fimmtudagur, júlí 17, 2008

Betra ástand í borgarstjórn

Veggjakrotið hefur stórminnkað og uppbygging er hafin á Laugaveginum. Fólk virðist hafa ráðið bót á því sem það virtist standa ráðlaust frammi fyrir í vor.

Leiðtogakrísan í Sjálfstæðisflokknum er leyst og niðurstaðan sú besta mögulega.

Það er engin ástæða til að refsa meirihlutanum í borgarstjórn. Með þessu áframhaldi á hann skilið að halda velli.

miðvikudagur, júlí 16, 2008

You can´t miss it

Að vísa túristum til vegar er að upplifa borgina upp á nýtt. Maður sér hana með þeirra augum, sem eitthvað ókunnugt. Það er sérkennilegt að tala um alþekkta staði í borginni á ensku, lýsa þeim eins og einhverju sem maður væri sjálfur að leita að í útlendri borg.

Það er ekki til sá útlendingur sem getur borið fram orðið "Hverfisgata." En allir eru þeir með kort af borginni og maður ferðast eftir því með puttunum fyrir þá.

Pizza Hut? Þú ferð Hverfisgötu, Laugaveg og að Suðurlandsbraut.

Straight ahead. Gerade aus.

Hverjir eru annars bestu staðirnir í Reykjavík? Ægissíðustígurinn, Laugardalur og Þingholtin?

sunnudagur, júlí 13, 2008

Jakkafötin á útleið?

Ekki veit ég hvernig þetta leggst í aðdáendur mína.

Ég hef farið allra minna ferða á reiðhjólinu frá því í apríl. Það er erfitt að vera í jakkafötum á reiðhjóli nema úti sé skraufþurr norðanátt (sem reyndar hefur oft verið). Gallabuxum hefur á sama tíma fjölgað í skápnum. Yfirleitt eru það gallabuxur og jakki sex sinnum í viku og jakkaföt einu sinni. Margir jakkanna minna eru ýmist slitnir eða hálfúreltir. Síður þriggja tölu jakki er ekki að gera sig. Tveggja tölu, dálítið stuttur og með klauf að aftan, það er málið. Ég á ekki marga slíka.

Í gær fór ég með Kjartani og Erlu í Kringluna. Þar voru nokkrar útsölur í gangi. Við skoðuðum jakkaföt. Það sem okkur leist best á var ekki til í minni stærð. Hins vegar sáum við voðalega fína úlpu í Herragarðinum og keyptum hana. Það hentar engan veginn að vera í jakkafatajakka undir henni því hún er of stutt til þess. Síðan keypti ég peysu í Jack and Jones (allt of þykka fyrir sumarið, hún bíður vetrarins) og þegar ég mátaði hana leið mér eins og ég hefði yngst um mörg ár, væri aftur orðinn 39 ára.

Hið kasúala útlit sem hæfir raunar fábrotinni stöðu minni í samfélaginu sækir því sífellt á.

Allt hefur sinn tíma.

Það er ábyrgðarlaust að blogga um hégóma á viðsjárverðum tímum. Engu að síður læt ég aðra um þjóðmálabloggið þessa helgina.