laugardagur, apríl 18, 2009

Samtök um að halda uppi neyslu

Margir eru í sömu sporum og ég: Tekjur dragast saman og fyrir einkahaginn er það skynsamlegt að draga úr neyslu og spara. Maður horfir á allan óþarfann sem maður getur farið að skera niður. EN. Samt hefur maður ennþá töluverða kaupgetu. Og það er banvænt fyrir þjóðfélagið að skrúfa fyrir neyslu. Ég sé hins vegar ekki haginn í því að ég haldi áfram að spenna en allir aðrir dragi saman seglin. Þá versnar minn hagur bara meira en ella og kreppan dýpkar alveg jafnmikið.

Það vantar samtök um þetta. Að virkja neyslu þeirra sem hafa burði til að eyða peningum áfram. Kannski er meirihlutinn í þeirri stöðu.

Hvernig er hægt að búa til platform undir þetta?

Fyrsta skrefið er að biðja fjölmiðla um að hætta birtar greinar um sparnaðarráð. Slíkur áróður grefur undan okkur.

Sem betur fer fara túristarnir að streyma til landsins á næstunni.

föstudagur, apríl 17, 2009

Fyrrverandi sjálfstæðismenn

http://www.mbl.is/mm/frettir/kosningar/2009/04/17/floknara_ad_ganga_i_esb/

Flokkurinn sem ég kaus til góðs áratugum saman hefur fátt ef nokkuð gert fyrir þjóðarhag undanfarin misseri. Hann stóð sig ömurlega í síðustu ríkissjórn og hann hefur floppað rækilega í stjórnarandstöðu. Það er vitað að stór hluti Sjálfstæðismanna vill kanna aðild að Evrópusambandinu en flokkurinn hafði ekki dug í sér til að bregðast við þeirri þróun á landsfundi. Nú hafa Sjálfstæðismenn á þingi komið í veg fyrir breytingu á stjórnarskrá sem ætla mætti að þeir væru í raun hlynntir. Nú þegar þegar umsókn um aðild að Evrópusambandinu er orðin spurning um þjóðarheill leggja þeir stein í götu slíkra áforma.

Tugþúsundir fyrrverandi sjálfstæðismanna eru í sömu sporum og ég í dag. Fyrst segjumst við ætla að kjósa Vinstri græna vegna heilindanna. Á móti kemur að það er Samfylkingin sem hefur Evrópusambandsaðild á stefnuskránni.

fimmtudagur, apríl 16, 2009

Hið léttara hjal

Við Erla skokkuðum 7 kílómetra á tíma í gær. Hún var örfáum sekúndum á undan mér en bæði fórum við þetta á rúmum 39 mínútum. Hefðum hæglega komist undir 39 mínútur með smá píningu.

Ég var með auga á klukkunni allan tímann og við fórum nokkuð greitt en keyrðum okkur samt ekki út.

Mér virðist því eiga hér ágætlega við orð Sæma, litla frænda míns (30 ára) eftir að hann skokkaði með okkur í fyrra: "Skrýtin tilfinning að láta miðaldra offitusjúkling sprengja mig á hlaupum".

Í kvöld fer ég í fótboltatíma með ungmennum úr Háskólanum. Ég tek sweeperinn á það og reyni að halda andlitinu.

Mun ríkisstjórn VG og S sækja um ESB-aðild eftir kosningar?

Enginn vill sýna á spilin fyrir kosningar.

En mín tilfinning er sú að innan VG sé ekki jafnmikil andstaða við ESB og áður hefur verið.

Sumir telja umsókn að ESB þjóðarnauðsyn.

Víst er að við erum ekki komin inn í sambandið þó að við sækjum um. Mér virðist við loka fleiri dyrum með því að gera það ekki - og e.t.v. um leið taka stærri áhættu.

VG ætti kannski að taka stærra skref í þessa átt fyrir kosningar.

Skástu og eðlilegustu leiðirnar

Launalækkun yfir línuna hjá opinberum starfsmönnum. - Betra en að segja upp fólki í stórum stíl.

Meiri uppsagnir hjá bönkum. - Fjármálakerfi okkar er ekki svipur hjá sjón. Enn munu starfsmenn bankanna vera allt of margir. Margt af þessu fólki þarf að leita á önnur mið.
Það er ekki eðlilegt að aðrir skattgreiðendur haldi uppi atvinnu í fjármálageiranum, þeim bransa sem kom okkur í þessa stöðu.

Skattahækkanir. - Þær eru óhjákvæmilegar.

Ef þessar aðgerðir koma í veg fyrir stórfelldan niðurskurð í mennta- og heilbrigðiskerfinu þá er það vel. Fjármálastarfsmennirnir fyrrverandi geta þá sótt sér nýja menntun. Meðal annars.

miðvikudagur, apríl 15, 2009

VG, Borgarahreyfingin og Frjálslyndi flokkurinn

Þessi þrír eru nokkurn veginn ósnortnir af spillingunni. Ég skal ekkert segja um það í bili hversu sannfærandi þessi framboð eru að öðru leyti.

Hinir flokkarnir eru allir partur af svindlinu og hruninu, vegna tengsla við fjármálaöflin og/eða ábyrgðar á stjórn landsins á meðan lögð voru drög að hruninu.

Lýðræðishreyfingin er enn ekki farin að mælast svo ég tel hana ekki með í bili.

Ykkar er valið. Í rauninni eru kostirnir bara þrír fyrir þá sem örugglega vilja ekki kjósa hrunið og styrkjaspillinguna.

Ég er einn af þeim mörgu sem get ekki hugsað mér að kjósa það sem ég hef kosið hingað til
Þó er staðan sú að ef allt gamla góðærisbloggið mitt er lesið er það meira og minna lofsöngur um þessi öfl.

Það er gerðist reyndar margt afskaplega gott hér á síðustu 18 árum. Síðustu 7 árin var haldið inn á rangar brautir en maður tók ekki eftir því fyrr en 2008.

Og núna verður að breyta til.

þriðjudagur, apríl 14, 2009

Seðlabankastjóraskiptin

Kannski ætti maður sem hefur ekki vit á efnahagsmálum ekki vera að tjá sig um þau.

En hver hefur vit á efnahagsmálum nú til dags?

Og hve margir tjá sig um þau?

Síðasta Seðlabankastjórn notaði lítilsháttar af gjaldeyrisforðanum í viðskiptum með krónuna og náði þannig að styrkja hana nokkuð stöðugt eftir að gjaldeyrishöftin tóku gildi. Hún var ekki að ganga á gjaldeyrisforðann að neinu marki.

Núverandi Seðlabankastjórn gerir ekki neitt, Seðlabankinn er passívur á markaðnum og krónan hrynur.

Hver var þá ávinningurinn af því að skipta um Seðlabankastjóra?

Opið fyrir umræðu.

sunnudagur, apríl 12, 2009

Getur Davíð kosið Sjálfstæðisflokkinn?

Jafnslæmt og ástandið er á Íslandi er þó versta tilhugsunin það sem hefði getað gerst. Útrásarsukkliðið var næstum því búið að gleypa OR. Fyrir því stóðu nokkrir framsóknarmenn og töluvert margir Sjálfstæðismenn. Össur var hrifinn en að öðru leyti átta ég mig ekki á aðkomu Samfylkingarmanna.

Þetta var stöðvað af öðrum stjórnmálamönnum, innan og utan Sjálfstæðisflokksins, og hafi þeir þökk fyrir.

Hinir meintu eflaust vel en voru þó næstum því búnir að gerast sekir um hryllileg landráð, ófyrirgefanlegan verknað.

Nú lítur allt út fyrir að tengsl séu á milli REI-málsins og risafjárstyrks til Sjálfstæðisflokksins.

Slíkt verður seint hægt að fyrirgefa. Stórum hluta, ef ekki meirihluta flokksmanna, hlýtur að ofbjóða þetta meira en nokkuð það sem pólitískir andstæðingar þeirra hafa nokkurn tíma gert í gegnum tíðina.