laugardagur, apríl 16, 2005

Stundum finnst mér að sú staðreynd að mér tekst að skrifa frambærilegar bækur við mínar aðstæður sé ekkert annað en járnvilji manns sem að eðlisfari er veiklundaður og á engan járnvilja. Einhvers konar seiglu í það minnsta. Er í miklu nóvelluátaki um helgina en Auglýsingastofan, eldhúsið og þvottahúsið hafa gleypt vikuna ásamt ýmis konar kjaftæði og áreiti í umhverfi sem vill að maður sé neytandi og framleiðsluvél, sem vill hafa af manni allan tíma og alla orku og gerir ekki ráð fyrir sköpun. Langar að tjá mig um ýmislegt fleira en eigin nafla en læt aðra (og jafnvel betri) um það að sinni. Góðar stundir þar til í næstu viku.

föstudagur, apríl 15, 2005

Ég þorði ekki að hafa klámið lengi uppi svo nú er komin ný tilvitnun. Hún er úr sögunni Tómur bíósalur sem skrifuð var síðvetrar 2001. Ég hafði sterka þörf fyrir að skrifa um Austurbæjarbíó á tímum Silfurtunglsins, skemmtistaðar sem var fyrir ofan bíóið (en ég set við hliðina í sögunni). Birtist í Sumarið 1970.

http://www.heimur.is/?frettir=single&newsflokkur=Pistlar&fid=2266 Athyglisverð grein um grasrótarhóp Agnesar Bragadóttur vegna sölu Símans.

Nei, tilvitnun dagsins er ekki stolin af bloggsíðu EÖN. Það var meiri dónaskapur í sögunum mínum í gamla daga, þegar ég var of ungur til að hægt væri að kalla mig gamlan perra. Þessi er úr sögunni Í síðasta sinn sem birtist í samnefndu safni árið 1995. Líklega var ég 31 eða 32 ára þegar ég skrifaði þessa sögu.

Ég var beðinn um að skrifa um nýja ljóðabók eftir Jónas Þorbjarnarson fyrir Kistuna. Ég er ansi ánægður með þessa bók en frekar lélegur í að skrifa um ljóð svo ég hafði pistilinn stuttan og hætti mér ekki í djúpar pælingar (þetta er á Kistunni). JPV gefur út bókina og er líka að gefa út ljóðabók eftir Njörð P. Njarðvík, Aftur til steinsins. Vinur minn, Gunnar Randversson, segir að hún sé frábær. - Það er gaman ef góðar frumsamdar bækur koma út á vorin.

Það eru nýjar útgáfufréttir hjá www.skrudda.is M.a. bætist við önnur Rainkin-kilja. Athyglisvert er að Bjarvætturinn byrjar á því að seljast betur en Rainkin skv. sölulistafréttum á síðunni. Ætli hún sé ein af þessum bókum sem alltaf seljast?

Eitt sem gleymdist í dagbókarfærslunni: á rólegum stundum spilaði ég fréttina um vítið sem Blöndalinn dæmdi á Lúðvík í Alþingi. Hún var á Vísi í dag. Það var dásamleg skemmtun og athyglisvert að þingforsetinn náði alveg nýju sándi úr bjöllunni þegar Lúðvík æsti sig.

fimmtudagur, apríl 14, 2005

Dagur í lífi meistara

Ég er í skapi fyrir dagbók í nærfataskúffustíl (Þ. Joð) í dag. Færslan er annars tileinkuð þessari dásamlegu setningu sem ég sá á annarri bloggsíðu fyrir stuttu:

“Ég sofnaði yfir sjónvarpinu í gær og vaknaði á sófanum klukkan átta í morgun í öllum fötunum. Ojbara.”

Að skrifa vel snýst nefnilega ekki um orðarembing og skraut. Það snýst um lifandi lýsingar. Sumir hafa þetta í sér en aðrir ekki. En ég er hins vegar ekki að reyna að skrifa vel hér að neðan.

Kl. 5 – Vakna og fæ mér samloku með skinku. – Andskotinn. Sofna aftur.
Kl. 7.45 Erla vekur mig til að sinna börnunum.
Kl. 9.43 Vakna aftur og rýk á fætur. Börkur hringir og segir að nú verði ég að vera “kreatvíur”.
Kl. 10.20 Mættur í vinnuna og fer að skrifa sjónvarpauglýsingar með Berki og Og Vodafone fólki. Þurfti auk þess að skrifa fjórar blaðaauglýsingar um sama efni og prófarkalesa haug af dóti. Vældi í huganum yfir því að fá ekki að hugsa um bókina mína í friði. Hringdi í Erlu og vældi yfir litlum tíma til skrifta.

Kl. 13 Ommeletta á Ítalíu. Fylgdist með rosalega skemmtilegum eins árs strák á næsta borði. Langaði í barn en ekki nógu mikið. – Skrifaði fimm setningar í sögunni. – Át ávexti síðdegis og ofnbakaðan rétt í kvöld (pylsur og fiskur). Drakk mikið kaffi.

Kl. 14-19.00 Auglýsingaskrif og prófarkalestur (ofangreint) – Fékk töluvpóst frá Þráni Bertelssyni, Jóni Óskari Sólnes, Rúnari Helga Vignissyni og Eyvindi Karlssyni. Svaraði einum þeirra með skætingi vegna míns reglulega ofsóknarbrjálæðis.

Skoðaði mig í spegli og þuklaði mig. Lappirnar grjótharðar af skokkvöðvum en ég er að fitna enn einu sinni, búkurinn eins og dúnsæng viðkomu.

Kom heim með strætó og hitti Erlu nýfertuga á horni Tómasarhaga og Dunhaga. Hún var á leiðinni á kóræfingu, skrúfaði niður bílrúðuna og sagði að maturinn væri tilbúinn en ég yrði að gefa krökkunum. Rosalega fannst mér hún glæsileg og lét þess getið. Hárið uppsett – þetta er víst generalprufa fyrir tónleika á mánudaginn. Vona að hún fari ekki að yngja (og “grenna”) upp; sem betur fer er þetta kvennakór.

Eldhúsið og þvottahúsið bíða. CD- í eyrunum. Hausinn velsofinn. Hádegissetningarnar gætu hafa lagt drög að góðum skriftum í nótt.

miðvikudagur, apríl 13, 2005

Ein af mínum betri sögum heitir Við mamma erum ekki líkar. Ég skrifaði hana vorið 2001. Tilvitnunin að ofan er upphafið að sögunni. Oft hef ég komist á flug við skriftir þegar ég næ að stilla upp andstæðum og í þessu tilviki eru þær ryþmískar, þetta verður ákveðið hljómfall. - Þetta er nútímaleg saga um brostna drauma litla fólksins og sorglegt ættarmynstur sem fólk festist í.

Á leiðinni frá Keflavík í gær hlustaði ég á viðtal Ásdísar Olsen við Ingibjörgu Sólrúnu á Talstöðinni. Í upphafi viðtalsins sagði Ásdís: "Ég er dálítið stressuð núna því ég ber svo mikla virðingu fyrir þér. " - Stuttu síðar brást hún við málflutningi viðmælanda síns elskaða með því því að segja: "Ég fæ bara gæsahúð." - Ég held að þessi persónudýrkun Ásdísar á Ingibjörgu Sólrúnu endurspegli viðhorf margra. Össur stendur fyrir hófsöm hægri kratísk viðhorf en málflutningur Ingibjargar Sólrúnar virðist mér öllu óljósari. Ef Sjálfstæðisflokkur og Samfylking væru ekki samanlagt allt of stórir þá væri þetta heppilegt stjórnarform. Fyrsta ríkisstjórn Davíðs Oddssonar var í viðreisnarformi. Hún stjórnaði í djúpri kreppu og starfaði við miklu erfiðari aðstæður en tvær næstu stjórnir. Gæti trúað því að sagan eigi eftir að dæma þá ríkisstjórn vel.

þriðjudagur, apríl 12, 2005

Komiði sæl. Hausinn á mér er ennþá troðfullur af kastalabyggingum, gömlu gluggaflúri og kirkjuskrauti í bland við Debemhamsbúðir, C&A og Hennes&Moritz. Þetta var afmælisferðin hennar Erlu og hún réð henni. Hins vegar skemmti ég mér líka vel þó að ég ferðist öðruvísi einn míns liðs. Prag kom okkur á óvart, hún er svo miklu fallegri og glæsilegri en okkur gat órað fyrir. Smekkvísin og listfengið er einhvern veginn ofin í allt, stórt og smátt, svo þétt að undir lokin var ég orðinn ímyndunarveikur og þótti lítill rafmagnsofn úti á miðju gólfi á kaffihúsi einstakt dæmi um smekkvísi Pragbúa. Velmegun virðist töluverð í borginni ef marka má miðbæinn en kannski er ekkert að marka hann.
Á föstudeginum hittum við Þráinn Bertelsson og Þóri ræðismann á Reykjavík, staðnum sem Þórir á og rekur. Erla varð fertug þann dag og kallarnir gáfu henni freyðivínsglas. Þráinn borgaði bjórinn minn og var hinn elskulegasti. Ég hef ekki hitt hann í persónu fyrr, bara séð hann í sjónvarpi, en mér fannst hann vera einstaklega ferskur og frísklegur, kannski líður honum bara svona vel í Prag sem hann þreytist ekki á að dásama. Hann fræddi okkur dálítið um fyrrverandi kónga og keistara í Bæheimi og gaman var að sjá þær frásagnir síðan á prenti í nýjasta Bakþankapistlinum.
Við vorum mikið í Gyðingahverfinu og skoðuðum m.a. fornan kirkjugarð þar og safn um helförina. Þar er að finna teikningar eftir börn í Terezni-gettóinu sem var rétt fyrir utan Prag. Íbúar gettósins lögðu mikla áherslu á að uppfræða og vernda börnin eins og hægt væri við erfiðar aðstæður og afraksturinn var m.a. áhrifamiklar teikningar. Það er heldur þrúgandi stemning inni á gyðingasöfnunum. Safnvörður hirti mig fyrir að kalla á Erlu sem var inni í næsta herbergi og sussaði síðan hvað eftir annað á hóp skólanema vegna kliðs sem myndaðist. Ennfremur urðu allir karlmenn að bera höfuðfat inni á söfnunum og þeir sem ekki voru með húfu eða hatt á höfðinu fengu bréfkollur við innganginn. Mér finnst þetta dálítið mótsagnakennt. Þeir sem breytt hafa bænahúsum sínum og kirkjugörðum í söfn og selja að þeim aðgang háu verði geta ekki ætlast til þess að gestir steinþegi og lúti höfði í skömm yfir því að vera ekki gyðingar. Aldrei er maður áreittur með þessum hætti inni í kaþólskum kirkjum þó að þar sé að sjálfsögðu að finna áletranir um tilhlýðilega virðingu og umgengni.

Tékkneskur matur þykir mér góður en kannski er hann ekki allra. Sveitalegur og afar eindreginn. Sætar sósur, soðið grænmeti og þykkar, safaríkar og hæfilegar steiktar kjötsneiðar. Síðast en ekki síst brauðbúðingar, sem kallast á ensku dumplings, afar bragðgóðir en hafa þann galla að bólgna út í maganum á manni. Eitt kvöldið lentum við inni á einum af mörgum stöðum sem kenndir eru við Góða dátann Sveijk í undirtitli. Þar vorum við spurð um þjóðerni við innganginn og fengum síðan matseðilinn á íslensku eftir að okkur var vísað til borðs hjá rússnesku pari. Þarna sátu allir hlið við hlið eins og um samkvæmi væri að ræða. Rússneski karlinn var sauðdrukkinn en vinsamlegur og kurteis. Hann gaf mikið frat í Chelsea og Abramovits en sagðist halda upp á eitthvert rússneskt lið sem ég náði aldrei að greina. Með reglulegu millibili stormuðu tveir tónlistarmenn inn í salinn, léku slagara á horn og harmonikku og sungu hástöfum. Salurinn tók undir með lófaklappi og stappi.

Þegar heim kom hafði ýmislegt gerst. Magnús Sigurðsson, háskólanemi og ÁBS-lesandi hafði fengið birt ljóð í Lesbókinni. Til hamingju með það. Gunnar Randversson svaraði ljóðaníðgrein EÖN (sem birtist í TMM). EÖN svarar síðan á bloggsíðunni sinni. Svarar og svarar og svarar.
Ég á eftir að tékka á Hildi. Vonandi gengur henni vel.

Framundan eru skriftir, að sjálfsögðu. Enn er það skáldsagan stutta sem er á dagskrá en að auki er mig skyndilega farið að langa til að þýða Alice Munro. Veit ekki alveg hvernig ég á að leysa þetta enda hef ég ekki hugsað mér að segja upp vinnunni og fara að lifa á loftinu. Það er öllu skemmtilegra að rorra í velsældarspikinu.