fimmtudagur, janúar 01, 2009

Til stuðnings mótmælunum í gær

Eftir að mótmælin urðu agressívari, fóru yfir á gráa svæðið og urðu um leið fámennari - þá verður að segjast að þau eru orðin miklu markvissari og áhrifameiri.

Tryggva var komið úr Landsbankanum og Jónas í Fjármálaeftirlitinu fékk harkaleg og virkilega verðskulduð skilaboð.

Auðvitað var þetta óþægilegt fyrir þá einstaklinga sem eru starfsmenn Stöðvar 2. Skiljanlegt að þeir séu sárir og reiðir og ég væri það í þeirra sporum.

En förum yfir nokkra punkta:

  • Fjölmiðlar bera sína ábyrgð á bankahruninu með gagnrýnislausum glansmyndafréttaflutningi af útrásarmönnum í gegnum tíðina.
  • Eignarhald sumra stærstu fjölmiðlanna er alþekkt, þeir eru í eigu þeirra sömu manna og sett hafa Ísland á hausinn.
  • Fjölmiðlar hafa haldið áfram að veita auðmönnum þægilegan og gagnrýnislausan aðgang að sér um og eftir hrunið. Sem dæmi má nefna hneysklanlegt einstefnuviðtal við Jón Ásgeir um yfirtöku Seðlabankans á Glitni rétt fyrir neyðarlögin.
  • Hvað eftir annað nálgast fréttamenn Stöðvar 2 mótmælendur á óvinsamlegan hátt og spyrja þá í viðtölum: "Hefur þú einhverjar lausnir?"
  • Kryddsíldin er glansþáttur sem á einstaklega illa við á þessum tímum. Stjórnmálaleiðtogar eru þar hreifir af víni með magann fullan af kræsingum og fréttamenn njóta sín þar með skrýtinn hatt á hausnum í glettnislegu spjalli við ráðamenn. - Í dag er þetta óviðeigandi.
  • Það skal viðurkennt að Sigmundur Ernir er góðra gjalda verður og hefur ekkert til saka unnið - en áhrifamiklum umræðuþætti sem tekur á bankahruninu stjórnar maður sem var í liði með útrásarvíkingunum og reyndi að færa þeim Orkuveitu Reykjavíkur, meðal annars til að skara eld að eigin köku. Viðkunnanlegur maður, Björn Ingi, og góður KR-ingur sem ég hef alltaf heilsað úti á götu - EN ÞAÐ BREYTIR EKKI ÞESSUM STAÐREYNDUM.

Aðgerðirnar í gær voru þegar upp var staðið alveg merkilega markvissar og áhrifaríkar. Þátturinn var eyðilagður. Útsendingin var rofin. Það var nákvæmlega það sem Kryddsíldin átti skilið fyrst stjórnendur hennar höfðu ekki vit á að blása þáttinn af eða breyta um form á honum.

Það er ekki nóg að standa og hrópa á Austurvelli. Þetta er miklu áhrifaríkara og þeir sem lögðu sig í hættu við þessa aðgerð eiga þakklæti mitt - þeir eiga lof skilið.

Þeir fengu táragas í augun í minn stað - á meðan ég hafði það náðugt.

mánudagur, desember 29, 2008

Aukaatriði

Hver skrifar greinarnar fyrir Jón Ásgeir? Ég dreg auðvitað ekki í efa að þetta er hans málflutningur en hver sér um útfærsluna, þ.e. hin eiginlegu skrif? Þið hafið heyrt hann tala í sjónvarpi og vitið að þessi maður skrifar ekki heila opnugrein á boðlegri íslensku. Það tæki hann tvö ár að koma öllum þessum texta saman.

Svo hver er greinaskrifari Jóns Ásgeirs? Það hlýtur að vera nokkuð merkilegt starf á sinn hátt.

Er það einhver núverandi blaðamaður DV eða Fréttablaðsins?

Vonandi fyrrverandi.

Eða bara einhver góður pr-penni.