laugardagur, nóvember 11, 2006

Skyndilega hefur vetrarharkan tekið völdin. Ég skokkaði aftur í hálku í dag en það var sólbjart og lítil hætta á að detta. Þegar síðan hlýnar tekur við brjálað rok. Í óveðrinu á föstudagsmorgun rifnaði fleki af svalahandriðinu. Ég kann ekki að festa hann á aftur.

Heldur er ég andlaus einn heima með börnin og hef sama og ekkert skrifað síðan Erla fór út. Það gæti þó staðið til bóta í kvöld og nótt.

Það kemur fyrir að ég rekst á mér eldri menn sem ég fæ á tilfinninguna að vilji hafa við mig samfarir. Það gerðist miklu oftar þegar ég var yngri og þá aðallega í útlöndum. Aldrei var þetta þó til vandræða. Þeir gengu hins vegar yfirleitt lengra í gamla daga, buðu í kaffi og fleira. Núna glápa þeir á ókunnugan manninn, einmana, gamlir og hungraðir, þó varla nema einn á ári eða sjaldnar.

Konurnar hafa yfirleitt látið mig í friði.

Tvö smásagnasöfn í það minnsta koma út fyrir jólin, Óskar Magnússon stórforstjóri og Ólafur Jóhann Ólafsson stórforstjóri. Ég ætlaði að kíkja í bækur á Súfistanum í dag en það var allt fullt.
Ég var einn í bænum með Kjartani og tókum við strætó heim. Allir aðrir sem voru að bíða eftir strætó við Lækjargötuna voru útlendingar. Einhverjum þurfti ég að leiðbeina og læra um leið pínulítið sjálfur á strætókerfið.

Það er annars frekar einmanalegt að vera með börnum þó að það sé betra en ekki neitt. Gæludýr eru síðan fyrir einstæðingana.

fimmtudagur, nóvember 09, 2006

Ég er búinn að klára skáldsögu Sigurjóns Magnússonar, Gaddavír, í þremur eða fjórum heimsóknum á Súfistann. Ég get mælt heilshugar með þessari sögu og hvet alla til að lesa hana. Hún er meitluð, vel stíluð, áhrifamikil og hugvitsamlega uppbyggð. En þetta er nú frekar klisjukennd umsögn hjá mér því ég nenni ekki að kafa dýpra og skrifa ritdóm.

Ég er grasekkill þessa dagana, Erla farin til Rómar með vinkonum sínum. Í morgun ætlaði ég að hringja til hennar í vinnunna svo undirvitundin er greinilega ekki búin að meðtaka þetta.

Í morgun þurfti ég að fara með leikfimidót til Freyju í skólans og skynjaði strax í bekkjardyrunum hvað barnið er orðið stórt og lífsbaráttan í skólanum flóknari; henni þótti greinilega ekkert of þægilegt að fá glaðhlakkalegan pabbann í heimsókn. Bekkjarsystkinin hafa stækkað svo mikið og breyst að ég er hættur að þekkja þau í sjón.

Ég var hættur að vigta mig, búinn að fleygja vigtinni niður í kjallara, en Erla sótti hana í gærkvöld því hún þurfti að vigta ferðatöskurnar. Sjálfur var ég ennþá 105 kg í morgun en ég missti þrjú kíló í sumar. Núna stend ég í stað og geri það líklega fram yfir áramót. Ég skokkaði í mikilli hálku í gærkvöld og var hugsað til þess að alltaf seiglast maður þetta áfram. Skokkið hefur staðið yfir í tvö ár og hlýtur að vera orðið að varanlegri iðju.

Ætla að gera eitthvað skemmtilegt með krökkunum um helgina. Reyni samt að spilla þeim ekki of mikið.

Eg er hófsamur hægri maður og hef eins og flestir alltaf haft óbeit á öfgastefnum, jafnt sósíalisma sem t.d. þjóðernisstefnu. En enn hef ég ekki rekist á glæpinn í málflutningi Frjálslyndra. Þeir segjast vilja loka fyrir frjálst flæði vinnuafls sem tók gildi í maí og þeir segja ekki vilja fá hingað til lands þá tegund múslíma sem kalla sig Syni Allah en þeir hafa á stefnuskrá að koma á Sharia-lögum í þeim samfélögum þar sem þeir festa rætur. - Yfir þessu eru nú margir vinstri sinnaðir bloggarar í móðursýkiskasti og sumir segjast gráta allan daginn. Lesið nú t.d. grein Möggu Sverris í Mogganum áður en þið grátið meira, hún er enginn nasisti, svo mikið er víst.

En það er ljóst að þessi umræða fer víða afar illa af stað og ólíklegt að nokkurt vit verði í henni.

þriðjudagur, nóvember 07, 2006

Ég er búinn að lesa 42 blaðsíður af 147 í skáldsögu Sigurjóns Magnússonar, Gaddavír, og finnst mér bókin mjög grípandi og spennandi. Einfaldur og beinskeyttur stíllinn hæfir sögunni vel og aðeins takmarkað hádegishlé kemur í veg fyrir að ég lesi lengra á Súfistanum.

Ég hugsa að ég gefi mömmu Skipið eftir Stefán Mána. Mér sýnist á öllu að hún yrði ánægð með það.

Mér þykir Arnaldur Indriðason ágætur höfundur, það sem ég hef lesið eftir hann. Það sem ég var að benda á í færslunni hér að neðan, er að vegna þess hve lestur á honum er gríðarlega útbreiddur og þá helst meðal þeirra sem eru alla jafna ekki bókmenntaáhugamenn, jafnframt því að hann er um leið umtalaðasti höfundurinn, þá kemur oft upp sú sérstæða staða á mannamótum að rithöfundar og bókmenntamenn eru ekki lengur sérfræðingarnir, fólk í öðrum stéttum hefur oft lesið Arnald meira og betur en þeir. Þetta finnst mér mjög merkilegt. - En auðvitað er ég í leiðinni að hnýta í þessar óskapar einhæfni sem smám saman er að gera bókamarkaðinn áþekkan gosdrykkjamarkaði, þar sem 1 til 3 vörutegundir gnæfa yfir.

mánudagur, nóvember 06, 2006

Mér finnst það billegt að afgreiða innflytjendastefnu Frjálslynda flokksins sem rasisma, sérstaklega ef þeir sem það gera hafa engin ráð eða lausnir fram að færa. Frjálslyndir eru að mótmæla lögleiðingu frjáls flæðis vinnuaflsl innan EES sem tók gildi hér í maí. Þeir vilja að lög sem giltu fyrir þann tíma gildi ennþá. Það er fyrst eftir þessa breytingu sem flæðið varð stjórnlaust og ólíklegt að nokkur yfirsýn yfir fjölda útlendinga sem hér dveljast sé til staðar. Fáránlegt er að ekki megi gagnrýna þessa lagabreytingu án þess að fá á sig rasistastimpil. Það er algjört lágmark að yfirvöld hafi stjórn á straumi útlendinga hingað í vinnu en því er ekki fyrir að fara lengur.

sunnudagur, nóvember 05, 2006

Nýja Who-platan virðist vera býsna góð. Hún er róleg á köflum og þunglyndisleg og virkar í raun bara sem sólóplata frá Pete Townshend sem lætur vin sinn, Roger Daltrey, synga rúmlega annað hvert lag en spilar sjálfur á flest hljóðfæri.

Ýmsar fleiri afurðir streyma á markaðinn. Fyrsta skáldsaga Fríðu Á. Sigurðardóttur síðan 1998 og fyrsta bókin síðan smásagnasafnið Sumarblús kom út árið 2000.

Ljóðabók Óskars Árna er mjög spennandi og síðan eru skáldsögur eftir Braga Ólafsson, Eirík Guðmundsson og fleiri. Laugardagur eftir Ian McEwan er komin út og einhverjar fleiri fýsilegar þýðingar eru í jólaflóðinu. Fall Berlínar virðist mér áhugaverð bók en verkum sem lýsa glæpum Bandamanna gegn Þjóðverjum í seinni heimstyrjöldinni, aðallega Rússum, fer fjölgandi.

Annars eigum við rithöfundar ekkert erindi í bókmenntaumræðuna lengur. Það sannaðist enn einu sinni fyrir mér í ágætu samkvæmi á föstudagskvöldið þar sem voru lögfræðingar, forritarar, lyfjafræðingar og fleiri. Þetta fólk talar um verk Arnalds Indriðasonar af miklum áhuga og mikilli innlifun og er yfirleitt mun betur að sér í þeim en rithöfundar. Í heimsbókmenntum dagsins er það síðan Da Vinci lykillinn sem þetta fólk fræðir mann um.

Ég yrði t.d. mjög hissa ef lyfjafræðingur, lögfræðingur, viðskiptafræðingur eða forritari tæki skyndilega að segja mér frá nýjustu bókum Óskars Árna, Braga Ólafssonar, Steinunnar Sigurðardóttur, e.t.c.