hérna, alveg frá því í fyrrasumar og þær eru, vægast sagt, ehemm, misjafnar. Ætli þetta hafi eitthvað verið að lagast undanfarið? Eða verður það alltaf svona að lesa þetta? Er þetta ein af þeim færslum sem betur hefði verið óskrifuð? Jæja, þetta drepur engan.

Þá veit ég það: Þórhallur Heimisson er markaðsprestur, verðugur arftaki séra Pálma Matthíassonar, sem uppnefndur hefur verið Tíski, en minna hefur farið fyrir honum undanfarin ár. Markaðprestur er svona ofvirkur prestur sem er alltaf í fjölmiðlum og sinnir sjálfstæðum verkefnum utan prestsskaparins sem vekja gríðarlegar vinsældir almennings. Þórhallur hefur til þessa verið þekktastur fyrir hjónanámskeið og ötul skrif um fjölskyldumál. Ég hef því hingað til ekki litið á hann sem markaðsprest, miklu fremur sem óþreytandi hugsjónamann um fjölskylduna og hjónabandið, nokkuð sem hann örugglega er. En núna er hann að auki stokkinn um borð í DaVinci lykils lestina og er að slá þar í gegn líka, að gera allt vitlaust. Hann heldur námskeið um Da Vinci lykilinn, bókina sem allir elska sem ekki hafa áhuga á bókmenntum. Þegar þetta nýjasta "hitt" hans bætist við allt hitt fer maður ósjálfrátt að líta á hann sem prest er grípur þau tækifæri er tengjast guðfræðinni og geta slegið í gegn hjá almenningi.

Næsta skref hans hlýtur að vera að öppdeita útlit sitt og losa sig við eighties-hárgreiðsluna, ja nema að hún komist í tísku aftur.

Er ég að gagnrýna prestinn? Auðvitað ekki. Hann er frábær. Hins vegar er það spurning hvort markaðsfræðikúrsar fari ekki að verða hluti af námsefninu í guðfræðinni. Ja, hver veit nema þeir séu orðnir það nú þegar.

þriðjudagur, febrúar 22, 2005

Stúlkan sem heldur ljósmyndasýningu með myndum af sér nakinni við hversdagslegar aðstæður var í Kastljósinu áðan. Myndirnar virkuðu vel á skjánum og pælingarnar góðra gjalda verðar: Nekt þarf ekki að vera kynferðisleg, er það ekki í sjálfu sér. - Í vissum skilningi er þetta rétt, fólk getur hæglega verið nakið án þess að það sé að hugsa um kynlíf. Einnig er það rétt að sumar myndirnar vöktu ekki kynferðislegar hugsanir og engar stellingar voru eggjandi. Myndin þar sem hún hlær í keng á kaffihúsinu er t.d. ekki neitt kynferðisleg. En það þarf ekki nema hlutlausa mynd af þessum fremur fallega kvenlíkama til að vekja kenndir og það gerði t.d. ein myndin þar sem hún snýr baki í ljósmyndavélina í ósköp hlutlausri stöðu. Þetta leiðir hugann að öðru hugverki: Árið 2000 kom út feikilega gott smásagnasafn eftir Rúnar Helga Vignisson, Í allri sinni nekt. Þema sagnanna er erótísk samskipti kynjanna í sinni fjölbreyttustu mynd. Ein sagan og líklega sú lúmskasta og óræðasta segir frá konu og karli sem kynnast í nektarnýlendu. Ekki ætla ég að oftúlka söguna en óneitanlega er minn skilningur á henni sá að nekt verði alltaf fyrr eða síðar kynferðisleg.

Það er ekki bara þannig að við mannfólkið, segjum karlarnir, séum orðnir brenglaðir af samspili kláms og bælingar, hjá því verður ekki sneitt að kynhvötin er gríðarlega sterk eðlishvöt, burtséð frá allri klámvæðingu, og nógu fallegur kvenlíkami vekur lostafullar kenndir; það þarf reyndar miklu minna til.

Og það sem meira er: Það er ekkert ljótt við þessa staðreynd, kynferðisleg nekt er ekkert ljótari en sú sem gerir sér far um að vera kynlaus.

Vinnufélagi varpaði fram skilgreiningu á mér í fyrirsagnarformi rétt áðan: Utangarðsmaður í jakkafötum. - Um leið og hann hafði sleppt orðinu rak ég augun í risastóra matarklessu í fötunum.

Makalaust hvað textinn á smásögum Chekhovs er oft nútímalegur. Núna er ég að endurlesa sögu sem heitir Gusev. Hún virkar eins og söguleg smásaga skrifuð á níunda áratugnum en í raun er hún samtímasaga, skrifuð árið 1890. Alveg gjörsamlega ótrúlegt.

Það er dálítið vandræðalegt að láta furðulegan brandara standa efstan á síðunni dögum saman en ég er ekki vanur að pína út úr mér skrif hér og mér liggur ekkert á hjarta í augnablikinu. Þessar línur virka þó betur en brandarinn í augnablikinu. Leyfum þeim að standa til morguns.

mánudagur, febrúar 21, 2005

Ég er að hugsa um að setja þessa bloggsíðu á internetið. Er ekki allt komið á netið nútildags?

Mbl.is segir:

Kjötmeti sagt skipta sköpum varðandi þroska barna
Bandarískur vísindamaður segir siðlaust að gefa börnum einungis grænmetisfæði þar sem það geti dregið úr vexti þeirra og þroska. Þá segir hún það geta haft langvarandi áhrif á þroska barna neyti mæður þeirra einungis grænmetisfæðis á meðgöngunni. Þetta kemur fram á fréttavef BBC. "Það hefur verið sýnt fram á það í rannsóknum að mæður sem forðast allt kjöt á meðgöngu eignast lítil börn sem vaxa hægt og eru sein til þroska," segir Lindsay Allen, sem starfar hjá bandarísku Landbúnaðarrannsóknarstofnuninni.

Er það ekki nokkuð ljóst að homo sapiens er kjötæta sem líka hefur gott af því að borða grænmeti? Mikið væri gaman að fá langt og strangt rifrildi um þetta í kommentakerfinu þar sem ég er í hlutverki áhorfandans.

Ég nenni ekki að skrifa þessa Judith Hermann færslu. Ég get ekki skilað húmornum hennar í endursögn. Þetta voru mistök sem hafa fælt mig frá því að blogga um helgina, því ég gefst upp eftir fyrstu setninguna í færslunni.

Ég hef reyndar ákveðið að endurheimta strax allt frelsi mitt sem rithöfundur nýbúinn að gefa út bók. Tilraun til hryllingssmásögu er ansi máttlaus og meint skáldsaga mín er líka döpur í augnablikinu. Ég ætla að láta kylfu ráða kasti og setjast óbundinn af hugmyndum mínum að skriftum á næstunni. Leyfa þessu öllu að gerjast og skrifa það sem getur virkað í það og það sinnið. Þau eru heldur leiðinleg þessi tímabil þegar ég get ekki komið saman góðri sögu en þau eru óhjákvæmileg.

Annars ætla ég að fara að panta nýju Munro bókina og Divine Comedy tónleikana í gegnum Amazon (enda kominn með DVD-tæki). Á meðan ýmsir jafnaldrar mínir eiga sér blauta drauma um hinar og þessar kynbombur úti í heimi þá er ég heltekinn af þessari 73 ára gömlu kanadísku kerlingu (Sem heitir Munro en ekki Divine Comedy; já ég leyfi þessu að vera illa skrifuðu í dag). Lesið þið einhverja höfunda sem ykkur finnst skilja lífið og kenna ykkur eitt og annað um ykkar eigið líf? Alice Munro er þannig höfundur. Hún sneiðir alltaf svo vandlega hjá því augljósa og dregur fram óræðnina í tilverunni og það hvernig fólk er aldrei hægt að negla niður í einföldum skilgreiningum eða yfirhöfuð skilgreina það á nokkurn hátt.