Skyndilega hefur vetrarharkan tekið völdin. Ég skokkaði aftur í hálku í dag en það var sólbjart og lítil hætta á að detta. Þegar síðan hlýnar tekur við brjálað rok. Í óveðrinu á föstudagsmorgun rifnaði fleki af svalahandriðinu. Ég kann ekki að festa hann á aftur.
Heldur er ég andlaus einn heima með börnin og hef sama og ekkert skrifað síðan Erla fór út. Það gæti þó staðið til bóta í kvöld og nótt.
Það kemur fyrir að ég rekst á mér eldri menn sem ég fæ á tilfinninguna að vilji hafa við mig samfarir. Það gerðist miklu oftar þegar ég var yngri og þá aðallega í útlöndum. Aldrei var þetta þó til vandræða. Þeir gengu hins vegar yfirleitt lengra í gamla daga, buðu í kaffi og fleira. Núna glápa þeir á ókunnugan manninn, einmana, gamlir og hungraðir, þó varla nema einn á ári eða sjaldnar.
Konurnar hafa yfirleitt látið mig í friði.
Tvö smásagnasöfn í það minnsta koma út fyrir jólin, Óskar Magnússon stórforstjóri og Ólafur Jóhann Ólafsson stórforstjóri. Ég ætlaði að kíkja í bækur á Súfistanum í dag en það var allt fullt.
Ég var einn í bænum með Kjartani og tókum við strætó heim. Allir aðrir sem voru að bíða eftir strætó við Lækjargötuna voru útlendingar. Einhverjum þurfti ég að leiðbeina og læra um leið pínulítið sjálfur á strætókerfið.
Það er annars frekar einmanalegt að vera með börnum þó að það sé betra en ekki neitt. Gæludýr eru síðan fyrir einstæðingana.