miðvikudagur, mars 25, 2009

Unglegir menn

Krakkarnir sem eru með mér í þýsku halda flestir að ég sé yngri en ég er. Þeim bregður a.m.k. óþægilega í brún þegar ég segi þeim minn rétta aldur. Reyndar er óvíst að þeim finnist ég unglegur heldur að frekar snúist þetta um að þau trúi því varla að svona gamall maður sé að þvælast í grunnnámi í þýsku.

Reyndar græði ég smávegis á aukakílóunum. Um miðjan aldur er oft betra að vera dálítið feitur því fitan deyfir hrukkur. Þetta gildir hins vegar alls ekki um akfeita menn. Þéttvaxnir menn eru að jafnaði nokkuð unglegir á meðan þeir halda hárinu á höfðinu og halda sjálfum sér í fötunum.

Á þessu eru samt sláandi undantekningar og hér er komin ástæðan fyrir þessari færslu: Þorgrímur Þráinsson var að stíga inn á Kaffitár. Hann er fimmtugur en gæti verið 43 ára. Hann er tágrannur og súper-fitt. Ekki fituarða. Hrukkurnar fá þá að "njóta" sín en kvikur og spengilegur skrokkurinn ber unglegan fatnað og laðar fram strákslegt fas.

Jafningi eða hugsanlega betrungur Þorgríms í þessum efnum er Roger Daltrey. Hann var járnabindingamaður áður en hann Who var stofnuð og hefur ávallt síðan búið að upphandleggsvöðvunum. Daltrey er tágrannur og vöðvastæltur og er ævintýralega unglegur þrátt fyrir að hrukkurnar leyni sér ekki. Daltrey er orðinn 64 eða 65 ára en gæti verið rúmlega fimmtugur.

Svo er það Hörður Torfa. Hann er á pari við Daltrey í þessum efnum.

Hvað er ég að blaðra þetta eins og einhver hringlandi ljóska?

Læt það samt flakka.

þriðjudagur, mars 24, 2009

Bókaútgáfa í hættu

http://kristjanb.blog.is/blog/kristjanb/entry/836844/

Listir kváðu blómstra í kreppu og bóksala fyrir síðustu jól var víst með besta móti.

Því miður er einn aðalbóksalinn svo að segja gjaldþrota, þ.e. ríkið hefur tekið yfir rekstur Eymundsson.

En neitar að gera upp við bókaútgáfur skv. því sem ég heyri og les.

Þetta er sárgremjulegt, á sama tíma og bókaútgáfa á möguleika á að ná sér vel á strik vegna vaxandi bóksölu, mörgum til hagsbóta í kreppunni, gæti henni verið slátrað með þessari aðgerð.

Þetta má ekki gerast. Það verður að greiða upp þessar kröfur.