föstudagur, desember 16, 2005

Í hádeginu heyrði í konu í Máli og menningu segja: "Það var á þessu augnabliki sem hann segist hafa orðið trúaður." - Í næstu andrá leiddust tvær unglingsstúlkur ákaflega þétt inn í búðina - af meinlausri tilgerð og einlægni í senn. Ég fylgdist með rithöfundi þræða búðina, skoða í hverja hillu og kaupa sér eitthvað.

Sjálfur skrifaði ég nokkrar línur. Samt finnst mér ég alltaf vera að sóa tímanum.

Í kvöld klára ég skúringarnar fyrir helgina. Í fyrramálið er það knattspyrnumót hjá Kjartani og síðdegis höldum við upp á afmælið hennar Freyju.

fimmtudagur, desember 15, 2005

Loksins keypti ég Tommy. Það var kominn tími til og eins gott því ég þarf að skúra í kvöld og eitthvað verð ég að hafa í eyrunum á meðan.

Hitti Rúnar Helga rithöfund og útgefanda í hádeginu. Það var gott í honum hljóðið enda skáldsagan hans að fá fína dóma og útgáfan virðist ganga nokkuð vel.

Á föstudag ætti næsti pistill í Blaðinu að birtast og á sunnudag skilst mér að ég verði í Silfri Egils. Þannig að frægðin er nokkuð fyrirferðamikil þessa dagana.

Það hafa sprottið upp deilur á milli Eddunnar og Stefáns Mána vegna þess að Eddan auglýsir ekki Túrista og lætur ekki þýða Svartur á leik sem er ansi undarlegt þar sem bókin hefur verið tilnefnd til Glerlykilsins. Spurningin er hvar Stefán Máni hafnar. Bjartur eða JPV?

miðvikudagur, desember 14, 2005

Ég fékk bókina Völundarhús valdsins senda til mín í gær en áður hafði ég lesið drjúgan hluta af henni á Súfistanum. Það er glettilega spennandi að lesa um stjórnarmyndunarflækjur á 8. áratugunum, um tortryggnina á milli sumra stjórnmálaforingja þá. Stundum voru þessi mál í að virtist óleysanlegum hnút allt þar til menn gáfu eftir og bræddu saman einhverja málamyndasamsuðu sem síðan sprakk áður en kjörtímabilið var á enda.

þriðjudagur, desember 13, 2005

Ef fólk vill að öll stéttarfélög hafi óskorðað og sjálfstætt samningafrelsi þá verður að hætta að setja í kjarasamninga ákvæði um að umrædd starfstétt fái allar launahækkanir sem viðmiðunarstéttir kunna að semja um á samningstímanum.

En á meðan þessi ákvæði eru í flestum kjarasamningum þá er ekki hægt að hækka láglaunastéttir sérstaklega nema með samstilltu átaki margra stéttarfélaga.

Að viðurkenna ekki þennan veruleika er lýðskrum. Það er ennfremur lýðskrum að halda því fram að samningar á borð við þá sem gerðir voru við ófaglærða starfsmenn borgarinnar geti ekki haft í för með sér hættu á víðtæku launaskriði og víxlverkunum kaupgjalds og verðlags. Að benda á tekjuhæstu einstaklingana í tekjublaði Frjálsrar verslunar í þessu samhengi er líka lýðskrum. Engin starfstétt mér vitanlega hefur ákvæði í kjarasamingum sínum um að launahækkanir eigi að taka mið af kaupréttarsamningum stjórnenda í fjármálafyrirtækjum. Það kann að hljóma vel að grípa til slíkra dæma í argaþrasinu en það er jafn mikið rugl fyrir því.

Þegar borgarstjórinn spyr "Hvenær eiginlega má þá hækka laun þessa fólks" þá er það röng spurning. Rétta spurningin er "hvernig". Það þarf að gerast með víðtæku samráði margra stéttarfélaga eða allsherjar afnámi ákvæða í kjarasamingum um sambærilegar hækkanir og aðrir semja um.

Ég hef enga faglega innsýn í kjaramál. Ég veit þetta vegna þess að þetta blasir við augum þeim sem meta þessi mál hlutlægt.

mánudagur, desember 12, 2005

Ég fæ ekki betur séð en Þjóðverjar mæti annaðhvort Svíum eða Englendingum í 16-liða úrslitum á HM. Það væri skelfilegt fyrir gestgjafana að falla svo snemma úr keppni. Eflaust er það líka vond tilhugsun fyrir Svía og Englendinga að mæta Þjóðverjum svo snemma á útivelli.

sunnudagur, desember 11, 2005

Það er frekar sjaldgæft að ég skokki 2 daga í röð en hefur gerst nú um helgina. Það er ansi strembið. Ég skil ekki hvernig KR-ingarnir halda það út að æfa 8 sinnum í viku núna. En þeir eru náttúrulega ekki 43 ára og yfir 100 kíló.

Mín eðlislæga tilhneiging er að hreyfa mig ekki neitt og því er ég nokkuð ánægður með að hafa haldið þetta út svona lengi.

Reyfarinn orðinn viðmið

Í sjálfu Þjóðmenningarhúsinu eru nú haldnir bókmenntaupplestrar undir yfirskriftinni "Jólahrollur í hádeginu". Þar á hver ágætishöfundurinn sitt hádegi. Í auglýsingunni segir m.a.: "Einn af öðrum tínast spennusagahöfundarnir í Þjóðmenningarhúsið á aðventunni og skjóta áhlýðendum skelk í bringu."

Þarna er gengið úr frá því að spennusagan sé hið almenna skáldsagnaform og í þessari dagskrá er verkum á borð við Dætur hafsins eftir Súsönnu Svavarsdóttur, Yosoy eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur, Bæjarins verstu eftir Hrein Vilhjálmsson og Túristi eftir Stefán Mána þröngvað undir spennusagnahugtakið.

Það er ekkert að íslenskum bókmenntum. Og það er ekkert að því að spennusagnahöfundum hafi fjölgað. Það eru þeir sem um bókmenntirnar fjalla sem eru að drepa mann úr leiðindum með yfirborðsmennsku sinni. "Heimóttarskapur" var það orð sem Friðrik Rafnsson valdi um daginn til að lýsa reyfaradýrkun íslenska bókmenntaheimsins. Nú birtist sá heimóttarskapur í Þjóðmenningarhúsinu sem ekki getur boðið höfundi að lesa upp án þess að láta eins og hann sé spennusagnahöfundur, jafnvel þó að hann sé það ekki.