laugardagur, febrúar 24, 2007

Ég var á leiðinni upp úr þvottahúsinu, leit út um gluggann og sá þrjár unglingsstelpur ganga að húsinu. Ein þeirra var dálítið lík Freyju. Andartaki síðar áttaði ég mig á því að þetta var Freyja með tveimur vinkonum sínum. Henni var lítt gefið um athygli okkar Erlu. Við eltum stelpurnar inn í svefnherbergi, vildum endilega spjalla við þær en Freyja ýmist rak okkur út eða grátbað okkur um að hverfa henni sjónum. Ég stakk upp á því að við Erla syngdum nokkur lög fyrir þær. Almennt þóttu vinkonunum brandarar mínir mun fyndnari en Freyju, ég veit ekki hvort það var af kurteisi. Freyja sagði bara: "Fariði, fariði, út út, - æ fariði, látiði okkur vera ..."

Loks losuðum við Freyju úr þessari prísund, yfirgáfum húsið og löbbuðum niður í bæ til að fá okkur kaffi og kakó á Mokka. Kjartan var að leika sér með vini sínum og vildi líka sem minnst af okkur vita en þó ekki af sama ákafanum og systir hans.

Í Bankastrætinu sáum við nýlegan prófkjörsframbjóðanda sem leit ekki lengur út eins og frambjóðandi heldur eins og ... eitthvað allt annað. Fólk sem er hjálparþurfi þarf að leita sér hjálpar.

Aðallega mættum við þó ungu fólki með barnavagna. "Úff, ekki sakna ég þessa barnavagnalífs. Ég meina, það var ágætt á sínum tíma en feginn er ég að vera laus við það", sagði ég. "Mér fannst svo þægilegt að vera með barnavagn, maður gat keyrt hann út um allt og lagt honum beint fyrir utan kaffihúsið". - "Já, en þetta var svo bindandi, svo vaknaði krakkinn og maður þurfti að taka hann upp. Maður þurfti alltaf að vera að halda á þeim." - "Það er svo þægilegt að halda á börnum", andmælti hún mér enn; "eitthvað annað en núna, núna segja þau bara: 'Fariði, fariði, út út, - æ fariði, látiði okkur vera ...' "

Þá var kominn tími til að breyta um umræðuefni. Það gerði ég.

Á Mokka sá ég Árna Blandon. Árið 1991 skrifaði hann fyndnasta ritdóm sem ég hef lesið, dóm um skáldsögu eftir Jón Óttar Ragnarsson. Mér þætti greinin vitanlega ekki fyndin ef hún væri um bók eftir sjálfan mig. Þetta efni má nálgast á badabing.is en þar endurnýjaði ég kynnin við greinina fyrir nokkrum mánuðum.

Erla kvaddi og labbaði heim, skildi mig eftir úti í bæ þar sem ég reyni að skrifa, annaðhvort á kaffihúsum eða í kjallaraherberginu á Íslensku. Á morgun ætla ég að reyna að gera það heima en það hefur lengi verið draumur minn að ná einbeitingu heimavið. Það endar því miður oftast með geðvonskukasti og alla langar til að losna við mig út.

Annað kvöld ætlum við á þýsku myndina í Fjalakettinum, Knallhart. Það verður gaman að rölta þangað.

föstudagur, febrúar 23, 2007

Mér finnst helgarblað DV verulega gott að þessu sinni, kraftmikið og fjölbreytt. Ég vona að þeim gangi sem best við að endurreisa orðspor þessa gamla fjölmiðils.

En ég veit hins vegar ekki hvernig blað getur lifað án áskrifenda og dreifingarkerfis. Dreifing er mikið vandamál í íslenskum blaðaheimi. Sá maður yrði ríkur sem kæmi með lausnina á því. Og konur eru líka menn.

http://hvalveidarfyrirbyrjendur.blogspot.com/ Þessi oft lítt skiljanlegi, fílabeinsturnmúraði og stundum hreinlega tilgerðarlegi gáfumannabloggari nær sér hér verulega á strik í klámumræðunni miklu og á líklega eitt besta innleggið í hana.

Ég er staddur á Kaffitárinu og ungar og greindarlegar stelpur eru að ræða framtíð sína. Þær eru a.m.k. 20 árum yngri en ég. Ein þeirra segist alveg geta hugsað sér að verða menntaskólakennari, þó er ekki eins og henni finnist það ýkja spennandi.

Sjálfur er ég staddur í framtíðinni, þessari framtíð sem ég óskaði mér. Ég þarf að endurvinna að miklu leyti 2/3 af sögunni. Þetta er kvalafullt erfiði og mikill pirringur og streita því nú er maður ekki einn á hótelherbergi í Heidelberg heldur önnum kafinn í vinnunni, þarf að rækta OA og svo er það heimilið og fjölskyldan, síðast en ekki síst. Ég skynja mikinn skilning hjá Erlu. Það var snjall leikur að draga hana svona inn í málið en líka mitt lán að hún sé svona hrifin af verkinu. Líklega er hún orðin tilfinningalega tengd því og hlýtur að vilja að allir möguleikar verði gjörnýttir í stöðunni.

Ef ég væri metnaðalaus myndi ég auðvitað gefa út bókina eins og hún er núna. Möguleikarnir á verulegum listrænum árangri eru hins vegar miklir ef ég fer erfiðari leiðina. Hvaða áhrif það hefur á viðtökur er óvíst; maður lifir ekki fyrir augnablikið í þessum efnum. Hælbítar verða auðvitað samir við sig. Þeir höfðu ekki þrekið fyrir þessa braut og eru bitrir út í þá sem þora og endast.

fimmtudagur, febrúar 22, 2007

Allir eru jafnir í bloggheimi

http://www.petetownshend-whohe.blogspot.com/ Rokkmeistarinn er farinn að blogga í venjulegu blogspot-umhverfi eins og hver annar Wannabe, Hildur eða Tinna. Þar segir hann spenntur frá litlum smáklúbbagiggum sem hann er að fara að taka þátt í með kærustunni sinni og heldur pródúktunum sínum á lofti eins og hver annar Vídalín eða ÁBS. Nú vantar hann bara eitt stykki Mengellu að segja hvað hann sé hæfileikalaus, þ.e. einhverja sem les bara bloggið hans og hefur aldrei hlustað á músíkina.

Hann er m.a.s. að tala um smásögurnar sínar sem ég hef lesið og eru ekki slæmar en þó engar bókmenntaperlur. Þetta er ákaflega heimilislegt og huggulegt. The Who voru líka alltaf hljómsveit mannsins á götunni.

Hvað er kynlífsiðnaður?

Hustler, Penthouse, Private, Beate Ushe og ótal, ótal önnur skráð og löglega starfandi fyrirtæki eru hluti af kynlífsiðnaði.

Bleikt og blátt er hluti af kynlífsiðnaði.

Ljósbláar sjónvarpstækar, erótískar myndir eru hluti af kynlífsiðnaði.

Kynlífssímaþjónustur sem eru brátt að líða undir lok eru hluti af kynlífsiðnaði.

Glæpamenn sem misnota börn og framleiða barnaklám eru hluti af kynlífsiðnaði. Dæmigerður vefrápari getur flakkað um klámsíður á netinu árum saman án þess að rekast nokkurn tíma á barnaklám - það finnur aðeins það afbrigðilega fólk sem eftir því sækist og mun þurfa að hafa mikið fyrir því að finna það og hlaða því niður; sem jafnframt er lögbrot.

Nauðungarvændi vegna mansals er hluti af kynlífsiðnaði.

Kynlífsiðnaður er því hugtak sem nær yfir fullkomlega óskylda starfsemi innbyrðis. - Þegar feministahreyfingin segir að mansal og barnaklám tengist kynlífsiðnaði þá hefur hún rétt fyrir sér samkvæmt orðanna hljóðan. Þegar hún notar slík rök til að berjast gegn starfsemi Hustler, Penthouse, Private og ótal, ótal annarra skráðra og löglega starfandi fyrirtækja - þegar hún notar þau rök til að berjast gegn Bleiku og bláu eða deyjandi kynlífssímaþjónustum - þá fer hún augljóslega villur vega í röksemdum sínum, þá eru rök hennar réttur og sléttur orðhengilsháttur.

miðvikudagur, febrúar 21, 2007

http://www.nornabudin.is/sapuopera/ Örugglega eitt besta og skemmtilegasta bloggið í dag. Hefur gengið í nokkur ár. Hvers vegna sagði mér enginn frá þessu?

Já, tölum um kynlíf. Og ást. Í Mogganum í gær var grein um vísindarannsóknir sem m.a. draga það fram að ástfanginn heili sé ólíkur kynferðislega örvuðum heila. Með öðrum orðum séu ást og losti aðskilin og raunar ólík fyrirbæri. Engu að síður vekur ást losta - en losti vekur ekki endilega ást.

Um þetta m.a. fjallar skáldsagan mín sem kemur út í haust.

Sambandið milli ástar og losta er vísindalegt og heimspekilegt viðfangsefni. Og auðvitað viðfangsefni skáldskapar.

Það mætti líka halda ráðstefnu um þetta.

þriðjudagur, febrúar 20, 2007

Ég sé að Einar Már les upp á kaffistofunni í Eymundsson í kvöld. Benni er drifkrafturinn í upplestralífinu í borginni og fróðlegt verður að sjá hvernig gengur að koma á upplestrahefð á þessum stað. Gæti orðið mjög huggulegt.

mánudagur, febrúar 19, 2007

þúst ... mig langar svo rosalega til að vinna kosningarnar í vor og þess vegna er ríkisstjórnin búin að rústa velferðarkerfinu og allt er farið til fjandans ... eða þannig

Í kringum 2000 eða 2001 skoðaði ég oft klámsíðu Vestur-Íslendingsins Hjörleifssonar. Hún heitir sleazydream.com. Hún virtist þá vera tengd við lostuga stefnumótasíðu sem heitir adultfriendfinder.com með þeim hætti að sögur sem spruttu upp af kynnum fólks á þeim vef voru sagðar og myndskreyttar með klámmódelum á sleazydream.com, ákaflega velvöxnu fólki um þrítugt á að giska.

Vefurinn Sharingmywife.com er kostulegur og ákaflega ósiðlegur. Þar mæta til leiks hjón sem hafa ákveðið að eiginkonan hafi samfarir við útsendara vefsins að eiginmanninum ásjáandi.

Þetta er brotabrot af því klámefni sem finna má á vefnum. Margt af því á sér upptök í kynlífsiðkunum fólks sem stundar óhefðbundið kynlíf.

Þetta er auðvitað argasti dónaskapur og í þokkabót glæpsamlega skemmtilegt vefefni fyrir fullorðið fólk með saurugt hugarfar.

En þetta efni hefur ekkert - nákvæmlega ekkert - að gera með kúgun kvenna, mansal eða barnaklám. Og auðvitað þykir þeim sem þessu efni dreifa á fullkomlega löglegan hátt að sér vegið þegar þeir eru bendlaðir við glæpastarfsemi.

Má enginn vera dónalegur af því við horfðum á Lilja Forever og grétum og fylltumst heilagri reiði? Það er fullkomlega eðlilegt að venjulegum klámframleiðanda sé misboðið þegar hann er bendlaður við slíkt.

Svo vil ég taka undir með Jónu Ingibjörgu: Er aldrei hægt að tala um jákvæðar hliðar kynlífs?

sunnudagur, febrúar 18, 2007

Í Silfri Egils í dag var endalaust verið að væla um hvað börn hefðu það slæmt á Íslandi, hvað vinnuþrælkunin væri mikil og neyslubrjálæðið ægilegt.

Staðreyndin er sú að Íslendingum finnst gaman að vinna og það er frábærlega gaman að vinna mikið ef maður hefur skemmtileg verkefni.

Önnur staðreynd er sú að íslenskir leikskólar eru frábærir og börnum líður vel þar.

Börn hafa gott af því að sinna krefjandi áhugamálum utan skólans, eins og t.d. tónlist og fimleikum - það agar þau undir framtíðina í kapitalísku samfélagi.

Það sem fólk þarf að gæta sín á er vissulega neysluhyggja, í þeim skilningi að setja sig ekki á hausinn með því að eyða um efni fram. Fullorðið fólk verður að haga sér eins og það sé fullorðið ef ekki á illa fara.

Fólk þarf að gæta sín á áfengi og fíkniefnum og það þarf að stunda líkamsrækt til að viðhalda orku. Því við þurfum vissulega mikið energí til að eiga gott líf í þessu fjölbeytilega og kraftmikla þjóðfélagi - til að geta sinnt vinnunni, börnunum og áhugamálunum.

Þetta gengur ágætlega ef fólk leggur sig fram, gætir sín og umfram allt heldur saman hjónabandinu. Það þarf tvo til, tekjulega og tímalega. Ef fólk þarf að skilja er sameiginleg forsjá hins vegar lausnin.

Umfram allt þurfum við að forðast hugsunarhátt væluskjóðanna og hælbítanna sem vilja taka við stjórn landsins.

http://hrannarb.blog.is/blog/hrannarb/entry/126197/ Það er auðvelt að komast upp með að bulla hvaða steypu sem er þegar rætt er um kynlífsiðnað því fáir sjá ástæðu til að mótmæla steypunni. Í þessum pistli Hrannars er því m.a. haldið fram að stelpurnar sem dansa hjá Geira í Goldfinger séu í nauðungarvinnu, hann haldi þeim væntanlega hjá sér sem þrælum. - Auðvitað er til mansal og kynferðisleg þrælkun í heiminum en það þýðir ekki að hver einasta klámmynd sem fyrirfinnst sé ávöxtur slíks. Svo er sjaldnast. - Eða ætli leyndarmálið um Jennu Jameson verði loks afhjúpað einn daginn: Hún sé ekki rík klámstjarna heldur hafi henni verið rænt og hún neydd til að leika í öllum myndunum sínum?

Mikið vildi ég að þeir sem berjast gegn kynferðislegu ofbeldi og mansali myndu einfaldlega beina þeirri baráttu sinni í þær brautir og hætta að hengja bakara fyrir smið. Fáum verður hjálpað með þessum hugsunarhætti og þessari botnlausu vanþekkingu.

Síðan er sjálfsagt að geta þess að síðast þegar ég gisti á Hótel Sögu voru sýndar klámmyndir þar í sjónvarpinu - rétt eins og á öllum dýrari hótelum í heiminum.