föstudagur, febrúar 24, 2006

Mörgu góðu fólki skulda ég matarboð í gegnum tíðina (fyrirgefðu Jón Óskar og margir fleiri) en eitt ætla ég að efna þessa helgi: Rúnar Helgi, frú og synir koma til okkar annað kvöld í hnetusteik og pizzur. Ekki efa ég að við Rúnar munum ræða bókmenntir en ég ætla líka að fá strákana hans í FIFA 06 og gá hvort mér gengur betur að vinna þá en Kjartan.

Vel má vera að ég skreppi með Erlu á Capote á sunnudaginn. Það er ein af fáum bíómyndum sem ég ætla ekki að missa af.

fimmtudagur, febrúar 23, 2006

http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=/20060223/LIFID01/102230008 Til hamingju, Edda með nýjasta höfundinn. Er það ekki stórkostlegt að stærsta bókaútgáfa landsins sé orðin að vígi útlitsdýrkunar? Þess á milli kveinar útgáfustjórinn um stöðu tungumálsins.

Ný (ja eða gömul?) nafngift VR vekur nokkra umræðu í kringum mig. Menn segja að félag geti ekki kallað sig Virðingu og réttlæti. Að baki slíkri lausn hlýtur að liggja mikið harðlífi. Svo getur þetta kallað yfir sig uppefnið Vitleysu og rugl.

Ég er að fitna. Hægt og sígandi læðist púkinn að mér með smásyndum. Kominn upp í 109 kg. Við skulum spyrja að leikslokum.

Og bókin. Ég þarf eiginlega að skrifa hana frá grunni. Það er grundvallarmeinsemd í henni. Mér telst til að 10 mánuður séu síðan ég byrjaði á verkinu. Núna er ég feginn að vera ekki full-time rithöfundur. Þá myndi ég naga neglurnar.

Hvað er meira að frétta? Eiginlega ekki neitt. Ég skrifaði þetta bara af því ég hef ekki sett neitt inn í nokkra daga.

mánudagur, febrúar 20, 2006

Ég er að reyna að dobbla Erlu til að koma með mér til München í næsta mánuði. Við erum að spá í helgarferð og New York var uppi á borðinu. Ég held hins var að nokkurra daga dvöl í München væri stórskemmtileg fyrir okkur. Ég hef ekki komið þangað síðan 1986, en það er árið sem við byrjuðum saman. Í nokkra mánuði eftir að ég hafði kynnst Erlu mældi ég göturnar í þessari borg og taldi grasstráin í Enska garðinum.

sunnudagur, febrúar 19, 2006

Freyja fór með nöfnu sinni og ömmu á Belgísku Kongó í kvöld og hafði gaman af. Þetta segir meira um leikritið en barnið. Freyja er enginn ofviti, hlustar á BlackEyedPeas, horfir á Friends og American Next Top Model og myndi gjarnan vilja eyða öllum dögum í Kringlunni. Leikritið er hins vegar þannig að það höfðar til mjög margra.

Þegar ég gekk heim í kvöld fannst mér skyndilega svo absúrd að einhver gæti búið við Skothúsveg eða Tjarnargötu. En þarna sá ég fólk inn um glugga að eiga við tölvu og raða á borð eins og ekkert væri sjálfsagðara, eins og það væri statt uppi í Seljahverfi. Einhvern veginn finnst manni að inni í þessum gömlu og virðulegu húsum geti bara þrifist skrifstofur og stofnanir, en þarna býr fólk í fullri alvöru.

Konan var örg í m0rgun. Ég var reyndar búinn að færa henni morgunverð og Fréttablaðið í rúmið, en hún þurfti að minna mig á það. Ergelsið stafaði af öðru: annarhvor krakkinn hafði hellt einhverju klístri ofan í hnífaparaskúffuna og mín þurfti að rífa hana úr og spúla allt saman. Hún sagði að hér biðu allir eftir því að hún gerði allt og enginn lyfti fingri. Ég benti henni á að ég hefði skúrað í gær og þvegið í óteljandi vélar. Hún sagði að ég tæki bara að mér afmörkuð verkefni, hennar biði alltaf að laga það sem aflaga færi. Ég vissi upp á mig sökina. En hún hafði hvorki sett upp á sér hárið né málað sig heldur stóð þarna hrá og fertug og berfætt og úrill fyrir framan sig. Geðvond kona verður í það minnsta að vera falleg. Ég áræddi ekki að nefna þetta en sagði þó ansi ósvífinn: "Ef þú hefur of lítið að gera þá ferðu bara að hugsa um að eiga fleiri börn. Og þá verður draslið og vesenið ennþá meira." Nú hló hún, það mátti hún eiga, en sagði síðan: "Láttu ekki eins og þú sért alltaf að gera eitthvað merkilegra en aðrir í þínum frítíma." - Þarna hitti hún á veikari blett en hún gerði sér grein fyrir. Hún gat ekki vitað að ég er aftur kominn með óbragð af sögunni og þykir hún bæði andlaus og endurtekningasöm. En það þýðir ekki annað en að vinna sig inn í galdurinn eins og maður hefur svo sem gert áður. Þegar við kvöddumst áðan sagði hún síðan: "Ertu að fara að gifta þig? Hvers vegna ertu í teinóttum jakkafötum?" - "Hvers vegna ekki?" svaraði ég. "Venjulegt fólk klæðir sig ekki svona að tilefnislausu", sagði hún. "Ég hef ekki áhuga á að vera eins og venjulegt fólk", svaraði ég nokkuð ungæðislega. En undir niðri veit ég að ég er alveg eins og aðrir. Common as muck. Það hafa bara allir sín tilbrigði.

Umhverfið er alltaf skáldlegast í hálfrökkri eða sólskini. Nú skín sólin á naktar trjágreinar fyrir utan gluggann og á blokkina sem hýsir Vídeóljónið á Dunhaga, sjoppan sjálf er í hvarfi en efri hluti hússins blasir við mér út um vinnuherbergisgluggann hér á Tómasarhaganum, í hæfilegri fjarlægð til að vekja óljósan grun um örlög og leyndarmál. Síðan heyrir maður skark eða hávaða í íbúðinni eða síminn hringir, manni er kippt inn í núið og andleysið tekur völdin: í þessu húsi hefur ekkert merkilegra gerst en það að íbúarnir keyptu lottómiða í gær.

Ég horfði í fyrsta skipti á Eurovison undankeppnina í kvöld og sú spurning er efst í huga mínum hvaðan allt þetta fólk kemur sem getur sungið vel á sviði og performerað. Það virðist vera til ógrynni af óþekktu fólki sem er mjög frambærilegir söngvarar og skemmtikraftar.