Ingibjörg Sólrún er foringinn
Auðvitað hef ég ekki gert neinar mælingar en mín skynjun er sú að fólk kenni stjórnvöldum meira um bankahrunið en stjórnendum bankanna, útrásarvíkingum og stórfjárfestum. Sérstaklega yngri kynslóðin. Ástæðan er sú að fjölmiðlar (meðal annars vegna eignarhalds) hafa mjög lengi fjallað af gagnrýnisleysi um fjármálalífið en verið mjög gagnrýnir á ríkjandi stjórnarflokka undanfarinna ára. Umræðuhefðin er því til staðar.
En sá sem kastar eggi í Alþingihúsið, hann ætti að grýta grjóti eða jafnvel bensínsprengju eitthvað annað ... tja ekki beinlínis í höfuðstöðvar Landsbankans því bankinn er kominn í eigu ríkisins ... heimili fyrrverandi bankastjóra? Skotmörkin eru ekki einföld í vali, það er auðveldara að finna þau á stjórnmálakantinum.
Fjölmiðlaumfjöllunin hefur lítið skánað eftir hrunið, jafnvel þó að DV hafi tekið til bæna alla útrásarvíkingana nema auðvitað Jón Ásgeir (yndislega gegnsætt!). Hvers vegna til dæmis tekur einhver fjölmiðill sig ekki til og fær það endanlega á hreint hvort Sigurjón fyrrverandi bankastjóri Landsbankans sé ennþá með skrifstofu í bankanum eða ekki og ráði þar ríkjum? Hvers vegna verða bloggarar að halda uppi þeirri umræðu? Og hvers vegna heimtar fólk ekki almennilega hreinsun þarna áður en það vill að til dæmis viðskiptaráðherra segi af sér. Andskotinn hafi það: Byrjum á því að moka óreiðumönnunum út úr helvítis bönkunum! Hvernig væri það?
Svörin við tveimur af helstu deilumálunum eru þessi:
1. Stjórnin á að sitja út kjörtímabilið. ISG og Geir Haarde eiga að þjappa sínum liðum saman í eina heild og standa í lappirnar. Kveða á niður allt tal um kosningar í stjórnarliðinu.
2. Það á að skipta út stjórn Seðlabankans. Bara það að hún sé svona umdeild og daglega til umræðu - hvað þá að hún rói ekki í sömu átt og stjórnin - það bara gengur ekki. Átakafælni Geirs er óþolandi og óttinn við Davíð er óþarfur. Sérframboð? Hver hefur áhyggjur af því núna? Það eru ekki kosningar fyrr en eftir tæplega þrjú ár.
Erla er niður á Austurvelli að mótmæla. Ég finn mig ekki í þessu. Það eru of margar skoðanir þarna sem mér eru ekki að skapi.
Ingibjörg Sólrún hefur tekið af öll tvímæli um forystuvigt sína undanfarna daga. Svör hennar við kosningaspursmálinu taka af allan vafa um karakterinn og sýna að hún er foringi sem endist. Hún er eitthvað til að skrifa um í sögubókum. Vonandi nær hún fullri heilsu því óhjákvæmilegt er annað en að sjá hana fyrir sér sem næsta forsætisráðherra.