laugardagur, júní 03, 2006



Allianz Arena. Innan í þessu mannvirki þarna fyrir aftan mig fer opnunarleikur HM fram ásamt fleiri leikjum í keppninni. Ég er með blaðavöndul í fanginu sem ég sökkti mér niður í á hótelherberginu seint á kvöldin - helst las ég eitthvað um fótboltann.

http://www.mbl.is/mm/folk/frett.html?nid=1205330 Úff, ég kannast við þetta. En ég komst yfir það. Næst fæ ég kvíðakast þegar ég nálgast fimmtugt.

Það hljómar ekki óskynsamlega að Halldór Ásgrímsson ætli að draga sig í hlé. En sú frétt sem fylgir, að væntanlegur arftaki kunni að vera Finnur Ingólfsson, er vægast sagt undarleg. Nema að Framsóknarflokkurinn hafi sjálfsmorð í huga en ekki endurreisn. Ekki það að ég hafi neitt sjálfur út á Finn að setja, en hann og allir með smá minnisglóru vita að maðurinn hefur ekkert fylgi og nær ekki á nokkurn hátt til almennings.

En þeir um það.

Annars er vafalaust framtíð í Birni Inga fyrir Framsókn. Nema hann gangi í Sjálfstæðisflokkinn.

föstudagur, júní 02, 2006

Í seinni tíð er það orðið ótrúlega algengt að íslenskir blaðamenn geri lítinn greinarmun á skoðunum sínum og blaðamennsku, á fréttaskýringum og áróðri. Hörmuleg grein Jakobs Bjarnar í DV í dag, Afbökun lýðræðisins, er dæmi um þetta. Þetta hefði hann átt að birta sem álitsgrein eða einfaldlega að láta barspjallið nægja. Sérlega gegnsætt er síðan að stilla fram nokkrum skoðanasystkinum sínum sem óhlutdrægum álitsgjöfum. Hvaða skoðanir sem menn hafa á myndun nýja meirihlutans í Reykjavík þá er þetta ekki blaðamennska.

Stundum er eins og lífið sé ekki annað en endurfundir við fortíðina. Münchenarferðin var dæmi um slíkt. Í gærkvöld fór ég síðan á Mokka, eina staðinn í Reykjavík sem ekkert hefur breyst alla mína ævi. Þar hékk palestínuklútur á snaga og dæmigerður menningarviti sat einn við borð og hugleiddi sína frasa. Menningarvitarnir hafa í raun ekkert breyst frá því 1980, klæðaburðurinn er m.a.s. svipaður og líka eru MR-krakkarnir sem oft sitja á Mokka nánast alveg eins klædd og ég og mínir bekkjarfélagar vorum um 1980.

Í dag hjólaði ég upp á Hlemm og rak augun inn um gluggann hjá Herstöðvaandstæðingum á Snorrabraut. Þar var "Ísland úr Nato-herinn burt"-fáni. - Dásamlega úrelt. Herinn er að fara og hvernig getur nokkur maður verið ennþá á móti NATÓ? Það er ekki eins og NATÓ sé strengjabrúða Bandaríkjanna lengur.

Ég sleppti morgunblundinum, hélt mér vakandi frá hálfátta og hjólaði síðan í vinnuna. Voðalega ánægður með sjálfan mig en í rauninni er þetta ekkert sniðugt. Ólíklegt að ég geti skrifað í kvöld með þetta svefnmagn í hausnum. Eins og það virkar nú slæpingslegt að sofa til hálftíu þá er það nauðsynlegt fyrir mig og mín áform.

fimmtudagur, júní 01, 2006

Athyglisverðar fréttir að Mikki Torfa hafi verið ráðinn ritstjóri Séð og heyrt. Óska honum til hamingju með starfið þó að ég væri miklu spenntari fyrir því að sjá frá honum nýja skáldsögu.

En þetta vekur upp kúnstuga spurningu. Í fréttum gærdagsins af Fróðamálum kom fram að uppsögðu fólki væri gert að vinna út uppsagnarfrestinn og gera allt sem í sínu valdi stæði til að rétta af rekstur viðkomandi blaða, m.a. með því að stuðla að auglýsingasölu. Þýðir þetta það að á meðan Mikki kemur sér fyrir í starfi sínu sé fráfarandi ritstjóri á fullu næstu þrjá mánuði að auka auglýsingasölu blaðsins, til að hann muni síðan (ef honum tekst ætlunarverkið) starfa sem ritstjóri við hlið Mikka, eða taka við af honum aftur?

Nei, þetta er auðvitað útúrsnúningur. Reynsla mín af kommentakerfinu er því miður þannig að ég þarf að taka það fram.

Nýr starfsmaður: Ert þú Ágúst?
ábs: Já, en ég er líka oft kallaður meistarinn.
Vinnufélagar: (hlátur) Ekki kalla hann meistarann.

Nýr starfsmaður brosir vandræðalega.

Ég verð að viðurkenna að ég hef lítið að segja hér þessa dagana. Einhvern veginn hefur spilast þannig úr tímanum undanfarið að lítið er til skiptanna. Drita inn myndum frá München hér að neðan í stað lesmáls. Eflaust stendur þetta fljótlega til bóta.

þriðjudagur, maí 30, 2006

Stóra bókin og litla bókin

Ég keypti eina stóra bók og aðra litla um helgina. Þær eru jafngóðar. Önnur er High Lonesome eftir Joyce Carol Oates. Úrval af smásögum hennar auk svo margra óbirtra að þær myndu fylla meðalstóra bók, en þessi er hátt í 700 síður í stóru broti.

Hin er kverið Ráð við hversdagslegum uppákomum eftir Óskar Árna Óskarsson. Hann er víða í essinu sínu hérna, t.d. í upphafstextanum sem ég ætla að stelast til að birta hér:

Gamalt ráð við svefnleysi

Láttu augun hvarfla rólega um myrkvað herbergið
og reyndu að framkalla í huganum taktfastan hljóm
járnbrautarlestar. Þegar þú heyrir eimvagninn flauta
ertu kominn um borð. Þú liggur í efri koju og dregur
gluggatjaldið örlítið til hliðar og horfir út. Þetta er
næturlest. Landið þýtur hjá en tunglið er nokkurn-
veginn á sama stað. Hljóðin í lestinni eru svæfandi.
Leiðin liggur um sléttu. Þú sérð lítil þorp í fjarska og
úti í myrkrinu bregður fyrir reiðmönnum á hvítum
hestum. Augnlokin þyngjast og þú ferðast áreynslu-
laust inn í svefnlandið.

mánudagur, maí 29, 2006

Það er auðvitað ankannalegt og pirrar marga gríðarlega að minnsti flokkurinn í landinu sé nú að fá mikil ítök í borgarstjórn í ofanálag við það að leiða ríkisstjórn. Það er samt aukaatriði ef þessi nýi meirihluti stendur sig vel. Mesta ánægjuefnið er að Villi sé orðinn borgarstjóri. Hann á eftir að auka vinsældir sínar og kannski vinna hreinan meirihluta í næstu kosningum. Mér finnst ekki sterkt hjá Ólafi F. Magnússyni að fara í svona hrikalega fýlu. Menn hafa fullan rétt á að mynda meirihluta með þeim sem þeir helst kjósa og hann verður bara að sætta sig við það; algjört aukaatriði hvenær þessi átti að mæta á fund og hvenær hinn fór í mat.



Ég er alveg nógu breiður einfaldur en kerfið vill setja mig tvöfaldan inn. Hef verið að reyna að setja inn nokkrar myndir frá München og það gengur á ýmsu. Læt þetta duga í kvöld. Erla er fyrir neð'an, í Enska garðinum.

sunnudagur, maí 28, 2006

Það er ekki með nokkru móti hægt að segja að Sjálfstæðisflokkurinn hafi unnið kosningasigur í Reykjavík, til þess er fylgisaukningin frá afhroðinu 2002 allt of lítil. Það er hins vegar athyglisvert sem Egill Helga sagði í nótt: það sýnir best hvað þessi flokkur er mikið afl í þjóðfélaginu að yfir 40 prósenta fylgi skuli þykja frekar slappt. - Ég vona að myndaður verði nýr meirihluti með Frjálslyndum en ég var mjög ánægður með þeirra kosningabaráttu, eiginlega ánægðari með þá en málflutning Sjálfstæðisflokksins. Þó að ég sé ekki einn af þeim sem sífellt eru að hallmæla Framsókn þá fyndist mér að þessu sinni nánast óbærilegt ef þeir næðu út á sín sex prósent miklum ítökum í borginni ofan á það að leiða ríkisstjórn. Og hvað verður nú um flugvöll á Lönguskerjum ef Björn Ingi kemst í meirihluta? Sjálfstæðisflokkurinn mun aldrei taka þátt í slíkri vitleysu og Framsókn gefur þetta eftir á hálfri mínútu. Sýnir best hvað kosningaloforð eru innantóm og hvað þessi auglýsingastofutaktík er mikið skrum.