föstudagur, apríl 22, 2005

Á Íslandi virðast menn ekki úrskurðaðir í gæsluvarðhald ef þeir eru ekki taldir geta spillt rannsóknarhagsmunum. Þess vegna ganga ribbaldar, ofbeldismenn og nauðgarar lausir allt þar til vægur dómur fellur. Vissulega á gæsluvarðhald ekki að þjóna hlutverki refsingar yfir ódæmdum mönnum en sjónvarpsþættir kenna manni hins vegar að erlendis eru menn úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna þess að afbrot þeirra gefur til kynna, að þeir séu hættulegir umhverfi sínu. - Stundum vildi maður að löggan væri effektíari og jafnvel meira brútal. En lögreglumenn mega ekki anda á fólk niðri í miðbæ, þá eru þeir kærðir, sviptir ærunni og teknir í bakaríið í Kastljósi og Íslandi í dag.

Í gær eða fyrradag birtist stutt frétt í Fréttablaðinu með fyrirsögn þess efnis að Sjálfstæðismenn fagni því að Davíð ætli að bjóða sig aftur fram í formanninn. Þegar fréttin er lesin kemur í ljós að viðmælendurnir eru Þorgerður Katrín og Kjartan Gunnarsson. Geir Haarde vill hins vegar ekki tjá sig. Jamm. Það er nú það.

http://www.stevemartin.com/ Er Steve Martin að gera sig sem rithöfundur? Einhver hér lesið bækurnar hans?

fimmtudagur, apríl 21, 2005

Við settum upp trampólín í garðinum í morgun. Það vekur heldur betur lukku. Börnin verða ekki til viðtals næstu daga.

Las í gærkvöld pistil Egils Helgasonar um ömurleika Reykjavíkur. Sumt af því sem hann týnir til hef ég nánast dálæti á enda í öðrum stellingum: Materíal, materíal .... Prag er dásamleg borg en ég gæti aldrei dvalist þar við skriftir. Hún virkar bara á túristann í mér. Hún er of falleg, glæsileg, vinaleg og smekkleg til að hún gæti passað í það andrúmsloft sem ég vil skapa. Reykjavík hentar ágætlega í það, en ekki Kaupmannahöfn, San Diego en ekki San Francisco, alls ekki Berlín en kannski München, en örugglega Mannheim, Heidelberg, Hildesheim og ýmsar fleiri. - Annars er ekki hægt að útskýra þetta. Ég vil ekki endilega að umhverfið sé ömurlegt en ég vil hafa það hæfilega hversdagslegt og látlaust og helst ekki hafa heimsfræg mónúment fyrir augunum dveljist ég við skriftir. Ákveðinn ömurleiki getur síðan líka höfðað til mín og kveikt í mér en það er erfitt að tjá það hvað það er nákvæmlega er sem hrífur mig við Snorrabraut, Hverfisgötu og Hlemm. En mér líður afskaplega vel á þessum stöðum. Ég er líka hrifinn af aðallestarstöðvum í erlendum borgum en síður flugvöllum.

Einhver kaupir fyrirtæki og margfaldar verðmæti þess með frábærum rekstri þannig að það er orðið miklu verðmeira en þegar hann keypti það. Var honum þá gefið fyrirtækið?

Ég held ég sé að ná tökum á tilverunni. Við vorum nefnilega bara hálftíma að setja upp trampólínið (notuðum bara heila Erlu en afl beggja) en ekki allan daginn eins og við hálfvegis reiknuðum með. Ég er því kominn niður í vinnu til að klára verkefni þar. Hef kvöldið síðan laust fyrir skáldskapinn.

Það eru aumingjar og skríll sem eru með nafnlausan skæting í kommentakerfum. Kannski fæ ég einhvern til að rekja aftur í tölvurnar þeirra og mæti þeim augliti til auglitis. Ætli þeir myndu ekki koðna niður þá flestir.

miðvikudagur, apríl 20, 2005

Örstutt kveðja á síðasta kveldi vetrar. Bloggið hefur verið bragðdauft og þaðan af verra undanfarið, botninum var náð með misheppnaðri árás á bóksalarokkarann, sannkölluðu vindhöggi. Bæti mér það upp síðar, enda alltaf tilbúinn með stungurnar. - EÖN er ekki nógu duglegur að ráðast á mig og því eru hnútur okkar að taka á sig einhverja eineltis- eða þráhyggjumynd af minni hálfu, sem er heldur leiðinlegt. Þá verð ég líklega að leiða hann hjá mér, sem mér þætti fremur fúlt. Gott af vita af þessu með blöðruselinn og sæljónið, ég get þá fagnað hverju blöðruselsávarpi.

Ég hef ekkert spennandi að segja: allt of mikið að gera í vinnunni, Erla er að fara til Færeyja og ég einn með börnin, en ég þrjóskast áfram með bókina. Það er bara þetta eina tækifæri í lífinu: ég verð ekki aftur 42 ára með fimm smásagnasöfn að baki og nóvellu í smíðum sem liggur miklu betur við höggi en nokkur krissrokk. 52 ára maður hefur t.d. ekki sömu orku, án þess ég vilji hugsa meira út í það, tíminn líður nógu hratt til að ég fái að komast að því áður en ég kæri mig um. Morgunblundarnir og nóvellur Richards Ford eru helstu stuðningsaðilar þeirra paragraffa sem nú fæðast á mörkum sumars og vetrar.

Gleðilegt sumar.

http://www.visir.is/?PageID=90&NewsID=38724 Þetta hef ég lengi vitað.

Einhver rokkari (og bóksali) er alltaf að hnýta í þáttinn hans Gísla Marteins. Ég sé nú í gegnum svona. Hann er bara fúll af því hann fær ekki að vera sjálfur í þættinum - með hljómsveitina sína. Maður þekkir þessa rokkara.

þriðjudagur, apríl 19, 2005

Árum saman gat ég hvorki né vildi skrifa neitt nema smásögur. Nú grunar mig að nýtt tímabil sé að renna upp með nóvellum og engu öðru. Eflaust væri myndarlegast að gefa þær út þrjár í bók á fjögurra- til fimm ára fresti en þá virkar það eins og smásagnasafn og enginn vill snerta við því. Þess vegna munu þær líklega koma út á 1-2 ára fresti, ein í hverri bók. Ég spái því að þær verði allar 127 blaðsíður að lengd í sama broti og Tvisvar á ævinni.

Hvað finnst mönnum um að Davíð ætli að bjóða sig aftur fram sem formaður Sjálfstæðisflokksins? Er möguleiki á formannsslag þar í haust?

Var í brjáluðu skapi í gær og eflaust litaðist bloggið af því. Hvern andskotann varðar mig um hvað aðrir eru að skrifa. "Sendir kollegum sínum tóninn." Nenni samt ekki að taka neitt aftur. Hitti útgefendurna í morgun og það var nóg til að létta brúnina: Hvenær viltu gefa út bókina? Komdu bara með hana þegar þú ert tilbúinn. Taktu kiljur með þér; sjáðu: Bjargvætturinn og Rankin. - Það er gott að hafa útgefanda, sveittan eða ósveittan.

Það góða við gærdaginn var að ég komst í gegnum bekkjarskemmtun dótturinnar og kórtónleika konunnar án þess að nokkur sæi æðið sem runnið var á meistarann. Lendi m.a.s. í skemmtilegri uppákomu á bekkjarskemmtuninni: Beðið var um tvo sjálfboðaliða úr röðum fullorðinna og þegar enginn gaf sig fram sló ég til. Uppi á sviði þurfti ég, með hendur fyrir aftan bak, að veiða epli úr skál með tönnunum og rúsínu úr hveitiskál. Jakkafötin voru útötuð í hveiti á eftir.

mánudagur, apríl 18, 2005

Maður sem fer með mál sitt fyrir Mannréttindadómstólinn í Stassborg eftir að hafa tekið út refsingu sína hlýtur annað hvort að vera haldinn alvarlegri þráhyggju eða vera saklaus. Ég hallast að hinu síðarnefnda.

Alveg finnst mér skelfilegt þegar þeim rökum er haldið á lofti að ríkið eigi ekki að selja fyrirtæki sem skila miklum tekjum í ríkiskassann. Úr hvaða vösum koma þær tekjur? Hvílík skammsýni! Það er einhvern veginn eins og frjálshyggjan hafi þrátt fyrir allt ekki náð yfirhöndinni enda hafa ríkisútgjöld stóraukist undanfarna áratugi þrátt fyrir vaxandi einkavæðingu. Ætti ríkið ekki bara að reka risastórt spilavíti til að afla skatttekna? Hvað með að lækka skatta og minnka þörfina fyrir skatttekjur?

Bls. 38 í DV í dag. Sensasjonalisminn hefur endanlega tekið völdin í bókmenntaheiminum. Ofboðslega verður næsta jólabókaflóð leiðinlegt og mikið er ég feginn að drukkna ekki í því. Bók Stefáns Mána mun maður fletta einu á Súfistanum eins og Mannlífsblaði með krassandi viðtali; síðan leitar maður að einhverju góðu til að lesa, væntanlega bókum sem ekkert verður fjallað um, t.d. þýðingar.

sunnudagur, apríl 17, 2005

Það er betra að láta Richard Ford leiða sig en Alice Munro. Hann er viðráðanlega góður. Hún er svo fáránlega góð að það er óhugnanlegt og manni fallast hendur. Munro: Runaway; Ford: Women with Men og Multitude of Sins.

P.s. Munro leiðir Ford.

P.s.s. Ég leiði viðvaningana og við getum byrjað á þessu spakmæli: Reyndur rithöfundur er viðvaningur sem gafst aldrei upp.

Sjálfsvorkunnarfærsla í gær, góður slatti af ofsóknarbrjálæði í kollinum og svo fékk ég vægt kvíðakast í gærkvöld. Þetta eru óbrigðul merki um að ég sé að komast á beinu brautina með bókina. Það sama gerðist í Hildesheim síðvetrar 2003 þegar síðasta bók fór á skrið eftir nokkurra missera þreifingar.